sunnudagur, 24. janúar 2010

Mæling spillingar

Í fyrri pistlum sérstaklega á árinu 2007 og eins 2008 benti ég alloft á hversu innistæðulitlar þær væru ítrekaðar yfirlýsingar þingmanna Sjálfstæðismanna um að hér á landi fyndist ekki spilling og þann málflutning studdu með tilvitnunum í erlenda könnun. Þrátt fyrir að fyrir liggi að hér á landi væru ekki til lög sem þessi könnun nýtti sem mælitæki.

T.d. eins og ég benti á 31. ág. 2008. og sagði m.a. :
Samkvæmt árlegri úttekt stofnunarinnar Transparency International þrífst hvergi minni spilling í heiminum en á Íslandi. Á skalanum 1 til 10, þar sem 10 merkir engin opinber spilling, mælist Ísland með 9,7. Niðurstaða stofnunarinnar byggir könnunum með spurningum um misnotkun á opinberu valdi í eigin þágu og mútuþægni opinberra starfsmanna.

Um er að ræða 16 spurningar og er Ísland aðeins í 6 spurningum. Allar spurningarnar utan einnar snúast um mútur. Ísland getur ekki annað en skorað hátt í svona könnun vegna þess að umræðan um spillingu hér snýst um fyrirgreiðslu stjórnmálamanna í formi pólitískra ráðninga, einkavinavæðingar, opinbers stuðnings til stjórnmálaflokka og kosningasmala sinna (sem þeir settu á launaskrá hins opinbera í vor) og svo sjálfra sín í formi eftirlauna.

Til þess að tryggja stöðu sína þá hafa íslenskir stjórnmálamenn gætt þess að embættismannakerfið verði ekki of sterkt og þeim vikið sem verða í vegi þeirra. Þeir sem kanna spillingu í löndum og bera þau svo saman hafa bent á að það sé ekki hægt að gera svona kannanir á Íslandi, þar sem stjórnmálamenn hafi gætt þess að fáar reglur séu til á Íslandi um störf stjórnmálamanna.

Afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga segir í raun allt, auk þess að þeir skuli hiklaust vitna í framangreinda könnun og halda því fram á grundvelli hennar að það sé engin spilling á Íslandi og engin ástæða til þess að gera neitt!!

Það hlýtur einnig að mörgum umhugsunarefni hvernig tilteknir fjölmiðlar birta fréttir um þessa könnun og meðhöndla niðurstöður hennar sem staðreyndir. sjá hér

Sé litið til ummæla þingmanna um spillingu má vitna til kenningar Altúngu að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er það vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Niðurlag pistilsins er góður endir á þarfri áminningu.
kv Sverrir

Nafnlaus sagði...

Góð ábending, það hefur jafnframt komið fram í rannsóknum að "nepotism" er það form spillingar sem er einna erfiðast að mæla.