miðvikudagur, 2. desember 2009

Atvinnuleysistryggingar

Nýtt frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar endurspeglar þá skoðun höfunda að rót vaxandi atvinnuleysis sé að finna í offramboði á atvinnulausu fólki sem hafni staðfastlega glæsilegum og vellaunuðum atvinnutilboðum. Megininntak þessa frumvarps er áhersla á refsingu og hafa höfundar samið 12 nýjar greinar þess efnis.

Sú mynd blasir við að höfundar þekkja ekki til á almennum vinnumarkaði og þau lögmál sem þar ríkja. Líklega er hér á ferð einstaklingar sem hafa verið í öruggu atvinnusambandi á opinberum vinnumarkaði.

Höfundar skilja ekki þann vanda sem við er að etja og á hvaða villigötum Vinnumálastofnun er, sem ræður engan veginn við sín verkefni. Þeir ætla sér ekki að taka á vanda kerfisins, frekar á að ráðast á það ólánsama fólk sem er svo ósvífið að mati höfunda að verða atvinnulaust.

Oft eru í boði umfangsmikil og kröfuhörð störf, en það endurgjald sem í boði er, eru lágmarkslaun og ógreidd sú vinna sem ekki næst að ljúka í dagvinnutíma. Þetta þekkja höfundar greinilega ekki. Höfundar þekkja heldur ekki þá ósk fólks að geta farið fyrr af vinnumarkaði og rýmt til fyrir yngra fólki með því að geta tekið út hlutabætur samfara séreignarsparnaði t.d. eftir 63 ára aldursmark.

Höfundar eru því andsnúnir að atvinnulaust fólk geti sótt sér aukna menntun, það eigi frekar að sitja heima. Ómerkileg er sú meðferð sem fólk á hlutabótum fær, það missir réttindi eins og það sé á fullum bótum. Á þetta hefur verið ítrekað bent en höfundar frumvarpsins hafna því alfarið.

Öllu samráði við stéttarfélög og trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði er hafnað og í fyrsta skipti síðan lýðveldið var stofnað hafnar Félagsmálaráðuneytið því að bera lagafrumvarp undir aðila vinnumarkaðs áður en það er lagt fram á Alþingi.

Farinn er þekkt leið stjórnvalda að gera tilraun til þess að stýra umræðunni með því að leka í fjölmiðla völdum upplýsingum. Hér má t.d. benda einkennilegan fréttaflutning af starfsemi atvinnuleysistryggingasjóðs. Hann beinist ekki að vanda atvinnulauss fólks. Það liggur fyrir að það eru fyrirtækin sem fjármagna atvinnuleysistryggingarsjóð og væri einkennilegt ef fulltrúar fyrirtækja og launamanna komi ekki að stjórnun þessara verkefna.

Eftir stofnun Vinnumálastofnunar hafa stjórnvöld ýtt mörgum verkefnum sem áður voru fjármögnuð úr ríkissjóð yfir á atvinnuleysistryggingarsjóð og fréttamenn ættu að fara aðeins betur ofan í þær upplýsingar sem lekið var til þeirra.

Engin ummæli: