laugardagur, 19. febrúar 2011

Lýðskrumarinn og fjölmiðlarnir

Ég hef komið að gerð kjarasamninga með einum eða öðrum hætti nánast allan minn starfsaldur. Fyrst sem áhugamaður, síðan sem trúnaðarmaður, þá í samninganefnd og svo sem forsvarsmaður landssambands. Í hverjum einustu kjarasamningum upplifir maður það, að upp rísa einstaklingar sem lofa miklum launahækkunum, þeir ná oftast athygli fjölmiðla og það er nákvæmlega það sem þessir einstaklingar þrífast á, lýðskruminu. Lýðskrumarinn veit að hann muni ekki geta staðið við innistæðulaus loforð sín og alltaf er fyrirséð hvernig hann muni bregðast við.

Lýðskrumarinn endar alltaf sína velþekktu vegferð með því að bera sakir á aðra félaga sína í verkalýðshreyfingunni, oftast blandað andstyggilegu persónulegi níði, þó svo hann viti, og fjölmiðlamenn ættu einnig að vita, við erum ekki að semja við önnur stéttarfélög um kaup og kjör. Kjarasamningar eru gerðir milli samtaka fyrirtækja og sveitarfélaga, ekki milli stéttarfélaga.

Hér spilar fjölmiðlamaðurinn stórt hlutverk undir stjórn lýðskrumarans og við líðum fyrir það hversu slök íslensk fjölmiðlun er í sumum tilfellum, þekkingarleysi fjölmiðlamanna. Lýðskrumaranum er hampað í viðtölum og spjallþáttum.

Það liggja fyrir samþykktir í öllum stéttarfélögum hvaða stefnu þau vilja fylgja. En lýðskrumarinn og fjölmiðlamenn virða þá stöðu vettugi og virðast ætlast til þess að forsvarsmenn stéttarfélaga gangi gegn samþykktum félagsmanna sinna.

Þó svo tillögur lýðskrumarans séu felldar með yfirgnæfandi fjölda atkvæða, heldur hann áfram og virðir vilja meirihlutans að vettugi og fær til þess góða aðstoð fjölmiðalanna. Það er sama hvað kemur upp ætíð ber hann sakir að félaga sína ekki viðsemjendur. Í fjölmiðla og spjallþáttameðferð er ætíð gengið út frá því það sé lýðskrumarinn hafi rétt fyrir sér, en samþykktir allra annarra stéttarfélaga virtar vettugi.

Ætíð er það svo aðþað liggur fyrir að þeir aðilar sem lýðskrumarinn þarf að ná samningum við munu aldrei fallast á kröfur hans. Vitanlega er það lýðskrumarinn sem er að tapa ekki aðrir, en hann hefur ekki burði til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og þau vonbrigði sem felast í þeim værntingum sem hann er búinn að vekja hjá því fólkisem minnst má sín. Þar liggur er mesti fantaskapurinn sem er afleiðing gjörða lýðskrumarans. Meiri maður er hann nú ekki.

Margir halda örugglega að ég sé að tala um einhvern ákveðin einstakling, svo er ekki ég er að tala um hvaða vinnubrögð sumir nota eru við gerð kjarasamninga og ég hef séð í gegnum tíðina.

14 ummæli:

EB sagði...

Sæll Guðmundur.

Er það lýðskrum að benda á að útflutningsfyrirtæki (stóriðja, fiskvinnslan) hafi bolmagn til launahækkana sem nemur amk. kaupmáttarskerðingu sl. 2-3 ára?

Sannur verkalýðsforingi berst fyrir hagsmunum félagsmanna sinna og ENGU öðru, ekki hagsmunum atvinnurekanda eða lífeyrissjóða.

Málflutningur þinn og skoðanabræðra þinna innnan miðstjórnar ASÍ undanfarið er til skammar, að ykkar mati á að viðhalda láglaunastefnu á tímum þegar útflutningsfyrirtæki klárlega hafa bolmagn til að leiðrétta kjör sinna starfsmanna.

