fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Losun séreignarsparnaðar

Fékk þessar 2 spurningar varðandi séreignarsparnaðinn varðandi grein frá því desember. Birti þessvegna svarið hér

1- Ef séreignarsparnaður verður laus til útborgunar, er hann þá ekki aðfararhæfur skv. lögum ef eigandinn fer í þrot?
2- Geta þá ekki sjálfstætt starfandi menn skotið peningum úr rekstri sínum inn í séreignasparnaðinn, farið á hausinn og tekið hann svo út þegar búið er að gera upp?


Ég veit til þess að lögfræðingar eru að skoða ákvæðin, en í frumvarpinu segir í 5. mgr. 3.gr. að “Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.” Með þessu er ætlað að koma í veg fyrir að séreignin verði aðfarahæf.

En fljótt á litið virðist ekkert því til fyrirstöðu að sjálfstætt starfandi menn borgi sér stórar upphæðir í séreign. Skattstjóri gæti mögulega gert athugasemdir ef séreignagreiðslan er ekki í samræmi við laun viðkomandi.

Skiptastjóri í þrotabúi gæti túlkað það sem undanskot eigna og krafist þess að greiðslan yrði tekin til baka. Lífeyrissjóður gæti hafnað móttöku á stórum séreignargreiðslum ef það er augljóslega verið að skjóta undan eignum. Lífeyrissjóðum er skylt að kanna greiðslur er gætu fallið undir lög um peningaþvætti.

Þetta er áhugaverð pæling og þörf í þessu umhverfi. Hingað til hafa þessir aðilar verið tregir til að borga í lífeyrissjóði, en a.m.k sumir þeirra hafa farið fram og krafist þess að lífeyriseign sjóðsfélaga sé nýtt til þess að greiða upp skuldir annarra. Það væri sannarlega kaldhæðnislegt ef aðfarahæfið yrði til þess áhugi þeirra vaknaði á lífeyrissparnaði.

Engin ummæli: