mánudagur, 14. desember 2009

Skattabreytingar

Nokkrir hafa verið að leika sér á aths. dálkum þessarar síðu, vegna skattamála undanfarna viku, ég hef verið fjarverandi bæði vegna vinnu og nokkurra daga leyfis svo ég var ekki í stöðu til þess að svara almennilega og það nýttu þrír einstaklingar sér til þess að senda mér í gríð og erg harla einkennilegar alhæfingar og órökstuddar dylgjur um starfsfólk stéttarfélaganna, þannig að ég ákvað að birta það ekki.
Það er svo sem í lagi að menn ausi yfir mig drullu, en þessi síða er ekki, á meðan ég stjórna henni, vettvangur fyrir ritsóða til að skíta út saklaust fólk. Jafnframt því að ég hef beðið menn um að halda sig við efni viðkomandi pistils í aths.

Ritsóðarnir hafa einnig leikið sér að allskonar útúrsnúningum og verið í staðreyndasmíðum. Þegar ég var í Kennaraháskólanum sótti ég m.a. tíma í heimspeki og þar er fjallað um rökfræði. Þar var sýnt fram á hvernig sumir gefa sér forsendur og draga síðan út einhverja vitleysu. T.d. í afleiðum

Engin kálfur hefur 9 rófur
Einn kálfur hefur einni rófu fleiri en engin kálfur
Afleiða = Allir kálfar hafa 10 rófur.

T.d. fann einn það út að þar sem ég væri samþykkur Icesave, þá vildi ég ferðast um í einkaþotum!!?? Ég hef reyndar margoft tekið fram að ég sé ósáttur við Icesave stöðuna. En ég hef tekið það fram að ég telji að Ísland muni ekki komast upp með að sniðganga þær ábyrgðir sem landið undirgekkst undir stjórn Sjálfstæðismanna sem Geir og Árni Matt staðfestu svo nokkru áður en þeir hrökkluðust úr stólum sínum.

Ég birti á sínum tíma útreikninga á því hvernig tillögur um skattabreytingar kæmu út. Það liggur fyrir að breyta verður skattkerfinu og ná jöfnuði í ríkisbúskap. Í umræðunni voru þá nokkrar tillögur og ég bar þær saman. Það að ég mæli með einni frekar en annarri, var umfjöllun um hvað kæmi best út. Fullyrðingar um ranga útreikninga mína standast ekki voru settar fram, en þar var miðað við ástandið eins og það var þegar pistillinn var saminn. Allir útreikningar eru réttir. Aðrar ósmekklegar dylgjur ritsóðanna ætla ég ekki að fjalla um hér.

En nú hefur ríkisstjórnin sett fram skattatillögur um að hækka persónuafsláttinn um 2.000 kr um áramótin en fella burtu ákvæðið um verðtrygginguna. Þær tillögur voru ekki upp á borðinu þegar ég gerði mína útreikninga, það vita ritsóðarnir ákaflega vel.

ASÍ hefur mótmælt því að verðtryggingin falli brott, sérstaklega til framtíðar, það vita ritsóðarnir líka . Það er auðveldara að sætta sig við að hækkunin persónuafsláttar komi ekki að fullu til framkvæmda núna enda eru verið að verja stöðu lág- og millitekjuhópa með þrepaskattinum. Það er líka verið að fella brott 3.000 kr hækkunina 2011. Því hefur ASÍ einnig mótmælt og það vita þeir sem fylgjast með.

Varðandi þau rök að óbreytt skattkerfi hefði komið betur út fyrir þá tekjulægstu þá er það rétt svo langt sem það nær, en ekki er hægt að horfa fram hjá þörfinni á að ná tökum á ríkisfjármálunum. Nokkuð víðtæk sátt er um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum með aðgerðum á bæði tekju og útgjaldahlið.

ASÍ hefur aldrei samið um skattleysismörkin. Þau eru ekki til í skattalögum heldur eru þau afleidd stærð af persónuafslættinum og staðgreiðsluprósentunni. (Skattleysismörk = persónuafsláttur / staðgreiðsluprósentu).

Skoðum nokkrar útgáfur af skattleysismörkum
- Skattleysismörkin eru í dag: 42.205 / 0,372 = 113.454.
- Samkvæmt skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar: persónuafsláttur: 42.205+2.000 = 44.205.

Skattleysismörk: 44.205 / 0,372 = 118.831
- Að óbreyttum lögum (þ.e. ef skattprósentan hækkaði ekki en persónuafslátturinn hækkaði) þá hækkar persónuafslátturinn m.v. verðbólgu desember 2008 – des 09 sem verður eitthvað milli 7,5% og 8% plús 2.000 kallinn sem ASÍ samdi um.

Ef við notum neðri mörkin sem eru líklegri verður persónuafslátturinn 42.205*1,075+2.000) = 47.370 og þá skattleysismörkin: 47.370 / 0,372 = 127.340


Nú er ljóst að hækka þarf skatta. Til að ná inn svipuðum tekjum og í tillögum ríkisstjórnarinnar hefði þurft að hækka skattprósentuna um 2,5-3 prósentustig. M.v. að persónuafslátturinn verði 47.370 þá erum við að tala um svipuð skattleysismörk líklega aðeins hærri í óbreyttu skattkerfi (með verðtryggingu og 2.000 kr) en þá leggst hærri skattprósenta á lægstu tekjur í kringum 40% í stað 37.2%.

Engin ummæli: