sunnudagur, 17. janúar 2010

Erum að tapa

Það er að renna upp fyrir mörgum hversu mikinn skaða stjórnmálamenn okkar hafa valdið íslensku þjóðinni, sakir þess að þeim tókst ekki að leiða Icesave umræðuna til lykta síðasta vor. Nú blasir við öllum hið mikla lýðskrum og hvernig það hefur leitt marga inn á rangar slóðir um hvað málið snúist í raun. Því hefur verið haldið fram af mönnum, sem vilja láta taka sig alvarlega, að við gætum sagt okkur alfarið frá málinu með því að fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem hæst hrópuðu og viðhöfðu stærstu svartholsspárnar hafa nú tekið U-beygju og vilja ekki kannast við málflutning sinn. Það eru reyndar þeir sem sem skópu það ástand á Íslandi sem leiddi yfir okkur í þetta ástand.

Ég veit að það er óvinsælt og snertir suma svo harkalega að mér hafa verið sendar líflátshótanir og fleira ógeð í nafnlausu formi, en ég ætla enn einu sinni að vitna til þeirrar umræðu og viðhorfa, sem koma fram í viðtölum við félaga mína niður í Evrópu. Svona enn einu sinni þá eru þetta ekki mínar skoðanir, heldur það sem maður verður var við í umræðunni annarsstaðar en hér heima.

Samhliða hinni öfgakenndu umræðu hefur álit á Íslandi minnkað gríðarlega á Norðurlöndum og í norður Evrópu. Það er beint framhald af því falli sem hófst þegar íslendingar fóru mikinn og glannalega í þessum löndum og gáfu öllum aðvörunarorðum langt nef og hæddust af þarlendum ráðamönnum.

Hin pólitíska umræða hér á landi hefur sett okkur í þá ömurlegu stöðu, að Ísland er að verða sýnigluggi fyrir öfgakennda hópa í Evrópu lengst til hægri og lengst til vinstri. Áberandi er hversu margir þeirra sem taka til varna fyrir Ísland koma úr þessum hópum. Það leiðir til þess að við töpum fylgismönnum úr hinum stóru miðjuhópum. Þó við heyrum í íslenskum fréttatímum um sífellt fleiri erlenda stuðningsmenn, má leiða að því haldbær rök að við erum samt að glata stuðningi meðal almennings í Evrópu.

Þessu til stuðnings spyr ég þig lesandi góður; Með hvaða fyrirvörum tekur þú það sem stendur t.d. í Staksteinum þessa dagana? Eða það sem einhver þekktur últra vinstri maður nýtir til þess að rökstyðja sitt mál? Ertu viss um að það sé einhverjum málstað til stuðnings að fá stuðning þaðan?

Niður í Evrópu eru áberandi öfgakenndir frjálshyggjumenn að nýta okkur sem front í baráttu við að ryðja regluverkum í burtu og auka enn frekar frjálshyggjuna. Og svo öfgakenndir vinstri menn sem setja Ísland sem front fyrir náttúruverndarstefnu og baráttu við ofríki stórvelda.

Við höfum glatað hratt samúð hinna stóru miðjuhópa í norður Evrópu. Í greinum og umræðu um Ísland ber mikið á eftirfarandi atriðum. Það var samið við Ísland, en þeir heimtuðu meira og þá var samið við þá aftur og þeir heimtuðu bara enn meira. Minnt er á að Íslendingar hafi alltaf verið sérhlífnir og vilji týna bestu bitana en ekki bera byrðarnar.

Minnt er á að íslendingar hafa verið áberandi í þeim hópum sem vilja nýta sér almenna bótakerfið og menntakerfið á norðurlöndum án þess að eiga þar nokkurn rétt. Þegar ég heyri þessi orð félaga minna rifjast upp útvarpsviðtal við þekkta íslenska útvarpskonu, sem sagði það hreint út að hún hefði farið til Danmerkur til þess að hvíla sig og fór afar ljótum orðum um danskt þjóðfélag, því hún komst ekki beint inn á danskar atvinnuleysisbætur og þurfti að fara að vinna til þess öðlast rétt. Þetta fannst henni ósvífni. Má ég lesandi góður minna á ummæli og viðhorf okkar hér heima gagnvart Pólverjum og öðrum "útlendingum", sem hafa verið staðnir af því að vilja vera hér á fullum bótum, eða fá þær sendar til Póllands.

