sunnudagur, 6. nóvember 2011

Hreinsun

Sá sýningu Þjóðleikhússins á verkinu Hreinsun eftir Sofi Oksanen í gærkvöldi. Hreinsun gerist í Eistlandi á tveimur tímum, við upphaf tíunda áratugarins og við upphaf þess sjötta. Verkið hefst á því að ung kona kona að sveitabæ gamallar konu. Stúlkan hefur orðið fyrir harkalegu ofbeldi.

Dregin er upp svakaleg mynd af mansali. Mynd sem við þekkjum því miður ágætlega úr fréttum undanfarin misseri. Þegar líður á verkið kemur í ljós að gamla konan hefur einnig þurft að ganga í gegnum mikið ofbeldi af hendi karlmanna og þurft að læra listina að lifa af, hvað sem það kostar.

Mér finnst leikritið mikið betra en bókin. Einfallega mikið betra, var dáldið undrandi eftir að hafa lesið bókina fyrr í haust hvers vegna allir voru svona gríðarlega hrifnir af henni. Bókin er góð, en umfjöllunin var aðeins of yfirdrifin að mínu mati. Í leikverkinu tekst mjög vel að flétta saman á mjög skýran hátt frásagnir þeirra Zöru og Aliide beggja þó verið sé að fara fram og tilbaka í tíma.

Öll kvenhlutverkin eru mjög sterk og Margrét Helga Jóhannsdóttir vinnur leiksigur í hlutverki Aliide eldri. Hlutverkið er gríðarlega erfitt og reynir mikið á, en hún er kraftmikil fór á kostum.

Aliide yngri leikur Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Arnbjörg Hlíf Valsdóttir leikur Zöru. Þær valda sínum hlutverkum ákaflega vel, stundum fannst manni aðeins yfirkeyrt, sérstaklega hjá Vigdísi.

Karlhlutverkin eru minni. Ólafur Egill Egilsson og Pálmi Gestsson leika fantana og draga upp skýra mynd af þessum ógeðfelldu drullusokkum. Stefán Hallur Stefánsson er í hlutverki mannsins í lífi Aliide, stundum erfitt að heyra hvað hann er að segja. Þorsteinn Bachmann leikur eiginmann hennar. Allt vanir menn og skila sínum hlutverkum með miklum ágætum.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur var frábær, einfaldlega með því besta sem ég hef séð. Lýsing og og tónlist eru virkilega vel af hendi leyst.

Mjög góð sýning, virkilega góð, en hún rífur í og þeir sem ekki eru til í þannig flækjur ættu að hugsa sig um áður en þeir fara.

Engin ummæli: