mánudagur, 7. desember 2009

Byggingarmenn í Evrópu

Evrópusamband byggingarmanna þingar nú í hinni gríðarlega fallegu borg Lille í Frakklandi. Rúmlega 17 milljónir vinna í evrópskum byggingariðnaði, hann hefur fallið um 13% og um og 2,5 milljónir manna hafa tapað störfum sínum frá árinu 2007. Mest hefur fallið verið á Spáni, Írlandi, Bretlandi 0g Portúgal. Í austur Evrópu eru víða gríðarleg vandamál.

Hér tala nokkrir mjög áheyrilegir fagmenn sem hafa verið fengnir til þess að greina stöðuna í Evrópi. Fall byggingariðnaðar hófst árið 2007 eða áður en bankakrísan byrjaði. Ástæða bólunnar var mikið af ódýru lánsfé, sem bankarnir pumpuðu inn á markaðinn á óábyrgan hátt. Það leiddi til spákaupmennsku og óraunsæis við ákvarðanatöku. Í nokkrum löndum má frekar tala um stöðnun en mikið fall, t.d. Þýskaland, Austuríki, Sviss og Svíþjóð.

Á undanförnum árum hefur verið ráðist í stórtæka uppbyggingu á margskonar mannvirkjum, sem sumar hver voru fullkomlega óraunhæf. Stórauknir lánamöguleikar leiddu til óraunsærra ákvarðana í íbúðarbyggingu og snarhækkandi fasteignaverðs

Botninum er enn ekki náð, en reiknað er með að honum verði náð á næsta ári í norðurhluta álfunnar. Áætlað er að ein milljón byggingarmenn glati störfum til viðbótar fyrir lok næsta árs. Þetta ástand hefur leitt til vaxandi einangrunarstefnu og rasima á vinnumarkaði. Farandverkamenn frá öðrum löndum mæta víða harkalegum viðhorfum. Sum fyrirtæki hafa nýtt tækifærið á undanförnum árum til þess að gera marga að undirverktökum og neðanjarðarhagkerfið vaxið.

Langmesta niðursveiflan á byggingarmarkaði er á Írlandi, en þar hafa 51% byggingarmanna glatað störfum sínum. Á Spáni hafa 25% byggingarmanna tapað störfum sínum. Í byggingariðnaði og hinum gríðarlega mikla húsgagnaiðnaði sem þar hefur verið, hafa samtals um 700 þús. manna glatað störfum sínum. Frá aldamótum hefur vöxtur byggingariðnaðar og iðnaðar tengdum honum verið risavaxinn á Spáni. Undanfarin ár voru um 800 þús. íbúðir byggðar á ári, en á næsta ári er reiknað með að í mesta lagi verði um 120 þús. íbúðir byggðar.

Ríkisstjórnir Evrópuríkja vinna að margskonar aðgerðum til þess að vinna á þessum vanda. Í flestum tilfellum er litið til endurbóta á eldri húsum. Talið er að um helmingur húsa í Evrópu þarfnist endurbóta. Margskonar aðgerða er þörf, ekki síst með tillit til aukinna krafna vegna umhverfisbóta um sjálfbærni húsa og minni orkunotkunar. Einnig er öryggis- og tæknibúnaði víða ábótavant. Stjórnvöld og sveitarfélög þurfa að huga að byggingu félagslegra íbúða auk þess að byggja nýja skóla og umferðamannvirki. Græn markmiðsetning (Green New Deal) býður upp á mörg spennandi tækifæri til úrbóta og nýrra starfa.

Mikið er litið til ábyrgðar bankanna í þessu efni, hátterni þeirra átti stóran þátt í að skapa bóluna. Háværar kröfur eru um að tekið verði á starfsemi bankanna, bónusar og ofurlaun hafa ekki horfið af borðinu. Margir bankanna eru að byrja að ná sér á strik aftur eftir að ríkissjóðir hafa sett umtalsvert fjármagn til þess að bjarga þeim.

Það hefur leitt til vaxandi krafna um að bankarnir endurgjaldi þjóðfélaginu með margskonar úrbótum. Þær snúast um að bankarnir komi að hagkvæmum lánum til endurbóta á húsnæði og eins til endurfjármögnunar á lánum, sem eru að sliga margar fjölskyldur. Einnig eru nokkur stjórnvöld með á prjónunum skattaafslætti vegna endurbóta á húsnæði.

Stjórnvöld verða að líta til lengri tíma, þær úrbætur sem gerðar hafa verið duga ekki. Fljótt mun falla undan aftur ef ekki eru gerðar áætlanir til lengri tíma. Ná þarf stöðugleika í efnahagskerfin og byggingariðnaðinn. Einangrunarstefna verður ekki til að bæta ástandið. Frekar að huga að því að fyrirtæki komist ekki upp með að nýta farandverkafólk til þess að brjóta niður lágmarkskjör. Nokkur Evrópulönd eru að taka upp betri skráningarkerfi á launamönnum, þar á meðal íslenskur vinnumarkaður, til þess að vinna gegn vaxanda neðanjarðarhagkerfum og þvinga fyrirtæki að fara að umsömdum leikreglum og reglugerðum á vinnumarkaði.

Við þurfum ekki að leggja vinnu í að greina hvað varð okkur að falli, það er þekkt og búið að skirfa um það bækur. Öfgafull nýfrjálshyggja og stefnumörkun hennar hefur leitt þjóðfélög inn á villigötur. Ljóst er að stjórnvöld verða að setja ákveðnari reglur um meira gagnsæi við yfirtökur og sameiningar fyrirtækja.

Auðhyggjumenn nýttu sér það svigrúm og áður kröftug fyrirtækin eru nú rústir einar. Starfsmenn eru á mun lægri launum en áður og mun fleiri án atvinnu. Samfélögin verða að skoða afleiðingarnar og vinna að úrbótum byggðum á þeim lærdóm sem draga má af því sem gerst hefur á undanförnum áratug. Verði tekið af festu á þessum málum má reikna með að í lok 2013 hafi vinnumarkaðurinn náð stöðugleika.

Engin ummæli: