föstudagur, 7. maí 2010

Óvönduð vinnubrögð í lífeyrissjóðsmálum

Sífellt blasir betur við launamönnum á almennum vinnumarkaði það gríðarlega ójafnræði sem stjórnmálamenn hafa búið launamönnum á almennum markaði í lífeyrismálum. Á sama tíma og starfsmenn almenna vinnumarkaðarins hafa þurft að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna aukist, þrátt fyrir slælega ávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda.

Launamaður á almenna vinnumarkaðinum þarf að taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar rýrnun lífeyrisréttinda og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Að óbreyttu verður reikningurinn fyrir þessu verður sendur til skattgreiðenda. Halli b- deildar og a-deildar er á sjötta hundrað milljarða. Það þýðir að það þurfi að hækka skatta um 4 prósent til að standa undir þessu. Verði hin barnalega tillaga sumra þingmanna um að leggja sjóðinn niður og fjármagna hann sem gegnumstreymissjóð, mun vandinn verða einfaldlega ennþá stærri og kalla á enn meiri skattahækkanir.

Aðildarsamtök ASÍ sömdu við SA árið 2000 um aukin framlög til lífeyrisréttinda með það að markmiði að jafna réttindi á við opinbera starfsmenn. Deila um óréttláta misskiptingu landamanna hvað lífeyrisréttindi varðar hafði þá staðið yfir um árabil og viðhorf samtaka opinberra starfsmanna hafði jafnan verið ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘.

Með samkomulaginu við SA árið 2000 vildu félagsmenn ASÍ jafnframt koma á ákveðnum sveigjanleika í sínum réttindum þannig að þeir gætu flýtt starfslokum sínum án skerðinga á grunnréttindum – en ríkið hafði áður samið um lægri lífeyrisaldur fyrir þá ríkisstarfsmenn sem aðild áttu að tilteknum samtökum opinberra starfsmanna.

Þessi tilraun til jöfnunar réttinda tókst ekki, því strax í kjölfarið samdi ríkið við samtök opinberra starfsmanna um að bæta þessum réttindum ofan á þau réttindi sem fyrir voru, í stað þess að gefa færi á auknum sveigjanleika innan kerfisins. Því má segja að aðferðafræðin um ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘ hafi fallið um sjálft sig og eftir stendur það veigamikla verkefni að jafna lífeyrisrétt landsmanna. Nú hefur komið fram að á hinum miklu þenslutímum greiddu þáverandi ríkisstjórnir ekki iðgjöld til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, en samt stóðu þeir hinir sömu gleiðfættir í fjölmiðlum og sögðust vera með nánast skuldfrían ríkissjóð. Hann virðist vera óendanlegur sá blekkingarleikur sem hinir vanhæfu þingmenn hafa búið almenningi þessa lands.

Þetta ástand er algjörlega óásættanlegt og þessi sýndarveruleiki er komin að leiðarlokum. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist, á næstu árum munu stóru barnasprengjuárgangarnir skella á lífeyrissjóðunum og þá verður ríkissjóður að reiða fram þá hundruð milljarða sem inn í kerfið vantar.

Víki þingmenn sér enn einu sinni undan því að taka á þessum vanda nú, mun það einvörðungu leiða til þess að vandinn verður enn stærri. Vaxandi vilji er innan verkalýðshreyfingarinnar að í komandi kjarasamningum í haust verði þessi mál leidd til lykta og launamenn beiti öllu sínu afli til þess að þrýsta á stjórnvöld um viðunandi lausn.

7 ummæli:

Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Maggi W sagði...

Enn er hoggið í sama knérunn. Gagnrýnendur lífeyrissjóðs ríksstarfsmanna verða að muna tvennt.
a. Opinberir starfsmenn með eftirmannaregluna unnu alla ævi á ca 15% lægri launum vegna lífeyrissjóðsins.
b. Það er búið að loka sjóðnum með eftirmannaregluna.
Málflutningur má ekki líta út eins og allir opinberir séu enn á gamla kerfinu og að þeir hafi ekki borgað verulega fyrir þann pakka.

Inga sagði...