Bent er á að Íslendingar séu hópur flúði frá Noregi til þess að komast hjá því að axla samfélagslegar byrðar og skrifuðu miklar bækur þar sem þeir hrósa sér fyrir þetta hátterni. Saga Íslands hefur alla tíð einkennst af sérhyggju þeirra og tillitsleysi gagnvart öðrum. Þeir hafa það sem af þessari öld gengið þvert á allar viðskipta- og bankareglur. Og nú vilja þeir enn eina ferðina enn fá sérmeðferð og krefjast þess að skattborgarar í öðrum ríkjum borgi. Þessir peninga koma ekki af himnum ofan einhver verði að greiða tap innistæðueigenda. Samt aka íslendingar um á dýrustu bílum í Evrópu, eru að byggja stærsta óperuhús á Norðurlöndum. Uppselt er í allar skíða- og golfferðir. Allir veitingastaðir fullir út úr dyrum.

Það eitt að engin er kominn bak við lás og slá er að skaða álit íslendinga verulega. Ætla íslendingar virkilega að halda áfram eins og ekkert hafi gerst? Staðreyndin er nefnilega sú að samúðarþráðurinn gagnvart okkur er styttri en við vildum kannski hafa hann, og þar er við að sakast háttalag íslendinga sjálfra. Margir norðurlandamenn enda umræður sínar um okkur á setningum eitthvað í þá veruna, að það eigi bara að láta íslendinga eiga sig. Þeir megi endilega fella þessi lög, en þeir kjósi sig ekki frá vandanum. Þeim fari fækkandi sem vilja eiga við þá viðskipti og þeir verða bara að sitja uppi með þá stöðu sem þeir komu sér sjálfir í og bjarga sér sjálfir.

Það er sama hvernig litið er á stöðuna við verðum að taka upp breytt vinnubrögð, annars sökkvum við enn dýpra.

20 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur, er þér hjartanlega sammála hér.

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur, Ég er þér algerlega sammála.

Hjálmtýr sagði...

Hér heima eru aðilar sem fagna, líkt og marki í handboltalandsleik, hverjum dálksentrimetra í erlendri pressu sem samsinnir því að Íslendingar séu svo fáir og smáir að þeir geta ekki hreinsað upp eftir veisluna miklu. Formaður Framsóknarflokksins hefur gjarnan stillt málinu upp sem kynningarvandamáli ræðst á ríkisstjórnina fyrir lélega kynningu á málstað Íslands.
En hver er málstaðurinn?
„Íslandsvinirnir“ sem sýna samúð hafa lítil áhrif samanborið við erlendu bankana og sparifjáreigendurna sem horfðu uppá flottræfislháttinn og grobbið sem fylgdi íslensku „útrásinni“. Frá þeim koma hin varanlegu áhrif á okkar hagsmuni. Þeir munu einnig velta fyrir sér þeirri staðreynd að innistæðueigendur á Íslandi voru tryggðir í krafti neyðarlaganna.

Nafnlaus sagði...

Þetta er rétt hjá þér Guðmundur

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði...

Sæll Guðmundur. Þú orðar þennan bitra sannleika mög vel og talar kjarngóða íslensku eins og vanalega.
Er þér hjartanlega sammála.

Haukur Nikulásson sagði...

Ég er ekki sammála og gremst hversu mikið þú ýtir undir hræðsluáróðurinn sem er af sama toga í Samfylkingunni og hjá Alþýðuflokknum þegar íslendingar stóðu í Þorskastríðunum. Á þeim tíma voru margir líka skíthræddir við Bretana.

Við eigum ekki borga það sem við fengum ekki lánað. Það er feykinóg að þurfa að borga það sem maður fékk þó lánað og hefur verið fært upp með sviknum forsendum.

Unknown sagði...

Vinir þínir virðast ekki skilja það óréttlæti sem fellst í því að Íslendingar taki á sig Icesave skuldbindingarnar. Þeir einblína bara á elítuna og efnameira fólk hér á landi sem lifði hátt í góðærinu og enn getur leyft sér ýmislegt. Sú leið hefur verið farinn að leysa heimskreppuna á forsendum fjármagneigenda á kostnað skuldara og skattgreiðenda. Icesave skuldbindingin kemur því verst niður á þeim sem síst skyldi. Þeim sem lifa á bótum, hafa lág laun, eru yfirskuldsettir, sjúkir og svo framvegis. Yfirstéttin þarf svo kannski eitthvað að minka við sig lúxusinn, en fátækum mun hins vegar fjölga umtalsvert á Íslandi. Þetta virðast vinir þínir á Norðurlöndunum ekki átta sig á. Það er einfaldlega ósanngjarnt á láta alþýðu Íslendinga axla þungar byrðar ofan í kreppuna hér til þessa eins að fjármagnseigendur erlendis missi ekki spón úr aski sínum. Alþýða Íslendinga ber ekki siðferðislega ábyrgð á Icesave, en elítan gerir það hinsvegar.

