föstudagur, 18. febrúar 2011

Heimasmíðað álit þjóðarinnar

Norski Seðlabankastjórinn okkar Sven Harald Öygard sagði þegar hann fór eftir að hafa starfað hér um nokkurt skeið, að það sé einstakt afrek hjá svona fámennri þjóð að ná að vera svona fullkomlega ósamhæf.

Það má segja að í hverju einasta máli er allt á öðrum endanum og þar standa þingmenn fremstir í að hrópa hvor að öðrum og þjóðinni allskonar fullyrðingar, flestar bara eitthvað í samræmi við líðandi stund. Stundum gildir sú skoðun að alls ekki megi deila við dómarann og niðurstaða Hæstaréttar verði ekki rædd neitt frekar og stundum er hið gagnstæða.

Fyrir liggja dómar sem segja að núverandi eignaréttur í kvótakerfinu sé brot á Stjórnarskrá, en þingmenn og ráðherrar gera ekkert með það. Sama gildir um dóma vegna skipulagsmála vegna virkjana, þar lýsa ráðherrar stuðning hver við annan í að gera ekkert með niðurstöðuna. En svo kom dómur vegna Stjórnlagaþings, ákaflega umdeildur svo ekki sé meira sagt, en þá er ekki hægt að deila við dómarann og ekki til umræðu að fara í neinu gegn honum.

Margir hafa sagt að það sé ekkert að marka kosningarnar sem fóru fram fyrir Stjórnlagaþing. Þar mættu á kjörstað 83 þús. manns sýndu sín skilríki og kusu undir eftirliti. Allir sem náðu kjöri eru með margfalt kjörfylgi flestra ef ekki allra alþingismanna, undirritaður fékk tæp 12. þús. atkvæði og var þó fjarri því að vera sá hæsti.

Þeir sem hafa verið áberandi á andstæðir Stjórnlagaþings og gerðu ekkert með kosninguna, sögðu hana ekki marktæka vegna þess að svo fáir hefðu kosið. Þeir hinir sömu eru í dag áberandi í því að vísa afgreiðslu Icesave til þjóðarinnar. Þeir leggja fram í dag um 40 þús. undirritanir, eins það er kallað, en fyrir liggur gat hver sem er skráð inn í tölvunni sinni hvern sem er.

Aðstandendur þessarar söfnunar vilja ekki láta kanna hvort það sé tryggt hvort þeir sem skráðir eru inn hafi gert það sjálfir, eða hvort það eru einhverjir aðrir sem gerðu það. Hér á kaffistofunni í morgun hafa verið nefnd nokkur dæmi, t.d. eitt þar sem ungur ákafur maður skráði inn alla sína fjölskyldu, foreldra, systkini, frændfólk og tengdafólk, án þess að nokkur vissi af því og vitað var að sumir eru algjörlega andsnúnir þessu.

Ég fer fram á forsetinn fái staðfestingu frá öllum sem eru á listanum að þeir hafi skrifað undir.

Persónuvernd hlýtur að grípa þarna inn í, það gengur ekki að hægt sé að handsmíða eitthvað álit sem er kynnst sem álit þjóðarinnar í hápunkti hugaræsings líðandi stundar.

Einnig blasir við að setja verður nákvæmar reglur um svona kannanir, þ.e.a.s. þeim sem ætlast er til að sé tekið mark á.

11 ummæli:

Hrafn Arnarson sagði...

Forsetinn þarf að meta áreiðanleika undirsöfnunarinnar. Það er nauðsynlegt en afar einkennilegt þar sem það er verk þeirra sem stóðu að henni. Forsetinn veit að 70% þingmanna samþykktu samninginn en naumur meirihluti þingmanna vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað bendir nú til þess að gjá sé á milli vilja þjóðarinnar og vilja þingsins? Ef forsetinn telur svo vera er niðurstaða hans gefin. Kannski er gott að kosið verði um málið. Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í málinu og einnig Framsókn. Samherjar munu því skipa sér í andstæðar fylkingar um umræðum um samninginn. hvernig sem fer er óvissan í málinu afar mikil.

Björn Ragnar Björnsson sagði...

Að kanna hverja einustu undirskrift er galið. Það er nóg að taka úrtak úr listanum 300 - 1000 manns og kanna gildi meintra undirskrifta þeirra. Ef mikið er um óumbeðnar skráningar þá kemur það fram við slíka könnun.

Hallur Heimisson sagði...

Sæll Guðmundur.
Algjörlega sammála þér í þessum pistli. Söfnun þessara kennitalna er vægast sagt mjög umdeilanleg. Verst er að hún er keyrð áfram af þjóðernissinnuðum ESB andstæðingum og keyrð undir fölsku flaggi.
Öllu í þessu máli er snúið á haus, afvegaleitt og skrumskælt.
Því miður hafa tilfinnigar borið skynsemina ofurliði í þessari söfnun.
Ég trúi því ekki að forsetinn taki mark á þessum tilbúningi.

