mánudagur, 25. janúar 2010

Frestun skýrslunnar

Sífellt fleiri halda því blákalt fram að nokkrir af fyrrverandi ráðherrum og þingmönnum, ásamt nokkrum af núverandi ráðherra og þingmanna, Seðlabankastjórn og Fjármálaeftirlits fara mjög illa út úr því sem fram komi í væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta eigi ekki bara við fyrrverandi og núverandi stjórnarflokka, heldur þá alla fjórflokkana.

Vaxandi fjöldi skýrir út hið gríðarlega, og í mörgu óskiljanlega, moldviðri sem þyrlað hafi verið upp í kringum Icesave, stafi einungis af því að þingmönnum hrjósi hugur við hvað muni gerast þegar skýrslan verði birt. Stefnulaus umræða, rakalausar upphrópanir, misvísandi ummæli sérvalinna og tilkallaðra lögmanna og „sérfræðinga“, allt beri það eitt með sér, stefnuleysi og ráðaleysi stjórnmálamanna. Allt með ráðum gert til þess að fæla fólk frá því að vera að fylgjast með fréttum.

Hvar í veröldinni væri sama ástand og hér? Af hverju eru ekki einhverjir komnir bak við lás og slá? Hvernig stendur á því að öll næstefstu stjórnunarlögin í FLgroup, Eimskip, Exista, bönkunum og stóru fyrirtækjunum eru að loka aðkomu að hverju málinu á fætur öðru. Forstjórarnir fara en hinir sitja áfram. Af hverju eru þessi leyndarhjúpur í kringum Landsbankann? Talið er víst að öll stóru pólitísku leyndarmálinn séu þar.

Enginn efast eitt augnablik að næstefstu stjórnunarlögin hafi ráðið för í þessum fyrirtækjum og þau hafi vitað hvernig farið var með uppskiptingar fyrirtækjanna og undanskot fjármuna? En okkur er gert að horfa upp á að þessir aðilar sitja þar með yfirstrikanapenna sína og þurrka út eigin afglöp og ætla sér að sitja áfram við í óbreytta stöðu.

Eigi þessi skýrsla að vera innlegg í rannsókn þess hvað gerðist í raun og veru, þá er mjög slæmt að það skuli dragast að henni sé skilað. Það er erfitt að skýra þennan frest öðruvísi en svo, að hann sé tilkominn vegna varnarviðbragða þeirra sem eru í skýrslunni.

Flestir töldu frestun þjóðaratkvæðagreiðslu til 6. mars tilkomna vegna þess að þá myndi gefast andrými frá birtingu skýrslunnar og nauðsynlegrar umræðu fyrir kosningar. Það er ekki gott að nú skuli stefna að koma henni út síðustu dagana fyrir atkvæðagreiðsluna. Verður atkvæðagreiðslunni þá frestað líka? Eða er þetta skipulagt með þeim hætti að deyfa eigi athygli almennings með því að fresta birtingu skýrslunnar að frestuðum kosningadegi? Allir frestir gera það að verkum að tortryggni vex og nauðsynleg uppbygging hefjist.

Ég er einn hinna fjölmörgu sem tel að uppgjör sé fram undan, setti fram þá kenningu fyrir tæpu ári. Stjórnarrof og kosningar. Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá. Ég trúi því líka að hinn stóri þögli meirihluti, sem hefur haft hægt um sig, á meðan tiltölulega litlir öfgahópar hafa tekið þátt í darraðadansi stjórnmálamanna og hinum stýrðu fjölmiðlum, muni rísa upp með meiri krafti en áður hefur sést hér á landi ef stjórnmálamenn víki ekki og sópað verði úr hornunum.

Þá munum við sjá marga ábyrga borgara standa fremsta í flokki á Austurvelli og stúta rúðum á Alþingi.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skorinorð skrif.

Alma Jenný Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil!
Er hjartanlega sammála þér.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki annað hægt en að vera þér sammála... Svona er þetta og svona er það sem bíður okkar.

Sævar.

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Guðmundur. Hinn þögli meirihluti mun brjótast fram. Þolinmæði hans er á þrotum.

Það hefur nefnilega ekkert gerst í um 18 mánuði, EKKERT !!

Verðum að gæta okkur samt á reiðinni. Hún er góð ef hún er nýtt á jákvæðan hátt. Neikvæði hluti hennar byggir ekki upp, hann rífur niður og sundrar.

Björn Kristinsson

Einar sagði...

Gott innlegg. kv. Einar

Nafnlaus sagði...

Þegar þessi frestunarfrétt kom fram í dag, vakti athygli mína rólyndismaður á vinnustað, sem sjaldan eða aldrei hefur tekið þátt í upphrópunum og stóryrðum, sem mönnum hefur verið tamt að grípa til undanfarna mánuði. Hann stóð hægt upp, ræskti sig og sagði;"Nú fer ég heim að brýna kutann minn".

Nafnlaus sagði...

Er hjartanlega sammála, og gott að fá svona skorinorð ummæli frá þér í þinni stöðu.

Jenný Stefanía Jensdóttir

Hjörtur Hjartarson sagði...

Mynda þarf utanþingsstjórn ÁÐUR en upp úr sýður:

http://dagskammtur.wordpress.com/2010/01/04/utanþingsstjorn-neyðarstjorn/#comment-33

Nafnlaus sagði...

Fín grein Guðmundur. Ástandið er að verða ömurlegt, heimilin bókstaflega brenna. Reiðin magnast, vonandi kemur e-h jákvætt fljótlega sem nær að slá á þessa reiði.

Unknown sagði...

Ég velti fyrir mér hvort lífeyrissjóðirnir okkar hafi verið nógu harðir að krefjast uppgjörs á þeim fyrirtækjum sem þeir hafa verið stórir eða stærstir kröfuhafa. Þar ættu almennir launþega/almenningur að eiga greiða innleið til að opna bækurnar og upplýsa hvað hefur eiginlega gengið á. Nefni Exista Fl-group o.sv.frv. það er eins og öllum ráðum sé beitt til að bækur þessara félaga séu ekki opnaðar. Maður skyldi halda að lífeyrissjóðirnir séu mikið afl til að krefjast uppgjörs á ósómanum. Mér finnst að verkalýðsfélöginn eigi að krefjast þess af sínum stjórnarmeðlimum í lífeyrissjóðunum að þeir beiti sér fyrir því að allt sé upp á borðum en ekki þessi leynd og pukur.

Guðmundur sagði...

Sæll Sævar
Ég veit ekki betur en það hafi verið gert - allavega þar sem ég þekki til
kv g