miðvikudagur, 3. mars 2010

Ógeðsdrykkur sjálfstæðismanna

Það er áberandi hversu ofsafengin málflutningur sjálfstæðismanna er þessa dagana, troða einstaklega lélegum samning niður í kokið á þjóðinni og allt það barnalega hjal þeirra. Ég ætla ekki að eyða tíma í að fjalla um málflutning Framsóknarmanna hann er á svo óendanlega lágu plani.

Ég tala sérstaklega um mína fyrrverandi flokksbræður, því mér finnst það svo sárt að þurfa að horfa upp á ábyrgðarlausar athafnir þeirra, og ég veit vel úr starfi mínu að það eru margir fyrrverandi og núverandi flokksmenn sama sinnis.

Það blasir við að þessir pótintátar í þingliðinu eru búnir að koma um 2000 manns á atvinnuleysiskrá með athöfnun sínum undanfarna 10 mánuði og koma allnokkrum fyrirtækjum fram af brúninni. Fyrirtækin komast ekki af stað því engin tekur lán til framkvæmda á þeim afarkjörum sem fyrirtækjum og heimilum stendur til boða, á meðan Icesave stendur óleyst.

Þetta hefur ítrekað komið fram hjá forsvarsmönnum Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins, og eru líklega 90% þeirra sjálfstæðismenn. Fyrir liggur að athafnir lýðskrumarana á þinginu eru búnar að seinka uppbyggingu efnahagslífsins um a.m.k. eitt ár og koma okkur mun neðar í táradalinn. Þannig að uppgangan verður mun erfiðari en hún þurfti að vera.

Það liggur ekkert fyrir um að það náist betri samningur svo neinu sérstöku nemi. Vaxtaálag landsins hefur margfaldast og ásamt viðskiptavild hefur snarfallið. Skaðinn af þessu þurrkar út þann ábata sem nú liggur á borðinu og vel það. Þar til viðbótar kemur svo skaði atvinnulífs og heimilanna.

Einnig blasir við að öll gífuryrðin um kostnað vegna Icesave eru della. Það sem kemur úr búi Landsbankans er nálægt fullnaðarkostnaði ásamt því sem kemur úr tryggingarsjóði. Þær tekjur sem sjóðurinn mun hafa næstu árin stendur fyllilega undir öllum kostnaðinum.

Þegar þetta allt er skoðað liggur augljóslega fyrir að tilgangur sjálfstæðismanna var sá einn, að komast hjá því að ræða Hrunið og aðdraganda þess. Enda er helmingur þingliðs flokksins og forysta hans uppvís að vera beinir þátttakendur af ósómanum, sem er að lenda á skattgreiðendum þessa lands og lífeyrissjóðunum.

Þessi smán mun fylgja þingmönnum sjálfstæðismanna. Athafnir þeirra undanfarið eru að tryggja að afleiðingar Hrunsins munu liggja á þjóðinni mun lengur en þörf var, var það þó ærið fyrir. Nú hamast lýðskrummarnir á þinginu við að sannfæra okkur um að kosningin snúist um samvisku ríkisstjórnarinnar og ekkert minna. Allir sem voga sér að benda á önnur rök vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar og eru hvorki meir eða minna en Landráðamenn.

Þingmönnum sjálfstæðismanna hefur tekist að blanda þjóðinni beiskan ógeðsdrykk og nú á að troða honum niðrum kok landsmanna, svo ég noti þeirra eigin orðbragð.

15 ummæli:

Guðríður Arnardóttir sagði...

Mjög góður pistill hjá þér, ég er þér svo hjartanlega sammála. Þetta er ömurlegt mál. Það eru fleiri en fyrirtækin í þessu landi sem blæða, stórskuldug sveitarfélög í landinu eru líka háð erlendu lánsfjármagni á skikkanlegum kjörum ef ekki á að fara verr. Þegnar þessa lands sitja líka uppi með þær byrðar eins og aðrar um þessar mundir.

Nafnlaus sagði...

Þetta er alveg hárrétt hjá þér Guðmundur.

Hörmulegt hversu ábyrgðarlaust Sjálfstæðismenn eru.

Enda ekki von á öðru, þegar siðferðilegur leiðtogi eirra er Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Nafnlaus sagði...

