sunnudagur, 27. febrúar 2011

Viðspyrnan

Ef við ætlum að reisa Ísland upp úr rústunum, verður það ekki gert með skammtíma „þetta reddast leiðum“ með sveiflum á gengi íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn. Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn.

Um síðustu aldamót lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum. Stjórnmálamenn gleymdu sér aftur á móti í flóði erlends fjármagns sem streymdi til landsins vegna hárra vaxta hér á landi og misstu algjörlega fótanna. Við lentum inn í ferli sem gat ekki endað öðruvísi, nema tekið hefði verið í taumana upp úr 2005, en þá var frekar bætt í en hið gagnstæða.

Kostnaður fyrirtækja í viðskiptum við gjaldmiðlaskipti frá erlendum gjaldmiðli yfir í krónu og svo aftur tilbaka er mikill, í því sambandi hljótum við horfa til þess að við eigum langmest viðskipti við Evrusvæðið. Útflutningur er forsenda búsetu í landinu og áhrifamikill um gengi krónunnar. Náttúrulegar sveiflur í fiskveiðum ásamt sveiflum í verðlagi hafa verið leiðréttar með handafli stjórnvalda í gengi krónunnar og rekstrarkostnaður færður yfir á launamenn með gjaldfellingu launa þeirra. Aukning orkubúskapar og iðnframleiðslu hefur að nokkru unnið á þessum sveiflum og skapað aukna möguleika á stöðugleika.

Ná verður stöðugleika og lágri verðbólgu. Það er forsenda lágra vaxta og endanlegu afnámi verðtryggingar, eða hvaða nafni menn kjósa að kalla greiðsludreifingarform okurlána. Upptaka annars gjaldmiðils mun taka einhvern tíma. Það er dýrt að halda í krónuna og kostar mikla gjaldeyrisvarasjóði og mikinn vaxtakostnað. Krónan kallar fram um 3,5% hærri vexti en ef við værum aðilar að sameiginlegum gjaldmiðli Evrópuþjóða.

Reiknað er með að orkuverð tvöfaldist til ársins 2030 og tekjur Landsvirkjunar geti fimmfaldast á þessum tíma og orkufyrirtækin fari að greiða skatta til samfélagsins, sem samsvari kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins. Allar áætlanir gera ráð fyrir að orkusala muni fara til tæknifyrirtækja og það verði að skapa þeim samkeppnishægt umhverfi á eðlilegum lána- og hlutabréfamarkaði. Það verður ekki gert með krónunni og gjaldeyrishöftum.

Hér þarf að huga að auðlindagjöldum og að við lendum ekki í sama farveg og fór með kvótann, þar sem allur arður lendir í höndum fárra. Tryggja þarf að ráðandi hlutur í orkufyrirtækin séu í eigu almennings. Vatnsaflsvirkjanir eru gullnámur og við komumst ekki hjá því að nýta þær, ef við svona fámenn þjóð ætlum að geta staðið undir rekstri á því velferðasamfélagi sem við gerum öll kröfu til. Það er eina leiðin til þess að fyrirbyggja að við drögumst ekki enn meir aftur úr hinum Norðurlöndunum.

Ekki verður lengra gengið í að hækka skatta umfram það sem nú er, engin sátt verður um að draga enn meir úr velferðarkerfinu og láta styrki til þeirra sem minnst mega sín rýrna enn frekar. Það verður einungis gert með því að nýta betur þær auðlindir sem þjóðin á. Þar er að finna þá viðspyrnu sem leitað er eftir við að komast út úr doðanum til endureisnar íslensks atvinnulífs.

Engin ummæli: