föstudagur, 29. janúar 2010

Heildarhagsmunir

Undanfarna daga hefur komið æ betur fram hversu mikinn skaða búið er að vinna gagnvart íslensku samfélagi með því að koma í veg fyrir að Icesave málið yrði klárað. Stjórnarandstaðan hefur einungis unnið einu markmiði, skapa glundroða og enn eru þeir að. Ávinningurinn þeirra er sá einn að það er búið að vekja óraunsæjar væntingar meðal þjóðarinnar.

Ábyrgð fjögurra stjórnarþingmanna á núverandi stöðu er ekki minni. Það blasir við að allur þessi glundroði hefur leitt til þess eins að skaða stöðu íslensks samfélags. Búið er að semja nokkrum sinnum og fyrir liggur að íslenskir ráðherrar undirgengust ábyrgð á haustdögum 2008. Þar með var dómstólaleið ófær. Fyrir liggur að litlu er hægt að breyta í samningum við Breta og Hollendinga.

Harla einkennilegt að heyra menn eins og t.d. forsetann og Ögmund fagna lágu gengi lágu gengi krónunnar og lækkandi kaupmætti launamanna. Fagna því að Ísland stefni í að verða sérstakt láglaunasvæði hér í Norður-Evrópu til langframa.

Kaupmáttur hefur í dag fallið um 25%, um 9 – 10 þús manns eru atvinnulaus og það mun vaxa áfram næstu mánuði, líklega fara upp í 15 þús. manns. Það blasir við þjóðinni nýr 120 milljarða vaxtareikningur. Allt málþófið hefur leitt til þess að allar björgunaraðgerðir heimilanna hafa frestast og glutrast niður í glundroðamálflutningnum. Takk fyrir mig og mína fjölskyldu, Bjarni Ben, Sigmundur Davíð og fylgisveinar.

Hagvöxtur er eina leiðin úr þeirri stöðu sem Ísland er í. Framangreind vinnubrögð stjórnarandstöðu, fjögurra stjórnarþingmanna og forsetans, hafa aukið fall Íslands töluvert umfram það sem nauðsynlegt var. Því þarf mun meira að koma til ef takast á að ná svipuðum lífskjörum aftur og við höfðum.

Ef það tækist að ná 2% árlegum hagvexti til ársins 2020, verða lífskjör orðin svipuð og þau voru 2008. En atvinnuleysi verður enn svipað og það er nú og velferðarkerfið verður umtalsvert laskað.

Ef hagvöxtur verður 3,5% fram til 2020 verða lífskjör svipuð og 2008, en atvinnuleysi verður um það bil helmingi minna en það er í dag, eða um 5%, sem er samt töluvert lakara en það var 2008 og verðferðarkerfið verður í sömu stöðu og það er í dag.

Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið bæta lífskjör og ná velferðakerfinu úr því falli sem það hefur verið undanfarin 2 ár.

Ef gengið hefði verið frá Icesave vorið 2009 þá hefðum við þurft 3,5% hagvöxt í stað 5% til þess að ná viðunandi stöðu árið 2020. Fjölgun starfa er eina leiðin til þess að auka hagvöxt. Það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum. Ef það á að vera hægt þarf atvinnulífinu að standa til boða nægt lánsfé á ásættanlegum kjörum.

Það samfélag sem viljum hafa er dýrt í rekstri. Það verður ekki gengið lengra í að auka skatta. En augljóslega verður að ná jöfnuði í opinberum rekstri. Fyrir lok þessa árs verður að minnka rekstrarkostnað hins opinbera ekki bara verulega, heldur umtalsvert. Það kallar á að skapa verði enn fleiri störf hjá fyrirtækjunum.

Við komumst ekki hjá því að skipta um gjaldmiðil og skapa stöðugt umhverfi og ná vöxtum umtalsvert niður. Ef það á að takast verðum við að auka traust á íslensku samfélagi, og ekki síður meðal okkur sjálfra. Stjórnmálamenn eru búnir að einangra sig. Upphrópunarmenn eru fastir gestir í fréttaþáttum með innistæðulausar töfralausnir. Lýðskrum er í hávegum haft og virðing fyrir reglum og lögum er á því plani, að það sem ekki er bannað er framkvæmt.

Nú virðist stjórnarandstaðan ætla að beita sér gegn nauðsynlegu uppgjöri í samfélaginu með því að fresta enn frekar birtingu Rannsóknaskýrslunnar og gert verði upp við þá sem unnið hafa til saka.

Stjórnmálamenn eru uppteknir af nærhugsunum og vörslu sérhagsmuna í hinum flokkspólitísku boxum sínum. Einungis sameiginlegt átak með heildarhagsmuni að leiðarljósi geta komið okkur af stað upp á við.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott kvöld,
Megi þín tæra sýn á nauðsyn heildarhagsmuna aldrei verða þeirri móðu að bráð, sem virðist umlykja sjáöldur fólks, þá er þeir inn í steinnökkvann við Austurvöll ganga. Líttu bara á ummæli verkalýðsforingjans Ögmundar.