Síðan forsetin synjaði lögunum hefur eftirfarandi gerst: Vextir hafa lækkað bæði, gengi krónunnar hefur styrkst, skuldatryggingarálag ríkissjóðs lækkað, verðbólga lækkað, ESB umsókn þokast áfram, vilyrði fengið fyrir láni frá ESB. Hvar er þetta mikla tjón af "töfinni"? Ef við endum með betri samning sem nemur miljarðatugum eða meira fyrir ríkissjóð er það ekki gott? Það að ekkert gangi að koma atvinnilífinu í gang helgast af vanhæfri ríkisstjórn og hefur ekkert með Icesave að gera.

Nafnlaus sagði...

sé að síðuhöfundur er mikill áhugamaður um Sterling-lánarekstur hjá fyrirtækjum og einstaklingum. að með lánum skapist eign og vextir séu eitthvað seinni tíma vandamál.

það eina sem hefur tafið uppbyggingu þessa lands er algjört getu og úrræðaleysi ríkisstjórnarflokkanna. á sama tíma og tekjur almennings og fyrirtækja dragast saman vegna aukinna skulda skellir ríkið á þá auknum sköttum. sköttum sem leiða til þess að almenningur hefur minna á milli handanna og allar vörur hækka verði vegna hækkunar á virðisaukaskattnum og svo vegna verðbólgu sem þessi sömuskattar eru valdir að.

að taka lán er engin lausn. þú gerir þér greinilega ekki grein fyrir því en það þarf að borga lán. eða ætlar þú að vera flúinn landið þegar að skuldadögum kemur?

-fannar

Nafnlaus sagði...

Fyrir hverja ert þú að skrifa þetta? Þeir sem hugsa rökrétt vita þetta allt. Hinir kjósa Sjallana og lesa ekki svona guðlast.

Nafnlaus sagði...

Miðað við kyrrstöðuna vegna frestunar á samningum Icesave þá er hægt að færa rök fyrir því að frestunin kosti okkur 75 miljarða kr. á mánuði, og því er aldrei hægt að gera það góðan samning í dag sem getur unnið upp tapið miðað við að fyrsti samningurinn hefði verið samþykktur fyrir ári síðan.

Þetta hefur hagfræðinginn Gunnlaugur H. Jónsson reiknað út frá forsendum sem eru mjög raunhæfar:

Texti úr grein Gunnlaugs í Fréttablaðinu 29 jan. 2010 http://www.visir.is/article/20100129/SKODANIR03/77462004/103

“Ef kyrrstaða ríkir þá er ekki vöxtur í þjóðarframleiðslu. Standi þessi kyrrstaða í eitt ár (12 mánuði) þá verður þjóðarframleiðsla næsta árs 45 M.kr. minni en vænta mætti við venjulegar aðstæður. Sama á við um öll árin sem á eftir fylgja. Þjóðarframleiðslan er á hverju ári 3% minni en hún hefði verið ef kyrrstaða hefði ekki ríkt í eitt ár. Reiknað til núvirðis nemur töpuð framtíðarþjóðarframleiðsla af kyrrstöðu í eitt ár 900 til 2.250 M.kr. eftir því með hvaða ávöxtun er reiknað (5% til 8%). Kostnaðurinn af kyrrstöðu nemur því að lágmarki 75 M.kr. á mánuði miðað við ofangreindar einfaldar forsendur.”


Garðar Garðarsson

Nafnlaus sagði...

Ríkisstjórnin verður alveg jafn ósammála um atvinnu uppbyggingu eftir að skrifað verður undir Icesave og hún er núna.

Gunnlaugur H. Jónsson gefur sér þær forsendur að um leið og skrifað verður undir Icesave muni hagvöxtur aukast um 3% - hver trúir svona þvælu??

Þetta er alveg sama ruglið og að umsókn að ESB muni styrkja gengið og að skifta út bankastjórum Seðlabankans muni hafa stórkostleg áhrif á efnahagslífið. N.b ég græt það ekki að skift hafi verið út í SÍ.

Þar fyrir utan mun 3% hagvöxtur ekki duga til að skapa þann gjaldeyri sem þarf til að borga þessa 507 milljarða sem Icesave 2 hefði kostað.

Hvaða fyrirtæki eru það sem eru klár með allt en vantar fjármagn til framkvæmda?? Fyrirtækin sem eiga að standa undir þessum hagvexti.

Nafnlaus sagði...

