sunnudagur, 8. febrúar 2009

Uppgjörið

Það er sama hvar komið er, fólk er fullkomlega áttavillt hvað varðar málflutning þeirra sem eru að verja stjórnendur þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið og eru að gagnrýna hið svokallaða ofbeldi sem þessir hinir sömu telja að verið sé að beita. Málflutningur þeirra einkennist af snúa hlutunum á haus og beina sjónum fólks frá þeim vandamálum sem við blasa.

Í þessu sambandi má benda á hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku á umræðu um skipan héraðsdómara. Þar var gagnrýnt að ekki hefði verið farið að settum reglum. En sjálfstæðismenn rígheldu aftur á móti í að verið væri að taka einstakling fyrir á þeim forsendum hver væri faðir hans. Engin gerði það nema Sjálfstæðismenn sjálfir. Sama hefur verið upp á teningunum við aðrar pólitískar ráðningar þeirra.

Nú er sömu vinnubrögðum beitt. Þó það liggi fyrir að það verði að taka til í efnahagsstjórn og þar er vitanlega Seðlabankinn efstur á blaði. Allir viðskiptaaðilar Íslands hafa bent á að það standi í vegi fyrir trausti á Íslendingum að hér sitji enn sömu stjórnendur, þó hér hafi átt sér stað mesta efnahagshrun nokkurrar vestrænnar þjóðar.

Allir hafa verið sammála um að það þurfi að skipta um stjórnir Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, það lágu meir að segja fyrir tillögur Sjálfstæðismanna sjálfra um þetta í nóvember. Sama á við um ráðherra og æðstu embættismenn í fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti. Fyrr náist ekki sátt við almenning og eins að skapa nauðsynlegt traust á íslensku efnahagslífi.

En í undirbúningi eru kosningar. Vaxandi fjöldi fólks telur að stjórnmálamenn ráði einfaldlega ekki við að gera upp við þau mistök sem þeir hafa gert. Svo ég noti orðfæri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þá er reyksprengjum kastað og upphópunum beitt. Eins og t.d. að það sé verkalýðshreyfingunni að kenna að sparifé hafi glatast og lífeyrissjóðir tapað fjármunum. Ef samþykktir verkalýðshreyfingarinnar eru skoðaðar, þá gagnrýndi hún efnahafsstefnu stjórnvalda harkalega og hefur lagt fram tillögur um úrbætur á undanförnum árum. Hún gagnrýndi ofurlaun umfram aðra og fákeppni. Hún krafðist árangurslaust þess að stjórnvöld endurskoðuðu lög um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Eins mætti benda á að helmingur stjórnarmanna koma frá fyrirtækjunum, en frjálshyggjumenn kjósa að venju að beina spjótum sínum að launamönnum og samtökum þeirra.

Það var ríkið sem brást almenning. Það er ríkið sem á að sjá um eftirlit og stjórnefnahagstefnunnar. Það var ríkið sem hafnaði öllum viðvörunum. Það leiddi til þess að svo margir hafa glatað sparifé sínu. Þeir fóru að þeim ráðleggingum sem sérfræðingar lögðu til að best væri í þáverandi stöðu. Ljóst er að það voru bankamenn og auðmenn, sem nýttu sér stefnu frjálshyggjunnar og það svigrúm til þess að blekkja sparifjáreigendur og stjórnendur lífeyrissjóða. Nú vilja þeir sem eru að reyna að verja stöðu frjálshyggjunnar koma sökum á þá sem urðu fyrir nauðguninni. Þeir vilja að almenningur hýsi nauðgarann og kjósi han aftur inn á þing.

Þingmenn hafa ítrekað lýst því yfir að þeir sé réttbærir til þess að fara með völdin og stjórna. En nú blasir við að þeir ætla ekki að axla ábyrgð á athöfnum sínum, og virðast a.m.k. sumir hverjir ekki hafa burði til þess að geta það. Þegar almenningur mótmælir og krefst þess að stjórnmálamenn fari að þeirra vilja, þá er verið að beita stjórnmálamenn ofbeldi!!

Það liggur fyrir að strax í vor að afloknum kosningum mun verða gerður ennfrekari niðurskurður á fjárlögum, jafnframt að það þarf að hækka skatta umtalsvert. Það liggur fyrir að það verður mjög erfitt að komast út úr þeirri stöðu sem við erum í. Um það viljum við fá upplýsingar og umræður. Það er almenningur sem vill horfast í augu við stöðuna, en það er stjórnmálamönnum um megn. Þar má t.d. benda á ummæli Árni þáv. fjármálaráðherra sem sagðist ætla að greiða helming skulda á einu ári. Hefur stjórnmálamaður sem gefur út svona yfirlýsingu burði til þess að vera við stjórnvölinn?

Fólk vill ræða þingræði og stjórnarskránna. Það kerfi sem flokkarnir hafa byggt upp er nánast einræði ekki þingræði. Það eru flokksformenn sem ráða. Núverandi stjórnkerfi veldur því að ef þingmenn standa upp í hárinu á flokksformönnum þá komast þeir ekki ofar í goggunarstiganum. Þingmenn ætla sér að víkja sér undan því að verða við kröfum almennings og smeigja sér í gegnum næstu kosningar á röngum forsendum.

Þetta hentar vel þeim hluta þjóðarinnar sem hefur notið góðs af efnahagsstefnu frjálshyggjunnar. Eignatilfærslu frá þeim efnaminni til þeirra sem betur mega sín. Það var gert með flötum lækkunum á tekjuskattsstigi, Niðurfellingur á hátekjuskatti. Skerðingarmörk í bótakerfinu voru látnar sitja kyrrar í verðbólgu, sama gilti um persónuafslátt. Skýrslur sýna fram á gríðarlega skattahækkanir á tekjulægsta fólkinu.

Spurningin fyrir næstu kosningar er hvort almenningur nái fram vilja sínum um að gera upp við frjálshyggjuna og afleiðingar hennar. Eða hvort stjórnmálamenn nái fram sínu og haldi sætum sínum og víki sér undan uppgjöri með lítt breyttri stöðu.

Engin ummæli: