Það er margt skrifað um lífeyriskerfið. Því miður virðist það æði oft vera gert af mikilli vanþekkingu og tilgangur skrifanna einkennist umfram annað af fordómum í garð kerfisins og beinist að því einu að rífa það niður. Þeir sem þekkja til baráttu launamanna á Íslandi vita að veikinda- og sjúkrasjóðakerfið ásamt lífeyriskerfinu var bein afleiðing þess að valdastéttin hafnaði því alfarið á árunum milli 1955 – 1965, að byggja upp samskonar samtryggingarkerfi og gert hafði verið á hinum norðurlöndunum. Tryggingaréttindi fólks á íslenskum vinnumarkaði voru þá töluvert lakari en gerðist í nágrannalöndum okkar.
Stjórnvöld höfðu komið sér upp sínu prívat eftirlaunakerfi fyrir fyrir embættismenn. Í kjölfar breytinga á íslensku samfélagi, tilkomnum af miklum fólksflutningum til þéttisbýlissvæðanna fyrri hluta síðustu aldar. Það varð til þess að stórfjölskyldan leið undir lok. Fram að því hafði hún séð um stærstan hluta af kostnaði samfélagsins við örorkuna og ellilífeyrisþega. Á þessum árum fór að bera á því í þéttbýlinu að öryrkjar og fullorðið fólk einangraðist, fólk sem hvorki átti til hnífs eða skeiðar. Almannabætur voru víðsfjarri öllum veruleika.
Þetta varð til þess að stéttarfélögin á almenna vinnumarkaðinum tóku þennan málaflokk upp á sína arma og fóru með hann inn í kjarabaráttuna og byggðu smá saman upp gríðarlega öflugt kerfi, sem hefur reynst það vel að réttindi hér á landi eru í mörgum tilfellum betri en þau eru á hinum Norðurlandanna. Enda hafa öll Norðurlöndin á undanförnum árum tekið til við að endurskoða og byggja upp samskonar kerfi hjá sér.
Umtal um kerfið hér á landi einkennist oftar en ekki af því að sumir einstaklingar leita sér að afsökun fyrir því að koma sér hjá því að greiða til samfélagsins. Vera „free riders“ og láta aðra um að greiða skatta og skyldur. Lífeyriskerfið, með sínum örorkubótum samtvinnað við bótakerfi kjarasamninga (sjúkrasjóðir og veikindadagakerfið) stendur í dag undir miklum hluta af almenna tryggingarkerfinu og er óaðskiljanlegur hluti bótakerfis velferðakerfisins sem við gerum kröfu til að sé í því samfélagi sem við viljum búa í. Þegar stjórnvöld áttuðu sig á hversu mikils virði þetta kerfi var samþykkti Alþingi skylduaðild.
Um síðustu aldamót var útstreymi frá lífeyriskerfinu jafnhátt útstreymi Tryggingarstofnunar. Í dag er árlegt útstreymi lífeyriskerfisins 70 milljarðar en Tryggingarstofnunar einungis 50 milljarðar. Hlutfall lífeyrisjóðanna á eftir að hækka verulega mikið á næstu 15 árum. Upp úr 2025 mun útstreymi úr lífeyriskerfinu vera svipað og innstreymi í kerfið, eða verða vel ríflega tvöföld sú upphæð sem það er í dag.
Hluti af velferðar- og skattakerfinu.Ef lífeyris- og samtryggingarkerfi vinnumarkaðsins væri lagt niður þyrfti að hækka skatta umtalsvert hér landi, eitthvað nálægt 14 - 15%, eins og fram hefur komið í útreikningum hagfræðinga nýverið. Íslenska lífeyriskerfið er uppsöfnunarkerfi, ekki gegnumstreymiskerfi, á því flaska margir þegar þeir eru að reikna stærðir í kerfinu.
Víða í Evrópu, sérstaklega suðurhlutanum, eru ráðandi gegnumstreymiskerfi. Þau eru fjármögnuð með sköttum, en þessa dagana blasir við þeim ríkjum sem búa við þessháttar kerfi óyfirstíganlegur vandi sem vex samfara því að hlutfall lífeyrisþega hækkar og stefnir í að það verði um 3 skattgreiðendur fyrir hvern lífeyrisþega. Þá þurfa stjórnmálamenn að velja milli loka t.d. öllum skólum til þess að standa undir lífeyris- og örorkubótakerfinu. Ef grannt er skoðað snýst stór hluti af vandamálum Grikklands og Ítalíu um þetta. Bregðist þau ekki við þessum vanda verða þau endanlega gjaldþrota á næsta áratug.