Hárrétt greining hjá þér eins og vanalega Guðmundur.
Því miður gleypa margir við upphlaupi xD og xB samt sem áður af því að þeir kunna að slá ryk í augu almennings og næra reiðina þar.
Þegar 5 ár eru liðin þá trúi ég því að þetta ástand verði greint í tætlur og framvindan sundurliðuð sögulega. Þá sést hvað stjórnarandstaðan hefur gert til að skemma fyrir. Það er hins vegar nokkuð erfitt fyrir einfaldan almúgann að fatta það núna í þessu óvissuástandi, erfitt að sjá í gegnum lýðskrumið í reiðimúgsefjuninni núna.

-Ari

Nafnlaus sagði...

Það sem gleymist í þessum pælingum þínum Guðmundur, er útistandandi áhætta Íslands.

Samkvæmt núverandi samningum tekur Ísland alla áhættu af eignasafni landsbankans, hagvexti á Íslandi og í heiminum, sveiflum á gjaldmiðlum o.s.frv. Það virðist alltaf gleymast í umræðunni (m.a. í þinni grein) að skilanefndin sjálf áréttar að VERULEG óvissa sé á verðmati hennar. Þessi hugsunarháttur er felur í sér sömu grundvallar mistök og útrásavíkingarnir gerðu. Tóku lán og vonuðu það besta. Maður hefði búist við að Íslendingar myndu læra af reynslunni.

Allt ferlið vekur einnig upp margar spurningar. Af hverju er ekki búið að fá óháðan aðila til að meta eignasafnið? Ef þetta er rétt mat af hverju taka Bretar og Hollendingar eignasafnið ekki bara yfir? Hafa þeir kannski ekki trú á því að þetta sé rétt mat?

Fyrirvarar Alþingis voru settir þannig að ef forsendur Seðlabankans gengju upp myndi Ísland borga alla skuldina á réttum tíma. Af hverju samþykktu Bretar og Hollendingar ekki fyrirvarana? Hafa þeir kannski ekki trú á efnahagsáætlun Seðlabanks?

Útistandandi áhætta fyrir hverja 4ra manna fjölskyldu á Íslandi er 8-9mkr. Sambærileg upphæð er 10þkr fyrir fjögurra manna fjölskyldu í Bretlandi. Af hverju eigum við að taka verðmat á eignasafninu og efnahagsspá Seðlabankans trúanlega og leggja 8-9mkr undir ef Bretar eru ekki tilbúnir til að leggja 10þkr per fjölskyldu undir?

Þessi áhætta er óásættanleg. Hún er sérstaklega óasættanleg vegna Brussel viðmiðana sem Bretar og Hollendingar höfðu samþykkt. Þar höfðu þessi lönd lofað Íslendingum að taka tillit til fordæmalausra aðstæðna hérlendis og að hægt yrði að byggja efnahagskerfið upp. Áhætta á greiðslufalli uppfyllir EKKI þau skilyrði.

Nafnlaus sagði...

Frábær greining - á fínu mannamáli eins og alltaf.
Takk Úlfur

Nafnlaus sagði...

Sammála hverju orði, þó fyrr hefði verið

Nafnlaus sagði...

Frábær og skýr texti, sammála hverju orði.
Timburmenn þjóðarinnar verða miklir þegar móðursýkin rennur af þingmönnum.

Nafnlaus sagði...

Skyldulesning
Felix

Nafnlaus sagði...

Guðríður

Sem Kópavogsbúi þá vona ég að þú farir sænskuleiðina í lántöku fyrir sveitarfélagið. Tekjur Kópavogsbæjar eru í ísl. kr. ekki erlendri mynt.

Erl. lántöku sveitarfélaga ætti að banna, eins og í svíþjóð.

Nafnlaus sagði...

Þetta er besta greining á móðursýki þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ég hef séð. Það hefur verið með ólíkindum hvað þeir hafa enst í þessu karpi um skuldina vegna ICESAVE í stað þess að semja við Hollendinga og Breta. Þetta er flokkur sem hefur haldið því á lofti að vera eini stjórntæki flokkurinn, en í meira en ár hefur allt sem hann gerir stutt þá skoðun að hann sé fullkomlega óstjórntækur. Stefna Sjálfstæðisflokksins á þingi er stórháskaleg fyrir þjóðina.