mánudagur, 31. ágúst 2009

Tíðarandinn

Það voru ýmsir, þar á meðal verkalýðshreyfingin, til þess að halda uppi mikilli gagnrýni á þróun efnahagslífsins síðasta áratug. Þar má benda á ályktanir og viðtöl í sambandi við kjarasamninga og endurnýjun þeirra, auk þess að margir fjölmiðlamenn reyndu hvað þeir gátu að fá svör við spurningum um þróunina. En það skorti gagnsæi og upplýsingagjöf hjá stjórnvöldum og stofnunum þess, sem torveldaði fjölmiðlum og almenningi að fylgjast með hvað var raunverulega á seiði. Þessu var ítrekað lýst hér á þessari síðu veturinn 2007 – 2008. T.d. (hér) og (hér) og (hér)

Nú er m.a. komið fram að ráðherrar héldu hjá sér viðamiklum skýrslum um þetta efni, sem sýndu að gagnrýnin átti fullan rétt á sér. Hækkun skuldatryggingaálags endurspeglaði vel álit alþjóðlegs fjármálamarkaðar á íslenska bankakerfinu. Þrátt fyrir þetta fengu forsvarsmenn bankanna aðstoð ráðherra og forseta landsins við að halda því fram að málið snérist um baráttu við óvinveitt öfl í útlöndum. Spilað var á þjóðerniskennd okkar, það er stutt í þá taug og stjórnmálamenn þar á heimavelli.

Í þessu sambandi er nægilegt að minna á dönsku gagnrýnina og viðbrögð ráðherra og forsvarsmanna viðskiptalífsins. En þess má einnig geta að almenningur hafði ekki mikinn áhuga á þessari gagnrýni. Það kom m.a. glögglega fram að þrátt fyrir að hagdeildir atvinnulífisins héldu því fram með góðum rökum að gengi krónunnar væri 30% of hátt skráð vegna þenslu og gríðarlegs innflutnings á erlendu lánsfjármagni og ofboðslegum viðskiptahalla. Góðærið væri í raun yfirdráttur sem einhvertímann þyrfti að greiða. Almenningur kaus frekar að hlusta á stjórnarþingmennina, sem nýttu hvert tækifæri til að halda því á lofti hvað allir hefðu það gott undir þeirra stjórn og þeir voru endurkosnir aftur og aftur.

Hin helkalda staðreynd er nú sú að íslendingar voru of uppteknir í neyslukapphlaupinu og vildu ekki hlusta á gagnrýnina, hún var óþægileg. Það gekk vel, mikill hagvöxtur og kaupmáttaraukning. Það var sakir gríðarlegrar skuldsetningar og fjárfestinga. Flestir höfðu hagsmuni af því að vöxturinn væri sem hraðastur og eignaverð hækkaði sem mest svo það stæði undir veðskuldbindingum vegna aukinna lána.

Aðdáunin á viðskiptasnillingunum var mikil og þar var spilað á þjóðarembinginn. Þrátt fyrir að allir vissu að við stjórn íslensks efnahagslífs og bankanna væri reynslulítið fólk. Gagnrýni á þróunina og athafnaleysi stjórnvalda var ýtt út af borðinu sem öfund og á það spiluðu ráðherrar og stjórnarþingmenn.

En sé litið umræðna stjórnarandstöðu þessa dagana þá er spilað á þjóðarstoltið og að allir séu svo vondir við okkur. Þau viðhorf gagnvart Íslandi sem ég hef heyrt erlendis endurspeglast ákaflega vel í ummælum hollensku fjölmiðlanna sem var farið yfir um helgina í fréttum og ég kom að í síðasta pistli þar sem ég vitnaði í ummæli sænskra fjölmiðla. Ég efast ekki eitt augnablik að þingmönnum sé fullkomlega ljóst hvaða kostir okkur standi til boða hvað varðar Icesave, á þeim forsendum er málflutningur sjálfstæðismanna og framsóknar á svo óendanlega lágu plani.

