laugardagur, 2. janúar 2010

Áramótapæling

Sé litið til umræðunnar síðustu 15 mánuði þá hefur það opinberast svo berlega fyrir okkur hversu löskuð umræðan er hér landi. Ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur hafa þar verið áberandi einstaklingar sem hafa verið ósparir á yfirlýsingar og sleggjudóma, eins og biskup kemst svo ágætlega að orðið í nýársávarpi sínu.

Þetta er það sem stendur efst í huga mínum þegar litið er yfir síðasta ár. Það er margt gott sem gert hefur verið og ástandið er ekki eins slæmt og margir spáðu og minna atvinnuleysi.

Karl Sigurbjörnsson sagði einnig; “Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar. Áður hefðu Íslendingar verið þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flestallt sé afstætt. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð.”

Upp á himinn fjölmiðla og spjallþátta hafa undanfarið ár skotist einstaklingar, sem hafa borið þungar sakir á aðra og kennt þeim um ófarir sínar. Oft hefur komið í ljós að viðkomandi einstalingar eru þekktir óreiðumenn og með langa slóð kennitöluflakks. Einstaklingar sem annað hvort voru orðnir gjaldþrota eða stefndu lóðbeint í það, þó svo Hrunið hefði ekki komið til. Það vekur svo undrun manns að jafnvel þó þessi vitneskja liggi fyrir, er ítrekað leitað til þessara hinna sömu sem álitsgjafa í fréttaþáttum.

Við starfsmenn stéttarfélaganna þekkjum allvel til nokkurra af þessum einstaklingum vegna vandræða sem launamenn hafa lent í vegna óuppgerðra launa eða kjaratengdra atriða. Einnig er það áberandi að þeir sem eru hvað harðastir í dómum um verkalýðshreyfinguna eru undantekningalítið einstaklingar sem ekki eru félagsmenn. Glögglega kemur fram í orðræðu þeirra fullkomið þekkingarleysi á þeirri starfsemi sem fordæmd er. Ég hef komið að þessu í svörum mínum í aths. kerfinu hér og nokkrum pistlum.

Stundum eru þar á ferð einstaklingar sem eru svokallaðir gerfiverktakar og leita í sífellu að rökum til þess að réttlæta svo kallaða „free rider“ áráttu sína. Þeir beita öllum brögðum við komast hjá því að greiða til samfélagsins, en eru með stanzlausar kröfur um fyrirgreiðslu.

Þeir gera kröfur í sjóði stéttarfélaganna þó svo þeir hafi ekki greitt þangað og leita aðstoðar starfsmanna stéttarfélaganna ef þeir eru í vandræðum. Þegar við bendum þeim á að ekki eru forsendur fyrir kröfum þeirra, er brugðist við með gífuryrðum og fúkyrðaflaum og ásökunum um að við vinnum gegn launamönnum. Eru síðan með yfirlýsingar í spjallþáttum um að verkalýðshreyfingin geri aldrei neitt.

Það er einmitt þetta sem sumir þáttagerðar- og fréttamenn virðast leita helst eftir, þeir vilja ekki heyra vel talað um menn og málefni og hafa engan áhuga á að fjalla um álit meirihlutans eða skoða á hvaða forsendum er niðurstaða hans er byggð.

Þetta hefur leitt til aukinnar tortryggni og er svo komið hjá mörgum, að þeir fara ekki á mótmælafundi. Maður vill ekki láta bendla sig við þessa einstaklinga eða sitja undir ræðu sem maður veit að er samansett af innistæðulausum fullyrðingum. Ekki er hlustað á spjallþætti, vegna þess að almælt er að það komi fyrr en síðar í ljós, að sá sem er þar mættur sem viðmælandi, byggi afstöðu sína á fullkominni og rakalausri endaleysu.

Þetta hefur bitnað svo illilega á þeim sem réttilega eiga að fá aðstoð í sínum fjármálum, en þeir lenda alltaf fyrir aftan þá sem hæst hafa. Þeim sem ráðamenn eru hættir að hlusta á.

3 ummæli:

Matti sagði...

Karl Sigurbjörnsson sagði einnig; “Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar.

Hér mætti halda að biskup væri að tala um sjálfan sig og orð sín um trúleysingja.

Nafnlaus sagði...

"Sæll Guðmundur. Hef ekki lagt í vana minn að tjá mig mikið um skrif annarra þó að oft hafi mig langað til þess. Vil hins vegar endilega þakka þér fyrir bloggið þitt í dag en eins og oft áður, bæði fyrir og eftir hrun, ert þú einn af þeim fáu sem hefur kjark til að fara gegn meginstraumnum og segja hlutina umbúðalaust."

Nafnlaus sagði...

Mæltu manna heillastur Guðmundur, ég vil nota tækifærið og þakka þér og öðrum fyrir að hafa staðið vörð um lífeyrissjóðina í hruninu. Sem betur fer voru sóðabankarnir ekki búnir að sölsa undir sig íbúðalánasjóð líka.