Steingrímur fjármálaráðherra sagði á fundi lífeyrissjóða að endurskoða ætti þá arðsemiskröfu sem gerð væri til lífeyrissjóða. „Á samfélagslegur ávinningur að fá meira vægi, á að horfa meira til langtíma sjónarmiða og heildarhagsmuna fremur en að leggja kalt mat á arðsemi fjárfestinga í augnablikinu, það mat er mannanna verk."
Hér má minna á kröfur um að lífeyrissjóðir komi að vegagerð, byggingu húsa, kaupa skuldabréfa hjá Orkuveitunni og Landsvirkjun og annarra verkefna. Í þessu felst gríðarleg þversögn.
Undanfarið hefur farið fram heiftarleg gagnrýni á stjórnendur fjárfestingardeilda lífeyrissjóðanna vegna þess að ávöxtun hefur ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í því reikniverki sjóðanna sem þingmenn hafa lögsett á Alþingi. Einnig voru sett lög um hvernig þær fjárfestingar séu. Hversu mikið megi fjárfesta erlendis og hvernig fjárfestingar eigi að vera innanlands.
Það liggur fyrir að það eru erlendu fjárfestingarnar sem eru að gefa lífeyrissjóðunum mikinn arð. Þar er áhætta mun dreifðari en í innlendum fjárfestingum. Fjárfestingarkostir innanlands fyrir hið gríðarlega mikla fjármagn sem safnast saman í lífeyrissjóðunum er takmarkað og oft hafa stjórnendur fjárfestingastýringa lífeyrissjóðanna. Takmarkað magn hefur verið á ríkistryggðum skuldabréfum og skuldabréfum sveitarfélaganna.
Ástæða er að minna á eftirminnileg og ómakleg ummæli stjórnenda OR og borgarstjóra um þá frekju lífeyrissjóðanna að krefjast ásættanlegrar ávöxtunar á lánum til OR. Það liggur fyrir að skuldsetningarhlutafall OR hefur hækkað gríðarlega á undanförnum 3 árum eða úr 89% í 545% og eiginfjárhlutfall komið niður í 14,4%.
Einnig má minna ummæla margra þ.á.m. þingmanna um frekju lífeyrissjóða að krefjast þess að fá það fjármang tilbaka sem þeir myndu hugsanlega setja í vegakerfið. Lífeyrissjóðirnir krefjast veggjalda var sagt á Alþingi. Það er ekki rétt lífeyrissjóðirnir vildu einfaldlega fá þá fjármuni sem þeir hugsanlega legðu fram tilbaka með a.m.k. 3.5% raunávöxtun.
Það liggur fyrir að þau töp sem lífeyrissjóðirnir eru að upplifa er vegna fjárfestinga í íslensku atvinnulífi. Þeir fjárfestu í öflugum fyrirtækjum, en stjórnendur þessara fyrirtækja komu síðan aftan að eigendum þessa sparifjár með því að tæma fyrirtækin innan frá, en kröfðust svo meiri lána með aðstoð stjórnmálamanna sem mærðu hið íslenska efnahagsundur í glysferðum á bökkum laxveiðiánna.
Hvað á fjármálaráðherra við með ummælum sínum? Það er eiginlega ekki hægt annað en að skilja þau á grundvelli þeirrar ályktunar að hann telji það víst að almennu lífeyrissjóðirnir búi í sama umhverfi og hans eigin sjóður og annarra útvalinna opinberra starfsmanna, að ávöxtun skipti engu máli, það sem upp á vantar er bara sótt í ríkissjóð. Eða kannski tillögur þingmanna framsóknarmanna að gera lífeyrisfé upptækt og breyta sjóðunum í gegnumstreymissjóði og gera ríkissjóð endanlega gjaldþrota á næstu 10 árum.
Er nú ekki kominn tími til þess að gera þær kröfur að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og fari að vinna vinnuna sína í alvöru og tengjast okkur hinum sem erum út í þjóðfélaginu.
Þeir kalla Besta flokkinn grínframboð og vilja að fólk kjósi í alvöru. Það eru stjórnmálamennirnir sem eru á Alþingi og í borgarstjórn sem eru plat drasl sem við erum búinn að fá nóg af.
3 ummæli:
Guðmundur, mér finnst dapurt að stjórnmálamenn líti enn í dag á lífeyrissjóði landsmanna sem sjálftökusjóðir sem hægt er að ganga í. Þeir virðast ekki enn átta sig á því að lífeyrissjóðirnir eru sparnaður landsmanna og því eiga sjóðirnir að skila eins hárri ávöxtun og öruggri ávöxtun og unnt er.
Þegar stjórnmálamenn fara að leggja krumlur sínar í sjóðina þá er ekkert annað en um þjóðnýtingu að ræða og ég fordæmi slíkt.
Þegar stjórnmálamenn leggja til að greiddur verði strax skattur af inngreiðslum í lífeyrissjóði þá er verið að hafa skatttekjur af kynslóðum framtíðarinnar en einnig vaxtatekjur og sjóðsfélögum. Ég fordæmi slíkt.
Stjórnvöld verða að líta í eigin barm og koma með betri hugmyndir sem eiga að koma hagkerfinu í gang.
Björn Kristinsson
Málflutningur Steingríms var ógeðfelldur. Honum finnst ekkert mál að fara ofan í vasa lífeyrisþega til óarðbærra framkvæmda og fjárfestinga. Arðsemi finnst honum ekki stóra málið í lífeyrissjóðum almennra launþega.
Það er þægilegt fyrir alþingismenn að slá slíku fram sem eru með allan sinn lífeyri verðtryggðan á ábyrgð skattgreiðenda.
Lífeyrissjóðir almennra launþega hafa fyrst og fremst skyldur við eigendur sína. Höfuðkrafan til þeirra er að láta með öllu af áhættufjárfestingum.
Nýlegt dæmi um vonda fjárfestingu nokkurra lífeyrissjóða á innlendum markaði er í skuldabréfaútboði Orkuveitu Reykjavíkur sem er með allt niður um sig í rekstri sínum. Slíku verður að linna.
Sverrir
Það er sannast sagna ekkert, alls ekkert, rökrænt samhengi í því að dásama krónuna á torgum fyrir óendanlega hæfileika hennar í að rýrna og heimta svo að lífeyrissjóðir brenni peningunum okkar á verðbólgubálinu.
Skrifa ummæli