þriðjudagur, 1. mars 2011

Deilurnar um jöfnun lífeyrisréttinda

Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum.

Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna. Þar hefur safnast upp verulegur halli og voru lífeyrisloforð umfram eignir í B-deild LSR (og LH) í árslok 2009 um 392 milljarðar króna og í sjóðum sveitarfélaganna um 43 milljarðar.

Halli B-deildarinnar hefur vaxið hratt á liðnum árum einkum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs. Skuldir deildarinnar halda áfram að vaxa og að lokum er reikningurinn sendur til á skattgreiðenda í framtíðinni. Almennu lífeyrissjóðirnir verða hins vegar að mæta þessu með skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Þetta birtist okkur vel við Hrunið þegar almennu lífeyrissjóðirnir þurftu lögum samkvæmt að skerða réttindi lífeyrisþega sinna umtalsvert til að rétta stöðu sjóðanna, en á sama tíma stóðu réttindi tiltekinna opinberra starfsmanna óbreytt og tryggð með skattpeningum almennings.

Hvað varðar eftirlaunasjóð Alþingis má samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins leggja þau að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Meginmarkmiðið sem unnið er eftir við endurnýjun kjarasamninga þessa dagana er að allir lífeyrissjóðir starfi á sjálfbærum grunni líkt og sjóðir á almennum vinnumarkaði. Þess verði freistað að standa vörð um þegar áunninn réttindi en stöðva verði áframhaldandi skuldaaukningu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þannig að reikningurinn á skattborgara framtíðarinnar hætti að vaxa. Réttur opinberra starfsmanna til lífeyris í A-deild miðist líkt og á almenna vinnumarkaðnum við 67 ár í stað 65 til að jafna halla sjóðsins. Ríkisárbyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna verði afnumin.

Krafan er skýr um jöfnun réttinda í náinni framtíð, ríkisstjórnin verður bæta upp það Hrun sem varð í almennu sjóðunum en ekki í hinum opinberu. Miðað við uppgjör sjóðanna í árslok 2009 samsvarar þetta um 23% aukningu áunninna réttinda.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað yrði þetta mikil kjaraskerðing fyrir okkur ríkisstarfsmenn? Verður þá ekki að koma til samsvarandi launahækkanna? Ágætis lífeyrisréttindi opinbera starsmanna hafa verið mótvægi við almennt lakari laun samanborið við almenna vinnumarkaðinn. Að ætla að krefjast þess að lífeyrisréttindi annarra stétta séu skert finnst mér mjög lélegt. Stétt gegn stétt í stað stétt með stétt.

Það er sjálfsagt að ræða hlutina á yfirvegaðan hátt og með opnum huga en ætti ekki krafan frekar að vera að lífeyrisréttindi á almenna markaðnum séu sambærileg þeim sem gerast á opinbera markaðinum?

Annars er maður nú orðinn frekar þreyttur á því að ASÍ skuli alltaf vera að semja fyrir okkur opinbera starfsmenn. Við erum alveg full fær um það sjálf.
Með kveðju,
Kristján Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Minni þig á það Kristinn að atvinnuleysið er mest á almenna vinnumarkaðnum. Launakjör á opinbera markaðnum eru betri en á almenna markaðnum. En samt ertu þú með kröfur um að ég eigi að búa við skert lífeyriskjör og borga til viðbótar ofurlífeyriskjör þín.
Þessi tími er liðinn og nú verðið þið sem búið í hinni vernduðu veröld að fara horfast í augu við sömu alvöruna og við hin

Nafnlaus sagði...

Treysti á ykkur Guðmundur að ná þessu réttlætismáli fram. Það er óþolandi að við á almenna markaðnum eigum að búa við skert réttindi á meðan opinbera fólkið lifir í atvinnuöryggi og þar með hærri jafnaðarlaun en við hin höfum.

Svo ætlast þetta fólk til þess að börn okkar greiði þessi ofurlífeyrisréttindi með hærri sköttum og skertu velferðarkerfi svo hægt sé að standa undir ofurlífeyrinum

Andri Thorstensen sagði...

Gangi ykkur vel með þetta Guðmundur! Ef jöfnun lífeyrisréttinda næst fram myndi litlu skipta þótt fátt annað áorkaðist í þessum kjarasamningum.

Aðeins til að svara Kristjáni; aðal gallinn við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna er ekki hversu mikil þau eru heldur að það sé bakábyrgð ríkisins á þeim.
Það væri allt annað ef ríkið borgaði einfaldlega ríflega í lífeyrissjóði á þeim tímapunkti þegar launin væru greidd.
Þá væri þetta allavega gegnsætt og ekki væri verið að safna upp mörg hundruð milljarða króna falinni skuldbindingu eins og nú er verið að gera.

Nafnlaus sagði...

Eins og þú veist Guðmundur þá er þetta önnur helsta krafa okkar og samningarnir verða felldir ef þessi sjálfstaka tiltekins hóps úr ríkissjóð verður ekki stöðvuð
Félagsmaður

Ásmundur sagði...

Með krónu sem gjaldmiðil verður alltaf mikil verðbólga á Íslandi til lengri tíma litið ef landið einangrast ekki frá umheiminum.

Ástæðan er smæð krónunnar sem veldur miklum sveiflum á gengi hennar. Ef gengi krónunnar lækkar þá hækka innfluttar vörur í verði og úr verður verðbólguskot. Fljótlega hækka svo launin til að leiðrétta kaupmáttinn og verðbólgan eykst við það enn frekar.

Ganga þessi áhrif þá ekki tilbaka þegar gengi krónunnar hækkar? Nei, ekki nema að mjög litlu leyti einkum vegna þess að þá þyrfti að lækka launin. Afleiðingarnar verða því miklu meiri verðbólga hér en í evrulöndum vegna krónunnar.

Það er mikill barnaskapur að ímynda sér að hægt sé að koma í veg fyrir þetta misgengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum með bættri hagstjórn. Fyrir því eru engin rök auk þess sem reynslan hefur sýnt okkur annað.

Eins og Guðmundur bendir á kemst krónan væntanlega í skjól strax eða fljótlega eftir inngöngu okkar í ESB. Seðlabanki Evrópu mun þá verja hana falli þangað til við uppfyllum skilyrðin til að taka upp evru.

Kostirnir við að taka upp evru eru ótalmargir og flestir mikilvægir. Ég sé hins vegar aðeins einn galla við að taka hana upp, ef galla skyldi kalla.

Evran krefst miklu vandaðri hagstjórnar en krónan. Með krónu sem gjaldmiðil bjarga menn sét út úr afglöpum með gengisfellingu krónunnar á kostnað almennings í landinu.

Með því að hafa ekki lengur möguleika á að fella gengi krónunnar fæst nauðsynlegur stöðugleiki til að íslensk fyrirtæki geti orðið samkeppnishæf við erlend fyrirtæki. Aukin samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja tryggir meiri hagvöxt og bætt lífskjör á Íslandi.