miðvikudagur, 12. desember 2007

Efnahagslegt jafnvægi umfram allt

Í tillögum ASÍ gagnvart stjórnvöldum kemur m.a. fram að gert verði ráð fyrir sérstökum persónuafslætti fyrir fólk með lægri tekjur en 300 þús kr. Þetta er útfært þannig ekki verði greiddur skattur af tekjum undir 150 þús. kr. og afslátturinn lækkar svo þar til 300 tekjum er náð, þá hverfur hann.

Einnig er lagt til að skerðing barnabóta verði hækkuð verulega eða í 150 þús. kr. Þessar aðgerðir myndu kosta ríkissjóð um 14 milljarða króna og lagt til að þær dreifist á 3 ár.

Svo ótrúlegt sem það er nú þá hafa ríkisstjórnir undanfarinn ára markvisst lækkað skerðingarmörk í barnabótakerfinu og í dag hefst skerðing á barnabótum við 90 þús. kr. tekjur. Ef samkomulag næst við ríkisstjórn um þessar aðgerðir þá aukast ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn, sem eru samtals með 300 þús. kr. laun á mánuði, um 40 þús. kr. á mánuði.

Sjálfstæðismenn hafa alfarið hafnað því að að sett verði fjölþrepa skattkerfi og er verkalýðshreyfingin með þessu að fallast á þau sjónarmið. Það liggur fyrir þjóðarsátt um að leiðrétta sérstaklega kjör þeirra sem eru á lægstu launum. Ef það yrði gert með því að hækka einvörðungu laun, þá þyrfti launahækkunin að vera svo mikil, að það myndi leiða til hratt vaxandi verðbólgu og launahækkanir myndu hverfa út um gluggann á skömmum tíma, eins og þær gerðu hér á árum áður og kaupmáttur standa í stað eða minnka.

Með því að spila saman ofangreindum skattaaðgerðum og 20 þús kr hækkun lægstu taxta, eins og SA hefur lagt til, og svo launatryggingu fyrir þá sem hafa ekki orðið fyrir barðinu á launaskriði umfram umsamdar launahækkanir. Þá er hægt að ná þessum markmiðum án þess að verðbólga fari úr böndum.

Að auki má benda á að kjarasamningar stórra láglaunahópa hjá hinu opinbera munu renna út í marz og skattaaðgerðirnar munu ekki síður létta á þeirri glímu. Það verður spennandi að sjá hvort þingmenn hafi verið að tala í alvöru við kosningar í vor og í spjallþáttum undanfarið, þegar þeir hafa haft í frammi miklar yfirlýsingar um nauðsyn sérstakra hækkana lægstu launa. Það þarf ekki mikla stærðfræðinga til þess að sjá að það þyrfti umtalsverða launahækkun til þess að ná sama árangri og lagt er til hér að ofan með samtvinnuðum skattalækkunun neðstu laun og krónutölu fyrirtækja á lágmarkstaxta.

Sé litið til væntanlegs útgjaldaauka hins opinbera við kjarasamninga opinberra starfsmanna, þá má ná ætti sömu niðurstöðu með mun minni kostnaði fjármálaráðherra og sveitarstjórna.

Eins og ég hef komið að í fyrri pistlum, gerir mikil launahækkun nákvæmlega ekkert, ef hún er hirt daginn eftir í verðbólgu, það er kaumátturinn sem skiptir máli. Til viðbótar færu allmörg heimili endanlega á hausinn ef verðbólga verður mikil og vextir hækka. Spilastokkurinn liggur hjá ríkisstjórninni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill! En gengur ASÍ bónleitt til búðar?

Sjá blogg http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/389477/

Kveðja
Hallur Magnússom