sunnudagur, 20. desember 2009

Nóg eiga þeir af aurnum

Ég er búinn að vera mikið á flakki með félagsfundi út um allt og hef hitt um 300 félagsmenn undanfarna daga. Ég hef komið að því áður, en sú umræða sem maður heyrir meðal fólksins er um margt á allt öðru plani en dregið er upp í fjölmiðlum og spjallþáttum. Fólk sækir til síns stéttarfélags eftir ráðum og aðstoð. Þar ríkir ekki stríðsástand eins og ætla mætti, sé litið til ummæla sem fram hafa komið. Fram fer málefnaleg umræða og raunsæ markmiðssetning.

Viðhorf til Alþingis meðal almennings einkennist af litlu trausti, sem er afleiðing vinnubragða og framgöngu þingmanna undanfarið ár. Það er reyndar svo komið að fólk segist vera hætt að fylgjast með störfum þingmanna, hafi annað þarfara að gera við tíma sinn. Svona ástand ætti í reynd að vera uppgripstímar fyrir þingmenn og almenningur bar miklar væntingar til þeirra.

Verkefnin blasa við um allt og stjórnmálamenn ættu að finna sig í að taka höndum saman um lausn þeirra. En viðhorf stjórnmálamanna núverandi og fyrrverandi endurspeglar það sem gerðist í aðdraganda og eftir hrun, sundrungin í pólitíkinni er fullkomin. Ástandið hefur aldrei verið verra og umræður snúast um það eitt að koma höggi á aðra.

Í hvert skipti sem við heyrum stjórnmálamann tala, snýst orðræða þeirra um þá óvini sem skyggja á alla þeirra útsjón. Þar á meðal eru alþjóðastofnanir, nágrannalönd og fyrirtæki, allir leggjast að mati stjórnmálamanna á eitt; að koma höggi á litla Ísland. Eins og það sé nú trúverðugt? Og nú er búið að slíta öll tengsl við hagsmunasamtök, þau eru svo miklir óvinir, reyndar er það harla einkennilegt, félagsmenn stéttarfélaga eru almenningur og reyndar einnig kjósendur þessa lands. Þarna fara fremstir í flokki ungir þingmenn, auðheyrilega talandi af miklu reynsluleysi og skilningsskorti á tilgangi starfa þeirra.

Störf þingmanna og forsvarsmanna hagsmunasamtaka eiga ekki að snúast um að búa til óvini, heldur laða fram markmið og finna leiðir til þess að ná þeim. Þegar menn hafa náð kosningu gildir ekki að halda áfram að gagnrýna allt og alla. Að kosningu lokinni vill fólk sjá árangur, ábyrga vinnu og lausnir á því sem gagnrýnt hafði verið og leiddi til niðurstöðu kosninga. Þetta sjáum við því miður bæði hjá ungum þingmönnum og ungum mönnum sem náð hafa kjöri í stórum stéttarfélögum. Þá kemur því miður oft í ljós, að þeir geta ekkert nema gagnrýnt og verða uppvísir af að geta ekki fært nein rök fyrir gagnrýni sinni. Það endurspeglar þeirra getuleysi. Nóg eiga þeir af aurnum, sagði fullorðin kona við mig norður á Akureyri í vikunni.

Núverandi þingmenn eru ekki einir um að finna óvini. Ekki er að sjá nokkurn áhuga hjá eldri ráðherrum og þingmönnum á að leita að ráðum til lausnar á vandamálum og leiðbeina ungum þingmönnum. Bréf Ingibjargar Sólrúnar er í raun einungis partur af þessu, sama á við um þá umræðu sem einkennir Morgunblaðið þessa dagana. Mestu mistök sem stjórnmálamaður hefur gert er þegar Davíð fór í ritstjórastólinn, heyrir maður víða.

Engin ummæli: