miðvikudagur, 6. janúar 2010

Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?

Ég er einn af þeim fjölmörgu, sem er nokkuð viss um að stór hluti þeirra, sem eru í sjötíu prósentunum sem sögðust í skoðanakönnun vera á móti Icesave skuldunum, stóðu í þeirri trú að það væri valkostur að segja sig frá skuldunum.

Ég er einnig sannfærður að auk þess séu margir af þeim sem svöruðu neikvætt, hefðu svarað já, ef spurt hefði verið áfram um hvort Ísland verði þrátt fyrir það að standa við skuldbindingar sínar. Ég er einnig sannfærður að svipað sé ástatt um þann hóp sem skrifaði sig á InDefence. Þannig að þar er ekki í raun ekki svona stórir hópar sem eru andstæðir því að klára málið á sömu nótum og þingið afgreiddi milli jóla og nýárs.

Ég þar til viðbótar sannfærður um að forsetanum er fullkunnugt um þessa stöðu. Þannig að það er ekki annað en hægt að velta því fyrir sér hvað það sé sem vaki í raun og veru fyrir Ólafi. Hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir hvað myndi fylgja í kjölfar ákvörðunar hans.

Það er ljóst á svörum formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna að þeir gerðu sér grein fyrir þessu, en reiknuðu ekki með að Ólafur myndi leika þessum leik. Það var aumkvunarvert að hlusta á þessa menn sverja allt af sér í gær. Enn aumari var forsvarsmaður InDefence. Þetta væri allt saman ríkisstjórninni að kenna, vælandi um að þeir einir hafi verið ábyrgir og nú eigi allir að verða vinir og semja um málið. Það sé auðvelt!!??

"Ofboðslega eru þetta litlir kallar," sagði konan mín í gærkvöldi þegar við hlustuðum á Kastljósið. "Litlir kallar geta aldrei orðið annað en minni kallar."

Hverjum í veröldinni, utan íslenskra fordekrarða stjórnmálamanna, dettur það í hug að ríkistjórn geti ákvarðað hvað erlend stórblöð setji á forsíður sínar. Þar rifjast upp sú útreið sem Geir fékk í enskum fjölmiðli í fyrra þar sem hann var afhjúpaður og rasskelltur í beinni. Pínlegt að það er eins og sumir fjölmiðlamenn trúi þessu líka. Þeir eru vanir að geta stjórnað þessu hér heima.

Mér finnst Politiken ná prýðilegri yfirsýn yfir íslenska veruleikasýn og reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég er sammála norrænum alvörublöðum. Danirnir segja þegar þeir fjalla um athafnir forsetans og stjórnarandstöðunnar; Ef íslendingar telji að ekki sé hægt að nota ímyndunaraflið til þess að breyta veruleikanum, þá sé hægt að reyna að velja sér veruleika með því að kjósa já eða nei um þá þætti sem maður vill hafa og þá sem maður vill hafna.

Danirnir halda áfram á svipuðum nótum og aðrir erlendir fjölmiðlar; Vandamál hinna reiðu víkinga á Íslandi er að skuldir sem sköpuðust með fjármagnsflutningum frá Hollandi og Bretlandi til Íslands hverfa ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eitt nei í atkvæðagreiðslu yljar kannski augnablik, en það mun valda hratt vaxandi vöxtum á þeim gríðarlegu skuldum sem íslendingar hafa steypt sér í og trúverðugleiki þeirra hverfur endanlega.

Íslendingar hafi sem sjálfstæð þjóð í áraraðir nýtt sér þá stöðu að standa fyrir utan ESB og velja sér bestu bitana, til að skapa velferðarástand sem ekki var í raun innistæða fyrir. Kostnaðinn af því geta íslendingar ekki kosið í burtu. Það er ástæða til þess að hjálpa Íslandi til þess að koma fótunum undir sig aftur. En þjóðaratkvæðagreiðslan mun einungis fresta gjalddeginum. Ísland muni verða einangraður ísklumpur í norðurhöfum og litið á það sem bananalýðveldi.

