þriðjudagur, 8. desember 2009

Icesave - forsendur

Fyrr í dag bað Andrés Magnússon mig um að finna orðum mínum stað um stöðu okkar í Icesavemálinu. Loks eftir langa fundi dagsins hér í Lille komst ég að tölvunni.

Ef forráðamenn Landsbankans hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum, en ekki sem útibú frá Landsbankanum, þá lægi reikningur vegna Icesave til íslenskra skattgreiðenda ekki fyrir á Alþingi Íslendinga.

Þeir sem með þessum hætti framvísuðu vísvitandi Icesave á hendur þjóðarinnar eru : Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson formaður bankaráðs og fyrrv.framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins.

Það voru þessir menn sem ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þeir börðust við að koma í veg fyrir hrun hans og sóttust eftir erlendu fjármagni.

Skv. skýrslu hollenskra lagaprófessora til hollenska þingsins, var því hafnað ítrekað af hálfu Landsbankanum, að færa Icesave-netbankana frá aðalbankanum í útibú í Hollandi og Bretlandi, undir eftirliti og sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda.

Það má færa fyrir því rök að meginástæða þessa hafi verið, að forsvarsmönnum Landsbankans hafi verið ljóst að þar fengi bankinn allt aðra og mun harðari og gagnrýnni meðhöndlun, en hjá hinu íslenska Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum. T.d. mokaði Seðlabankinn hundruðum milljóna í íslensku bankana fram á Hrundag og Fjármálaeftirlitið gerði í raun ekkert þó svo að alla vega allnokkrir bentu á hvert stefndi.

Með því að hafna tilmælum seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins komu forráðamenn Landsbankans beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum.

Með neyðarlögunum síðastliðið haust áréttaði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, að íslenska ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og þ.m.t. lágmarkstryggingu í útibúum utan Íslands. Alþingi íslendinga samþykkti neyðarlögin og lagði þar með grunn þeirrar stöðu sem við búum við.

Í samningum við Bretana sem Árni M. þáv. fjárm.ráðh. samþykkti, þá ákvarðaði hann ábyrgð Íslands og lánaskilmála, sem voru reyndar mun verri en sú samningsniðurstaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Að baki undirskriftar Árna var ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi. Það er í raun þessar athafnir sem binda okkur þá hnúta sem við búum við.

Áður en Hrunið skall á, lá það fyrir að norðurlöndin skilyrtu aðkomu AGS fyrir allri lánafyrirgreiðslu sína við Ísland því. Eftir Hrunið var það einnig skilyrt, að Ísland stæði við lágmarkssparifjártrygginguna gagnvart Icesave. Fyrri skuldbindingar voru ítrekaðar með skuldbindingarskjali frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu frá 19.nóv.2008 sem eru undirskriftir Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og Árna Matthiesen, fjármálaráðherra.

Þetta er staðan sem við höfum setið í frá því í fyrra og það vissu fyrrverandi stjórnarflokkar og núverandi stjórnarandstaða betur en allir aðrir. Ísland kæmist ekki undan því að takast á við þessar skuldbindingar. Ef Ísland gerði það ekki, hefðum við rofið gildandi milliríkjasamninga og féllum niður í ruslflokk og hefðum ekki aðgang að fjármagni til uppbyggingar nema þá á okurvöxtum.

Við stefnum í að verða Argentína Norðurlanda í boði framangreindra aðila. Skuldir ríkisins og stórfyrirtækja á vegum hins opinbera eins og Landsvirkjun, Landsnet, Orkuveitan eru það miklar að hvert prósent í hærri vöxtum skiptir hundruðum milljóna árlega í auknum vaxtakostnaði.

Hann er gríðarlegur skaðinn sem stjórnarandstaðan er búinn að valda með hátterni sínu undanfarna mánuði. Ljótasta lýðskrum og ábyrgðarleysi sem sést hefur hér á landi.

En ef formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vilja takast í alvöru á við þennan vanda ættu þeir að skoða 249. gr.eins og Egill bendir á í dag ; „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

Koma þeim réttu megin við rimlana, sem eru nefndir hér framar, og jafnvel a.m.k. nokkra þeirra, sem hafa staðið að hinum óábyrga málflutningi á Alþingi undanfarna mánuði.
M. bestu kv. Guðmundur

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Athyglisverðar áhyggjur þínar af því að vaxtakostnaður þjóðarinnar gæti vaxið um "hundruðir milljóna árlega" ef Icesave er ekki samþykkt.

En minna um áhyggjar þínar af því að borga tugi milljarða í vaxtagreiðslur af Icesave ef það er samþykkt.

Andrés Magnússon sagði...

Það er ekkert í neyðarlögunum um ábyrgð á öllum innistæðum. Yfir.

Nafnlaus sagði...

Frábært svar hjá GG
Takk Ingibjörg

Nafnlaus sagði...

Mjög góð greining hjá Guðmundi
GA

Unknown sagði...

Ef það liggur svona ljóst fyrir að við höfum undirgengist þessar auknu ábyrgðir í tíð fyrri ríkisstjórnar, hvers vegna er þá þetta stapp núna á Alþingi? Væri það ekki óþarft ef að ábyrgðirnar lægju ljósar fyrir?

Mér finnst þú ansi fljótur til þess að leggja blessun þína yfir- og skammarlegt að þú skulir dæma þá samlanda þína sem vilja berjast á móti því að eyðileggja lífsgæði þeirra sem hérna vilja búa.

Guðmundur sagði...