Önnur lönd líta til okkar Íslendinga í þessum efnum, með okkar uppsöfnunarkerfi til þess að búa samfélagið undir að taka við hinum risastóru barnasprengjuárgöngum þegar þeir verða lífeyrisþegar. Leiðbeinandi tilmæli Alþjóðabankans til þjóða er að horft sé til þriggja stoða kerfis eins og Íslendingar eru með, enda sé það kerfi best. Stoðirnar þrjár eru; a) Samtryggingar lífeyriskerfi (sjóðsöfnun), b) Lífeyrir frá Tryggingastofnun, c) Séreignar lífeyriskerfi fyrir þá aðila sem vilja hafa rýmri fjárráð við lok starfsævi.
Það er útilokað að fjalla um þetta kerfi með því einu að stara einvörðungu á lífeyrisréttindin eins og sumum hættir til. Ef kerfið væri tekið niður eins og sumir eru að tala um, er ekki einvörðungu verið að taka niður lífeyrisgreiðslur, stærsti hluti örorkubóta falla einnig niður og til þess að lagfæra það þarf að auka tekjur Tryggingarstofnunar um upphæð sem samvara um 12% hækkun tekjuskatts.
Þar til viðbótar verða menn að huga vel að því hvað gerist ef menn standast ekki freistingarnar og taka til við að skattleggja kerfið eins og tækifærissinnaðir stjórnmálamenn eru með áætlanir um í dag. Með því væri verið að flytja greiðslubyrði milli kynslóða. Láta ömmu borga fyrir barnabörnin.
Réttindi sjóðsfélaga
Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði er sjóðfélögum tryggð lágmarksréttindi sem iðgjald skal veita eftir 40 ára greiðslur til sjóðsins. Árleg úttekt er lagaleg skylda til þess að koma í veg fyrir að ein kynslóð nái meir út úr kerfinu á kostnað annarra kynslóða. Lögum samkvæmt skulu stjórnir lífeyrissjóða
tryggja að eftirlaunalífeyrir hvers sjóðfélaga sé hið minnsta 56% af þeim launum sem greitt var af. Margir sjóðir bjóða reyndar töluvert betri réttindi, með brattara ávinnslukerfi. Ádeilur um viðmiðunarávöxtun beinast umfram annað að þessu og einkennast af þekkingarleysi viðkomandi aðila.Tökum dæmi af sjóðsfélaga sem hefur verið á núverandi meðallaunum eða tæpum 360 þús. kr. launum í 40 ár og þá væri áætlaður mánaðarlegur lífeyrir við 67 ára aldur alls kr. 200 þús. krónur út ævina. Athugið að þarna er um lágmarksréttindi að ræða og margir sjóðir lofa töluvert betri réttindum. Sama á við um makalífeyri og barnabætur. Við þessa tölu bætast síðan við greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.
Stefna verkalýðshreyfingarinnar, eins kom mjög skýrt fram í síðustu kjarasamningum, er að samanlagður lífeyrir frá Tryggingarstofnun og úr lífeyriskerfinu tryggi að minnsta kost 75% af þeim meðallaunum sem
viðkomandi sjóðsfélagi hafði, eða a.m.k. um 270 þús. kr. á mánuði í lífeyri, hafi meðalævilaun verið 360 þús. kr. á mánuði, tengt við neysluvísitölu.
Séreign
Undanfarin ár hefur verið rekið til viðbótar séreignarkerfi, grunnhugsun bak við það er að fyrstu árin eftir að fólk fer af vinnumarkaði er það í fullu fjöri og vill geta búið við svipuð laun fyrstu árin eftir starfslok. Hafi viðkomandi greitt í séreign, eins honum stendur til boða með töluverðum skattafslætti, geta lífeyrisþegar haldið fullum launum fyrstu 7 árin.
Margir flaska á því í sínum samanburði að bera saman séreign og samtryggingu, og svo uppsöfnunarkerfi og gegnumstreymiskerfi. Munur á þessum formum er gríðarlegur, samanburður verður ekki líkt með mismun á epli og appelsínu, frekar epli og kartöflu. Engin veit t.d. hversu lengi hann mun lifa, samtryggingarkerfið tryggir fullar greiðslur allt lífið.
Kerfið er reiknað út frá meðalaldri. Það segir okkur að sumir eru að fá mun meira úr kerfinu en þeir hafa greitt til þess, bæði þeir sem lifa lengur og ekki síður þeir sem verða fyrir því óláni að verða öryrkjar. Einkennilegt að heyra suma sem gefa sig út fyrir að tala fyrir jöfnuði vilja leggja þetta kerfi niður. Enginn gerir ráð fyrir því að verða öryrki og ekki er hægt að tryggja sig hjá tryggingafélagi fyrir sambærilegum tryggingum og lífeyrissjóðir bjóða.
