mánudagur, 16. febrúar 2009

Kosningar til Stjórnlagaþings

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur mikið verið rætt að kjósa sérstakt stjórnlagaþing, óháð Alþingi og stjórnmálaflokkum, til þess að endurskoða núgildandi stjórnarskrá. Það virðist vera svo að stjórnmálamenn ætli sér að sniðganga áhuga almennings á þessu máli. Sú krafa kom fram strax í haust að almenningur vildi fá tilbaka það þjóðfélag sem byggt var upp á síðustu öld en hvarf í brjálæði frjálshyggju í lok síðustu aldar og á þeim árum sem liðin eru á þessari öld.

Almenningur vildi fá til baka þjóðfélag samhyggju, samkenndar og samtryggingar. Það er ríkið sem hefur brugðist í að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.Stjórnvöld hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för.

Stjórnmálamenn virðast hafa gleymt sér í því hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er. En hafa í stað þess komið fram sem hanar galandi á tildurhaugum markaðshyggjunnar. Þessir hanar eru búnir að glutra sjálfstæðinu á meðan hluti þjóðarinnar dansar ofsafengnum dansi kringum gullkálfinn og ákallar hann sem hin sönnu lífsgildi.

Allir eru sammála um að stjórnarskráin hafi verið unnin með hraði og sé alls ekki í samræmi við það þjóðfélag sem íslendingar vilji. Það á að kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing í vor og taka nú þegar á við umbætur á stjórnskipun landsins og koma í veg fyrir að stjórnmálaflokkunum takist að tefja málið og takast enn einu sinni að koma í veg fyrir að einungis útvalin flokkspólitísk sjónarmið komi að því að setja þjóðinni stjórnarskrá.

Tillögur um að kjósa til stjórnlagaþings samhliða alþingiskosningum og tryggja með því að stór hluti kjósenda taki þátt í kosningum til þingsins eru mjög góðar. Þar er réttilega bent á að núverandi ríkisstjórn hefur heitið því í verkefnaskrá sinni að á yfirstandandi þingi verði samþykkt lög um skipan og verkefni stjórnlagaþings.

Nú er einstakt tækifæri til þess að endurskoða hina úr sér gengnu stjórnskipun, slíkt tækifæri gefst ekki aftur í bráð.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einar:

Sammála. Ég vil fá að kjósa til stjórnlagaþings í vor.

Bendi á að sá kostnaður sem hefur verið nefndur 200mkr er líklega ekki nema um einn FIMMTUGASTI af því að klára tónlistarhús (sem ég vil gjarnan að klárist líka en þá kannski aðeins hægar).

Bendi líka á mjög góða úttekt hjá Eiríki Tómassyni þar sem hann m.a. fer yfir hvernig reynt verður að draga úr - nú er ekki rétti tíminn - þetta er of dýrt osfrv. http://www.visir.is/article/20090214/SKODANIR03/109686023

Nafnlaus sagði...

En hvernig stenst það breytingarákvæði stjórnarskrárinnar? Þar er það Alþingi sem breytir stjórnarskránni, þarf þá ekki að breyta breytingarákvæðinu á þann hátt að stjórnlagaþingið hafi einhverja heimild til þess að breyta skránni og Alþingi geti ekki verið að vasast í því. Án breytinga getur þingið væntanlega breytt þeim tillögum sem koma frá stjórnlagaþinginu og tilgangur þess missir marks.

Þarf því ekki að koma til breytinga á stjórnarskránni til þess að stjórnlagaþingið hafi heimild til þess að breyta henni? Breytingarnar þurfa svo að vera samþykktar af tveimur þingum og því kæmi þessi breyting aldrei í framkvæmd fyrir kosningar í apríl. Þá þarf einnig að setja einhver lög um starfshætti stjórnlagaþings, ekki viljum við að þeir setji sínar eigin reglur. Alþingi hefur eitt heimild til þess að setja fyrir þá reglur, er þeim treystandi til þess? Þá fyrst verður hægt að kjósa til þingsins. Ég er ekki að sjá að þetta verði allt klappað og klárt í vor miðað karpið sem fram fer á Alþingi þessa dagana.

Það þarf líka að vanda vel til verks og ekki fara í breytingar í einhverju óðagoti. Breytingarnar koma jú til með að grundvalla stjórnskipun landsins vonandi sem lengst.

Ég er alveg sammála því að það þarf að breyta til og flott mál að ráðamenn fái ekki að setja sér leikreglurnar sjálfir. En ef túlkun mín á stjórnarskránni er rétt, þá finnst mér það oft gleymast í umræðunni á meðal fólks að án breytinga á stjórnarskránni hefur Alþingi óskorað vald til þess að breyta stjórnarskránni og fyrst þarf að taka það af þeim svo þeir geti ekki vasast í breytingartillögum stjórnlagaþingsins. En þessar breytingar taka eflaust sinn tíma og því má velta því fyrir sér hvort krafan um stjórnlagaing í vor sé raunhæf.

Við megum ekki flýta okkur um of.

kv. Guðni