Hún er svo óendanlega einkennileg umræðan.

Ég er ekki að leggja blessun yfir þessa skuldsetningu. Ég er einfaldlega að benda á að umræðan sé ekki reist á réttum grunni.

Ég er á móti Icesave og ósáttur, en verð ásamt öðrum samlöndum, að horfast í augu við þá staðreynd að fyrrverandi ríkisstjórnir Davíð og Geirs undirrituðu samninga sem við verðum að undirgangast, sama hvaða skoðun við höfum.

Nafnlaus sagði...

Skýr greining Guðmundur
Takk nafni

BadBank sagði...

Fínn pistill og raunverulega kemur algjörlega að kjarna málsins.

Ég skil ekki hvernig menn geta gleymt því að það var þessum mönnum að kenna.

Það versta raunverulega í þessu öllu er það, að svo fær maður valið í næstu kosningum um að kjósa á milli ´nákvæmlega sama fólksins á hægri og vinstri vængnum sem maður lítur á sem algjörlega vanhæft eiginhagsmunapakk

Nafnlaus sagði...

Íslendingar eiga einfaldlega að gera það sem er rétt og heiðarlegt. Það er hreinlega aukaatriði hvort fyrri ríkisstjórn var búinn að gefa einhverjar yfirlýsingar um ábyrgð okkar, það er ekki ástæðan fyrir því að við verðum að klára þetta. Af hverju á stór hluti þjóðarinnar svona erfitt með að koma auga á siðferðilegar skyldur okkar í þessu máli? Skortir þjóðina allt siðferðisþrek?

Nafnlaus sagði...

Segðu okkur þá Andrés: Á hvaða forsendum hafa allir íslenskir innstæðueigendur - einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki - haldið sínum innstæðum í íslenskum bönkum?

Er það ólögleg aðgerð?

Steingrímur J (þó ekki Sigfússon)

Nafnlaus sagði...

Icesave er stórpólitískt mál:

A) Ef Icesave verður samþykkt og þjóðin fær skulda-skellinn, verður að finna sökudólgana og þá fara Davíð og Dóri í tugthúsið!

B) Ef Icesave verður fellt verða Bretar og Hollendingar sökudólgarnir og flokksræðið heldur sínu striki og reistar verða styttur af Davíð og Dóra!

C) Þjóðaratkvæðagreiðslu strax takk! Þjóðin verður að fá að ýta þessu flokkafári til hliðar og kjósa sjálf!

Unknown sagði...

Það er svo rétt hjá þér Guðmundur, umræðan er byggð á svo undarlegum grunni.

Þeir Árni og Davíð kvitta uppá pappír þess efnis að við íslendingar stöndum við ábyrgðir okkar. Í evróputilskipuninni um innistæðutryggingasjóði er kveðið á um það að ekkert ríki megi ábyrgjast þessa innistæðutryggingasjóði.

Alþingi er að fjalla um það hvort að veita eigi ríkisábyrgð, hljómar fyrir mér einsog það sé ekki ábyrgð fyrir hendi ef það þarf að fjalla um það hvort að veita eigi hana.

Að halda því fram að við njótum meiri virðingar gjaldþrota heldur en standandandi í lappirnar eftir að hafa varist því að greiða skuldir annara finnst mér einnig undarlegur málflutningur.

Að samþykkja verri samning heldur en versta hugsanlega niðurstaða í málaferlum engu skárri.

Ég fæ stundum á tilfinninguna að fólk ýti bara allri rökhugsun til hliðar til þess eins að geta sagt: "Það er Davíð og sjálfstæðisflokknum að kenna"

Nafnlaus sagði...

Frábær uppsúmmering á þessu máli

Nafnlaus sagði...

Tilskipunin um innistæðutryggingarsjóðinn er aukaatriði í þessu. Aðalmálið er 6. gr. EES samningsins sem er alfa og omega EES svæðisins, þ.e. að öll mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð. IceSave krafan er fyrst og fremst byggð á því, þ.e. að þar sem íslenska ríkið ábyrgðist innistæður íslendinga í íslensku bönkunum verði þeir líka að ábyrgjast innistæður erlendra aðila í sömu bönkum, sama hvort útibúið sé á Kópskeri, Amsterdam eða Sheffield.

Eina leiðin til að firra sig ábyrgð á IceSave er að taka til baka ríkisábyrgðina á íslenskum innistæðum og það er ekki hægt úr þessu. Ég held líka að hljóðið í íslenskum innistæðueigendum yrði annað ef firring á IceSave-ábyrgð myndi þýða bruni á þeirra innistæðum.

Mjög góð grein annars Guðmundur.

- Halldór Odds

Unknown sagði...

Má vera Halldór, ég hjó nú samt eftir því að eftirlitsstofnun EFTA var að leggja blessun sína yfir neyðarlögin.

Bretar neita erlendum bönkum um að setja upp útibú þarlendis þannig að mismununin virðist nú lifa þokkalega góðu lífi innan ESB.

Finnst fólk tala um það að taka á okkur þessa ábyrgð af ansi mikilli léttuð án þess að átta sig á því að við erum að róa lífróður á skútu sem er nú þegar yfirhlaðin skuldum og lítið þarf til þess að hún sökkvi. Því er ekkert annað en eðlilegt að kannað sé til hlýtar hvort að þessar skuldbindingar séu í raun okkar í stað þess að afgreiða þær með ökladjúpum spekulesjónum um einstakar lagagreinar.