miðvikudagur, 19. desember 2007

Ámælisvert áhugaleysi á efnahagsstjórn

Forysta launaþegasamtakannna ákváðu fyrir nokkru að skoða vel tillögur Vilhjálms Egilssonar framkv.stj. SA um krónutölu hækkun taxtakerfisins og launatryggingu, þá í því ferli að landssamböndin gætu haft meira samstarf um aðkomu að endurnýjun kjarasamninga. Niðurstaðan varð sú að ef markmið ættu að nást, væri það ekki nema eftir tveim leiðum. Sú fyrri að gera töluvert hærri kröfur um launakostnaðarauka fyrirtækjanna eða þá fara fram á aðkomu ríkisstjórnarinnar. Ef fyrri leiðin væri farin lægi fyrir aukinn hætta á hækkandi verðbólgu og vöxtum. Kaupmáttur myndi þá minnka og staða skuldsetra heimila versnaði.

Þessi niðurstaða var kynnt ríkisstjórninni þ. 12. des. ásamt þeim leiðum sem hagdeild ASÍ taldi færasta. Það var að stjórnvöld beitti sér í að dregið yrði úr skattbyrði þeirra tekjulægstu, vaxtabótakerfið yrði leiðrétt, staða barnafjölskyldna yrði treyst með því að hækka skerðingarmörk baranbóta og komið til móts við aukna greiðslubyrði húsnæðislána. Bætt yrðu menntaúrræði þeirra sem minnsta menntun hafa og lágmarks bótafjárhæðir velferðarkerfisins verði miðaðar við 150.000 kr.

Forysta samtaka launamanna vildi fá svör frá stjórnvöldum í byrjun þessara viku, þar sem það réði alfarið hvrot aðilar héldu áfram á þessari braut eða stilla þyrfti strengina upp á nýtt. Það væri launamönnum keppikefli að ná sem lengst í að ná saman samningum fyrir áramót. Það lá fyrir ef viðbrögð stjórnvalda yrðu neikvæð þá væri þessi tilraun tilgangslaus, og hvert samband myndi fara fram með sínar kröfur.

Það var ekki fyrr en seinni partinn í dag sem svör bárust frá stjórnvöldum. Þau vildu taka sér tíma fram yfir áramót til þess að bregðast við tillögum launaþegasamtakannna. Þá verði að öllum líkindum reynt að finna sameiginlegar leiðir til að ná markmiðum.

Um hádegi í dag var fundi forystumanna ASÍ slitið og menn ætluðu að fara að undirbúa samninganefndir til þess fara á byrjunareit. Það er eiginlega ekki hægt annað en að segja að áhugaleysi stjórnvalda á stöðu þeirra sem lakast hafa það á vinnumarkaði í dag og þá ekki síður virkri efnahagsstjórnun er ekki ásættanleg.

Það er svipað og flytja kirkjugarð að fá stjórnvöld í lið með launamönnum, innri aðstoð er ekki til staðar.

Engin ummæli: