miðvikudagur, 2. september 2009

Pattstaða

Menn deilir á um hvernig eigi að taka á skuldastöðu heimilanna. Það má skipta þjóðinni í þrjá hópa. Þá sem gerðu lítið nema þá að eiga fyrir því að mestu og skulduðu þar af leiðandi lítið eftir Þórðargleðina sem stóð frá 2005 – 2008.

Svo var hópur sem var að koma sér fyrir eða stækka við sig, gerðu það með þokkalegri varfærni fengu og létu duga að koma sér fyrir í húsnæði sem þeir sáu fram á að ráða við. Létu það ekki eftir sér að kaupa dýrustu gerð af nýjum og slepptu að fara í ferðir erlendis á meðan á framkvæmdum stóð. Þetta er fólk sem ræður við afborganir með ýtrustu varfærni og með því að neita sér um nánast allt.

Í þessum flokki get ég t.d. bent á fólk sem ég þekki allvel, það var að flytja á höfuðborgarsvæðið 2007, á þrjú börn, keypti sér 110 ferm íbúð í blokk og átti fyrir um 10% af kostnaði. Lét vera að endurnýja 2ja ára gamlan Subarú bíl, þrátt fyrir að ráðgjafi bankans teldi að þau gætu það vel og bauð þeim lán til þess og hvatti þau jafnframt að fara frekar í raðhús. Staða þessa fólks í dag er sú að skuldir hafa vaxið upp fyrir eignastöðu. Það er ekki í vanskilum og kemst áfram með frystingu hluta lána og með því að neita sér um allt, nema ýtrustu nauðþurftir

Og þá er það þriðji hópurinn. Ég þekki annað fólk á svipuðum aldri og ég fjallaði um í flokk 2, það er á svipuðum aldri og eiga líka 3 börn. En það er í þeim hóp að það réðst í byggingu á stóru einbýlishúsi og endurnýjaði bíla heimilisins. Það hefur varið reglulega í ferðir erlendis og gerir það enn. Það er með áskrift af öllum sjónvarpsrásunum, vegna þess að heimilisfaðirinn segist ekki sætta sig að geta ekki fylgst með öllum leikjunum. Þau voru og eru með heimilishjálp 2svar í viku og hafa ekki sagt henni upp. Aðspurð af vinkonum sínum hvernig hún teldi sig hafa efni á þessu, spurði hún á móti; „Ætlist þið virkilega til að allt sé óhreint heima hjá mér?“

Þetta fólk er með greiðslubyrði um milljón á mánuði sem er fjarri því að það ráði við. Það sakar stjórnvöld um að hafa svikið sig um aðstoð og hafnar alfarið að skipta um lífstíl, það hafi haft efni á honum en utanaðkomandi fólk hafi hrifsað hann frá því og það sé hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að þessu sé skilað til baka.

Nú er það svo að árið 2007 máttu flestir vita að krónan var 30% of hátt skráð og það var eignabóla í landinu, þó svo þáverandi stjórnarþingmen og ráðherrar höfnuðu þessari staðreynd að mestu. Í flestum fréttatímum undaförnum árum var umfjöllun um niðursveifluna sem myndi koma seinni hluta árs 2008. Stjórnarþingmenn og þáverandi ráðherrar ræddu um tiltölulega auðvelda snertilendingu, en andstæðingar þeirra veltu fyrir sér brotlendingu hagkerfisins. Engin spáði Hruninu. Í dag liggur það fyrir að þó svo Hrunið hefði ekki komið til, einungis „bara snertilendingin“ þá hefði fólkið í þriðja hópnum samt sem áður lent í óviðráðanlegum erfiðleikum. Þetta á við allmarga af þeim sem hafa haft hvað hæst í Silfrinu og á Austurvelli.

Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið má ætla að það séu einhversstaðar um fjórðungur þjóðarinnar sem er í vanskilum. Ég veit ekki hvort það fólk samsvari allt lýsingunni á þriðja hópunum. Ég hitti allmarga í starfi mínu og þar er áberandi að fólk í fyrri tveim hópunum sem segir að það sé algjörlega fráleitt að það ætli sér að fara greiða upp skuldir neðsta hópsins í formi hærri skatta næstu áratugina. Þetta fólk er miklum meirihluta félagsmanna og krefst þess einnig að lífeyrissjóðir þess verði ekki nýttir til þess að greiða upp skuldir annarra.

