miðvikudagur, 30. desember 2009

Athafnamenn ársins

Ég sat allmarga fundi í vor með mönnum í atvinnulífinu, þá helst með þeim sem koma frá hátækni- og sprotafyrirtækjum. Tveir þeirra voru valdir voru menn viðskiptalífsins 2009 af Markaðnum, þeir Hilmari V. Péturssyni, forstjóri CCP og Jóni Sigurðssyni, forstjóri Össurar. Hilmar Veigar var einnig útnefndur sem maður ársins í Viðskiptablaðinu.

Ég hef alloft vitnað til ummæla þeirra og annarra sem voru með okkur á fundunum í pistlum mínum. Sjá m.a. (hér) og (hér) og (hér) og (hér) Svo einkennilegt sem þá nú er þá eru sumir einangrunarsinnar sem halda því blákalt fram að það séu einmitt sprota- og hátæknifyrirtækin sem vilji hafa krónuna. Þrátt fyrir að forsvarsmenn þessara fyrirtækja nýti hvert tækifæri sem þeir fá til að koma á framfæri hinu gagnstæða. Undir það álit hafa forsvarsmenn margra stéttarfélaga, kannski ekki síst í rafiðnaði tekið undir og bent á því til stuðnings hvar fjölgun starfa á vinnumarkaði hafi átt sér stað.

Þessi hópur fundaði í vor með ráðherrum, þingmönnum og ýmsum öðrum í stjórnsýslunni um leiðir til framtíðar út úr kreppunni og þar voru efst á blaði aðild að ESB og upptaka evru. Hilmar og Jón endurtaka það sem kom fram á fundunum í viðtali í fylgiriti Fréttablaðsins í dag, að rekstrarhorfur alþjóðlegra fyrirtækja sem staðsett eru hér á landi séu mjög slæmar. Í raun hafi aldrei verið mögulegt að ræða um rekstrarhorfur fyrirtækja í því sveiflukennda ástandi sem hér hafi verið um áratuga skeið.

Hilmar líkir uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér við það að búa í árfarvegi. Hann er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð og það ryður öllum sprotunum í burtu. Þegar grynnkar aftur í ánni er aftur talað um hvað farvegurinn er góður. Svona gerist þetta á um tíu ára fresti. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónur en ekkert virðist virka.

Það er lífnauðsynlegt að finna varanlega lausn á gjaldmiðlamálum Íslendinga. Myntsvæði heimsins hafa stækkað síðustu ár og orðið einfaldari. Það haldist í hendur við alþjóðavæðinguna og aukinn hraða í samskiptum og viðskiptum. Á fundunum sem ég hef svo oft vitnað til voru menn úr atvinnulífinu undrandi á þeirri andstöðu sem orðin er gegn aðild Íslands að ESB. Þar virðast ráða þeir sem hafa stóra hagsmuni af því að beita sér gegn ESB og beita öllum klækjum til að mála það sem vond útlendingasamtök sem vilji koma höndum yfir allt sem hér er.

Uppbygging og afkoma íslenskra fyrirtæki byggist á því að geta fengið samkeppnishæfa fjármögnun erlendis. Krónan hefur verið tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings án þess að hann upplifi það.

Menn viðskiptalífsins í ár segja einkennilegt ástand ríkja hér á landi og gagnrýna harðlega þær tafir sem orðið hafa á endurreisn efnahagslífsins. Þeir skrifa það á reynsluleysi og því sem næst barnaskap stjórnmálamanna. "Þessi litla þjóð sem stendur frammi fyrir þessum mikla vanda má ekki við svona löguðu. Umræðan má ekki fara í tittlingaskít og hártoganir," segir Jón.

Hilmar tekur við keflinu. "Kerfið hefur verið lamað í ár. Það hefði verið auðvelt að díla við hrunið. Grunnhagkerfi landsins beið ekki tjón og enginn dó. En síðan komu meðulin; gjaldeyrishöft og málþóf um Icesave. Þetta er okkar vandamál og það er algjörlega sjálfskapað."

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig á að losna við stjórnmálamenn vora? Komiði með uppástungur.Hugleysi og vankunnátta og flest okkar að verða örvingluð.
Viðskiptamennirnir sem þú vitnar í eru of kúltíveraðir.Tæpitungulaust eru Jóhanna og Steingrímur grútmáttlaus og eftir samanlagt tæplega 40 ár á þingi of samdauna léglegum og fálmkenndum vinnubrögðum. Burt með þau og leggjumst á árar um að finna fólk sem ekki er flækt í tengslaneti alheimskra pólitíkusa.

Það er varla hægt að ljúka þessum skrifum á gleðilegu ári,því eftir 15 mánuði frá hruni er ég reiðari en nokkurn tímann fyrr.

hkr

Nafnlaus sagði...

Mikið ósköp væri nú ástandið betra ef stjórnmálamenn hefðu hlustað betur í vor og tekið upp þau vinnubrögð sem þið notuðu. Nú blasir við aukið atvinnuleysi og fyrirtæki og heimili í enn verri stöðu
Úlfur