þriðjudagur, 24. febrúar 2009

ASÍ og SA funda

Í gær var haldinn fyrsti samningafundur ASÍ og SA. Til umræðu var hvort aðilar vildu framlengja líf núverandi kjarasamnings og hvernig gengið yrði frá launahækkunum og umsömdum kjarabótum. Það hefur komið fram í ummælum forsvarsmanna SA á undanförnum vikum að ekki séu við núverandi aðstæður möguleiki að fyrirtækin geti hækkað laun.

Bankakerfið nánast óvirkt, vextir vel á þriðja tug prósenta, rekstrarvandinn gríðarlegur og fjöldi fyrirtækja gjaldþrota í hverri viku. Byggingariðnaður stopp, víðtækar uppsagnir standi nú yfir í þjónustu og verslun, fiskur seljist ekki erlendis og verð lág, því fylgi gríðarleg birgðasöfnun. Ef fyrirtækjunum yrði stillt upp með kröfu um hækkun launa væri ljóst að það myndi verða brugðist við því með enn frekari uppsögnum eða uppsögn kjarasamninga.

En SA hefur jafnframt látið það koma fram að þeir væru tilbúnir að ræða það við ASÍ hvort hægt væri að mynda samstöðu allra heildarsamtaka báðum megin borðs á vinnumarkaði ásamt komandi ríkisstjórn um hvort hægt sé að móta sameiginlega áætlun um hvernig atvinnulífið verði byggt upp með t.d. tveggja ára áætlun. Þá verði endurskoðun kjarasamninga hluti af því plani. Töluverðar líkur væru á að á næstu mánuðum væri bankakerfið komið af stað, verðbólga á hraðri niðurleið og búið að lækka vexti. Ef stéttarfélögin væru tilbúin að fresta hækkunum launa um nokkurn tíma væru töluverðar líkur að aðilar gætu náð samkomulagi.

Eftir mikil fundahöld meðal landssambanda innan ASÍ á síðustu vikum þar sem sett var fram sú spurning fyrir félagsmenn, hvort þeir vildu láta á það reyna hvort viðunandi niðurstaða næðist með samningaleiðinni, eða láta á það reyna hvort fyrirtækin myndu segja upp kjarasamningum, eða mæta hækkunum með enn stórfelldari uppsögnum. Niðurstaða 85% félagsmanna innan ASÍ var að láta reyna á samningaleiðina og taka þá afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem þar næðist.

Forsvarsmenn 15% minnihlutans hafa haft í frammi mikla gagnrýni og gefa sér að það hafi legið fyrir að launahækkunum muni standa. Þeir stilla málinu þannig upp að það sé fámenn klíka í forystu ASÍ sem hafi tekið það upp hjá sjálfri sér að afþakka hækkun launa af þeim launalægstu.

Þessi málflutningur hefur að venju átt greiða leið til nokkurra fréttamanna, sérstaklega á fréttastofu RÚV. Einnig má velta fyrir sér hvernig hausinn fúnkeri á þeim skrifaði Reykjavíkurbréf Moggans um helgina, þar er ég vitna til upphafs bréfsins. Nú má vitanlega spyrja hvort fréttamenn fylgist svona illa með því sem forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa sagt á undanförnum vikum og eins hvort þeim sé ekki kunnugt um hvernig ástand sé á íslenskum vinnumarkaði.

Einnig má spyrja hvers vegna fréttamenn hafi ekki kannað á hvaða forsendum hin „fámenna klíku ASÍ“ sé að óþörfu að hafa launahækkanir af launamönnum. Síðast en ekki síst að þegar það liggur fyrir að hin fámenna klíka var búinn að fara inn í sín baklönd og leggja framangreindar spurningar fyrir fjölmenna fundi á hvaða forsendum málinu sé þá stillt upp, hvenær hún hætti að vera fámenn klíka, sem sé að ofsækja fámennan minnihluta og launamenn í landinu.

Á fyrsta samningafundinum í gær fór mestur í að skoða með hvaða hætti væri hægt að hækka lægstu laun strax og nokkrar hugmyndir settar fram. Ákveðið var að hittast aftur á morgun, miðvikudag.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stéttarsamvinnuleið verkalýðsfoustunnar hefur hingað til skilað okkur samfélagi þar sem hinir ríku verða svo ríkir og valdamiklir að þeir geta haft féþúfu af því að rústa samfélaginu. Með þessarri samningarleið er forysta verkalýðshreyfingarinnar að vinna að því með þessum sömu auðmönnum og fulltrúum þeirra að koma hér aftur á samfélagi þar sem þessir hlutir geta gerst eina ferðina enn. Er það í alvörunni stefna ykkar að reyna að endurskapa Ísland anno 2007?

Guðmundur sagði...

Ég verð að viðurkenna að mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja hvernig þú kemst að þessari niðurstöðu. En það er nú svo að sumir gefa sér forsendur burtséð frá staðreyndum og skjóta svo.

Á árinu 2007 voru settar fram af hálfu ASÍ mjög skýrar kröfur um hvernig menn vildu taka á þeim vanda sem við blasti. á einnig var bent á hversu rangt væri gefið og hversu rangar þær væri forsendurnar sem þáverandi stjórnarflokkar gæfu sér.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Hvers vegna eru verkalýðsrekendur búnir að taka samningsréttinn af félagsmönnum verkalýðsfélaga ?

Hvaða rétt hefur forysta ASÍ til að haga sér svona ?