Nafnlaus sagði...

Björn Ragnar Björnsson said...

Þú birtir ekki yfirlýsingu undir nafni einstaklings úti í bæ nema að hafa 100% vissu fyrir því að viðkomandi styðji yfirlýsinguna. Annað er hreinn og beinn glæpur

Nafnlaus sagði...

Eins og ávallt er þjóðin lömuð vegna andlegrar borgarastyrjaldar, mann langar að flýja land, þetta er svo lýjandi!

Nafnlaus sagði...

Þú gleymir því að hæstiréttur dæmdi söluna á hlut ríkisins í ÍAV ólöglega. Hvað gerðist svo?

Nafnlaus sagði...

Gunnar Jóhannsson. . .

Hvað sem segja má um þessa undirskriftasöfnun er alveg klárt að allt of stór hluti þjóðarinnar er ósáttur við að fá ekki að greiða um þetta atkvæði sitt.

Ég hefði haldið að það yrði sterkara fyrir ríkisstjórnina að láta samninginn fyrir þjóðina, því þá hefði hún mun sterkara umboð á eftir ef samningurinn er samþykktur. Það er jú eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálamannanna að sannfæra okkur um ágæti verka sinna.

Umræðan um samninginn hefur verið í upphrópunum sem er slæmt og gefur okkur enga mynd af stöðunni í raun. Það þarf að kynna samninginn miklu betur fyrir okkur og leyfa síðan þjóðinni að taka þessa ákvörðun, enda erum við að taka á okkur fordæmalausa skuldbindingu langt fram í tímann.

Nafnlaus sagði...

"Ein ástæða þess að forseti taldi rétt að beita neitunarvaldi í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins var að Fjölmiðlasambandið hafði gengist fyrir undirskriftasöfnun, þar sem skorað var á forseta að synja lögum staðfestingar. Þá skrifuðu undir 31.752 en að baki fjölmiðlasambandinu eru meðal annars Blaðamannafélag Íslands, Rafiðnaðarsambandið og fleiri. Sem sagt öflugir aðilar sem höfðu alla möguleika til að hafa áhrif á almenning."
http://www.amx.is/fuglahvisl/16747/

"Ég fullyrði að þetta sé öruggasta undirskriftasöfnun sem fram hefur farið á Íslandi. Við höfum getað sannreynt það á þessum lista að kennitala og nafn passi saman, að það sé raunveruleg persóna á bak við kennitöluna. Við höfum líka getað sannreynt það að sama manneskjan komi ekki tvisvar sinnum fyrir," segir Róbert.

Spurður að því hvort hægt sé að tryggja að ekki séu skráð nöfn og kennitölur einstaklinga sem ekki hafa óskað eftir að vera á listanum segir hann að gert sé ráð fyrir að fólk sem skráir sig sé heiðarlegt. "Þá yrðum við að gera ráð fyrir því að einhverjir einstaklingar hefðu setið tímunum saman og pikkað inn nöfn og kennitölur. Menn geta auðvitað gagnrýnt þessa undirskriftarsöfnun eins og þeir vilja. En ég stend við hana, ég held að hún sé algjörlega örugg og sú öruggasta sem framkvæmd hefur verið. Við gerum ráð fyrir því að forseti Íslands og almenningur allur telji Fjölmiðlasambandið ekki bófaflokk sem myndi falsa slíka söfnun."
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2004/05/27/personuvernd_hafa_borist_kvartanir_vegna_undirskrif/

Ef söfnunin þá var "örugg" í boði RSÍ árið 2004 því er sambærileg söfnun ekki "örugg" í dag að þínu mati, skýringar óskast

Kv
Meðlimur RSÍ

Nafnlaus sagði...

Afhverju skyldi það vera svona ólíklegt að safnast hafi yfir 40.000 undirskriftir fyrir því að ICESAVE III nauðarsamningurinn fari í þjóðaratkvæði. Nýjasta skoðanakönnunin með 12.000 mann úrtaki og mikilli svörun sýndi að 62,2% þjóðarinnar vilja að þjóðin fái að kjósa um þetta mál beinni kosningu. En þú berst alltaf eins og Don qui Qote. Þetta 62% hlutfall þjóðarinnar er svipað og þeirra sem vilja ekki að Ísland verði aðili að ESB apparatinu, sem þú berst þinni þrotlausu baráttu fyrir !

Nafnlaus sagði...

Auðvaitað kjósum við um málið. hvað óttist þið?

Nafnlaus sagði...

Óskaplega eru menn hræddir við þjóðaratkvæðargreiðslur
Hvernig væri að láta atkvæðagreiðsluna fara fram?? og þá er komin niðurstaða í málið