Nafnlaus sagði...

7. grein norræns samnings um aðgang að æðri menntun frá 1996

Danmark, Finland, Norge och Sverige betalar kalenderårsvis ersättning till studielandet för sina studerande i ett annat nordiskt land.

Island är undantaget denna bestämmelse.

Nordiska ministerrådet godkänner storleken av den ersättning vart och ett av de fyra länderna skall betala.

Guðmundur sagði...

Alltaf blindast sumir í flokksgröfunum og geta aldrei talað um neitt öðru vísi en svo að það séu flokkslínur sem ráði skoðunum manna t.d. í Icesave.

Og enn tala sumir það þannig að þó ég lýsi þeim skoðunum sem ég heyri annarsstaðar eða birti ummæli og leiðara elrendra blaða þá séu það einhverjar flokksskoðanir þar á ferð og ég sé bundin þeim.

Ég hef ekki starfað í neinum stjórnmálaflokki síðan ég gekk úr Sjálfstæðisflokknum þegar öfgakenndir hægri menn voru orðnir þar allsráðandi.

En umræðulist þessara einstaklinga lýsir í raun svo vel hvers vegna okkur miðar ekkert í þessari umræðu.

Ég hef pistil eftir pistil lýst því að mér finnist Icesave ákaflega ósanngjarnt. Ég hef pistil eftir pistil lýst því að skoðanir hægri manna um hvernig eigi að skipta arði ósanngjarnar gagnvart launamönnum.

Alltaf er fyrst tekið til hliðar fyrir fjármagnseigendur og þeir skipta því á milli sín og svo fer afgangur inn í greiða laun starfsmanna og oftast er svarið til okkar að því miður sé ekkert eftir og því ekki hægt að hækka laun.

Það eru sömu hægri skoðanir sem hafa ráðið þessum viðhorfum gagnvart uppgjörum í bönkunum þegar hægri menn tóku hér völd og við erum að súpa seiðið af.

Það eru alþjóðleg viðhorf sem við verðum að taka tillit til sama hvort þau séu sanngjörn eða ekki.

Við getum ekki einhliða sett inn í milliríkjasamninga það sem okkur finnst, nema þá að fá gagnaðilan til þess að samþykkja það.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur bregst ekki í Icesave-umræðunni. Ég held að spurningin sé hversu mörgum milljörðum við höfum tapað á því að ganga ekki strax frá Icesave, hvort það hleypur á tugmilljörðum eða meira er ekki gott að segja. Það mætti reikna út skynsamlega ágiskun í því, en það er samt tómt mál að tala um úr þessu. Við verðum víst að vinna okkur út úr þeirri sjálfheldu sem við erum búin að koma okkur í, lýðskrumarar hjálpa ekki.
GPM

Unknown sagði...

Af hverju taka norðurlöndin ekki sömu afstöðu gagnvart okkur og Færeyingar gera og veita okkur þau lán sem við þurfum og um hefur verið rætt? Er það þeirra hagur að veikja samningsstöðu okkar gagnvart Bretum og Hollendingum með því að neita að greiða út lánin þar til við höfum undirgengist þessa ósanngjarnu nauðasamninga sem Icesave samingurinn er? Væri þeir tilbúnir að taka á sig viðlíka skuldbindingar og það ofan í djúpa kreppu? Ég held þeir ættu heldur að styðja við bakið á núverandi stjórnvöldum sem eru að taka til eftir allt ruglið í stað þess að vera með stæla við okkur.

Guðmundur sagði...

Sæll Helgi Viðar, svo ég vitni ennfrekar í þekkt ummæli og viðhorf norðurlandabúa þá kannski sérstaklega Dana, þá er litið á eyjaþjóðfélögin með sömu augum. Það er Færeyjar, Ísland og Grænland.