Þjóðfélagið er í pattstöðu og hún er erfið staðan sem núverandi ráðherrar tóku við af fyrir ríkisstjórnum. Gylfi viðskiptaráðherra lýsti þessu ágætlega í viðtali nýlega. Þar sagði hann háa útlánsvexti og ekki síður skort á því að fyrirtæki og einstaklingar vildu taka lán til framkvæmda. Þar er mikið af lausu fé sem enginn vildi taka að láni sama gildir um lífeyrissjóðina. En hér er eina leið okkar það er menn öðlist trú á íslensku efnahagslífi.

Það verður að segjast eins og það er að ekki hafa stjórnmálamennirnir aukið á trúverðugleika sinn undanfarna mánuði, þar sem þeir hamast í sínum stöðluðu leikjum þar sem markmiðið er að koma höggi á andstæðinginn og tefja þar með fyrir allri vitrænni umræðu. Ekki batnar það með hinum ómerkilega málflutning að hægt sé að þurrka út Icesave skuldirnar. Það er eitt af því allra ómerkilegasta sem stjórnmálamenn gera í yfirboðum þar sem vaktar eru væntingar hjá almenning sem útilokað er að standa við.

Það er klárt að þjóðfélagið og skattgreiðendur hafa einfaldlega ekki efni á flötum niðurskurði, það er að segja af þeirri stærðargráðu sem hann þyrfti að vera. Menn grípa ekki úr himinblámanum peninga til þess að greiða það, það lendir með beinum eða óbeinum hætti á skattgreiðendum.

Ég hef bent áður á leiðir sem ættu að vera til athugunar, það er endurreisn vaxtabótakerfisins. Fyrri ríkisstjórnir eyðileggðu það með því að láta eignastuðla standa kyrra og nánast þurrka út vaxtabætur á suðvesturhorni landsins með því. Það væri hægt að endurskoða vísitölur og endursetja þær við útreikninga lána í ákveðið tímabil. Það myndi leiða kostnað yfir íbúðarlánasjóð sem ríkissjóður þyrfti að greiða. En hvað varðar lán lífeyrissjóðina til sinna sjóðsfélaga væri sá kostnaður viðráðanlegur vegna þess að það gengi á báða bóga, hvað varðar verðtryggingu lífeyrisgreiðslna og lána.

Þar til viðbótar ætti að skoða barnabætur. aða þessu samanlögðu væri hægt að skapa svigrúm til þess að bjarga miklu. En það breytir ekki neinu um það að nokkrir verða að breyta sínum lífstíl. Það höfum við svo sem nokkrum sinnum þurft að gera. Ég bendi t.d. á tímabilið 1984 framundir 1990, þá var ég að byggja og við þurftum að láta okkur nægja 10 – 15 ára bíla og spara allt.

Fjármálaráðherra hefur sagt undanfarna daga veturinn verði erfiður. Hann er ekki einn um það, um það hefur einnig talað sá hagfræðingur sem ég tek mest mark og hefur verið oft nálægt því að segja rétt til um hvað muni gerast, það er Ólafur Darri hagfræðingur ASÍ, hann segir að það séu engar töfralausnir til. En ef við ætlum að komast upp þessu verðum við að koma atvinnulífinu í gang og ná trausti inn á við og ekki síður út á við.

21 comments:

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála.

Þó vil ég spyrja; hvað á að gera fyrir hóp 1 og 2 í upptalningunni þinni?

Hópur 2 á rétt til hnífs og skeiðar með lán í frystingu, en hvað á þessi hópur að gera þegar frystingunni lýkur ? (frystingin "þiðnar" á næstu misserum í flestum tilvikum)

Alveg er ég 100% viss um að þessi hópur vill ekkert frekar en að losna við bílana sína, og færa sig yfir í 10-15 ára gamla bíla - skuldlausa. Sömuleiðis er ég viss um að stærsti partu þessa hóps myndi sætta sig við að troða krökkunum sínum saman í eitt herbergi - bara til að losna undan skuldafangelsinu sem þetta fólk er komið í. Flestir gera sér grein fyrir að lífið snýst ekki um íbúðir og bíla. Lífið snýst hins vegar að hafa það nokkuð gott - t.d. að eiga fyrir mat og þannig, og að geta haft frekar litlar áhyggjur af pennaveskjum og frístundum barnanna.

Utanlandsferðir og þannig óþarfi mega líka bíða betri tíma, en ég spyr aftur, og vil heyra stjórnendur þessa lands svara trúverðuglega, hvað á að gera þegar frystingin er búin hjá risastórum hópum barnafjölskyldna þessa lands ???

