föstudagur, 4. febrúar 2011

Land smákónganna

Ef litið er yfir sviðið á vinnumarkaði þá er það sem hræðir mig mest að flestir þeirra sem eru að flytja af landi brot í mínum starfsgeira eru velmenntaðir og flínkir tæknimenn með mörg framhaldsnámskeið í faginu. Það eru ekki atvinnulausir menn sem eru að fara, heldur rafiðnaðarmenn sem eru eftirsóttir allstaðar og fara beint í góð störf erlendis.

Þeir hafa verið að bíða eftir því að eitthvað færi að gerast hér, en hér ríkir stöðnun og virðist muni verða áfram. Stjórnmálamenn berjast gegn því að skipta um gjaldmiðil og tengjast betur ESB svæðinu, það eru landbúnaður og sjávarútvegur sem ráða landinu og þau vilja einangrun og engu má breyta. Þessir starfsgeirar eru ekki að bæta við nýjum störfum þeir hafa ef eitthvað er verið að fækka störfum einnig eru störf þar einhæf og illa borguð. Það þarf að fjölga störfum hér á landi um 20. þús á tveim árum ef hér á að skapast eðlilegt ástand.

Ef við skoðun starfsgeira rafiðnaðarmanna, þá hefur þróunin verið þannig að undanfarin 30 ár að engin fjölgun rafiðnaðarmanna hefur verið í orkugeiranum, búið að vera um 300 rafiðnaðarmenn í þeim geira síðan 1980, í landbúnaðar- og fiskvinnslu er sama kyrrstaða þar hafa einnig verið um 300 rafiðnaðarmenn og í byggingar- og verktakageiranum hafa verið um 500 – 800 rafvirkjar og það er í þessum geira sem allt atvinnuleysi rafvirkja er. Á sama tíma hefur rafiðnaðarmönnum fjölgað úr 2.000 í tæplega 6.000 öll fjölgunin hefur verið í tækni og þjónustustörfum.

Tæknifyrirtækin sem hafa verið að bjóða upp á mest spennandi störfin ásamt því að þar hefur öll fjölgum starfa verið, eru að flytja sig til ESB. Þau eru alfarið háð góðum viðskiptatengslum við ESB svæðið, góðum lánamarkaði og ekki síður hlutabréfamarkaði.Við rafiðnaðarmönnum blasir stöðnun í starfsframa hér heima og það vilja ekki ungir velmenntaðir menn horfa upp á, þeir vilja hafa möguleika til þess að viðhalda menntun og aðgang að tækifærum í vali á góðum störfum.

Við öllum blasir að það eru á þessum millitekjuhópum sem hækkandi skattar lenda harðast og aðgerðir sveitarfélaga í niðurskurði og tekjutengingum í þjónustugjöldum og öðru sem talið er nauðsynlegt öllum heimilum í dag sakir þess að báðir foreldrar vinna úti.

Þetta fólk horfir framan í enn meiri hækkun skatta og þjónustugjalda ásamt enn frekari niðurskurð í velferðarkerfinu. Það er þetta fólk sem á í mestum vandræðum með skuldirnar, vegna þess að það hefur verið að koma undir sig fótunum og það er þetta fólk sem gerir mestar kröfur um spennandi störf og gott og fjölskylduvænt umhverfi. Það stendur því til boða á hinum norðurlandanna, „Strax í dag“ eins og Stína Stuð sagði í Sýrlandi.

Ég fékk nýlega bréf frá einum félagsmanni, sem er einn af best menntuðu félagsmönnum Rafiðnaðarsambandsins og í topp starfi. Hann lýsir í þessu bréfi ágætlega því sem ég hef heyrt í samtölum mínum við félagsmenn, m.a. á fjölmennum fundum undanfarnar vikur.

