fimmtudagur, 17. febrúar 2011

Samstaða stéttarfélaganna

Öll aðildarfélög ASÍ, BSRB, KÍ og BHM, utan tveggja tiltölulega lítilla stéttarfélaga í Starfsgreinasambandinu hafa samþykkt að kanna til hlítar hvort hin svokallaða kaupmáttarleið sé fær. Rjúfa verði þá kyrrstöðu sem hefur ríkt hér í efnahagslífinu. Það verði ekki gert nema með því að tryggja stöðugleika til einhvers tíma og fá fyrirtæki og fólk til þess að fjárfesta. Auka atvinnu og útflutning. Einungis ein leið sé fær úr þessum vanda, þjóðin vinni sig út úr vandanum.

Atvinnuleysi hefur verið mikið eftir Hrun, eða í grenndinni við 10%, þar til viðbótar hafa um 5.000 manns horfið að af vinnumarkaði, flutt sig erlendis eða farið til náms. Landsframleiðslan hefur dregist saman. Þetta gerðist ekki í nágrannalöndum okkar.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna minnkað og einkaneyslan dregist saman um fjórðung af þeim sökum. Haustið 2008 hvarf á einni nóttu sá kaupmáttarauki sem verkafólk hafði áunnið sér með kjarabaráttu næstliðinna 5 ára, því til viðbótar tóku skuldir heimilanna stökkbreytingu. Þetta gerðist ekki í nágrannalöndum okkar.

Stjórnvöld hafa reynt að verja velferðarkerfið og eina leiðin að þeirra mati hefur verið að auka skatta, sem leiðir til enn meiri samdráttar. Við erum í vítahring, spíral niður á við. Ísland er að dragast aftur úr á flestum sviðum sé litið til nágrannaþjóða okkar. Ungt velmenntað fólk er flytja héðan. Það er í góðir vinnu hér, en er með eftirsótta menntun, en kýs frekar að búa í því umhverfi sem til boða stendur á hinum Norðurlandanna.

Öll stéttarfélögin hafa fundað margsinnis um þá tvo valkosti sem í boði eru, skammtímasamning, eða langtímasamninga. Skammtímasamningar kalla á ákaflega mismunandi samninga áframhaldandi óvissu, óbreyttri stöðu, líkum á hækkandi verðbólgu og vöxtum. Áframhaldi niðursveiflunnar og enn meiri kaupmáttarrýrnun. Þeir hópar sem eru í bestu stöðunni gætu hugsanlega náð til sín launahækkunum, á meðan stóru hóparnir sem eru í slakri stöðu á vinnumarkaði og búa við mesta atvinnuleysið, næðu að öllum líkindum ekki kjarabótum. Tvö stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins hafa klofið sig frá hinum og valið þessa leið.

Hin stéttarfélögin með um 95% félagsmanna ASÍ hafa ásamt BSRB, KÍ og BHM valið að snúa bökum saman og geri tilraun til þess að ná langtímasamning. Langtímakjarasamningur verður að vera verðtryggður með einhverjum hætti, (oft kallað rauð strik á samningamáli). Það er ekki framkvæmanlegt nema með þríhliða samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðs, vegna hins óstöðuga gjaldmiðils.

Öll stéttarfélögin utan tveggja eru þessa dagana að láta á það reyna til hlítar hvort þessi leið sé fær. Ég er t.d. formaður yfir sambandi þar sem eru 10 af aðildarfélögum ASÍ og þar eru klárar samþykktir hvað ég eigi að gera. En sé litið til þeirra ummæla sem eru viðhöfð í fjölmiðlum er í raun þess krafist þess að ég gangi gegn þessum samþykktum. Ég er kosinn í mínum samtökum til þess að fara með okkar samþykktir í forystu ASÍ.

En í fjölmiðlum er því blákalt haldið fram að það séu forystumenn hinna tveggja litlu félaga sem vinni fyrir félagsmenn mína, en ekki ég. Ég sé í einhverjum Koníaksklúbb einangruðum frá veröldinni. Ekkert er fjarri sanni, á undanförnum vikum hef ég haldið fundi á Akranesi, Sauðárkrók, Akureyri, Egilsstöðum, Selfoss, Reykjanesbæ og Reykjavík. Allstaðar fullt úr úr dyrum og liðlega 500 félagsmenn hafa mætt.

Það er ekki starfsfólk ASÍ og forseti sambandsins, sem taka ákvörðun um að fara þessa leið svo forsetinn fái sérstaka launahækkun, eins og haldið er fram í fjölmiðlum. Það er reyndar mesta lágkúra sem sést hefur í umfjöllun um kjaramál fyrr og síðar. Samningsrétturinn liggur ekki hjá ASÍ, hann er hjá hverju stéttarfélagi. Það voru félagsfundir í hinum 60 aðildarfélögum ASÍ með stjórnum og trúnaðarráðum sem ákváðu að fylgja þessari leið, en tvo stéttarfélög berjast gegn því.