Takk fyrir góðan pistil.
Jenný Stefanía Jensdóttir

Nafnlaus sagði...

Hef enga trú á að það lagist allt með því að skrifa uppá ósanngjarnan Icesave samning (skv. áliti meirihluta þjóðarinnar) og ef það hefði verið gert í fyrra væri hér allt á uppleið. Finnst þetta sama bullið og trúa því að gengið styrkist með því að sækja um aðild að ESB. Það sýndi sig að það var ekki rétt. Fleiri atvinnutækifæri fást ekki með því að samþykkja ósanngjarnan samning. Þau fást með kjarki og samstöðu og trú á framtíðina sem þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt okkur.

Nafnlaus sagði...

Hreint ekki sammála þér. Icesave á að fara fyrir dómstól. Þú talar um ef þetta og ef hitt þá verður hagvöxtur sami 2020 og var 2008!!!
Já - nei takk - við borgum ekki Icesave nema við verðum dæmd til þess og ég vildi sjá þau lög sem geta dæmt heila þjóð til að greiða einkaskuldir einhverra ræningja.
Annars hefur þessi ríkisstjórn mokað undir rassg... á fjármagnseigendum á kostnað skuldara. Nú er að myndast hópur fólks sem ætlar sér að segja nei við Icesave vegna þess að við teljum okkur ekki geta bætt því við þau mafíulán sem flest okkar bera í dag. Gjaldborgin er okkur of dýr.
Nei við Icesave og látum dæma í því - við getum alveg beðið með að fá lánaða fleiri milljarða svo hægt verði að afskrifa skuldir glæpamanna í einhver ár. Það verður þá kannski farið í vasa þeirra á meðan.

Nafnlaus sagði...

Ég þakka þér fyrir besta pistilinn og skýrasta sem ég hef lesið um Icesave. Það er skelfilegt hve þeir ungu skrumararnir og spunamenn þeirra (indefence) hafa bakað þjóðinni mikið tjón ofan í allt sem þeirra menn skildu eftir. Fyrir nú utan efnahagslega þá er þetta líkast því að trampað sé á því litla orðspori sem við hugsanlega eigum eftir. Að við skulum krefjast einhverra þriðja heims afskrifta á skuldum er móðgun við alþjóðasamfélagið.
Þeir sjá í sjónvarpinu hvernig við búum; álklædd stórhýsi út um allt, fjölda einbýlishúsa á stærð við félagsheimili, hátt hlutfall nýrra bíla á götunum og ekki neinar Lödur. Svo ætlum við að skríða og biðjast vægðar af því við erum svo fá og fátæk?

Nafnlaus sagði...

Verður ekki skýrara.
kv SA

Nafnlaus sagði...

Engu við þetta að bæta
Sverrir

Nafnlaus sagði...

Í einni athugasemd er einn hinna nafnlausu að berja hausnum við dómstólasteininn. Þar er búið væri að upplýsa þjóðina í eitt skipti fyrir öll að til þess að komast með þetta mál fyrir marktækan dómstól (Hag, EB eða EFTA) þyrftu báðir eða allir málsaðilar að vera sammála (í skriflegu samkomulagi) um að fela málið dómstóli.

Þessu hafa bæði Bretar og Hollendingar hafnað og reyndar EB líka.

Þá er bara eftir undirréttur á Íslandi !!! Hver verður ákærandi eða varnaraðili þar liggur ekki ljóst fyrir og ekki heldur með hvaða hætti málatilbúnaður fyrir íslenskum dómstóli gæti veri.

Þeir íslenskir lögmenn sem þvælst hafa fyrir í þessu máli öllu hafa komið sér hjá að hæða sjálfa sig með útskýringum þar um.
RB

Nafnlaus sagði...

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa ítrekað viðkennt þá staðreynd að alltaf hafi legið fyrir ábyrgð íslenska ríkisins á tryggingasjóðnum og þá Icesave. Það er ótrúlegt að enn í dag séu menn að ræða málið eins og það sé valkostur að í kosningu geti íslendingar hafnað því að greiða. Sá kostur er og hefur aldrei verið til staðar, nema hjá lýðskrumurum eins og sumum stjórnarandstöðuþingmönnum og Ögmundi
Kristinn

Nafnlaus sagði...

Og hver eru viðbrögð verkalýðsforystunnar við 25% skerðingu kaupmáttar? Er ekki ykkar hlutverk að standa vörð um hagsmuni launafólks? Ekki að standi í einhverjum hagfræði útreikningum með SA.

ekkinn

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur!

Takk fyrir fínan pistil. Hvernig er hægt að koma þessum staðreyndum inn í kollinn á fólki? Hvað þarf til? Við erum ekki að fara að kjósa um það hvort við eigum að borga eða ekki. Eða hvort þetta telst sanngjarnt eða ekki - eins og sést á skrifum tveggja nafnleysingja hér.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Guðmundur. Ég las í fyrradag, að mig minnir á Pressunni, langloku eftir Jón Magnússon, förufálka, um lífeyrissjóðina. Eiginlega þyrfti að koma fram svar frá manni eins og þér, sem veist allt um þau mál.