Og það er þekkt að Eyjasamfélögin hafa svo svipuð viðhorf gagnvart svo á meginlandssamfélögunum svipuðum augum.

Nafnlaus sagði...

Þessi Icesave umræða er orðin svo fáránleg að engin orð fá því lýst.

Menn berja sér á brjóst og segja það vera princip mál að skattborgarar borgi ekki skuldir einkafyrirtækis. En það má náttúrulega gera undantekningu þegar einkafyrirtækið skuldar þeim sjálfum!

Ef maður ætlar að breyta einhverju, þá verður maður að byrja heima hjá sér. Það þýðir ekki fyrir Íslendinga að segja, hér ríkir sko algjör frjálshyggja og það eru engar ríkisábyrðir - nema náttúrulega fyrir Íslendinga.

Svo ætlast fólk til að fá samúð frá útlöndum. Eina samúðin sem fólk fær er frá anarkistum, neo-libertarians og fólki sem lítur á þetta sem baráttu við heimskapitalisman. T.d. var Birgitta (hreyfinguni) voðalega upp með sér hvað Tepoka-skrýllin í Bandaríkjunum tók undir með henni. Það er greinilega sama hvaðan gott kemur, meira að segja hrós frá fólki sem líkir heilbrigðisfrumvarpi Obama við fangabúðir Nasista!

Maður fær líka óbragð í munninn þegar fólk á Íslandi er farið að líkja Íslandi við þriðja heiminn. Þegar þjóðarframleiðsla á hvern mann er um $40.000 á Íslandi og Haítí er t.d. með $1.300 á mann.

Kær kveðja og með von um að íslendingar hætti þessu væli,
Haukur

Nafnlaus sagði...

Ef litið er til síðustu missera þá var ætlast til að stjórnvöld væru ekki að skipta sér af starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja, enda voru þau gefin vildarvinum þáverandi ráðamanna. Þegar í ljós kom að þetta ráðslag hefði leitt yfir þjóðina óbætanlegu tjóni, þá var það auðvitað Evrópusambandinu að kenna fyrir að hafa ekki skýrari reglur.

Þess er síðan krafist þaf þessum aðilum að skattborgarar landa inna ESB greiddu tjónið

Hjörtur Hjartarson sagði...

Icesave-samningarnir eru stórgallaðir. Nú er lag að bæta úr því. Það er skylda stjórnvalda.

Tal um að íslenskum almenningi beri siðferðileg skylda til þess að gangast undir þessa nauðung er blessunarlega í rénum:
http://dagskammtur.wordpress.com/2010/01/15/icesave-og-siðferði/

Nafnlaus sagði...

Sammála þessu Guðmundur, kannast vel við þessi viðhorf hjá Dönum
Tóta

Nafnlaus sagði...

Góður pistill, greinargóður að vanda

Nafnlaus sagði...

Góð grein, sem skilur hismið frá kjarnanum, þetta er óskiljanleg aðstaða sem upp er komin og ljóst að við erum að tapa gríðarlega miklum verðmætum dag hvern á þessu óskiljanlegu lýðskrumi sem hér viðgengst, og ég sem héltm.a. að ég væri sú eina sem skrifaði ekki undir hjá InDefence.
Kv,
Heiður

Nafnlaus sagði...

Fatta ekki hvernig menn ná þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin sé fullkomlega ráðalaus, eins og Egill er að halda fram. Þessi viðhorf hafa verið upp á borðinu frá því á árinu 2008 og sjálfstæðismönnum voru þau vel ljós, eins og koma m.a. fram í ræðum Bjarna Ben þegar hann kynnti hvað ríkisstjórn Geirs Haarde ætlaði að gera í málinu og taldi þá að ísleningar kæmust ekki hjá að gera. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur fylgt sömu stefna allt frá upphafi og gerir enn, en lýðskrumarinn Bjarni Ben ásamt Sigmundi Davíð "Oddssyni" hafa reynt allt til þess koma í veg fyrir að niðurstaða náist. Ögmundur hefur hjálpað þeim og er líklega búinn að skrifa sig út úr alvörupólitík og verði að stofna nýjan öfgaflokk til vinstri til þess að eiga von um að halda sér áfram á þingi.
Kv Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Stefán Benediktsson.
Bara eitt orð til Þjóðaratkvæðissinna. Hvernig halda þeir að færi ef Bretar og Hollendingar væru spurðir í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við eða þeir ættu að borga Icesave?