Samtrygging
Mjög margir gleyma við sína útreikninga að taka inn í dæmið samtryggingarþátt kerfisins, sem hefur verið helsta áhersla launamanna. Það að þeim standi til boða samskonar bótaréttur og þekkist á hinum norðurlöndunum. Það tókst með uppbyggingu lífeyriskerfisins. Hluti af iðgjaldi til lífeyrisjóðs er um leið iðgjald til örorkubótatryggingar, tryggingar á makalífeyri og barnalífeyri.
Tökum dæmi af 35 ára sjóðfélaga sem lendir í örorku. Þá fengi hann sömu upphæð í örorkulífeyrir við 35 ára aldur og hann hefði fengið í eftirlaunalífeyrir við 67 ára aldur. Aðrir sjóðfélagar halda því uppi lífeyrisgreiðslum til hans svo áratugum skiptir, m.ö.o. taka þeir á sig lakari lífeyrisrétt til að hjálpa þeim er lenda í slíkum áföllum áður en að lífeyrisaldri er náð. Hlutfall örorkulífeyris af útgreiðslum lífeyrissjóðs er ákaflega misjafnt milli sjóða, en er um 40% hjá þeim sjóðum sem bera mestu örorkubyrðina.
Hér er lesandi góður helsta ástæða þeirra illvígu deilna milli almennu stéttarfélaganna og ríkisvaldsins um lífeyrismál, sem hafa komið fram í fjölmiðlum í hvert skipti sem yfir standa viðræður um endurnýjun kjarasamninga. Hvers vegna á launamaður á almenna vinnumarkaði að sætta sig við skerðingu á sínum ellilífeyri vegna þess að hann lenti í lífeyrissjóð sem ber uppi mikla örorkubyrði á meðan lífeyrisþegar í opinberu sjóðunum sleppa alveg við það? Þar ekki skert heldur reikningurinn sendur m.a. til launamanna á almennum vinnumarki í skattseðlinum.
Greiddur er makalífeyrir til eftirlifandi maka við andlát. Geta þessar greiðslur skipt sköpum fyrir fjölskyldur á erfiðum tímum og staðið yfir þangað til yngsta barn sjóðfélaga kemst á fullorðinsár. Einnig er greiddur barnalífeyrir vegna barna örorkulífeyrisþega og barna við andlát sjóðfélaga.
Skylduaðild
Stundum bera menn saman útgreiðslu lífeyris við það sem þeir fá hvort sem er úr Tryggingakerfinu. Hér gleyma menn þeim þýðingarmikla þætti að í dag er enginn með full réttindi, það hefur engin greitt af allri sinni starfsævi til lífeyriskerfisins. Kerfið var stofnað 1970. Þannig þessi samanburður byggir á alröngum forsendum.
Hér þarf að líta til tveggja þátta;
a) Það eru í gildi lög í landinu sem tryggja að allir launþegar greiði til lífeyrissjóðs þannig að það stendur engum til boða í dag að sleppa því að greiða lögbundið iðgjald til lífeyrissjóðs. Það eru ekki nema nokkur ár síðan farið var að fylgja þessu eftir af hörku. Áður komust sjálfstæðir atvinnurekendur upp með að sleppa greiðslum.
b) Ástæða þess að slíkt er bundið í lög er til að tryggja að allir sitji við sama borð. Þeir sem hafa ekki greitt iðgjald til lífeyrissjóðs fá þannig mun hærri greiðslur frá Tryggingastofnun en þeir sem hafa greitt til lífeyrissjóðs.
Lífeyrir Tryggingastofnunar er greiddur með sköttum okkar allra þannig að með „gamla fyrirkomulaginu“ var verið að hækka skatta okkar allra til að greiða tekjutryggingu til þeirra sem aldrei greiddu til lífeyrissjóðs.
Lífeyrismál eru eitt helsta hagsmunamál launþega og þekking á þeim málaflokki veigamikill þáttur í öllum samningum sem gerðir eru á vinnumarkaði. Ekki er hægt að semja um kaup og kjör af neinu viti nema að hafa til að bera góða grundvallarþekkingu á þessum málaflokki. Allt tryggingarkerfi á vinnumarkaði byggist á samtryggingarkerfi. Þar má sérstaklega vísa til félagssjóðs, sjúkrasjóðs, endurmenntunarsjóða og Starfsendurhæfingarsjóðs.
Þar má einnig taka til veikindadagarétt í kjarasamningum hér á landi, sem er mun rýmri hér en á hinum Norðurlöndunum sakir þess hversu lakar bætur eru frá Tryggingarstofnun. Það er ekki hægt að tala gegn samtryggingu á þessum nótum öðruvísi en sjá réttindum þeirra sem minnst mega sín borgið þá með öðrum hætti og það verður ekki gert nema með umtalsverðum skattahækkunum.