Þau voru eitthvað svo fyrirséð viðbrögð sjálfstæðismanna gagnvart Stjórnlagaþingi. Nákvæmlega þau sömu og ætíð hafa komið fram í þeirra forystu þegar almenningur hefur krafist þess að fara með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þeir treysta engum öðrum en sjálfum sér til þess að fara með mál þjóðarinnar. Í langri valdatíð sinni hafa þeir komið á ráðherraræði, Alþingi er ekki lengur æðsta valdastofnun landsins. Vilji þingmenn eiga nokkra von um frama verða þeri að lúta vilja ráðherranna. Alþingi er orðið að afgreiðslustofnun frumvarpa ráðherra og aðstoðamanna þeirra. Þingmannafrumvörp eru sett í geymslu í nefndum.
Í mörg ár hefur það legið fyrir að Stjórnarskránni er í mörgu ábótavant. En hún hentar vel því stjórnarfari sem skapað hefur verið og þeirra varna sem gripið er til gagnvart vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur í valdatíð Sjálfstæðismanna orðið að æðstu valdastofnun landsins. Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds, eins og stjórnarskráin mælir fyrir heldur einungis tvískipt, á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds.
Auk þess skipar framkvæmdarvaldið dómara með þeim hætti sem við þekkjum svo vel og lætur stundum setja afturvirk lög, en þau vega að áhrifum dómstóla. Fyrir liggja rannsóknir sem sýna fram á að allt að 30% laga sem ráðherrar hafa keyrt í gegn stangist á við önnur lög, eða jafnvel stjórnarskrá. Við þekkjum viðbrögð ráðherra, ef sú staða kemur upp að sýnt er fram á að ætlan ráðherra stangist á við stjórnarskrá. „Þá breytum við bara stjórnarskránni.“
Ríkisstjórnin hefur komið því þannig fyrir að samþykki Alþingis er einungis formsatriði. Það sem hún leggur til er oft samþykkt með leifturhraða og afbrigðum. Þingmenn og þjóð hafa ekki tíma til að kynna sér efni frumvarpsins. Meðvirkni þingmanna felst í svörum þeirra um að frumvarpið er svo vel undirbúið að það þurfi ekki umfjöllum. Og þingmenn eru sendir í spjallþættina og viðtölin óundirbúnir og svör þeirra eru oftast svo út og suður, hlálegt rugl. En ríkisstjórnin rekur stærsta fjölmiðil landsins.
Framkvæmdarvaldið sjálft telur sig vera þess umkomið að semja þær reglur sem eiga að takmarka vald þess. Þetta er algjör þversögn, það eru vitanlega landsmenn sjálfir sem eiga að setja sér stjórnarskrá án afskipa frá ráðherravaldinu.
Vilji almennings stendur til þess að tryggja mannréttindin, það sem mönnum er helgast.
Vilji almennings stendur til þess að vinna við nýja stjórnarskrá verði afskipta ríkisvaldsins og stjórnmálaflokkanna, með því að koma á fót stjórnlagaþingi, sem semdi frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum. Þar á að vera samankominn þverskurður Íslendinga með fagfólki, sem semur frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem síðan verður lagt fyrir Alþingi. Það gæti breytt frumvarpinu, ef það leggur í að ganga gegn vilja Stjórnlagaþings. Þessi aðferð tryggir það að aðrir en alþingismenn gætu einnig haft skoðun á málinu. En svo er að sjá hvort þeir hafiu burði til þess.
5 ummæli:
Þú kemst vel að orði í þessari umræðu.
"Þeir treysta engum öðrum en sjálfum sér til þess að fara með mál þjóðarinnar".
Ég hef verið hugsi yfir stjórnríki einstaklinga og stofnana undanfarnar vikur og bendi hér á ágætis lýsingu sem fram kemur á enska orðinu Control freak (http://en.wikipedia.org/wiki/Control_freak)
En einstaklingur sem þjáist af þessum ósöpum á mjög erfitt með að treysta öðrum en sjálfum sér til verka. Hann þarf að koma að hverju smáatriði sjálfur. Allt sökum "eigin yfirburða". Hann er að auki oft ofsafenginn og hegðunin oft í raun sjúkleg.
Þetta þurfum við að horfa upp á þessa dagana með tiltekna einstaklinga og nú sjálfan Sjálfstæðisflokkinn - og jafnvel ríkisstjórnina alla. Við sjáum til.
Smá viðbót, ef maður má: Í nýrri stjórnarskrá þurfa líka að vera ákvæði um hvernig henni megi breyta og hvað þurfi til að koma. Þ.e.a.s. að sérstakt stjórnlagaþing þurfi að koma saman til slíkra breytinga og hversu hátt hlutfall fulltrúa á því þyrfti að samþykkja breytinguna, svo yfirleitt mætti leggja hana undir þjóðaratkvæði. Okkur vantar líka skýrar reglur um stjórnlagadómstól, hvernig hann sé skipaður, setutíma, staðsetningu, hvaða mál hann tekur fyrir, hvort hann tekur fyrir þau mál sem honum sjálfum líst að þurfi að taka, eða hvort hægt verði að vísa málum til hans, hvort tilteknum afgreiðslum þings og framkvæmdavalds verði til hans vísað og hvort hæstiréttur geti vísað málum til umsagnar hans o.s.frv.
Mér finnst bara ótrúlegt að fólk skuli halda áfram að styðja flokk sem lætur í ljós svona fyrirlitningu á almenningi. Og virðast alltaf vilja hafa vit fyrir almenningi og ákveða um allt sem almenningur á að vilja.
Þetta er svipað og með ESB umræðuna. Sjálfstæðisflokkurinn gat svæft þá umræðu strax með því að láta kjósa um þetta. Sérstaklega á þeim tíma þegar það var fyrirséð að slík tillaga yrði felld. En þeir gerðu það ekki vegna þess að þeir einfaldlega treysta ekki almenningi eða vilja ekki leyfa neitt annað en sinn vilja fara fram. Þeir biðja svo fólk um að kjósa sig og treysta sér?!?!
Hvað varð um gagnkvæmt traust?
Þessi flokkur hefur ekkert nema löngunina til þess að stjórna efst í huga.
Hvað getum við almenningur gert?
Hvað getum við almenningur gert? er spurt hér að framan. Jú, við getum einmitt gert þetta sem höfum verið að gera, þ.e.a.s. þau okkar, sem nota hausinn til að hugsa með honum. Höldum áfram að berja pottana á Austurvelli, eða hvar sem þarf að gera það svo ráðamenn heyri og hlýði!
Skrifa ummæli