Að öllu þessu framansögðu velti ég því fyrir mér; Var Ólafur Ragnar vísvitandi að stilla upp Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum og þeim sem hafa hvað harðast barist gegn því að horfast í augu við þennan ískalda veruleika. Hann sé að þvinga það fólk til þess að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða og hátternis. Ákvörðun hans gengur eiginlega ekki upp öðruvísi.

17 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, síðan eru sumir sem halda því fram að fólkið sem skráði sig á indefence.is hafi ekkert vitað undir hvað það var að skrifa.

Eftirfarandi stendur á indefence.is:
"Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alþingi Íslendinga hefur nú til meðferðar frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/2009 um ríkisábyrgð á Icesavesamningum.

Verði það samþykkt er ljóst að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er stefnt í hættu. Framtíðarkynslóðir Íslands yrðu skuldsettar um langa framtíð og lífskjör þeirra skerðast.

Við staðfestingu laga nr. 96/2009 ítrekaði forseti Íslands mikilvægi fyrirvara Alþingis með sérstakri áritaðri tilvísun til þeirra, sbr. yfirlýsingu hans dags. 2. september 2009. Þeir fyrirvarar við ríkisábyrgð sem samþykktir voru í ágúst voru sameiginleg niðurstaða fjögurra þingflokka á Alþingi og byggðust á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi. Fyrirvararnir taka mið af sanngjörnum rétti og hagsmunum Íslendinga og alþjóðlegri samábyrgð, eins og segir í yfirlýsingu forseta Íslands.

Fyrirvararnir sem mestu skipta til að takmarka ríkisábyrgðina og verja hagsmuni þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna eru í nýja frumvarpinu nánast að engu gerðir. Með samþykki þessa frumvarps verða skuldbindingar íslenska ríkisins á ný ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd."

Heimska er ekki afsökun.

halldor sagði...

Heyrði talsmenn inDefence kenna ríkisstjórninni um harkalegar fyrirsagnir erlendra fjölmiðla. Hvarflaði að mér að þetta væri álíka og að brennuvargur á Suðurnesjum gagnrýndi slökkviliðið fyrir að vera svifaseint.

Nafnlaus sagði...

Ég hef reyndar hugsað þetta sama. Hefði Ólafur skrifað undir hefði allt orðið vitlaust. Þú getur rétt ímyndað þér áróðursstríðið. Með þessum gjörningi þvingar forsetinn þjóðina til að hugsa um orsök og afleiðingar. Og ef þjóðin hafnar svo samningnum - ja, þá fær hún það sem hún á skilið.
FB

Nafnlaus sagði...

Eg skal ekkert segja um hvað Óalfi gekk til. Tilgátan hjá þér ekki verri en hver önnur.

En með eftirfarandi: "Hverjum í veröldinni, utan íslenskra fordekrarða stjórnmálamanna dettur það í hug að ríkistjórn geti ákvarðað hvað erlend stórblöð setji á forsíður sínar."

Þetta er nefnilega merkilegt. Maður sér það aftur og aftur að margir ísl halda (tala allavega þannig) að um sé að ræða mál sem að stórum hluta sé hægt að vinna í einhverju PR stríði. Það er bara stórurðulegt að heyra slíka bjargfasta trú sumra íslendinga. Bendir óneitanlega til kolbrenglaðs veruleikaskyns og vanþekkingu á hvernig þessir stóru erlendu fjölmiðlar virka.

Og hvað - er fólk á að meina að td Bretar eða Bresk stjórnvöld kunni ekki að beita fjölmiðlum ef því er að skipta ?

Veit ekki, maður er oft nánast orðlaus þesa dagana.

Ómar Kristjánsson

Nafnlaus sagði...

