Silfrið hefur verið áhugavert í vetur, sérstaklega sakir þess að Egill hefur í vetur leitt fram venjulegt fólk sem hefur sett fram áhugaverðar, ígrundaðar og rökstuddar skoðanir. Hún er horfin Morfískeppnin sem áður fór fram milli stjórnmálamanna í þættinum, þátt eftir þátt með upphrópunum á rakalausum klisjum hanteruðum á spunastofum stjórnmálaflokkanna reknum á kostnað ríkissjóðs.
Þetta viðgengst reyndar enn, eins kom fram í skemmtilegu viðtali Egils við ungan mann, þar sem fjallað var um íslensku fjölmiðlana og fastmótaða framsetningu þeirra. Ætíð kallað á sömu álitsgjafana, sama hvaða mál er til umfjöllunar, eins og t.d. Pétur Blöndal, Svein Andra og Sigurð Kára, viku eftir viku og stundum mörgum sinnum á viku.
En allt í einu birtist í dag stjórnarþingmaður í Silfrinu og þá heyrist ein klisjan. Hvers vegna má ekki nýta lífeyrissjóðina til þess að greiða upp skuldir og þar eigi ekki við stjórnarskrárvarin eignaréttur.
Í þessu sambandi má benda á nokkur atriði. Það hafa ekki allir greitt í lífeyrissjóði, þeir eru ekki sameign þjóðarinnar. Lífeyrissjóður er eign þeirra sem hafa greitt í hann, ekki annarra. Ég hef fyrir því rökstuddan grun að margir af þeim sem hafa haft hvað hæst um hvernig eigi að nýta eignir lífeyrissjóðanna, hafi lítið eða jafnvel ekkert greitt í almennu lífeyrissjóðina, kannski eitthvað í erlenda sjóði.
Ef þingmaðurinn ætlar að taka sparifé launamanna sem geymt er í lífeyrissjóðum, þá getur hann með sömu rökum tekið sparifé geymt í bönkum. T.d. bankabækur þingmanna og Helga í Góu.
Einnig má benda á að þingmenn hafa búið sér það umhverfi að þó lífeyrissjóður þeirra sé tekinn eða getur ekki staðið undir skuldbindingum, þá er það sem upp á vantar sótt í ríkissjóð. Í almennu sjóðunum þýðir það einfaldlega lækkun á örorkubótum og lífeyrisgreiðslum.
Það er svo annað mál hvort sjóðsfélagar og þá um leið eigendur ákveðins lífeyrissjóðs, ákveði að miðla málum með eignatilfærslum meðal sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs. Það er allt annað mál og ákvörðarvald þar um liggur hjá sjóðsfélögum viðkomandi lífeyrissjóðs og borið upp á ársfundi þess sjóðs. Ég á t.d. von á að það gæti gerst á einhverjum ársfundum lífeyrissjóða í vor.
Í lokin hún er orðin ansi þreytt sú klisja að verkalýðsforkólfar hafi það eitt fyrir stafni að verja eignir lífeyrissjóðanna til þess að verja eigin völd. Það er nú svo að það eru félagsmenn stéttarfélaga sem eru í langflestum tilfellum sjóðsfélagar. Á félagsfundum stéttarfélaga er mikið rætt um starfsemi lífeyrissjóðs viðkomandi starfsstéttar. Á þessum fundum er ætíð samankomin hópur sjóðsfélaga, sem krefst þess að staðin verði vörður um lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar, þá sérstaklega gagnvart fólki eins og t.d. þingmönnum og verktökum sem ekki eru sjóðsfélagar.
10 ummæli:
Samt verður að viðurkennast að rekstur margra þessar lífeyrissjóða er til skammar.
Margar fjárfestingar þeirra eru ámælisverðar.
Það verður að bjóða sjóðfélögum upp á aðrar leiðir með lífeyrir sinn. Ég hef ekkert traust til þeirra aðila sem eru að reka stærstu lífeyrissjóði landsins og svo virðist sem verkalýðsforustan haldi hlífiskildi yfir stjórnendum lífeyrissjóða.
Verkalýðsfélöginn hafa helming sæta í stjórnum lífeyrissjóða og oftast eru það formenn verkalýðsfélaga sem eru formenn stjórna lífeyrissjóða svo þið formenn verkalýðsfélaga verðið að fara sýna það að þið hafið hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi og fara að taka til innan lífeyrissjóðanna.
Eins og oftast er ég sammála þessu sem þú segir hér, Guðmundur. Ég hef því við að bæta, að meðal þeirra, sem hæst hafa um upptöku eigna lífeyrissjóðanna eru oftast launagreiðendur, sem svipað og Helgi í Góu vilja losna við þann útgjaldalið úr bókum sínum sem mótframlagið er. Hvað séreignarsjóðina varðar, þá notuðu bankarnir sér óreiðu undanfarinna missera - og það þekkjum við báðir - til að blekkja fólk til að koma þann sparnað til sín. Í staðinn var svo heildar lánapakka þessa fólks breytt í myntkörfulán. Þar með voru talin tiltölulega meinlítil lán þess hjá Íbúðalánasjóði. Það sem verra er, að jafnframt var þessu fólki gert að undirrita afarkosti um þennan sparnað sem m.a. fólst í því að ekki er hægt að snúa til baka nema með því að gefa eftir stóran hluta sparnaðarins. Þetta á alveg eftir að ræða í samfélaginu.
Bara minna á það sem ég hef reyndar margoft tekið fram hér á þessari síðu, að fjöldi verkalýðsfélaga er u.þ.b. 10 x fleiri en almennu lífeyrissjóðirnir.
Einnig að meðal stjórnarmanna kjörnum af launamönnum í almennu lífeyrisjóðunum eru menn sem ekki eru formenn í verkalýðsfélagi, ekki einu sinni í stjórn verkalýðsfélags.
