laugardagur, 14. febrúar 2009

Hin dýrkeypta króna

Hef þessa vikuna verið á fundaflakki um landið og búinn að hitta vel á þriðja hundrað rafiðnaðarmanna. Áberandi er það sjónarmið að stjórnmálamenn hafi klikkað í sínum störfum á undanförnum árum og ekki hafi betra tekið við í vetur. Endalaust ráðaleysi og sandkassaleikur um mál sem engu skipta. Tilgangslausar út og suður ræður sem hafa það markmið eitt að snúa út úr því sem síðasti ræðumaður sagði. Á meðan brennur þjóðfélagið.

Stjónrvöld eiga að vera búinn fyrir löngu að taka saman við atvinnulífið og fólkið í landinu um að setja upp markvissa stefnu næstu árin um hvert eigi að stefna. Í stað þess að eyða tímanum í að reyna að telja fólki í trú um að verið sé að þvinga þjóðina til þess að gera eitthvað, og nágrannalönd okkar séu okkur óvinveitt vegna þess að þau vilji ekki lána okkur peninga og hafi sett Alþjóðagjaldeyrissjóðinn okkur til höfuðs. Þessu trúa einungis örfáir staurblindir nýfrjálshyggjumenn.

Fyrirspurnir um lífeyrissjóðina eru ofarlega í hugum fólks og hvort það takist að verja þá fyrir ágirnd stjórnmálamanna. Það blasi við ef tillögur stjórnmálamanna um að galopna sjóðina nái fram og taka eigi þar út á skömmum tíma hundruð milljarða þá muni það leiða til mikils falls á eignum. Fjármunir lífeyrissjóðanna eru bundnir í verðbréfum og öðrum eignum og til þess að losa mikla fjármuni þurfi að selja þessar eignir. Hverjir eru kaupendur í dag? Þær munu hríðfalla, ef þeim er skellt út á markað í stórum skömmtum. Öllum ber saman um að það eigi að heimila þeim sem geta bjargað sér með úttekt á séreign, en að öðru leiti verði að setja ákveðnar skorður.

Enn einu sinni er það krónan sem setur okkur skorður. Ef við værum með nothæfan gjaldmiðil sem gengi innanlands sem og utan, þá værum við í allt annarri stöðu. Andstaða þess stjórnmálaflokks sem hefur farið með stjórn efnahags- og peningamála undanfarin ár að taka þessum vanda hefur komið okkur í þá stöðu sem við erum í, og heldur okkur þar. Það veldur heimilum og fyrirtækjum óbætanlegum skaða.

Samt segir fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra til margra ára, að það þurfi ekki að endurskoða þessi mál í margfrægu viðtali við BBC. Mikið ofboðslega skammaðist maður sín fyrir manninn. Þar kom svo glögglega fram hvernig íslenskir ráðherrar hafa tamið sér að svara spurningum fréttamanna. Ætíð vikið sér undan að svara með því að setja fram einhverjar vífillengjur og orðhengilssvör. Enda er það ósjaldan sem Geir hefur sagt að óþægilegar spurningar fréttamanna séu ókurteysi og ef gengið er eftir skýru svari með því að endurtaka spurningu þá er það einelti að hans mati.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hættu nú þessu yfirborðslega tali út og suður og reyndu að leggja fram heildstæða hugmyndafræði um hvernig byggja skuli upp heilbrigt hagkerfi.
Staða krónunnar er t.d. afleiðing af því að leyft var að braska með gjaldeyrinn. Áður en gjaldeyrisviðskipti voru gefin frjáls þá helst gengi krónunnar árum saman í takt við t.d dönsku krónuna. Ef þú styður hugmyndafræði kapitalismans að hafa algjört frelsi á gjaldeyrisviðskiptum og vöruinnflutningi til landsins, þá skaltu endilega vera sjálfum þér samkvæmur og berjast fyrir aðild Íslands að EBE. En ef þú vilt styðja mannúðlega hugmyndafræði sem byggir á dreifingu á efnahagslegu valdi, að auðlindir skuli vera í höndum almennings, að loka skuli fyrir kauphallarbrask og atvinnulýðræði skuli stórlega aukið, þá skaltu berjast gegn aðild okkar að ESB og ekki vera að hamast gegn íslensku krónunni. Fyrir alla muni hættu þessum hvimleiða kratahugsunarhætti að liggja hundflatur fyrir markaðshyggjunni og bara nöldra þegar efnahagslegt vald og auður hraukast upp á fárra hendur.

Guttormur Sigurðsson

Guðmundur sagði...

Svo það sé nú örugglega á kláru, þá hef ég verið fylgjandi því að ganga í ESB og taka upp Evru. Það hefur ítrekað komið fram í pistlum þessarar síðu.

Sé litið til afstöðu rafiðnaðarmanna sem ég er að vísa til í þessum texta, þá hafa ályktanir frá fundum og þingum þeirra verið í þá veru að hér hafi verið sú staða í allnokkurn tíma að það væri rökrétt framhald aðildar okkar að EBE að ganga í ESB.

Það er stöðugleiki, lág verðbólga, lagir vextir og um leið engin verðtrygging, lágt vöruverð sem við sjáum í nágrannalöndum okkar, er ástæða þessarar afstöðu.

Það að sá flokkur sem fór með efnahagsmál hér og sat í forsætisráðherrastól, fjármálaráðherrastól fór með völdin í Seðlabanka og Fjármálaeftirlit skyldi einungis hrópa ferfallt húrra á meðan fjárglæframenn fóru hér hamförum og nýttu sér þá stöðu sem þeim var sköpuð af þessaru stefnu (stefnuleysi) með er ástæða þess hvar við stöndum.

Það breytir ekki þeirri stöðu að við verðum að ganga í ESB og taka upp Evru, við erum einfaldlega nauðbeygð að gera hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því lengur sem það er dregið þeim mun meiri verður skaðinn

Kv GG