laugardagur, 19. febrúar 2011

Kjaraviðræðurnar

Gríðarleg vinna fer fram í samningavinnu þessa daga, margar vinnunefndir að störfum frá morgni til kvölds. Þessa dagana er unnið við að fara yfir sameiginlegar sérkröfur og koma þeim áfram. Mikil tími fer hjá samtökum iðnaðarmanna í umræður um kennitöluflakk, svarta vinnu og ábyrgð aðalverktaka. Það eru til vinnureglur t.d. sveitarfélaga um þessi mál, en það er ekki farið eftir þeim. Þetta er séríslenskt mál og snýst um það siðferði sem hefur tekið völdin í íslensku samfélagi. Hér á landi eru í mörgum tilfellum í gildi sömu reglur og í nágrannaríkjum okkar. En embættismenn, sérstaklega hjá sveitarfélögum virða þær oft að vettugi.

Nýlega hafa verið teknar verði upp nýjar reglur frá Noregi og Þýskalandi sem gera aðalverktaka ábyrgan fyrir launum allra sem vinna í umræddu verki sama hvort viðkomandi starfsmaður vinni hjá honum eða undirverktaka. Starfsmenn stéttarfélaganna hafa ítrekað orðið varir við að íslensk fyrirtæki eru að svíkja íslenska launamenn þegar þau eru að störfum í Danmörku og Noregi.

Þegar við ræðum við kollega okkar í norrænu Rafiðnaðarsamböndunum, þá er ekkert að hjá íslenskum rafiðnaðarmönnum vinna hjá þarlendum fyrirtækjum, svínaríið er íslenskt og hinir norrænu kollegar okkar eru undrandi á því siðferði sem birtist í hátterni íslenskra fyrirtækja.

En þetta á bara ekki við um okkar vinnumarkað heldur er þarna við að etja það hátterni sem á stærstan þátt í því hvernig komið er fyrir íslenski samfélagi. Þessa dagana eru stjórnmálamenn og fyrrv. ráðherrar að hrósa sér fyrir sérstaka íslenska viðskiptasnilld, þ.e.a.s. hvernig þeir skiptu um kennitölur á bönkunum og létu erlendu skuldirnar liggja eftir í gömlu kennitölunni. 7 – 8.000 milljarðar lentu þannig á erlendu bönkunum. Sömu menn eru undrandi á því að íslensk fyrirtæki eru að kvarta undan því hversu slakalega þeim gengur á fá erlenda fyrirgreiðslu!!??

Ef gera á langtímasamning verður að liggja fyrir hvert stjórnvöld ætli sér að stefna í efnahagsmálum og gjaldmiðilsmálum og af þeim sökum eru einnig í gangi viðræður við stjórnvöld. Það ræður miklu um hvaða kröfur verða gerðar um launahækkanir og hvernig gegnið verður frá verðtryggingu launa (rauðra strika). Verður stefnt á inngöngu í ESB og upptöku evru með því upphafi að festa krónuna með einhverjum vikmörkum við evruna og á ábyrgð Seðlabanka ESB. Það mun hafa mikil áhrif á hvort krónan styrkist. Ef hinsvegar stefnt er á áframhald krónunnar má frekar reikna með að hún styrkist síður og þá verður að reikna með meiri hærri launahækkunum á samningstímanum.

Í þessu sambandi verður einnig að líta til þess stöðunnar í dag, krónan er í lægstu hæðum, ef það ástand verður áfram mun það festa núverandi skuldastöðu heimilanna til framtíðar. Kaupmáttur er einnig í lágmarki. Styrking krónunnar er mesta hagsmunamál íslenskra heimila. Í dag blasir við ofurafkomu tiltölulega fárra fyrirtækja í skjóli lágrar krónu. Það verður aldrei sátt um að laun verði einungis hækkuð hjá starfsmönnum þeirra á meðan öðrum verði gert að sitja eftir. Það mun skapa ófrið til framtíðar og í raun tryggja að velmenntað fólk, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu og í tækni- og sprotafyrirtækjum mun flytja af landi brott.

Það verður að tryggja jafnvægi sem byggir undir þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækjanna með ofurafkomuna vegna slaks gegni krónunnar að þau skili hluta síns afgangs inn í samfélagið, með einum eða öðrum hætti.

Einnig eru stjórnvöld rukkuð um hvaða efnahagstefna eigi að fylgja þegar AGS fer af landi brott í haust? Hvað verður um gjaldeyrishöftin? Þetta skiptir sprota- og tæknifyrirtækin öllu, það er til þeirra sem litið er hvað varðar aukna atvinnu. Atvinnulífið verður sífellt tengdara erlendum mörkuðum og gjaldeyrishöft eru mikill skaðvaldur. Engin trúir því lengur að krónan eigi fyrir sér sjálfstætt líf án skjóls af einhverskonar gjaldeyrishöftum. Íslenskt atvinnulíf hefur ekki óheftan aðgang að erlendum mörkuðum. Ef ekki verður stefnt á ESB verður að taka upp sérviðræður við EES, það er verið að brjóta þá samninga með gjaldeyrishöftunum.

Forseti landsins heldur því fram í erlendum viðtölum að það sé svo gott að hafa krónuna því það sé svo auðvelt að fella hana og færa efnahagsörðugleika yfir á launafólk??!! Á sama tíma er verið að ræða um mikilvægi stöðugleika , lágum vöxtum og fjölgun atvinnutækifæra, sem byggjast í öllu á erlendum fjárfestingum og erlendu lánsfjármagni. Með öðrum orðum í þessu er umræðan, jafnvel hjá ráðamönnum þjóðarinnar, eins og svo oft hér landi algjörlega út og suður.

Engin ummæli: