Einhver ómerkilegasta aðgerð sem framkvæmd hefur verið við gerð kjarasamninga stendur núna yfir. Kjarasamningar hafa nú verið lausir hjá flestum launamönnum á almennum vinnumarkaði í tvo mánuði. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hver staðan er á almennum vinnumarkaði. Kaupmáttur hefur hrapað frá um 13% upp í liðlega 30% hjá sumum hópum. Um 14 þús. manns eru atvinnulausir og margir búa við skerta vinnu og eru vitanlega hræddir við að glata því litla sem þeir hafa. Eða með öðrum orðum slagkraftur þeirra sem minnst hafa er ákaflega slakur.
Vinnubrögð í komandi kjarasamningum voru til umræðu á síðasta ársfundi ASÍ, þar voru 300 trúnaðarmenn launamanna á almennum vinnumarkaði samankomnir og niðurstaða þeirra var að nú þyrftu menn að standa saman, versta staðan yrði ef allt færi í bál og brand. Það myndi verða til þess þeir sem væru í verstu stöðunni yrðu eftir og fengju ekkert. Þetta var samþykkt með öllum atkvæðum gegn 2.
Fjölmiðlar tóku að venju viðtal við annan þeirra, en höfðu ekki áhuga á niðurstöðu hinna og hvers vegna þeir höfðu komist að þeirri niðurstöðu. Samstaða var um að vinna þyrfti að því að rífa atvinnulífi upp úr þeirri kyrrstöðu sem það væri í til þess að auka vinnu og minnka atvinnuleysi.
Þessa stöðu nýta samtök útgerðarmanna og SA núna til hins ýtrasta. Í skjóli einhvers réttlætis, sem engin skilur nema örfáir útgerðarmenn og forsvarsmenn SA, hafna þeir alfarið að ræða af einhverju viti um endurnýjun kjarasamninga. Mæta á fundi með endalausa útúrsnúninga. Þeir bera fyrir sig sömu leið og ASÍ benti á og kalla Atvinnuleið en vinna svo bak við tjöldin með öllum ráðum að splundra ASÍ o gþá ganga þeir um leið gegn eigin stefnu. Ógeðfelld vinnubrögð svo ekki sé nú meira sagt.
Margir leikmenn og blaðamenn sjá ekki plottið. Allsherjarverkfall er nefnilega nákvæmlega það sem LÍÚ vill, það mun gera það eitt að þrýsta á ríkisstjórnina til þess að fallast á kröfur LÍÚ um hvernig þessi samningur verði. Þetta er ólöglegt, ódrengilegt og það má kalla þennan leik mörgum fleiri nöfnum.
Hagstofa Íslands vinnur árlega yfirlit yfir hag fiskveiða og fiskvinnslu. Yfirlitið sýnir að svokölluð verg hlutdeild fjármagns (EBITA) nam samtals um 63,5 milljörðum króna í veiðum og vinnslu árið 2009. Reiknaðar afskriftir og reiknaður vaxtakostnaður nemur 18,5 milljörðum króna. Hreinn hagnaður veiða og vinnslu er því 45 milljarðar króna. Eigið fé greinanna tveggja hefur aukist um 86,5 milljarða króna milli áranna 2008 og 2009.
Þess má geta að árið 2009 lækkaði Alþingi álagt veiðigjald úr 500 til 1000 milljónum í 170 milljónir króna. Þ.e.a.s. á sama tíma og útgerð og fiskvinnsla hagnaðist sem aldrei fyrr höfðu forsvarsmenn þessara greina geð í sér að taka við ölmusu úr galtómum ríkissjóði að upphæð á bilinu 300 til 800 milljónir króna!
Þetta lið hefur tekið alla launamenn í gíslingu, því er slétt sama þó liðnir séu tveir mánuðir án endurnýjunar kjarasamninga og það liggi fyrir að það muni taka a.m.k 3 mánuði að ná í gegnum Alþingi nýjum lögum, þar til viðbótar krefjast þeir að niðurstaðan verði að vera ásættanleg að þeirra mati.
Séu einhversstaðar bófar á ferð þá eru þeir staddir á skrifstofum SA þessa dagana.
5 ummæli:
Eitt einfalt svar: Verkfall
Takk! og líka fyrir fína innkomu í 10 fréttum.
Mesta klíka Íslands fyrr og síðar hikar ekki við að hafa launahækkanir af launafólki, og enn ótrúlegra að það er fólk sem finnst það í lagi, því það er blindað af flokkspólitísku ofstæki og gerir allt til þess að koma Hrunverjum í valdastólana aftur sama hvað það kostar
Þetta er útspilið frá þessum mönnum sem flestir eru gjaldþrota,og við eigum að borga fyrir þá afskrifa.
Það er hinsvegar aum ríkisstjórn sem lætur þessa menn kúa sig. Nú er lag það á að taka kvótan og fyrirtækin sem eru hvort sem er gjaldþrota og búa til ríkisútgerð,reka þessar blóðsugur út og fara að reka útgerð aftur eins og útgerð en ekki eins og fjárfestingabanka.
Guðmundur takk fyrir þitt innlegg, það er ómetanlegt að hafa rödd sem talar mannamál.
Sæll ..við vorum hér allmargir rafiðnaðarmenn að tala um viðtalið við þig í fréttunum í gær…strákarnir hérna á kaffistofunni báðu mig um að skila því til þín að“ þetta viljum við heyra“ tala þannig að menn skilji hvað átt er við um ..Glæpamenn…kv BG
Skrifa ummæli