fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Starfsemi stéttarfélaganna

Hef undanfarnar vikur verið á ferð um landið til þess að hitta rafiðnaðarmenn og fara yfir ástandið á vinnumarkaði og hver sé afstaða þeirra til endurskoðunar kjarasamninga. Búinn að halda 15 fundi með tæplega 500 félagsmönnum. Þar hefur verið ráðandi það viðhorf að okkur beri fyrst og fremst að verja atvinnustigið. Það blasi við öllum uppsagnir og launalækkanir og verkalýðshreyfingin eigi að leggja áherslu á að byggja upp atvinnulífið.

Á grundvelli þessa er einkennilegt að sumir telja sig þess umkomna að krefjast þess að forystumenn stéttarfélaga, sem eru með svona samþykktir bak við sig, gangi þvert á þær og berjist fyrir samþykktum annarra stéttarfélaga, (sem eru með um 7% félagsmanna ASÍ, samkvæmt nýjustu greiningum sem ég hef séð), eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið, þá sérstaklega fréttastofu Sjónvarpsins

Það vekur ætíð athygli mína hversu mikill munur er á þeim viðhorfum sem koma fram á félagsfundum borið saman viðhorf í bloggheimum. Það mikla svartnætti, dylgjur og útúrsnúningar sem mætir manni í bloggheimum, sérstaklega í athugasemdadálkum, hefur leitt til þess að það fækkar sífellt í þeim hópi sem ekki les athugasemdir. En stundum fín innlegg í athugasemdadálkunum. En sé fjöldi athugasemda borin saman við lestur t.d. þessarar bloggsíðu þá eru þær um 0.1%.

Reyndar má segja það sama um sumar af þeim skoðunum sem settar eru fram í pistlum á bloggsíðum, t.d. þegar menn slöngva hiklaust fram pistlum með fullyrðingum þar sem við blasir að viðkomandi hefur ekki minnstu þekkingu á því um er fjallað. T.d. eins og þetta sem birtist hér á Eyjunni fyrir nokkrum dögum :“Það er írska alþýðusambandið sem stendur fyrir fjölmennum mótmælum í Dublin. En á Íslandi heyrist lítið sem ekkert frá ASÍ – nema helst þegar þeim finnst að lífeyrisjóðunum sé ógnað.“

Það hefur ítrekað verið kvartað undan því sérstaklega meðal þingmanna, ráðherra og nokkurra embættismanna, að verkalýðshreyfingin sé að skipta sér af of mörgum hlutum. Þetta hefur ítrekað komið fram í fréttum og ætla má að sá sem þetta skrifar fylgist ekki sérstaklega vel með.

Á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar hafa félagsmenn oft verið spurðir hvort verkalýðshreyfingin eigi ekki að vera virkari þátttakandi í þeim mótmælum sem hafa t.d. farið fram á Austurvelli. Á þeim fundum sem ég hef setið hefur því verið harkalega mótmælt og tillögur þar að lútandi felldar. Menn hafa talið að það sé í lagi að styðja vel við bakið á þeim sem að fundunum hafa staðið, gera þá mögulega og hvetja fólk til þess að mæta, en láta þar við sitja.

Það fer fram gríðarlega mikið starf á vegum stéttarfélaganna, sem sjálfsagt margir sem ekki eru þátttakendur átta sig á, alla vega þeir sem halda því fram að verkalýðshreyfingin geri ekkert. Fyrirferðarmesta starfsemin fer fram í gerð og viðhaldi kjarasamninga ásamt vinnu við að leysa úr hnútum sem upp koma á vinnustöðum, túlkun og að verja réttindi fólks. Þar á eftir er fyrirferðamikill þáttur að verja réttindi fólks sem lendir í slysum og veikindum, finna út úr bótarétti og afgreiða styrki frá sjúkrasjóðum og sækja réttindi til tryggingarfélaga eða vinnuveitenda.

Þar á eftir er starfsfræðsla í atvinnulífinu. En stéttarfélögin reka í samvinnu við fyrirtækin mjög umsvifamikla starfsemi í fagtengdum námskeiðum og námskeiðum í stjórnum og samskiptum á vinnumarkaði. T.d voru um 1.000 nemendur innan þess kerfis í rafiðnaðargeiranum á síðasta ári. Í þessu kerfi er auk þess umfangsmikil starfsemi meðal iðnaðarmannafélaganna sem tengist námssamningum, sveinsprófum og endurnýjun námskráa.

Stéttarfélögin þurfa að leggja fram umsagnir við frumvörp og reglugerðir og vera þátttakendur ásamt ráðuneytum í mótun og þróun vinnumarkaðarins. Í því sambandi má benda á umfangsmikla hagdeild og lagadeild ASÍ.

Og í lokin má benda þeim sem velta þessu fyrir sér að lífeyrissjóðirnir eru með sérstakar skrifstofur samkvæmt landslögum. En málefni þeirra eru til umræðu á öllum fundum innan verkalýðshreyfingarinnar, enda vill svo til að félagsmenn stéttarfélaganna eru sjóðsfélagar og reyndar líka kjósendur.

