miðvikudagur, 23. desember 2009

Jákvæðni og samhug takk fyrir

Maður mætir almennt jákvæðni í samfélaginu meðal almennings, eins og ég hef alloft lýst, t.d. af þeim fjölmörgu félags- og vinnustaðafundum sem ég hef verið á þetta ár. Fólk vill taka höndum saman og að þjóðin vinni sig úr þessum vanda. Það er tilbúið axla tímabundið sanngjarnar byrðar verði það til þess að við náum fyrr að landi.

Á fundum um kjara- og þjóðfélagsmál hef ég mætt þessum viðhorfum og fólk gerir ákaflega lítið úr þeim örfáu sem eru sífellt gjammandi neikvæðni í spjallþáttum. Einstaklingar sem sífellt setja fram yfirboð og töfralausnir og hafa í sjálfu sér ekkert annað fram að færa en upphafningu sjálfra sín á kostnað annarra. Oft eru þetta einstaklingar sem voru með allt í steik fyrir hrun, en gripu það feginshendi og gera það að sökudólg til þess að losa sjálfa sig undan ábyrgð.

Forsvarsmenn fyrirtækja atvinnurekenda hafa flestir sýnt vilja til þess að taka þátt í uppbyggingu sama má segja um almenna launamenn. Fólk vill fylgja þeirri raunsæisstefnu sem fylgt hefur verið síðan Þjóðarsátt var sett. En það eru á svæðinu nokkrir eftirlegusauðir fjárglæfranna, sem reyna að villa fyrir um rannsóknarnefndum með útúrsnúningum og málþófi.

Á einum vinnustað ræður þó ríkjum fullkominn upplausn og lýðskrum flæðir þar um sali. Þetta er Alþingi. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Umræðan einkennist af innihaldslausu kjaftæði þar sem farið er hring eftir hring og mönnum miðar ekkert. Efnahagsspekingar Sjálfstæðismanna með Hannes Hólmstein í farabroddi segja að það sé engin ástæða til þess að hækka skatta. Samt blasir við hundruða milljóna gjaldþrot Seðlabanka undir þeirra stjórn, sem lendir á þjóðinni.

Ætla þeir að greiða þessa skuld sjálfir? Ætla framsóknarmenn að skella sér á einhvern annan bar í Osló og finna þar einhvern sem segir að þetta sé ekkert mál. Sá er sko skal ég segja þér tilbúinn að lofa upp á æru og trú að hann muni sko finna einhvern norskan ráðherra sem borgi þetta bara, bara allt saman. Ha, hikk, hikk, skál. Að þetta skuli hafa dregið inn í fréttaþætti og menn hafi rætt þetta þar af einhverri alvöru, segir nánast allt um á hvaða plani fréttaflutningur er.

Maður vill ekki trúa því að skilningsleysi þingamanna á stöðu þjóðfélagsins sé algjört og vill heldur ekki trúa því að þeir vilji ekki vera þátttakendur í baráttu þjóðarinnar fyrir tilvist sinni. Af hverju geta þingmenn ekki lagt valdabrölt og framapot til hliðar og tekið höndum saman og unnið að lausnum?

Icesave-málið er orðið að þráhyggju. Er það leið til endurreisnar að neita að horfast í augu við þann veruleika að alþjóðasamfélagið snúi baki við okkur? Traust til Íslands hverfi endanlega og lánalínur lokist. Áframhaldandi gjaldeyrishöft og vaxandi atvinnuleysi og kaupmáttarrýrnun.

Halda menn að þessar skuldir hverfi ef skipt verði um ríkisstjórn? Eru menn tilbúnir í nokkurra mánaða kyrrstöðu á meðan stjórnmálamenn bregða sér í kosningabaráttu?

Engin ummæli: