þriðjudagur, 29. desember 2009

Skussar ársins

Ef litið er yfir árið sem er að líða, blasa hvarvetna við draumar almennings um að nú sé tækifæri til þess að hreinsa sorann út úr æðakerfi þjóðarinnar. Hvert við gætum náð á næsta ári að fenginni skýrslu rannsóknarnefndarinnar og gerð nýrrar stjórnarskrár. En gamla flokkakerfið berst um til þess að viðhalda tökum sínum á þjóðfélaginu.

Á sínum valdatíma fjölgaði Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstarfsmönnum um tæplega helming og jók ríkisútgjöldin um svipað. Skattar á hina hæst launuðu voru lækkaðir á meðan skattar á hina lægst launuðu voru hækkaðir. Gengið var lengst allra til hægri með skattkerfið. Spilling óx með vinapólitík og klíkuveldi. Farið var með sparifé almennings eins og það væri eign valdhafanna, það endurspeglast svo vel í því, að ítrekað hafa launamenn orðið að minna valdaklíkuna á að það sé ekki þeirra að ráðstafa því sparifé sem er í lífeyrissjóðunum.

Efnahagsmistök voru leiðrétt með gengisfellingum og valdaklíkan rígheldur í krónuna og berst fyrir áframhaldandi einangrun Íslands. Þetta var staðfest með kvótakerfinu og svo einkavinavæðingu bankanna. Valdaklíkan ætlar að halda sinni stöðu. Ekkert á að breytast. Það endurspeglast svo vel í málflutningi þingmanna Framsóknar og Sjálfstæðismanna.

Það er hér sem reynir mest á núverandi ríkisstjórn, hefur hún þrek til þess að takast á við þetta. Tekst þingmönnum valdaklíkuflokkanna að eyðileggja þennan framgang. Við öllum blasir tilgangsleysi þeirrar umræðu sem þeir hafa viðhaldið allt þetta ár. En bak við skín hin raunverulegi tilgangur, að sprengja ríkisstjórnina og komast aftur til valda.

Á þessu ári hefur glögglega komið fram vilji almennings um að stjórnmálamenn taki nú höndum saman og vinni að lausn þessara mála. En þeir hafa svarað með því að stilla upp fáránleikhúsi, þar að baki býr viðhald valda og efnahagslegir hagsmunir. Ætlast þessir menn að við trúum því að allar þjóðir Evrópu hafi gert samsæri gegn Íslandi? Þetta fólk hefur gert Alþingi að ómerkilegri málfundarstofu með ruddafegnum frammíköllum og innistæðulausu málþófi. Þar fara skussar þessa árs, sé spurningu Kastljóssins í gær svarað.

Verkefnið er ný stjórnarskrá. Með nýrri stjórnarskrá felst bylting sem vekur óhug hjá kjörnum fulltrúum. Þeim sé veitt aðhald og ráðherraræðið afnumið. Almenningur verður að eiga möguleika á aðkomu að stjórn landsins. Aðalverkefni stjórnlagaþings verður að setja forstokkuðu flokkafulltrúaræði skorður og opna alþýðu leið að ákvörðunum.

Viðbrögð sjálfstæðismanna gagnvart Stjórnlagaþingi eru eitthvað svo fyrirséð. Þeir treysta engum öðrum en sjálfum sér til þess að fara með mál þjóðarinnar. Í langri valdatíð sinni hafa þeir komið á ráðherraræði, Alþingi er ekki lengur æðsta valdastofnun landsins. Vilji þingmenn eiga nokkra von um frama verða þeir að lúta vilja ráðherranna. Alþingi er orðið að afgreiðslustofnun frumvarpa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. Þingmannafrumvörp eru sett í geymslu í nefndum.

Í mörg ár hefur það legið fyrir að Stjórnarskránni er í mörgu ábótavant. En hún hentar vel því stjórnarfari sem skapað hefur verið og þeirra varna sem gripið er til gagnvart vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur í valdatíð Sjálfstæðismanna orðið að æðstu valdastofnun landsins. Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds, eins og stjórnarskráin mælir fyrir heldur einungis tvískipt, á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds.

Auk þess skipar framkvæmdarvaldið dómara með þeim hætti sem við þekkjum svo vel og lætur stundum setja afturvirk lög, en þau vega að áhrifum dómstóla. Fyrir liggja rannsóknir sem sýna fram á að allt að 30% laga sem ráðherrar hafa keyrt í gegn stangist á við önnur lög, eða jafnvel stjórnarskrá. Við þekkjum viðbrögð ráðherra, ef sú staða kemur upp að sýnt er fram á að ætlan ráðherra stangist á við stjórnarskrá. „Þá breytum við bara stjórnarskránni.“

Framkvæmdarvaldið sjálft telur sig vera þess umkomið að semja þær reglur sem eiga að takmarka vald þess. Þetta er algjör þversögn, það eru vitanlega landsmenn sjálfir sem eiga að setja sér stjórnarskrá án afskipa frá ráðherravaldinu.

Vilji almennings stendur til þess að vinna við nýja stjórnarskrá verði afskipta ríkisvaldsins og stjórnmálaflokkanna, með því að koma á fót stjórnlagaþingi, sem semdi frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum. Þar á að vera samankominn þverskurður Íslendinga með fagfólki, sem semur frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem síðan verður lagt fyrir Alþingi. Það gæti breytt frumvarpinu, ef það leggur í að ganga gegn vilja Stjórnlagaþings. Þessi aðferð tryggir það að aðrir en alþingismenn gætu einnig haft skoðun á málinu. En svo er að sjá hvort þeir hafi burði til þess.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Ég er mjög sammála um að nýja stjórnarskrá þurfi og grundvallarbreytingar á stjórnkipulaginu. Þú talar um stjórnlagaþing og reifar hugmyndir um hvernig það skuli skipað. Eru til mótaðri hugmyndir um þetta sem fara nokkuð vel í gegnum ferlið?

Mætti t.d., benda á að það tók BNA um 12 ár frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði þangað til að stjórnarskráin var samþykkt. Einungis 16 breytingar hafa verið gerðar á henni þessi 225 ár síðan þá.

Á þessum 12 ára tíma skrifuðu mörg fylkin sínar eigin stjórnarskrár sem urðu grunnurinn að alríkisstjórnarskránni.

Punkturinn hjá mér er bara að það virðist hvorki breið né djúp hugsun á bak við hvernig eigi að breyta stjórnarskránni og hver markmiðin skuli vera. Það er ekki sjálfgefið að bót verði á ef kastað er til höndunum.

Allar ábendingar um hvar má nálgast upplýsingar um hugmyndir sem hafa komið fram væru vel þegnar.