Það er í ykkar huga í lagi að þið félagar þú, Gylfi, Vilhjálmur Egilsson ofl. hálaunamenn fáið tugi þúsunda í mánaðarlega launahækkun meðan fiskvinnslukonan og verkamaðurinn í stóriðjunni fá örfá þúsund í hækkun, fólkið sem er að skapa auðinn og fólkið sem greiðir launin ykkar!!!!

Ekki á ég von á að þú setjir þetta inná síðuna þína þar sem að þú hefur áður ritskoðað skrif mín og ekki hleypt þeim í gegn, já það er auðvelt að blogga og setja fram innihaldslausar yfirlýsingar þegar skoðanaskiptin eru ritskoðuð!

Kv.
EB.

Nafnlaus sagði...

Ég hef nú verið að velta því fyrir mér að undanförnu hvort það væri ekki heppilegast fyrir viðkomandi lýðskrumara að segja skilið við ASÍ, fyrst allt er svona ónýtt hjá þeim að hans mati.

Ég held að ASÍ stæði sterkara eftir og ég get ómögulega skilið þessa þrá viðkomndi lýðskrumara, að vilja vera í samtökum sem eru svona ómöguleg.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Góð greining á þessari manngerð. ekkert er eins ógeðfellt og vinnubrögð þeirra og engir eru eins litlir kallar og þeir. Fljótastir til þess að renna á arassinn þegar þeir þurfa að horfast í augu við vandamálin
Snorri

Nafnlaus sagði...

Það er rétt hjá EB að sannur verkalýðsforingi vinnur eftir samþykktum sínna félagsmanna eins og Guðmundur gerir, enda kæmist hann ekki upp með annað.

Eins og margoft hefur komið fram þá þiggur Guðmundur laun eftir kjarasamningum RSÍ og hefur sannanlega ekki fengið þá launahækkun sem hinn ósmekklegi EB dylgjar um.

Skil vel ef Guðmundur er ekki að hleypa svona ritsóða í gegn.
Kristinn

Nafnlaus sagði...

Frábær greining. Guðmundur er beittasti hnífurinn í skúffu verkalýðshreyfingarinnar og stendur sig frábærlega vel fyrir hönd okkar rafiðnaðarmanna.
Félagsmaður

Guðmundur sagði...

Að gefnu tilefni, vegna nokkurra haturspósta sem ekki eru birtanlegir, þá vill ég benda á að ég nefni ekki nokkurt nafn í þessum pistli. Ef menn velja að tengja þetta við einhvern ákveðin einstakling þá er það vitanlega þeirra mál
Bestu kveðjur Guðmundur

Nafnlaus sagði...

Betra væri að Þú nafngreindir þá sem þú kallar lýðskrumara.
Það er ábyrgðarlaust að ryðja úr sér stóryrðum án þess að skeyta um hvar sletturnar lenda.
Þótt þeir sem þú kallar lýðskrumara eigi ekki í kjaradeilu við önnur stéttafélög er það samstaða SA og ASÍ sem veldur því að þeir ná ekki fram kröfum sínum þótt enginn vafi sé á að útflutningsgreinarnar geti borið mun hærri launakostnað.
Ekki má gleyma því að þessar stéttir drógust afturúr í launakjörum á meðan þínir félagsmenn mökuðu krókinn í byggingabólunni.
kv. Trausti Þórðarson.

Ómar sagði...

Ég hlustaði líka á spjallþátt á rúv í morgun og hugsaði eitthvað svipað. Innihaldið í tunnunni sem sumir berja sem hæst er oft ekki efnismikið.

Nafnlaus sagði...

Gott hjá þér, orð í tíma töluð. Alveg ótrúlegt hvað fjölmiðlamenn falla oft fyrir lýðskruminu
Stefán

Guðmundur sagði...

Við í Rafiðnaðarsambandinu erum ákaflega þreytt á því að vera gert reglulega að sitja undir sökum um hluti sem við komum ekki nálægt.

Við setjum fram okkar kröfur og stöndum við þær, við berum ekki sakir á aðra ef þær nást ekki.

Ég skil ekki kröfuna um að ég þurfi að nafngreina einhvern þegar ég er að lýsa vinnubrögðum, sem tíðkast og eru vel þekkt meðal starfsmanna stéttarfélaganna. En okkur er svo gert að sitja undir einhverjum svívirðingum vegna vinnubragða þessa fólks.