Fólki sem ekki hefur komið inn á skrifstofur stéttarfélaga og kannski aldrei verið virkur félagsmaður í stéttarfélagi, veit sannarlega lítið um starfsemina og ætti að láta vera að slöngva ítrekað fram einhverjum sleggjudómum um starfsemi og ekki síður starfsfólk launamanna.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Verkalýðsfélög eru lífankeri launþega.

Nafnlaus sagði...

Enn ég held að verkalýðshreyfingin verði að fara huga að hvernig við getum losnað við þessa vísitölu. Það gengur ekki að lán hækki þegar t.d. olía hækkar eða kaffibaunir. Það eru engin ríki sem við berum okkur saman við með vístölu á lánum til almenings. Og svo á að frysta vístölu miðað við ákveðin dag árið 2008. Fólk getur ekki greitt af þessum lánum og lán fara uppfyrir verðmæti húsana. Nýtt Ísland fyrir fólkið í landi , ekki bara suma. Það þykir ekki tiltökumál að afskrifa nokkra miljarða hjá fyrirtækjum enn að stoppa að lán fólks hækki og bara hækki það má ekki. Þá erum við að setja alla lífeyrissjóði á hausin, ekki fara þeir á hausin í nágrana löndum okkar og eru ekki með vístölubindingu á lánum. Og þessar hugmyndir með að lengja í lánum og halda vísitöluni inni áfram minnir mig á, þegar jarðaeigendur voru með leiguliða sem voru það til dauðadags. Kveðja Simmi

Nafnlaus sagði...

Lífeyrissjóðurinn minn, er ellilífeyrinn minn.
Er 67 ára. Byrjaði að vinna 15 ára.

Nafnlaus sagði...

Það er rétt hjá þeim sem er 67 ára að lífeyrissjóðurinn er ellilifeyrinn. Enn hver vill vera leiguliði alla ævi til að geta notið ellilífeyris í íbúð sem maður á ekki, maður leigir af eignahaldsfélagi lífeyrissjóðsins. Ekki ég það er til líf á verðtryggingar, allir íbúar Evrópu lifa lífi á verðtryggingar. Kv Simmi

Guðmundur sagði...

Bara svona minna á að allstaðar annarsstaðar í samanburðarlöndunum í Evrópu eru Evran og verðbólgan 2 - 5% og vextirnir á því bili á langtímalánum og þessvegna eru menn ekki með verðtryggingu þar.

Verkalýðshreyfingin er búinn að berjast í því í nokkru ár að tekin verður upp Evra til þess að lækka megi verðbólgu, verðlag og vexti.

En sá stjórnmálaflokkur sem hefur farið með stjórn efnahagsmála hefur staðið algjörlega gegn því.

Ef menn væru ekki með verðtryggingu þá yrðu þeir að greiða í dag 25% vexti ekki bara föstuvextina og undir því stendur enginn þess vegna eru menn með greiðsludreifingu á vöxtum, eins og verðtryggingarkerfið er.

Það var ekki verkalýðshreyfingin sem kom því á og það er ekki verkalýðshreyfingin sem hefur barðist fyrir því, hún hefur alltaf barist gegn því.

Það er einungis ein leið að losna, það er að skipta um gjaldmiðil og fara inn í umhverfi þar sem ekki eru hinar ofsafengnu sveiflur krónunnar, þegar stjórnvöld eru að leiðrétta of há laun blóðsúthellingalaust með gengisfellingum eins og Hannes Hólmsteinn segir þegar hann er að reyna að réttlæta krónuna og efnahagstefnu sína.

Nafnlaus sagði...

Það getur ekki verið eðlilegt kerfi að lán fari uppfyrir öll verðmæti og haldist þar. Og að halda það að verðbólga verði á þessu bili 2-5% bara við það að taka upp Evru eru bara drómórar, verðbólga helst aðeins lág með góðri efnahagsstjórn. Þau lönd sem hafa verðtryggð lán til einsstaklinga eru Baraslía og Ísarel.Og haf þau nú ekki verið viðmiðunarlönd okkar. Og svo skulu menn ekki gleyma því að það er nú ekki mikil samstaða hjá þeim ríkjum sem eru með Evru t.d eru þau lönd í suðri kölluð PIGS, enn það eru Grikkland, Ítalía, Spánn og Portugal. Og er þettað nafn ekki gefið þeim af virðingu. Og hefur seðlabanki Evrópu ekki haft nein hug að aðstoða þau. Kv Simmi

Guðmundur sagði...

Það er alltaf spurningin hver eigi að borga mismuninn. Það eru þök á vöxtum í öðrum löndum, en þar búa enn líka vi stöðugleika. Það gerum við ekki hér vegna þess að stjórnvöld hafa gætt hagsmuna útgerðar og viðhaldið krónunni svo fella megi krónuna, sem hefur kallað yfir okkur hærri vexti. Þrátt fyrir að þess hafi verið krafist að efnahhags- og peningastjórnun verði breytt þá hefur þessum hagsmunaaðilum tekist að viðhalda óbreyttri stefnu.

En svo við snúum þessu algjörlega við. Nú hefur kaupmáttur og verðlag eigna hækkað langt umfram vísitöluna á undanförnum árum.