Við getum bitið í skjaldarrendur og haldið áfram að borga, en til að eiga fyrir því þarf a.m.k. 30-60% launahækkun (og það er varlega áætlað) á línuna !!!!!!

Á meðan ég er sammála að það er ekki bara óréttlátt að skera hóp 3 úr snörunni - þá er það bara óréttlátt að láta hóp 1 og 2 hanga í henni.

Hvað leggur þú til ráða að verði gert ??? Nú munu lánin taka annan kipp upp á við meðfram verðbólguskotum sem eru afleiðing sykurskatts og fleiri snilldarmúva stjórnvaldanna okkar!

kveðjur,
H.B.

Nafnlaus sagði...

Þú hittir þarna naglann á höfuðið Guðmundur. Ef skuldum óreiðufólksins verður velt yfir á komandi kynslóðir mun það valda siðrofi í þjóðfélaginu.

Því miður virðast stjórnmálamenn ekki þora að taka á þessu og segja sannleikann. Þessi gullna setning frá síðasta hausti á vel við: "Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna".

Jónas Kristjánsson orðar þetta líka vel (jonas.is):
"02.09.2009
Hús fyrir engan pening

Bubbi Morthens byggði sér hús í Kjósinni fyrir sextíu milljónir án þess að eiga pening. Getið þið skilið hvers vegna?

Hann tók gjaldeyrislán fyrir kaupunum, því að vextir voru lægri en á krónulánum. Gengisáhætta kom í stað vaxtamunarins. Hann valdi gengisáhættuna. Getið þið skilið hvers vegna?

Þetta fáránlega lán er nú komið í hundrað milljónir. Bubbi kallar þetta svívirðilegt óréttlæti. Ég kalla það svívirðilegt óréttlæti að heimta að verðandi skattgreiðendur, barnabörnin mín, borgi rugl Bubba. Sumir eru svo forstokkaðir, að þeir sjá bara skömm hjá ráðherrum, en ekki hjá sjálfum sér."

Jón Guðmundsson

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur það þarf að gera eitthvað fyrir fólkið í landinu. Þannig ég held að skrúfa vísitöluna niður er það sem ég held að virki og sama þarf að gera með erlendulánin.Og það hjá öllum það munu einhverjir fá lækkun sem þeir þurfa ekki á að halda, enn þeir sömu munu þá hafa meiri peninga á milli handa til að eyða í viðhald eða eitthvað annað. Staðan einsog hún er í dag gengur ekki og það þarf að koma hagkerfnu aftur af stað. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Verðtryggingin er dauðarefsing íslendinga. Í staðinn fyrir beina dauðadóma höfum við verðtrygginguna. Það er því rangt að halda því fram að dauðarefsing sé ekki til staðar í Íslandi. Þar spila lífeyrissjóðirninr stórt hlutverk - sem krefjast þess að verðtryggingu skuli viðhaldið - þótt hún valdi óhemju mannlegum harmleik í þjóðfélaginu. Allt í nafni þess að lífeyrissjóðirnir ávaxti sparifé iðgjaldagreiðenda - sama hvað það kostar.

Dæmið sem þú tekur er ágætt. Það er hinsvegar öfgakennt. Fullt af venjulega fólki var ráðlagt að taka hófleg lán til íbúðakaupa, hvort sem er verðtryggð eða erlend lán. Þess lán hafa stórhækkað eins og allir vita vegna glæfra- og jafnvel glæpastarfsemi bankanna og annarra fjármálastofnana. Á fólk sem tók lán að taka sérstaka ábyrgð á svikastarfsemi bankanna?

Það var í lagi að moka 250 milljörðum til þeirra sem stunduðu áhættujárfestingastarfsemi í nafni peningamarkaðssjóða - til að tryggja að þeir tapi ekki krónu. Það má hinsvegar ekki hjálpa skuldurum sem á sérstaklega að notfæra til að borga fyrir glæpaverk bankanna. Svei þessu þjóðfélagi. Það er ömurlegt til þess að vita hvað hér þrífst mikil mannfyrirlitning og kúgun.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur.

Þú gleymir þeim sem eiga húsnæðislánin hjá fólki og gerðu glæpsamlegan verknað !
Þegar þeir voru búnir að gera samningin við fólkið, fóru þeir og tóku til við að gamla með eða móti krónu, og gamla með hlutabréf svo þeir gætu veðsett fyrir meiri yfirdrætti , sem á endanum gerði það að verkum að fólkið er að borga fyrir þá ICESAVE skuldir með öllu öðru !