Sæl öll á Rafiðnaðarsambandinu
Hef verið huxi vegna dóms hæstaréttar, sérstaklega í ljósi þess að ég hef verið að skoða endurútreikninga gengislána fyrir sjálfan mig og aðra. Allar forsendur í endurútreikningum virðast vera löglegar, og eru algerlega lánveitanda í hag. Þannig er málið að í öllum þeim pappírum sem ég hef komist yfir að gengislánin eru hagstæðari en nýju löglegu lánin, þótt krónan hafi veikst um meira en 50% frá lántökudegi!! Þetta eitt og sér segir manni að það er maðkur í mysunni. Einnig þykir mér undarlegt að reiknaðir séu dráttarvextir á reiknuð gjöld aftur í tímann sem lántaki átti ekki möguleika á að standa í skilum með á réttum tíma, enda voru gjöldin ekki til staðar þá. Nóg um það.

Ég rakst á greiningu gamals stærðfræðikennara míns í Háskólanum á rök(leysu)færslu Hæstaréttar fyrir Stjórnlagaþingsdómnum. Eftir þennan lestur og skoðun minni á gengislánamálunum get ég aðeins komist að einni niðurstöðu: Talað er um að glæpamenn beiti einbeittum brotavilja, ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur beiti einbeittum dómsvilja í málum sem tengjast klíkunni þeirra.

Maður fær á tilfinninguna að dómurinn hafi verið fyrirfram ákveðinn í báðum tilvikum, skáldað var í eyður röksemdafærslunnar eftir á. Maður hefur algerlega misst traust á enn einn stólpa lýðveldisins eftir þetta. Hvað eru þá margir stólpar eftir?

Fjölskyldan og fegurðin eru þeir máttarstólpar sem enn standa, en smám saman eru hinir föllnu stólpar að kaffæra þessar mikilvægustu stæður sem eiga að byggja okkar samfélagsgerð - eiga að vera grunnurinn.

Við höfum ekkert lært af þessu Hruni - enda verðmæti og verðmætamat ennþá miðað við þenslu, útblásnar krónur og bullandi neysluhyggju sem skapar ekkert nema græðgi, dónaskap og brotthvarf frá náttúrunni (veruleikanum) . Við slökum ekki á og íhugum okkar stöðu heldur, ef eitthvað er, er nú unnið á 2svar sinnum meiri hraða (fyrir brotabrot af þeim kaupmætti sem áður var) til að halda í sama takt og búið var að sveifla hér upp á síðasta áratug...

Hér hefur sama smákóngaveldið verið við lýði síðan landið var byggt - hér hefur aldrei verið "stokkað upp" í kerfinu því þeir sem hafa völdin og lyklana að kerfisbreytingunum starfa ekki eftir hugsjónum um bætt lýðræði - heldur ganga aðeins eiginhagsmunir fyrir!

Maður er alvarlega farinn að íhuga brottflutning, enda skilaboðin sem næsta kynslóð hefur fengið í veganestið hér (til að lifa af):

Trúðu á réttarríki og meðalhóf og eigin verðleika og vertu þannig troðinn undir og hæddur eða taktu þátt í að viðhalda ríkjandi spillingu og fóðraðu feitu maðkana - og þá gæti ykkur farnast hér vel.

Frekja, dónaskapur og stöðug græðgi hefur aldrei verið jafnvel afhjúpuð hér eins og sl. árin eftir hrun

Kv XX

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær greining. sérstaklega þetta með stöðugleikann og hvernig smákongarnir í LÍÚ eru að keyra allt í kaf hér á landi.

Ég veit að pistlar þínir fara mikið í taugarnar á þessum kóngum.

Þeir vilja gera sín fyritæki upp í Evru og eiga stórfyrirtæki í Þýskalandi og víðar innan ESB.
En pína svo íslendinga á lágum launum vegna þess að við búum við gjaldmiðil sem þeir stýra.

Öll tæknifyrirtækin eru að flytja vegna þessa, eins og t.d. Össur sem er nýfarinn og önnurs sem segja að háir vextir sem eru afleiðing krónunnar, gjaldeyrishöft og ónýtur hlutbréfamarkaður vegna krónunnar sé að keyra hér allt í kaf.

Frábærir pistlar þínir um krónuna og þeirri helstefnu sem smákóngarnir í landbúnðai og útgerð reka hér á landi.

Nafnlaus sagði...

Frábærar greinar hjá þér, sérstaklega um krónuna, sem allt er að keyra í kaf.