Einnig má minna sjóðina sem reknir eru af bönkunum þar eru engir menn frá verkalýðsfélögum, einungis menn valdir af framkvæmdastjórnum bankanna.
Það sem er svo einkennilegt að það erusvo forsvarsmenn fyrirtækja sem ráðast að verkalýðsfélögum vegna reksturs lífeyrissjóða. Þeir snúa sér ekki að framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífs sem skipar helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna.
Einn þeirra skrifar ath.s. hér á þessari síðu og hefur einnig sent mér kostuleg bréf þar sem þungar ásakanir eru bornar á mig vegna sjóðs sem ég hef enga aðkomu að.
Ég vona að Guðmundur virði mér það á betri veg að ég komi smávegis inn á það sem Ágúst þessi Guðbjartsson segir hér um lífeyrissjóðina. Hann segist ekki hafa neitt traust til þeirra aðila, sem eru að reka stærstu lífeyrissjóði landsins. Gott og vel, ef hann er sjóðfélagi í einhverjum þessara sjóða, hefur hann væntanlega alla möguleika til að mæta á fundi þess sjóðs og koma fram með sínar athugasemdir. Hann segir einnig að verkalýðsfélögin hafi helming sæta í stjórnum lífeyrissjóða. Það er út af fyrir sig ekki rétt nema hvað varðar þá sjóði, sem eru byggðir upp á samningssviði verkalýðsfélaganna. Ég hef miklu meiri ótrú á því fyrirkomulagi, að Samtök atvinnulífsins skuli hafa lögbundinn rétt til að tilnefna helming stjórnarmanna þeirra sömu sjóða. Mótframlag launagreiðenda á móti sjóðfélagaframlagi er ekkert annað en hluti umsaminna launa. Það að atvinnurekendum sé með þessum hætti falinn vörsluréttur og í raun ráðstöfunarréttur á þessum hluta launa alls launafólks er í sjálfu sér mannréttindabrot og það alvarlegt. Það er mun meiri ástæða fyrir postula réttlætisins að berjast við þann illa draug en að gera athugasemdir við að stéttarfélög launafólks skipi fyrir hönd síns fólks stjórnarmenn sjóðanna.
ég verð nú að segja að þessi strákur sem gagnrýndi fjölmiðlana nefndi ekki eitt einasta dæmi um að fjölmiðlar hefðu brugðist... miðað við hvernig "fréttir" eru unnar á NEI er ekki skrítið að hann hafi undarlegar skoðanir á öðrum...
Er ekki verið að tala um að taka lán?
Doddi D
Lífeyrissjóðakerfið er hrunið. Færri og færri stunda vinnu. 4 af hverjum 9 stunda ekki vinnu. Með stöðugri fjölgun öryrkja munum við fljótlega sjá að innan við helmingur þjóðarinnar þarf með vinnu sinni að standa undir kostnaði velferðarkerfisins. Sú jafna gengur ekki upp. Menn eins og þú Guðmundur, verða einfaldlega að komst upp úr gömlu skotgröfunum svo þeir fái yfirsýn og skilning sem fleytir okkur áfram veginn.
Sjálfur er ég búinn að greiða í lífeyrissjóði í 30 ár. Ég á fimm börn og sé ekki hvernig hagsmunir mínir sem greiðanda í lífeyrissjóði geta staðið andspænis hagsmunum barna minna. Ég hef í raun fengið allt upp í hendurnar. Góða menntun, góða heilbrigðisþjónustu og fína vinnu. Á ég núna að standa stífur og heimta meira á meðan ég horfi upp á börnin mín hefja sitt lífshlaup bundin af skuldaklafa eldri kynslóða - klafa sem þau munu ekki komast undan svo lengi sem þau lifa? Menn hljóta að þurfa líta framhjá stífustu eiginhagsmunum og horfa til framtíðar.
Þetta snýst ekki lengur um regluverkið í hrundu kerfinu. Við þurfum pólitíska Salómonsdóma. Fólk sem hefur þol og þor en ekki sérfræðinga í ónýtu regluverkinu.
Arnþór. Grunnhugmynd núverandi lífeyriskerfis er sú, að hver kynslóð standi undir sinni framfærslu eftir að starfsaldri lýkur. Alveg öfugt við það kerfi, sem flestar stærstu þjóðir Evrópu nota, þ.e. gegnumstreymiskerfið. Í því kerfi eiga við ummæli þín. Ef þú notar núverandi lífeyriskerfi til að skuldajafna "skuldir heimilanna" sem svo eru nefndar, þá ertu að senda börnunum þínum reikninginn fyrir framfærslu þinni á elliárunum, hvort sem þau verða fleiri eða færri.
Það væri ágætt að Arnþór hætti að snúa orðum mínum á haus. Gera mér upp skoðanir og skjóta svo.
Gegnumstreymiskerfi sem er notað í sumum löndum Evrópu stefnir þeim í gjaldþrot á næstu árumþegar stóru árgangarnir koma út á lífeyrismarkaðinn. Um þetta hefur verið ítrekað fjallað hér á þessari síðu og hina stóru kosti sem íslenska lífeyriskerfið hefur.
En stjórnmálamenn hafa sett í hættu
“Grunnhugmynd núverandi lífeyriskerfis er sú, að hver kynslóð standi undir sinni framfærslu eftir að starfsaldri lýkur.”
Nákvæmlega! Þá þarf að svara því hvernig komandi kynslóðir munu standa undir sinni framfærslu eftir að þeirra starfsaldri lýkur og eftir að þær hafa greitt erlendar skuldir sem við skiljum eftir okkur.
Skrifa ummæli