Getur ekki verið að Ólafur sé bara að hugsa um sinn eigin feril? Hann er óvinsæll út af daðri sínu við útrásarvíkinga en þarna sér hann gullið tækifæri til að reyna að kaupa sér vnsældir þess stóra meirihluta þjóðarinnar sem finnst það ansi skítt að þurfa að borga Icesave. Um leið skráir hann sig á "spjöld sögunnar" sem einn af þeim sem hafa haft hvað stærst áhrif á Íslanssöguna - plús að hann nýtur þess auðvitað að vera í sviðsljósinu hér og nú.
En að öllum þessum neikvæðu hlutum um Ólaf sögðum þá get ég nú samt líka séð það sjónarmið að það sé kannski rétt að þjóðin fái að segja skoðun sína á þessu stóra máli. Þetta er svona mál þar sem maður getur dálítið tekið ndir tvö gagnstæð sjónarmið samtímis vegna þess að þetta er svo stórt mál og alls ekki einfalt.

Nafnlaus sagði...

Getur ekki verið að Ólafur sé bara að hugsa um sinn eigin feril? Hann er óvinsæll út af daðri sínu við útrásarvíkinga en þarna sér hann gullið tækifæri til að reyna að kaupa sér vnsældir þess stóra meirihluta þjóðarinnar sem finnst það ansi skítt að þurfa að borga Icesave. Um leið skráir hann sig á "spjöld sögunnar" sem einn af þeim sem hafa haft hvað stærst áhrif á Íslanssöguna - plús að hann nýtur þess auðvitað að vera í sviðsljósinu hér og nú.
En að öllum þessum neikvæðu hlutum um Ólaf sögðum þá get ég nú samt líka séð það sjónarmið að það sé kannski rétt að þjóðin fái að segja skoðun sína á þessu stóra máli. Þetta er svona mál þar sem maður getur dálítið tekið ndir tvö gagnstæð sjónarmið samtímis vegna þess að þetta er svo stórt mál og alls ekki einfalt.

Nafnlaus sagði...

Vel mælt Guðmundur. Gæti ekki verið meira sammála.
SM

þórir v. sagði...

af indefence.is
"Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu..."


þessi efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning, er hún ekki staðreynd? eitthvað sem gerðist þegar landsbankinn, á íslandi, undir íslenskri ríkisábyrgð, fór að opna útibú hingað og þangað? m.ö.o., löngu áður en þessi icesave samningur við breta og hollendinga var gerður og lagður fyrir þing? svo ef það stóð til að kjósa um umrædda ríkisábyrgð, hefði þá ekki átt að kjósa um það áður en landsbankinn opnaði sparireikninga í útlöndum?

ég spyr vegna þess að af umfjöllun sem ég hef lesið undanfarið að dæma er ekki auðvelt fyrir mig að vita. það er víða talað eins og það sé álitamál hvor íslensk yfirvöld (þjóð) sé ábyrg fyrir töpuðum innistæðum eða ekki. ég hélt að það væri staðreynd.

Nafnlaus sagði...

þórir v

" það er víða talað eins og það sé álitamál hvor íslensk yfirvöld (þjóð) sé ábyrg fyrir töpuðum innistæðum eða ekki. ég hélt að það væri staðreynd."

Þetta er nú málið. Og einhverjir 2-3 lagasnillingar hafa verið að kynda undir þetta og þannig hefur fólk ímyndað sér að um væri að ræða "vonda útlendinga" vs "frábæra íslendinga" o.s.frv.


Eg hf td. marg útskýrt hve staða landsins lagalega sé veik (og ég hef metið hana sem zero. 0. Auk þess sem siðferðilega hliðin nálgast alkul)

Þetta fást sumir einfaldlega ekki til að skilja og halda að íslandi séu allir vegir færir og geti bara ráðið hvað það gerir. Geti jafnvel ráðið hvort það borgar eða ekki og núverandi stjórnvöld "vilji endilega borga" !

Það fæst eigi til að skilja skaðabótaábyrgð Ríkja samkv. laga og reglugerðaverki EES samningsins vegna brota þar að lútandi og B&H hafa öll háspilin og trompin á sinni hendi.

Sem dæmi er td. borðleggjandi fyrir breta að taka Jafnræðisregluna og krefjast nákvæmlega sömu meðhöndlunar og innlendir innstæðueigendur. Það er bara borðleggjandi. Allt uppí topp.