Nú eru að hefjast lokaorusturnar um Ísland.

Annars vegar í kjarasamningum og hvort hægt verði að stefna á evru við samþykkt ESB samninga, eða a.m.k. Erm2 og sleppa öllum tilraunum með krónuna þangað til, eins og að aflétta gjaldeyrishöftum, með gengisfalli, verðbólgu og hækkun skulda.

Hins vegar eru framundan orustur í stjórnmálum, um IcSafe o.fl. þar sem rök og hagur þjóðarinnar skipta engu máli hjá sumum.

Ef Icesafe samningarnir verða ekki samþykktir þá verða lánamarkaðir lokaðir, og hugsanleg gjaldþrot framundan hjá stórum fyrirtækjum sem ekki geta fjármagnað sig - hvað þá komið í gang stórum verkefnum. Málaferli fyrir dómstólum gætu kosta miklu hærri fjárhæðir. Allt þetta myndi auka líkur á þroti þjóðar.

Fyrir andstæðinga Icesafe, skipta svona rök engu máli, þar skipta pólitísk stírð öllu, en hagur þjóðarinnar skiptir engu.

Hefur eitthvað breyst á Íslandi???

Það mun velta á kjark þeirra sem nota málefni og rök, og setja hag þjóðarinnar í forgang.

Smá vonarglæta er að sjást á þeim markaði.

Nafnlaus sagði...

Ég el mín börn upp í því að flýja ísland, ég safna í sjóð handa þeim svo þau komist í nám erlendis.

Hér er ekkert að hafa, þegar börnin mín verða farin þá hætti ég að borga af mínum lánum og fer á eftir þeim.


mbk.

Nafnlaus sagði...

Þetta er eins og tala út úr mínum munni. Ég er tölvunarfræðingur að mennt og þetta vandamál er orðið svo alvarlegt í minni grein að flestir sem ég þekki í þeim bransa eru annað hvort fluttir úr landi eða á leiðinni úr landi nema þeir sem voru tilbúnir að taka á sig 30-40% launaskerðingu. Vandamálið er samt ekki skortur á störfum heldur hvernig er ráðið í störfin.

Ég er ekki með ýkja mikla starfsreynslu ca. 7 ár og hef átt og rekið eigið fyrirtæki. Ég hins vegar stend frammi fyrir því að vera ekki ráðinn í nein störf sem ég sæki um. Fyrirtæki á Íslandi er nefnilega farin að leika þann sparnaðarleik að gera lítið úr gráðum. Ég er búinn að sækja um ótal störf þar sem ég hef reynsluna sem auglýst er eftir en kemst svo að því að maður með miklu minni reynslu en ég (uppfyllir ekki einu sinni kröfurnar sem var auglýst eftir), oftast með 1-2 ára starfsreynslu, er ráðinn. Eingöngu vegna þess að hann er tilbúinn að vinna sömu vinnuna og ég fyrir 30-40% lægri laun (eitthvað sem myndi ekki duga til að halda uppi þeirri 4 manna fjölskylduna sem ég þarf að sjá fyrir).

Annar leikur sem fyrirtækin leika er þannig að ráðinn er inn forritari án formlegrar menntunnar (ekki tölvunarfræðingur) hann fenginn til að læra allt sem hann getur af reynslumeiri aðila innan fyrirtækisins svo þegar hann telst "skólaður" þá er þessum reynslumeiri sagt upp (ég lenti í þessu sjálfur). Þetta veldur svakalegu álagi í starfi svo ekki sé meira sagt.

Þetta land ber enga virðingu fyrir háskólamenntun og reynslu. Ofan á allt þetta rugl leggjast svo stöðugt hærri skattaálögur, hækkandi lánagreiðslur (sökum verðbólgu og því að alltaf sé reiknað bankanum í hag), hærra matvöruverð og nú síðast umtalsverð hækkun á bensíni. Nei, ég er búinn að fá nóg! Ég yfirgef landið um leið og ég get og ætla mér ekki að koma til baka fyrr en smákóngarnir eru farnir frá völdum og búið að koma landinu á sama plan og önnur evrópulönd hvort sem það er með aðild að ESB eða ekki.