Unknown sagði...

Þetta er algerlega fáránlegur málflutningur.

Eflaust geturðu fundið fólk í þriðja flokknum. Mig grunar reyndar að það séu svo fáir að þú ættir bara að nafngreina þá...getur verið að þetta séu starfsmenn stéttarfélags?....nú eða stjórnarmenn í lífeyrissjóð?

Og eflaust finnurðu einhvern í fyrsta flokknum. Líklega er það eldra fólk, fólk af sömu kynslóð og fékk lán án verðtryggingar og er því orðið skuldlaust í dag.

Horfðu nú á vini þína í öðrum flokknum. Gerðu þér í hugarlund að annað hafi misst vinnuna og hitt tekið á sig 10% kjaraskerðingu. Hugsaðu útí það að frysting afborgana var bara í boði til 6mánaða og sá tími er liðinn og engin "frysting að hluta" í boði heldur svokölluð greiðslujöfnun sem lækkar afborganir um ca. 15% en bætir öðru ofaná höfuðstól. Ímyndaðu þér síðan að rekstur heimilisins hafi hækkað um 20%. Láttu það síðan flögra að þér að íbúðin þeirra hefur lækkað um 20% um leið og lánið hækkaði um 20%. 10% sem þau áttu eru ss. uppurin og þau komið í mínus sem nemur 30%.

Þegar þú ert kominn svona langt í hugarfluginu þá ertu kominn á sama stað og 20.000 manns á Íslandi standa frammi fyrir í raun og veru. Og þessi hópur fer stækkandi.

Og svo að lokum þá geturðu þér til skemmtunar reiknað út hverjir skattarnir þínir verða þegar þetta fólk hefur gefist upp, hætt að borga íbúðarlánasjóði, lífeyrissjóðunum og bönkunum, er flutt úr landi og er farið að greiða skattana sína annars staðar.

Ætli þú myndir ekki bara elta það ?

Nafnlaus sagði...

Góð greining. Það eru svo margir búnir að afgreiða sjálfa sig þannig að þeir séu hinir einu sem málið snúist um eins og t.d. þessi sem var í Kastljósinu í kvöld. Og ræðst svo eins svo margir á verkalýðshreyginuna með afkáralegum ásökunum

Nafnlaus sagði...

Vel mælt - eins og svo oft

Nafnlaus sagði...

Sammála þér í öllu með þessa hópa,og það er rétt hjá þér að Ólafur Darri er mjög trúverðugur ,og grundvallaratriði er að koma atvinnulífinu af stað,og engar törfalausnir fyrir skuldara sem er rétt.

Tor Nilsen sagði...

Mæltu manna heilastur Guðmundur. Það er orðið langt síðan maður hefur séð á "prenti" vitræna úttekt á vandanum.

Handa Magnúsi hér að ofan langar mig að skilja eftir þá pillu að ég (í kringum fertugt) og margir minna vina, kunningja og ættingja eru í flokki 1. Sumir (ekki svo margir þó) eru í flokki 2, en sýnu fleiri í flokki 3 en í flokki 2.

Og þar kreppir einmitt skóinn - fólk sem hefur verið á slík óráðssía að það sér ekki lengur að það er sjálft orðið hluti af vandanum.

Hvað lausnir varðar, þá er erfitt að koma með nokkuð sem hæfir öllum hópum. Ef við færum sænsku leiðina myndi rúmur þriðjungur þjóðarinnar enda í skuldafangelsi (vondur kostur þar sem við getum varla fengið gjaldeyri fyrir númerplötur og hellusteina), en það er spurning hvort það að halda allri þjóðinni í fangelsi skulda sé nokkuð betri...

Það má kannski segja að texti Súkkat „Vont en það venst“ sé svolítið lýsandi fyrir íslenskt þjóðfélag. Kaninn - vont en það venst. Uppgangur - vont en það venst. Álverin - vont en það venst. Gjálífi íslendinga - það er vont, en það venst líka. Og fall bankanna, já þá er það svo sannarlega vont - og fer versnandi.

Nafnlaus sagði...