Má til með að senda nokkrar spurningar og athugasemdir. Vona að þær standist málefnakröfur:
Þú segir:
“Launamaður á almenna vinnumarkaðinum þarf að taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar rýrnun lífeyrisréttinda og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.”
og
“Á sama tíma og starfsmenn almenna vinnumarkaðarins hafa þurft að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna aukist, þrátt fyrir (?) slælega ávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.”
og (með tilvitnun í grein Gylfa Arnbj.):
“Áfallið vegna fjármálahrunsins virðist mun minna hjá þeim sjóðum, sem starfa á grundvelli kjarasamninga þar sem stjórnir eru kosnar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, en þessara svokölluðu ,,frjálsu‘‘ lífeyrissjóða þar sem stjórnir eru kosnar á ársfundum beint.”
…en ert væntanlega að meina almenna launþega vs. starfsmenn á vegum Ríkisstjórnarinnar og þingsins. Ég greiði í LSR og telst til opinberra starfsmanna, en sé ekki að mínum lífeyrissjóðsréttindum sé á neinn hátt betur borgið en þínum, nema síður sé (sbr. tölur úr grein Gylfa hér að neðan: Opinberir líf.sj. eru með -8.5% , en Alm. líf.sj. eru með -8.5% og hinir svokölluðu ,,Frjálsu líf.sj.‘‘ eru með -15,5%). Þar sem hluti minna árstekna er aflað með verktakavinnu fyrir ríkisstofnun (Sjúkratryggingar Íslands) falla lífeyrissjóðsiðgjöld af þeim greiðslum inn á einn af svokölluðu “frjálsu lífeyrissjóði”.
Mér finnst ég vera jafn lúbarin og allir aðrir hvað varðar skerðingar s.s.: skerðingu stöðugildis, yfirvinnubanns, samddrátt ökustyrkja, auk þeirra “almennu” högga sem þú nefndir.
Þú segir nefnilega líka:
Nú hefur komið fram að á hinum miklu þenslutímum greiddu þáverandi ríkisstjórnir ekki iðgjöld til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna
...er ég þá ekki í enn meiri hættu með skerðingu á lífeyrisréttindum?!

Þú segir svo:
Aðildarsamtök ASÍ sömdu við SA árið 2000 um aukin framlög til lífeyrisréttinda með það að markmiði að jafna réttindi á við opinbera starfsmenn.
…ég hef fulla samúð með aðildarmönnum ASÍ og hef oft velt fyrir mér hvort ekki vanti meira en svolítið upp á gagnsýni hagsmuna aðila í hinum ýmsu stjórnum og nefndum innan ASÍ. Er ekki í meiralagi óeðlilegt að þar sitji sérhagsmunafólk til borðs í stjórnum og nefndum s.s. úr hagsmunasamtökum atvinnurekenda – jafnvel stjórnvalda – og yfirmenn, nema sem fulltrúar í blönduðum hópi, sem samanstæði þó að mestu af völdum almennum launþegum??

Og að lokum, þegar þú segir:
“hinir vanhæfu þingmenn”
…en ertu þá að meina alla þingmenn eða ríkisstjórnina?

Sumarliði Einar Daðason sagði...

Það munu víst vera 420 milljarðar sem LSR þegar er skuldbundið að greiða.

EiríkurJ sagði...

Tímabær pistill um lífeyrismál en þú nefnir engar leiðir til jöfnunar. Það eru til leiðir sem jafna út a.m.k. hluta af þessu mun. Breyta mætti lögunum um lífeyrissjóði og lækka ávöxtunarkröfuna um 0,5-1,0 % og endurskilgreina réttindin í samræmi við það. Réttindi vegna greiddra iðgjalda (framtíðarréttindi) lækka eftir breytinguna, og öll reiknuð réttindi vegna fyrri tíma væru einnig lækkuð um sama hlutfall, jafnt í sjóðum með ábyrgð vinnuveitenda og almennu sjóðunum. Þeir sjóðir sem næðu betri ávöxtun en viðmiðið og/eða ættu eignir á móti meiri réttindum gætu greitt í samræmi við það.
Þetta væri almenn aðgerð sem kæmi öllu kerfinu á raunhæfari grunn, vaxtakrafan er eðlilegri og skuldir opinbera geirans minnkuðu talsvert.
Hlutfall greiðslna af launum í lífeyrissjóði er svo óháð þessu.

Guðmundur sagði...

Ég set fram mína skoðun, þar koma reyndar fram svör við öllum þeim spurningum sem koma fram.

Það blasir við hvaða afleiðingar þessi 700 - 800 mia skuld ríkissjóðs vegna lífeyrisjóðs opinberra starfsmenna mum hafa ef ekki verður tekið á þessu vandamáli

Friðrik sagði...

Greiðsla iðgjalda til sjóðanna hefur sem betur fer verið undanþegin skattgreiðslum, en þó er nokkuð langt tímabil sem greiddur var skattur af þessum iðgjöldum. Ég vill nefna þetta hér til að koma á framfæri þeim hugmyndum að skattleggja allar greiðslur til sjóðanna, hvað ætli upphæðin sé stór sem náðist að bjarga með þeim hætti sem nú er hafður á skattgreiðslum af lífeyrisgreiðslum út úr sjóðunum í stað þess að greiða af inngreiðslum?
Þjóðarbúið varð af miklum skatttekjum í þessu hruni þar sem réttindin eru lækkuð hjá hinum almenna launþega á meðan hinir opinberu halda sínum kjörum.
Hvort kemur betur út að skattleggja allar greiðslu strax eða eftir á? Ef það er gert strax næst að innheimta skatttekjur á raunvirði en ef það er gert eftir á fæst aukið verðmæti á réttindum og um leið verður ávinningurinn [Ávöxtunin] einnig skattlagður, er það réttlætismál eða á að vera sér flokkur á þessum greiðslum?