sunnudagur, 30. desember 2007

Flopp ársins

Í kosningabaráttunni var eins og stjórnvöld skömmuðust sín fyrir þróun efnahagsmála. Þekkt er að þeir hafa í stórblöðum erlendis hrósað sér af því að hafa haft sjónarmið Frjálshyggju að leiðarljósi við mótun efnahagsstefnu á Íslandi og náð lengra en önnur ríki. En hér heima vilja þeir hinir sömu alls ekki kannast við árangur sinn, en reyna með innflutning á helstu spámönnum frjálshyggjunnar slá ryki í augu okkar. Samfara þessu voru ritaðar raðgreinar í blöð þar sem staðreyndum var snúið á haus og þeir menn sem sýndu fram á hver efnahagsþróunin var hér í raun og veru voru nýddir niður með persónuróg og þeir kallaðir ónöfnum.

Prófessorarnir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason sýndu með haldgóðum rökum að kaupmáttaraukning hafi verið ójöfn. Einnig hefur kom fram rannsókn þar sem þriðji háskólaprófessorinn Ragnar Árnason sýndi fram á að ekki sé við kjarasamninga á vinnumarkaði að sakast í þessum efnum. Laun hefðu hækkað jafnt upp allt kerfið og lægstu laun jafnvel fengið ívið meiri hækkun.

Á sama tíma drógu stjórnvöld markvist úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins með því að lækka persónuafsláttinn. Leggja hátekjuskatt niður og lækka tekjuskatt með flatri lækkun sem þýddi vitanlega að þeir tekjuhæst fengu umtalsvert meiri skattalækkanir en hinir tekjulægri. Skattur af fjármagnstekjum er hafður lægri en af öðrum tekjum, sem leiðir til þess að vaxandi hópur tekur ekki þátt í rekstri samfélagsins. Markvisst hafa stjórnvöld ekki látið skerðingarmörk bótakerfisins fylgja verðlagsþróun. Það hefur leitt til þess að meðan skattar hinna tekjuhæstu lækkuðu umtalsvert voru hinir lægst launuðu sem áður voru skattlausir farnir að greiða skatt. Ákvarðanir stjórnvalda um frítekjumörk og skerðingarákvæði stjórnvalda hafa sett fátækt fólki hér á landi í mun erfiðari stöðu.

Í þessum könnunum kom fram að það eru ákvarðanir stjórnvalda sem hafa haft mest áhrif á kaupmátt þeirra lægstlaunuðu. Nær öll vestræn ríki hafa aukið jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna, en íslensk stjórnvöld hafa farið í öfuga átt. Jöfnun með sköttum og bótakerfi velferðarkerfisins hér á landi hefur minnkað. Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep. Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi.

Stjórnvöld breyttu vaxtabótakerfinu þannig að umtalsverður hópur ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu fær ekki þær vaxtabætur sem það gerði ráð fyrir þegar það keypti sína fyrstu íbúð. Barnabætur hafa auk þess lækkað. Allt þetta eykur ójöfnuð enn frekar og bilið milli allra þrepa tekjustigans.

Á sama tíma bættu stjórnmálamenn hag sinn svo um munaði. Samkvæmt útreikningum hagdeildar SA má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar.

Hér má vitna til kenningar Altúngu að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er það vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð ádrepa um ranglæti stjórnvalda - - sem ganga beint gegn yfirlýstum markmiðum um aukinn jöfnuð og ríflegar hækkanir fyrir "þá sem minna mega sín" . . .

Nafnlaus sagði...

Enn og aftur: Ætla alþingismenn ekki að þrífa upp eftir sig eftirlaunasvínaríið?

Steingrímur Joð, Guðjón Arnar, Össur, Geir og Pétur Blöndal?

Hverra hagsmunir ráða því að svo einfalt mál situr á hakanum? Eru það almannahagsmunir?

Af hverju taka stjórnarflokkarnir ekki af skarið? Því tekur Þingvallaparið ekki til hendi við skúringarnar?