Ómar Kristjánsson

Nafnlaus sagði...

Eg skrifað undir og geri mer fulla grein fyrir að við vorum ekki að biðja um að borga ekki. Vil eingöngu að þessi seinasti hluti verði feldur niður og þau lög sem þverpólitíks sátt (nb sátt - það er það sem allt snýst um í dag í þjóðfélaginu) náðist um munu gilda. Ekkert annað. Efast um að aðrir hafi haldið að við seum að segja okkur frá skuldunum - það fylgjast allir orðið svo vel með þessu máli að ég held að lang stærsti hópurinn skilji þennan þátt vel.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki nema von að þú og aðrir elítistar séu skjálfandi á beinunum nú þegar beint lýðræði þegnanna er yfirvofandi.
Ýmindaðu þér bara ef stjórn lífeyrisjóðanna yrði sett fyrir þjóðaratkvæði, úps.

Hörður Tómasson.

Guðmundur sagði...

Hörður
Hvar stendur að ég sé móti þjóðarkosningu? Hvergi. Ég er því fylgjandi að bera mál undir þjóðina.

En það þarf að vera klárt um hvað sé kosið. Það liggur á borðinu að margir halda að það standi til að kjósa um hvort við borgum eða ekki.

Svo er ekki eins og formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru að viðirkenna þessa dagana. Það eru þeir sem virðast aftur á móti hræðast þjóðarkosningu, því það berar málflutning þeirra.

Hvað varðar lífeyrissjóðina skil ég ekki hvert þú ert að fara. Viðkomandi sjóðfélags kjósa á ársfundum í sínum sjóð. Það væri út í hött að t.d. ég færi að kjósa um mæáklefni líufeyrssjóðs verxzlunarmanna, ég er ekki sjóðsfélagi þar og á engar inneignir

Nafnlaus sagði...

Þú nafnlausi sem skrifaðir undir og gerðir þér samt grein fyrir því að við þyrftum að borga......segðu mér hvað þetta (sem þú skrifaðir undir) þýðir:

"Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú EFNAHAGSLEGA BYRÐI sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Þýðir þetta ekki að þið viljið kjósa um hvort borga eigi Icesave eður ei? Ekki létta fyrirvarar laga nr. 96/2009 byrðina svo mikið að Icesave hættir að vera "efnahagsleg byrði"?

Nafnlaus sagði...

Þessi hegðun stjórnarandstöðunnar og forsetans er af sama meiði og áhættufíkn íslenskra bankamanna sem, með dyggum stuðningi ömulegra íslenskra embættismanna, komu okkur í þessa stöðu. Þetta er ekkert annað en rússnensk rúlletta með efnahag heillar þjóðar.
Dude

Unknown sagði...

Þetta er kjarni málsins.Takk fyrir.

halldor sagði...

Nafnlaus @11.05

Það er hálfsannleikur að vitna í það sem stendur á indefence, án þess að láta þess getið að þar stóð:

"Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Svo stendur til hliðar: Nánar um áskorun. Einunigs ef ýtt var á þann hlekk sást afgangurin af tilvitnuninni.

Mér þykir líklegt að margir hafi einungis lesið forsíðuna áður en þeir skrifuðu undir. InDefence hafa líklega ekki loggað hversu margir skoðuðu alla yfirlýsinguna frekar en annað.

Það má alveg túlka síðari hluta setningarinnar eins og það sé hægt að kjósa sig undan efnahagslegum byrðum.


InDefence menn virka því eins og pólitíkusar þegar þeir mæta í útvarp næsta dag og segja: auðvita erum við ekki að mótmæla því að skuldin sé greidd.

Ríkisábyrgð á Icesave skuldina verður alltaf þung byrði. Því er nú ver og miður.

Halldór

Nafnlaus sagði...

Neita því ekki að maður hefur lúmskt gaman af móðursýki Sjálfstæðismanna og flótta þeirra frá því að vilja þjóðaratkvæðagreiðslu
En maður á ekki að hugsa svona um lítilmagnan
Nonni