Ég les DV ekki reglulega, en stundum eru þar prýðilegar fréttaskýringar og greinilegt að lagt hefur verið í vinnu við fréttavinnslu. En þegar kemur að því sviði sem ég þekki vel til á, kjaramál, gerð kjarasamninga og starfsemi stéttarfélaga, sé ég að það er ekki fótur fyrir neinu sem er í viðkomandi frétt, hún er byggð á rætni og ógeðfelldum spuna.
Þegar kemur að því að fjalla um ASÍ er undantekningalítið ráðist að starfsfólk skrifstofunnar með einhverjum ásökunum og meintum ávirðingum. Ómerkilegasta frétt sem ég hef séð af mörgum í DV af þessu tagi er frétt í dag um fjallaferð Gylfa Arnbjörnssonar fyrir nokkrum vikum. Hann varð fyrir því óláni að missa bíl sinn niður um vök eins og kemur oft fyrir í svona ferðum. Um er að ræða gamlan Nissan Patrol sem hann hefur gert upp með aðstoð sonar síns og félaga úr samansafni úr partasölum. Varla í frásögur færandi. Bílnum var kippt upp og hann þurrkaður, ræstur og þeir feðgar fóru á honum á fjöll aftur næstu helgi.
Inn í fréttina er spunnið að formaður stéttarfélags hafi lagt til að Gylfi segði af sér á síðasta ársfundi, og því stillt upp eins og að Gylfi sitji í andstöðu félagsmanna aðildarfélaga ASÍ. Hið rétta er að Gylfi fékk afgerandi endurkosningu 75% þeirra 300 trúnaðarmanna launamanna víðsvegar af landinu sem voru á fundinum, DV gætir þess vendilega að minnast aldrei á þetta.
Viðkomandi formaður hefur reglulega haldið því fram að það viðhorf sem Gylfi fylgi í yfirstandandi kjarasamningum einkennist af því að hækka eigin laun, en standa í vegi fyrir hækkun launa hinna lægst launuðu. DV hefur ítrekað birt þessa lágkúru.
Ástæða er að geta þess að á framangreindum ársfundi var þessi kjarastefna samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum Vitanlega var Gylfa ásamt öðrum forystumönnum gert að fylgja þessari stefnu. Þannig er nefnilega unnið í félagslegu starfi, það er meirihlutinn sem ræður stefnunni. Einn þeirra fáu sem voru á móti var umræddur formaður.
Í skoðanakönnun sem var nýverið gerð af Félagsmáladeild Háskólans kom fram að 94% félagsmanna ASÍ fylgdu þeirri kjarastefnu sem samþykkt var á ársfundinum. Þessi stefna tryggir nefnilega hinum lægst launuðu og standa verst á vinnumarkaði einhverjar launahækkanir, andstætt þeirri stefnu sem viðkomandi formaður hefur fylgt.
Viðtekinn venja hefur verið í DV að bera á mig ásamt öðrum landssambandsformönnum að við séum sé í einhverjum koníaksklúbb sem er einangraður frá öllum félagsmönnum og við tökum með okkur heim milljónir í laun á mánuði, svo notuð séu orð DV. Ég er búinn að leiðrétta þetta nokkrum sinnum, en DV sinnir því engu. Hið rétta er þau launa sem DV heldur ítrekað fram að ég sé með eru tvöfalt hærri en ég hef, þar sem ég tók út séreignarsparnað á til þess að lagfæra skuldastöðu fjölskyldunnar. Laun mín eru eins og reyndar annarra starfsmanna tengd einum af kjarasamninga RSÍ.
Fréttamönnum DV finnst það frambærilegt að bera ætíð saman strípuð daglaun unglinga við heildarlaun háskólamenntaðs fólks sem vinnur langan vinnudag. Vitanlega veit ég að þessi pistill kallar á að mykjudreifarar verða ræstir, en ég er orðin því vanur.
Það sem mér finnst sárast er að Eyjan hefur ætíð birt samstundis athugasemdalaust hina rætnu umfjöllun DV um okkur starfsfólk stéttarfélaga og fjallar lítið um kjarastefnu og starfsemi stéttarfélaga.
4 ummæli:
Það þýðir ekkert að vera sár yfir því að Eyjan birti fréttir DV athugasemdalaust. Fréttakerfi Eyjunnar er skipulögð kranablaðamennska og stærstur hluti frétta hennar er FW:-fréttir.
Hvað eru menn annars að þvælast um á Patról þegar til er hellingur af Landkrúserum?
DV á að biðjast afsökunar og legga heila síðu undir. Þetta er ómerkileg og lágkúruleg blaðamennska.
DV fer yfirleitt með rangt mál þegar umfjöllunin snýst um eitthvað þar sem þú þekkir til. Hvers vegna heldurðu að það eigi ekki við um flest allt annað í blaðinu?
Ég þekki ekkert til í verkalýðshreyfingunni en hins vegar þekki ég mjög vel til á öðru sviði sem mikið er skrifað um. Þar er DV uppfullt af samskonar bulli og er skrifað um verkalýðshreyfinguna.
Er þá ekki eðlilegast að draga verulega í efa trúverðuleika blaðsins heilt yfir heldur en að draga þá ályktun að fréttaskýringar séu ágætar þar sem maður veit ekki betur?
Þetta gengisfellir annan fréttaflutning DV. En það er því miður orðin sú staða á prentmiðlum landsins, að blaðamönnum þykir ekkert athugavert við að fara með ósannindi.
Skrifa ummæli