sunnudagur, 9. maí 2010

Einkennileg umræða

Hún er harla einkennileg umræðan þessa dagana um störf og ákvarðanir sérstaks saksóknara. Það er búið að vera ofarlega í umræðunni allt frá Hruni að það væri vilji þjóðarinnar að þeir sem höfðu haft í frammi sakhæft hátterni væru látnir bera ábyrgð.

Í umræðunni hefur verið áberandi að það muni ekki nást friður í þjóðarsálinni fyrr en þessi mál verði gerð upp. Það verði gert í alvöru, valdaklíkurnar komist ekki upp með eins við höfum vanist á undanförnum áratugum, að óþægilegum málum sé stungið undir stól og beitt þöggun. Flestir vörpuðu öndinni léttar þegar Skýrslan birtist, þar sem tekist var á heiðarlegan hátt við að greina það sem gerst hefði og hverjir hefðu verið þar aðalleikendur.

Nú koma fram einstaklingar sem er hægt að tengja við neikvæð atriði sem hafa verið í umræðunni, og fara mikinn við að saka aðra um refsigleði. Öll vitum við að fólk sem búið er missa heimili sín og er atvinnulaust er dómhart. Það er eðlilegt. En ég hef ekki séð annarsstaðar neitt sem stingur sérstaklega í augu.

Málið er í þeim farvegi sem við viljum, menn teknir til yfirheyrslu, ef eitthvað kemur fram sem talið er sakhæft fer málið lengra. Upphlaup þessara einstaklinga og fullyrðingar eru einkennilega ofsafengnar og reyndar umhugsunarverðar. Er verið að dreifa athyglinni eða hvað er í gangi?

Fjármálaráðherra bendir á að það sem haft sé eftir honum um málið séu ekki hans orð, heldur inngangur fréttamanns sem tók viðtal við hann. Þessi vinnubrögð ákveðinna fréttamanna þekki ég mjög vel. Þeir hafa samband þylja yfirmanni ekki spurningu, heldur fullyrðingu og maður svarar.

Síðan birtist fréttin í kvöldfréttum. Þar er inngangur fréttamanns oftar en ekki á þann að hann fer með fullyrðingu sína og klippa svo inn örstutt úr ummælum viðtalanda.

Fréttin litur þannig út að viðtalandi hafi sagt allt sem fram kemur í fréttinni. Ef maður hefur svo samband við fréttamann þá slettir hann bara í góm og segir, „Já Guðmundur ég veit það, en var þetta bara ekki svona“

Ég var einu sinni dæmdur fyrir meiðyrði í Héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti var ég sýknaður að mestu á þeim forsemdum að Héraðsdómara var bent á, að það sem hann dæmdi mig fyrir hefði ég aldrei sagt. Það hefðu verið orð fréttamannsins.

En eftir stóð dómur fyrir annað sem ég hafði heldur aldrei sagt. Það var tilvitnun úr fundargerð sem ég birti á heimsíðu Rafiðnaðarsambandsins, sem túlkur hafði skrifað og hafði verið staðfest af verkstjórum og trúnaðarmönnum á Kárahnjúkasvæðinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég heyrði þegar þessi umrædda spurning var borin fram. Þótt mér sé alls ekki neitt annt um SJS, þá er mér annt um sannleikann. Umræddur fréttamaður bar einmitt upp spurninguna:"...telurðu að þetta muni sefa reiði almennings". SJS var reyndar að svara mörgum spurningum í einu, og mér var allavega ekki ljóst hverjum fyrirspyrjenda hann var að svara. Þetta voru allavega ekki hans orð. Að einhverjum detti í hug að bera upp svona spurningu segir kannski meira um hugarfar þess, sem spurningarinnar spyr.

Lóa sagði...

Mikið er ég sammála þér Guðmundur....óskiljanleg umræða í gangi !