Vitanlega er hverju stéttarfélagi heimilt að ákvarða hvaða kjarastefnu það fylgi, en það er aftur á móti einkennilegt ef forsvarsmenn þeirra telji sig vinna að bættum kjörum með því að mæta í fjölmiðla og úthúða öllum sem ekki eru sammála þeim. Persónulegt níð og skítkast hækkar ekki laun láglaunafólks.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein,

Nú er komið að ögurstundu, þar sem velja þarf á milli fortíðarlausna með skammtíma bólum og hækkunum, verðbólgu og hækkun lána og þar með stórlega skertum kaupmætti þar sem lán hækka margfalt miðaða við laun með ónýtan gjaldmiðil,,,

eða

upphaf af launsum og miklu meiri kaupmætti til framtíðar sem einungis verður gert með framtíðarlausnum, s.s. 3ja ára samningum, sem taka mið af hækkun gengis að jafnvægisgegni (20 ára raungengismeðaltali) og tryggi þar með aukinn kaupmátt.

Þetta er afar mikilvægt þar sem gegnið nú er 25% of lágt skráð og er að valda gríðarlegum skaða á efnahgsreikningi heimila og fyrirtækja, þar sem skuldir eru og verða allt of háar og skórskaða því eigið fé og uppbyggingu í fjölda ára sbr. OR. Samhliða því verði stefnan sett á upptöku evru ef samningar við ESB verða samþykktir.

Þar sem það er stefna Alþingis/stjórnvalda/Íslands er að semja um aðild að ESB, verða aðilar kjarasamninga að gera kröfur um stærsta mál slíkra samninga, sem er aðild að evrunni strax við aðild!!!.

Slíkt myndi 1.auka kaupmátt, 2. minnka skuldir, auðvelda og auka auka aðgengi að erlendum lánamörkuðum, 3. efla framkvæmdir, 4. efla atvinnu, 5. minnka vaxtakostnað, 6 minnka hættu á gjaldþrotum margra fyrirtækja. 7, auka traust á Íslandi o.fl. o.fl.
Slíkt er stærsta hagsmunamál Íslands, launþega sem atvinnulífsins.

Þá þyrfti heldur ekki að gera nýjar tilraunir með krónuna, sem fram að þessu hafa endað með skelfingu og munu gera, verði framhald þar á.

Þetta er sú ögurstund sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Nú kemur í ljós hvort Ísland hefur eitthvað lært eða ekkert, hvort framundan eru nýjar hörmungar af mannavöldum eða nýir tímar.
Á slíkum tímum þarf fólk með framsýni, áræðni og kjark.

Er slíkt fólkt til þanniig að búast megi við árangri á þessu sviði ??? Veldur hver á heldur.

Tækifærið er núna.

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Lítil umræða hefur átt sér stað um hvað sé rétt gengi krónunnar.

Það er afar slæmt þar sem rétt gengi gjaldmiðla er hornsteinn efnahagslífs í viðkomandi löndum, sérstaklega löndum eins og Íslandi, sem er mikið skuldsett í erl. gjaldmiðlum og er með veðtrygingu til viðbótar.

Gengi krónunar hrundi langt umfram allt eðlilegt jafnvægi 2008 og er, enn 20-30% of lágt skráð. Þessi allt of lága staða er helsta ástæða kaupmáttarrýrnunar á umliðnum mánuðum sem og hlesta ástæða þeirra skuldakreppu sem ríkir á Íslandi, sem m.a. kemur fram í allt of miklum hækkunum skulda einstaklinga og fyrirtækja, og er ígildi kerfisbundinnar eignaupptöku, þökk sé krónunni.

En hvað er þá rétt gengi, eins og bent hefur verið á af ýmsum, er langtíam raungengi einn helsti mælikvarðinn á það hvort nafngengi gjaldmiðla er of hátt eða lágt.

Samkvæmt því er gengi krónunnar 20 - 30% of lágt. Þetta er afar mikilvægt að lagfæra sem fyrst, því annars er mikil hætta á þvi að Ísland lokist inn í gengisskráningu sem gerir landið að láglaunalandi til langrar framtíðar samhliða eignaupptöku vegna of hárra skulda, sem enn er hægt að leiðrétta.

Verði gegnið ekki lagfært, mun það stuðla að enn frekari landflótta en orðið er (þar sem allt of lágt gengi gerir laun á Íslandi allt of lág í samanburði við önnur lönd), og það sem meira er enn meiri kerfisbundinni mismunum atvinnugreina, eins og nú er að koma í ljós, þar sem hagnaður sumra útflurningsgreina (fyrir fjármagnsliði) er allt of mikill, og mun fyrr eða síðar valda verulegu launaskriði þeirra greina á kostnað allrar annarra. Þá mun gamla verðbólguhringekjan fara í gangi með hækkun skulda og gjaldþrotum,,,,

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að ef samningar við ESB varða samþykktir, og tekst að fá aðild að ervunni mjög fljótlega, verður að lagfæra gengið að langtíma jafnvægisraungengi, því annars lokast hagkefið inn í öðrum gjaldmiðli á vitlausu gengi, sem myndi stórskaða eignamyndum og sparnað, einstaklinga, fyrirtækja og þjóðarinnar til tugi ára.

Í dag birstust svo (loksins) (http://www.visir.is/vidskiptajofnudurinn-jakvaedur-um-200-milljarda/article/2011935409719) frekari fréttri því til stuðnings að gengi sé allt of lágt, þar sem gert er ráð fyrir að viðskiptajöfnuður sé hagstæður um 13% sem hefur aldrei gerst áður, skv nýrri rannsókn Seðlabankans. Á mannamáli þýðir þetta að gengi krónunnar sé allt of lágt, sem um leið bitnar á kaupmátti almennings og miklu hærri skuldum en ella.

Í núverandi kjarasamningum þarf að taka á þessu og stefna á evru strax við aðild.