Stéttarfélög semja ekki hvert við annað um launakjör. Við semjum fyrir okkar fólk við atvinnurekendur og erum ekkert að skipta okkur af störfum annarra.

Nafnlaus sagði...

Þessi umræða er harla einkennileg. Það liggja fyrir samþykktir í öllum stéttarfélögum hvaða kjarastefnu þau ætli að fylgja. Öll stéttarfélögin í Starfsgreinasambandinu samþykkja að fylgja einni stefnu, utan tveggja félaga sem kljúfa sig fram samstarfinu. Síðan standa formenn þessara tveggja félaga í fjölmiðlum og bera sakir á aðra um að það skorti samstöðu og aðrir séu að svíkja þá. Hvert eru menn að fara?
Ef þetta er ekki lýðskrum þá veit ekki hvað það er.
Skúli félagsm. í Rafís og stend með mínum formanni

Nafnlaus sagði...

Skil ekki hvað Akranesfélagið er að gera í ASÍ, það leikur alltaf sama leikinn, leggur fram tillögur sem eru kolfelldar en heldur samt áfram með sinn málflutning. Klífur alltaf sig frá samstöðu og er eitt á móti öllum. Slær um sig með allskonar óraunsæum fullyrðingum. Engar lausnir bara upphrópanir og klisjur. Þetta eru svo sjálfhverft fólk sem býr þarna og litlir karlar sem geta ekki tekið á vandamálum.
Félagsmaður í RAFÍS

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki hvernig félagsmenn verkalýðsfélagsins á Akranesi líða það hvernig forsvarsmenn félagsins úthúða starfsmönnum og formönnum annarra stéttarfélaga. Heimasíða félagsins er vettvangur ómerklegra aðdróttanna um starfsmenn stéttarfélaga sem félagið er í samstarfi við. Er mórallinn á akurnesi virkilega á svona lágu plani?
Kv. Stefán

Nafnlaus sagði...

Hér sjáið þið hringlandaháttinn í málflutningi manna:

„Verkalýðsfélag Akranes hvikar ekki frá þeirri stefnu að krefjast meiri launahækkana hjá fyrirtækjum í útflutningi, sem hafa hagnast á gengisfalli krónunnar, bæði í sjávarútvegi og stóriðju. Það er alveg ljóst að það þarf að sýna vissum greinum sem eiga undir högg að sækja skilning. Í mínum huga er alveg ljóst að þú sækir ekki háar kröfur á fyrirtæki sem eru með tvo vasa tóma. Nægir þar að nefna byggingariðnaðinn.“ Vilhjálmur Birgisson form VLFA Morgunbl. 11. feb. 2011


RÚV 18.09.2010 : Vill nýja þjóðarsáttarsamninga
Kjarasamningar þorra launafólks verða lausir í nóvember.
Verkalýðshreyfingin er þessa dagana að stilla saman strengi fyrir komandi kjarasamninga. Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags í Þingeyjarsýslum, vill að gerðir verði nýir þjóðarsáttarsamningar milli ríkisins, atvinnurekenda og launþega. Annað sé ekki fært við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu.
Kjarasamningar þorra launafólks verða lausir í nóvember. Aðalsteinn er eindregið þeirrar skoðunar að við þær erfiðu aðstæður sem séu í samfélaginu verði að gera nýja samninga í anda þjóðarsáttarinnar árið 1990.
„Ég tel það vænlegast til árangurs að stjórnvöld, atvinnurekendur, sveitarfélög og verkalýðshreyfingin myndi með sér samtök og geri þjóðarsáttarsamning. Samningurinn myndi byggja á því til dæmis að hækka kaupmátt launa og koma af stað framkvæmdum, við þurfum að taka á miklu atvinnuleysi í landinu. Einnig er orðin gríðarleg skattpíning á alþýðu landsins og ég tel að stjórnvöld beri þar mikla ábyrgð og verði að koma að breiðu samkomulagi.“
Aðalsteinn segist ekki vita hvort kollegar hans í verkalýðshreyfingunni séu honum sammála um þetta. Hann sjái þó enga aðra leið færa.