Erum við Íslendingar siðblindir almennt? Það er eitthvað brogað þegar venjulegt fólk og ráðherrar og formenn verkalýðsfélaga eru farnir að flokka skuldara sem ábyrga (tóku ekki myntkörfulán eða keyptu bíl eða flatskjá) og óforbetraða ( fjárfestu glannalega). Í gamla daga lánaði bankinn þér ekki nema þú værir traustur og lánshæfur. Með verðtryggingunni er bankinn tryggður í botn þannig að allir fengu það sem þeir vildu og helst meira.Þegar menn eins og Guðmundur Gunnarsson eru farnir að flokka skuldara sem óráðsíu-lántakendur þá eru menn búnir að snúa hlutunum á hvolf.Það er bannað að nauðga konum hvort sem hún klæðist gleðikonulega eða nunnukufli.
Spurningin er hvort bankarnir rændu skuldara? Hver er ábyrgð bankans? Farsinn sem var í gangi allt síðasta ár var ekkert annað en glæpur. Við vorum öll vitni að því; Eftir að skuldatryggingarálag bankanna fór upp úr öllu valdi erlendis þá voru góð ráð dýr.

Icesave er útlendi hlutinn. Hér heima fór í gang rán á Íslendingum. Við munum hvernig farið var að tala um útlendinga sem væru að gera áhlaup á krónuna. Var nokkrum sinnum talað um að heimsfrægir skortstöðu-gamblerar væru á Hótel 101 að véla um krónubrask. Þetta gekk svo langt að Davíð (þóttist setja í gang?)setti í gang rannsókn. Bankarnir neituðu að þeir væru nokkuð að fikta í stöðutöku gegn krónunni. Einn sagði; Við myndum aldrei gera okkar kúnnum það. Það er mín skoðun að allt síðasta ár hafi Davíð og Geir litið svo á að vandi bankanna verið svo stór að hann væri orðinn vandi stjórnarinnar. Þessvegna var látið óáreitt að bankarnir tækju inn gífurlegan gengishagnað (og felldu þannig krónuna) ársfjórðunglega. Gjaldeyriskrimmar á Hóteli og hótanir Davíðs um að finna hverjir væru að ráðast á krónuna var bara smokescreen.
Bankarnir rændu alla skuldara. Það er ekki rétt að dæma fólk sem í góðri trú skuldsetti sig í topp: Það vantaði jú hvorki hagfræðinga, ráðherra eða "þjónustufulltrúa" sem allir töluðu um sterka stöðu, álagspróf osfrv.

Þegar Vestmanneyjagosið rústaði byggðinni, hús og bíla..hvernig bætti Viðlagasjóður tjónið? Flokkaði hann tjónþola eftir ríkidæmi fólks?

TH sagði...

Guðmundur.
Gerir þú þér ekki grein fyrir þeim breytingum sem eru að verða á kjarabaráttu launafólks?
Þetta snýst ekki lengur um launahækkanir upp á 5 þ.kr. þegar afborganir af lánum hækka um 50 þ.kr. og höfuðstóll lána rýkur upp. Þá er ekki verið að tala um erlend lán.
Þú ert fínn pistlahöfundur og allt það en ættir að hugleiða að skipta um starfsvettvang ef þú sérð ekki lengur raunveruleg tækifæri til kjarabóta fyrir umbjóðendur þína. Við höfum nefnilega hvorki efni á úrræðalausum verkalýðsleiðtogum né pólitíkusum.

Nafnlaus sagði...

Loksins heyrðist eitthvað sem vit er í. Það er svo einkennilegt að þegar þið verkalýðsforingjarnir samþykkið ekki umorðalaust það sem háðavaðaseggirnir kalla, þá eruð þið umsvifalaust dæmdir sem andstæðingar allra í landinu, því það séu þeir sem hafa hæst í athugasemdakerfinu viti sannleikann og þeir sem mótmæli þeim eru á rangri braut

dabs sagði...

Bara eitt smáatriði sem er fyrir utan eiginlegt efni pistilsins: hugtakið Þórðargleði er notað um það þegar maður gleðst yfir óförum annarra. Hið ofnotaða nafn Hrunadans myndi líklega passa betur við tímabilið sem þú nefnir, en þó eru örugglega til betri nöfn.

Guðmundur sagði...

Mið langar að benda á eitt atriði vegna ummæla hér í aths. Það sem við heyrum á fundum og í samskiptum við félagsmenn af því drögum við athugasemdir og eftir því störfum við, allavega þeir starfsmenn stéttarfélaga sem ég hitti. Ef við gerðum eitthvað annað þá fengjum við örugglega að heyra það.

Annað mig langar líka til þess að benda á þær tölur sem hafa komið fram opinberlega um stöðu fólks.