Ekkert vandamál er lagað nema hægt sé að græða á því. Það er eðli þess hagkerfis sem við búum við í dag, allt verður að skila arði eða hagnaði. Kerfið er varið af fólkinu sem ætti að stuðla að breytingum á kerfinu. Stjórnmálamenn eru kosnir á þing til að tryggja að allt héldist óbreytt. Einstaklingnum talið í trú með taumlausum auglýsingum, að hann skorti nánast allt og alið á græðginni.

Íslendingar eru skorpufólk, allt kemur í gusum. Það er hætta á því að í uppbyggingarstarfinu gleymist mistökin og umræður leiti í sama farið. Nú er rætt um að fjölga ferðamönnum um helming á næstu árum, auk þess að byggja fleiri álver og mörg gagnaver.

Það er í sjálfu sér ekki mikið vandamál að reisa nokkra verksmiðjuskála, en það er tilgangslaust nema að reistar séu allmargar virkjanir, uppistöðulón og borholur. Auk þess að leggja línur til þess að koma orkunni þangað sem á að nota hana. Það skortir umræðu um neikvæð áhrif á umhverfið og náttúruna. Eða þá ofboðslegu þenslu sem miklar framkvæmdir kallar yfir hið litla íslenska hagkerfi.

Erum við tilbúinn í annað þenslutímabil? Höfum við tamið okkur um of að vera litli bróðir og geta tekið það sem okkur finnst gott og þægilegt en láta öðrum eftir að standa struam af þeim kostnaði? Við verðum að gera allt til þess að koma í veg fyrir að við uppbygginguna að við stefnum að sömu örlögum og við okkur blöstu 2008. Það gerum við ekki í einangrun en verðum að velja samskiptaleið í stað einangrunar.

5 ummæli:

Blár sagði...

Heyrði ég þig tala um ábyrgð lífeyrissjóða landsins? Þeir eru undir stjórn verkalýðsfélaga að hálfu.
Að öðru leiti sammála þér um þennsluna. Landið þolir ekki þann fjölda ferðamanna sem kemur í dag. Ekki vegna átroðnings heldur vegna fjölmennis. Það gengur enginn Laugaveginn ef hann mætir ferðamanni í öðru hverju spori.
Björn S. Lárusson
Ferðamálafræðingur

Helga vala sagði...

Vel mælt - takk!

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Guðmundur sagði...

Sæll Sævar
Ég er búinn að svara öllum spurningum þínum margoft í fyrri pistlum um um lífeyrissjóðina og ætla ekki að endurtaka það hér.

Einkennilegt að tala um að sjóðir verkalýðshreyfingarinnar séu þurrausnir, ég veit ekki hvaðan þú hefur það. Lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna stendur ákaflega traustur, sá sem þurfti að lækka réttindi minnsta allra og er einn þeirrar sem stendur í forsvari fyrir að fjárfesta í uppbyggingu íslnesks atvinnulífs, þetta er í fjölmiðlum á hverjum degi.

Hvað varðar sértæka sjóði rafiðnaðarmanna þá standa þeir öflugir baki við atvinnulausa rafiðnaðarmenn og greiða fagtengd námskeið fyrir þá auk margskonar annarrar aðstoðar.

Úttaka á sjúkradagpeningum hefur aukist um 150% og sjúkrasjóður rafiðnaðarmanna standur vel undir því.

Þú ættir að vanda aðeins betur vinnu áður en fullyrðingar eru settar fram því þær falla marklausar í jörð hinna inntakslausu klisja um getuleysi verkalýðshreyfingarinnar sem röklausir menn grípa svo gjarnan til

Nú eru það þeir sjóðir sem einir standu uppi og eru lífæð þjóðarinnar. Sjóðir sem frjálshyggjan gerði hverja atlöguna að á fætur annarri og vilda afnema og leggja niður verkalýðshreyfinguna

Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.