föstudagur, 21. maí 2010

Áhugaleysi á kosningum

Það er sama hvar ég kem, allstaðar mætir manni algjört áhugaleysi á komandi kosningum. Það sem góður vinur minn sagði við mig í gærkvöldi endurspeglar mjög vel þau viðhorf sem eru áberandi; „Hvernig ætlast fólk til þess að við mætum á kjörstað og kjósum þetta fólk sem er með slóðann á eftir sér í óuppgerðum málum Fyrir liggur skýrsla sem allir biðu eftir, en flokksvélarnar ætla sér að athuga hvort þær komist ekki upp með að stinga henni undir stól og gera ekkert. Á meðan svo er mér um megn að hlusta á kosningaloforð. Ég tek ekki mark á því sem þetta fólk segir og mig langar ekkert á kjörstað.“

Já það er forvitnilegt að horfa upp á viðbrögð þeirra sem telja sig eiga að hafa völdin. Þóttafullur hroki þeirra birtist í því að aðrir séu bara plat og grín, sem hafi ekki vit á því sem skiptir máli og séu þar af leiðandi ekki marktækir. Þau "Alvörufólkið" búi yfir þekkingu sem öðrum sé hulin og hafi eiginlega voða lítið vit.

Sjálfstæðisflokkurinn startaði REI og öllu því ferli, en hrökklaðist frá völdum því Framsóknarflokkurinn sleit þegar Flokkurinn krafðist þess að REI yrði selt í einum bita til Hannesar Smárasonar og Jóni Ásgeiri. En Flokknum tókst með sóðalegasta útspili sem sést hefur í íslenskri pólitík að búa til nýjan meirihluta með Ólaf F. og borgaði fyrir það með borgarstjórastóli og 600 milljónum fyrir ónýt hús við Laugarveg. En Ólafi var sparkað skömmu síðar til þess að koma Hönnu Birnu í borgarstjórastólinn.

Þeim flokkum sem tókst að rústa fjárhag Ísland, gera Seðlabankann gjaldþrota og það mun taka þjóðina liðlega tvo áratugi að komast út úr því skuldafeni sem þeir sökktu þjóðinni í segjast ætla að standa fyrir stöðugleika í fjármálum borgarinnar!!

Þessum flokkum hefur tekist að margfalda skuldir Orkuveitunnar á einu kjörtímabili. Rekstur OR byggist ekki nema að hluta til á orkusölu og búið er að gera OR að vogunarsjóð spilandi á vexti og gengi krónunnar. OR hefur orkusölu sem hliðargrein og er haldið gangandi á lántökum. Þessi hópur á einnig upphaf þess óláns sem er að koma yfir þjóðina þegar auðlindir á Reykjanesi eru að komast undir erlenda aðila með nokkurra ára innlendur kúluláni.

Ef við rifjum aðeins upp REI-málið þá átti haustið 2007 átti að sameina tvö fyrirtæki, Reykjavík REI í eigu OR og Geysir Green Energy í eigu FL-Group, Atorku og Glitnis banka undir nafni REI. Allt í einu birtust tugir milljarða í eignum sem ekki voru sjáanlegar og á heimsíðunni vour birtar myndir af Bláa lóninu og orkuverum í eigu almennings. Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og einkavinir áhrifamanna áttu að fá hlut í fyrirtækinu í gegnum kaupréttarsamninga.

Meðal þeirra eigna sem til stóð að OR legði inn í hið sameinaða félag var hlutur þess í Hitaveitu Suðurnesja. Þarna birtist ákaflega vel það sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa unnið að með því að færa eignir almennings til útvalinna. Sala á hlut OR í sameinuðu REI til Glitnis hefur leitt til þess að HS með öllum sínum auðlindum er farið í hendur einkaaðila.

Íslenskt samfélag er svo djúpt sokkið í helgreipar fjórflokksins að ekki virðast vera nokkrar leiðir færar frá þeim gríðarlega vanda sem við okkur blasir. Fjórflokkurinn grípur alltaf fram fyrir vilja þjóðarinnar um að koma á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskránna. Hann beitir sýnum helgreipum til þess að tryggja þá stöðu sem honum hefur tekist að búa sér í samfélaginu.

Á sama tíma er doði að heltaka samfélagið vegna þeirrar ákvarðanafælni, nauðhyggju, ringulreiðar og ráðaleysi sem einkennt hefur pólitískt kjörna fulltrúa frá upphafi Hrunsins, er þörf á stórátaki í atvinnumálum, skilvirkar aðgerðir í greiðslu- og skuldavanda heimilanna, aukin virkni og þjónusta í vinnumarkaðsmálum, jöfnun lífeyrisréttinda og jöfnuð í afkomu ríkissjóðs.

Við blasir að fjöldi fyrirtækja stefnir í gjaldþrot, sífellt fleiri eru að missa vinnuna og stjórnmálamenn eru svo uppteknir af sjálfhverfum heldansi sínum að þeir sinna þessu í engu. Leysa hefði á Icesave deiluna fyrir ári, en hluti stjórnarþingmanna hafa tekið höndum saman við stjórnarandstöðuna í að koma í veg fyrir framgöngu þessa máls. Þessi hópur ber gríðarlega ábyrgð á því hvernig komið er á almennum vinnumarkaði. Bjálfaleg rök og útúrsnúningar einkenna allan þeirra málflutning.

Hrein orka mun líklega tvöfaldast í verði á næsta áratug, m.a. vegna útblásturskvóta. Paul Hawken var hér á vegum Bjarkar og þegar hún bað hann um ráð okkur til handa. Íslendingar væru þrátt fyrir allt ekki svo illa staddir, við hefðum allt sem til þyrfti til að takast á við hann: Orkuauðlindir, mannauð og tækniþekkingu og að líklega værum við ein best setta þjóð í heimi, orkulega séð og þar með efnahagslega séð, því nú væri að hefjast enn harðari barátta en áður um orkuna í heiminum.

"Af hverju skylduð þið þá grípa til örvæntingarfullra aðgerða eins og að selja orkuna til erlendra stórfyrirtækja og stóriðju?" spurði Hawken undrandi. Og hann vísaði til orða rauðu drottningarinnar sem svaraði Lísu í Undralandi þegar hún bað um ráð í örvæntingu sinni: Því hraðar sem þú hleypur og því hraðar sem þú kemst yfir því hraðar kemstu að engu.

4 ummæli:

Björgvin Valur sagði...

Það sem fer með mann er tregða stjórnmálaflokkanna við að gera upp fortíðina og taka til hjá sér. Maður er eiginlega orðinn landlaus í pólitík.

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála - takk fyrir góða grein
Hallfríður

Arney sagði...

Gleymdir að minnast á lóðamál Reykjavíkurborgar sem virðist vera vonlaus barátta Hönnu Birnu. Hún virðist níðast á lóðarhöfum.

www.lodamal.is ... allt um þetta þarna.

Ég er svo hneyksluð!

Nafnlaus sagði...

Frábær grein
Kv Björk