Þriðja, það hefur komið fram hér í pistlum að það gangi ekki lengur það sem gert (eða kannski frekar það sem ekki hafi verið gert) og úr því verði að bæta. En menn verði einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir, ekki óskhyggju, það hjálpar engum. Og enn síður að ausa svívirðingum yfir fólk sem ekki er tilbúið að taka þátt í þeim sjóhverfingum. Enda bjóða þær ekki upp á neinar lausnir, nema kannski fyrir lýðskrumara um að komast í Kastljósin

Nafnlaus sagði...

Talandi um hugmyndir nú þarf að hugsa út fyrir kassann.
http://www.vald.org/greinar/090826.html

Ekki vitlausara en hvað annað...

Kveðja.
Sævar Smárason

Héðinn Björnsson sagði...

Ég held að það skipti mestu máli að koma í veg fyrir að fólk lendi í skuldafangelsi og gefa fólki tækifæri á að byrja upp á nýtt með tvær hendur tómar. Þess vegna held ég að frumvarp Lilju Mósesdóttur um að fólk geti skilað inn húsnæði sínu sé það sem sé líklegast til að halda friðinn í samfélaginu og til að hleypa hagkerfinu aftur í gang og bjarga þeim verpmætum sem til eru í íslenska þrotabúinu.

Verði það ekki gert mun verða þúsundir nauðungarsala og mikið af þeim útburðum verða varin af skuldurum gegn sýslumanni og þá munið þið sjá ástandið fara í hnút sem erfitt mun verða að leysa. Hér eru engin tæki til að bera fólk út gegn vilja nokkur hundruð vopnaðra manna.

Betra er heilt en vel gróið og það er því til mikils að vinna að forða rofi á friðnum á Íslandi.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Nafnlaus sagði...

Enn eitt virðist gleymast í umræðuni er það að þessir billegu lausnir með launalækkun til launþega skila sér bara í lægri skatt tekjum. Og þá verður að hækka skatt enn meir og það mun auka á kjarskerðingu. Enn með lífeyrissjóðina að þá á nú ekki að þekkjast hærri laun enn um 1500 þúsund á mánuði, og þá til framkvæmdastjóra og þá auðvitað lægrilaun til undir manna. Tímar ofurlauna eru bara liðnir.Og ef okkur fækkar kanski um 9 % og kaupmáttur minkar meir þá með hærri sköttum og hærra vöruverði. Þá heldur fólki bara áfram að fækka og verður það mentað fólk sem fer fyrst. Kv Simmi

Unknown sagði...

Þetta eru góðar og gildar vangaveltur og það er í raun enginn rétt leið.

Það er ljóst að:
- Forsendubrestur átti sér stað. Fjármagnseigendur og aðrir meðreiðarsveinar settu þjóðina á hausinn og eftirlitið brást algjörlega.
- Fjármagnseigendur hafa fengið væna dúsu frá ríkinu í formi innspýtingar í peningamarkaðssjóði og ráða lánamarkaðnum. Lántakendur þurfa einir að bera uppi skaðan.
- Útrásarvíkingarnir sleppa eða gera sig gjalþrota. Baugur, Björgúlfur og Magnús Þorsteins skilja eftir sig um 500 milljarða gjaldþrot.

Eftir stendur fátæk og skuldsett þjóð með ónýtan gjaldmiðil, því það verða tugir ára þar til að við getum staðið við ERM skilyrðin um upptöku evru.
Það eru yfir 500 milljarðar á ofurvöxtum og verðtryggingu inni í kerfinu sem bíða eftir að meiga fara út. Enginn tekur lán sem leiðir af sér að núverandi bankar fara fljotlega aftur á hausinn.

Eftir stendur fólk sem treysti kerfinu en getur ekki treyst því lengur.

Ég get:
Tekið þátt í þessu og reynt að gera mitt besta, en það verður ekki nóg.
Gert mig gjaldþrota og losað mig við skuldir mínar eða þá farið í frjálsa nauðasamninga.
Ég get tekið mig og mína fjölskyldu burt og flutt í burtu. Ég kom landinu ekki í kaldakol, það voru aðrir.

Hvaða þjóðfélagsmynd viltu sjá 2015?
Viljum við að fólkið á mínum aldri með góða menntun sem fór varlega (flokkur 2) séu farin? Margir í mínum geira ætla að sjá til í vetur, ef þetta lagast ekki, fer þessi kynslóð í burtu.
Þetta er bláköld staðreynd sem enginn nennir að hugsa um.