Það er svo einkennilegt hvernig sumir stilla upp málum og halda því fram að það sé ekkert mál að bjarga gjaldeyrismálum, bara með því að gera allt annað en að taka upp Evru. Meir að segja fólk sem er menntað sem hagfræðingar segja að þetta sé ekkert mál bara skipta um nafn á krónunni.
Þá spyr maður; Veit viðkomandi ekki hvers vegna örgjaldmiðill sveiflast og hvers vegna t.d. vogunarsjóðir og hrægammasjóðir, hvað þessir stóru sjóðir heita nú, leita miskunnarlaust að leiðum til þess að græða, sama hvaða afleiðingar þær hafa fyrir launamenn. Þetta fjárhættuspil var ein af stóru ástæðunum fyrir því að krónan sveiflaðist og margir græddu drjúgar fúlgur á því, meðan blæddi um það bil 25 þús. íslenskum heimilum út.
Vita þessir hagfræðingar að kostnaður af krónunni, eða sama hvað örgjaldmiðillinn heitir, byggist að miklu leiti á því að það þarf að halda úti öflugum gjaldeyrissjóði til þess verja gjaldmiðilinn? Það kostar umtalsverðar upphæðir, sem lenda á heimilum og fyrirtækjum í formi aukavaxtakostnaðar sem nemur 1,5 – 2% og íslendingar eru að greiða um 3,5 - 4% hærri vexti vegna þess að þeir eru með þennan gjaldmiðil.
Auk þessa eru önnur smáræði eins og reglubundin eignaupptaka og stökkbreytingar skulda heimilanna.
Þeir sem dásama krónuna sleppa vitanlega öllum þessum tittlingaskít og miða allt við hvað gerðist eftir Hrun og gæta þess að taka ekki með í sínu dírrendí það sem gerðist fyrir Hrun og gerist á um það bil 10 ára fresti hér á Íslandi.
Helsta ástæða þess að menn velta fyrir sér Evru umfram aðrar leiðir eru tvær.
A) Um 60% viðskipta íslendinga fara fram í Evrum og ef við erum tengd þeim gjaldmiðli þá koma gjaldmiðilsveiflur í þessum viðskiptagjaldmiðli ekki fram við og dagvöruverð sveiflast einfaldlega jafnmikið. Auk þess mun kostnaður við að skipta um gjaldmiðil bæði á inn og útleið við okkar stærsta viðskiptasvæði hverfa.
B) Og svo er það hitt að Seðlabanki ESB er og mun verða bakhjarl þessa gjaldmiðils og Ísland losnar undan hinum gríðarlega kostnaði við að verja örgjaldmiðil sinn.
C) Ísland á allt undir að það takist að koma í veg fyrir að evrusamstarfið leysist ekki upp. Þeir hagsmunir eru til staðar alveg óháð því hvort við göngum inn í ESB eða ekki. Á þessu ári hafa liðlega 80% af öllum útflutningi Íslendinga farið á ESB svæðið og stór hluti innflutnings kemur þaðan. Þorri erlendra eigna lífeyrissjóða okkar er í evrum.
Eins og fram hefur komið í pistlum hér á þessari síðu undanfarna daga, er það sem sett er fram svo geggjað að maður veit eiginlega ekki hvort verið sé að tala í alvöru, þar má benda á "hagfræðinga?" sem stíga fram og stinga upp á því að taka t.d. upp Kanadískan dollar og Kanadamenn vilji það endilega og sumir virðast taka þetta alvarlega. Stundum hafa aðrar myntir verið nefndar. augljóslega er þetta í raun allt sama tóbak og skipta um nafn á krónunni, við þyrftum eftir sem áður að standa straum af rekstrarkostnaði þess gjaldmiðils.
Eru Kanadamenn virkilega tilbúnir í að spandera á okkur þeim fjármunum sem sem hlýst af því að verja okkar hagkerfi? Eða hitti sá hagfræðingur sem setur þetta fram, einhverja Kanadamenn á bar, datt í það með þeim og þeir urðu voru bestu vinir Íslands. Hér er ég augljóslega að vitna til umtalaðs ferðalags formanns Framsóknar til Noregs á bar í Osló til þess að tala við "norskan spesíalista" í beinni útsendingu RÚV. Mesta drykkjuflopp ever eins og krakkarnir mínir segja gjarnan.
Eru Kanadamenn virkilega til í að kaupa allar krónur sem eru í umferð, allt lausafé og skuldabréf, og greiða það upp í topp með kanadískum dollurum. Og henda svo öllu sem fylgdi krónunni í ruslið. Fyrirfinnst enn í heiminum slík gjafmildi og hjartahlýja, eða er þetta bara menn sem smella á sig nokkrum tvöföldum og faðmast á eftir?
Hvers vegna berjast menn svona mikið gegn því að tala um málin eins og þau eru, samfara því að gera allt til þess að drepa málum á dreif og koma með því vísvitandi í veg fyrir að við þurfum ekki að upplifa reglulega þessar svívirðilegu eignaupptökur, sem tilteknir aðilar ástunda á íslenskum almenning með því að viðhalda núverandi kerfi.
Allir vita að um 30% af vinnutíma íslenskra launamana fer í að standa undir rekstri örgjaldmiðilsins og þeir fjármunir renna þráðbeint í vasa fárra. Það eru þeir og þeirra málpípur sem gera allt til þess að koma í veg fyrir að þeim missi þetta kverkatak á íslenskum launamönnum og heimilum þeirra.
20% rafiðnaðarmanna hafa nú þegar flúið hið dásamlega dýrðarríki krónunnar og þeim fer fjölgandi.
Skráð atvinnuleysi rafiðnaðarmanna er hins vegar um 3,5%, aðdáendur krónunnar nota einungis skráð atvinnuleysi til þess að styðja sitt mál.
Um 300 rafiðnaðarmenn fóru eftir Hrun af vinnumarkaði inn í skóla, 20% hafa flúið land þetta gerir að raunverulegt atvinnuleysi rafiðnaðarmanna á Krónulandi er þegar allt er talið nálægt 25% og það er töluvert hærra í öðrum iðngreinum í því landi.
Svo eru menn að berjast fyrir því að viðhalda þessum ástandi með útúrsnúningum og víðáttuvitlausum tillögum.
Brilljant tillaga og allir happý.
Reyndar heyrði ég tillögu í gær sem kom, að mér skilst að einhverju leiti, frá hæstvirtum utanríkisráðherra. Seðlabanki ESB taki upp krónu því hún henti svo vel til þess að viðhalda spilltum hagkerfum eins og í Grikklandi og á Ítalíu.
Þá geta Íslendingar skipt um nafn á krónunni kallað hana Evru og síðan haldið áfram með sitt hagkerfi í óbreyttri mynd með áframhaldandi eignaupptöku hjá launamönnum.
Og þeir fjármálamenn sem græða á því að viðhalda óbreyttri stöðu bæði hér og í Evrópu, geti lifað hamingjusamir ever after við sístækkandi bankabækur í skattaparadísum og spilað golf fyrri part ársins á Flórida og seinni partinn á Spáni.
Þetta er draumalausnin sem Nei menn berjast fyrir. Feita söngkonan búinn að syngja og íslenskir launamenn eiga engan sjéns á því að komast í partýið og verða borða Ora fiskibollur og drekka vatn með.
6 ummæli:
Góður pistill.
Kostnaður við krónuna er meiri en 1 - 2%, hann er á bilinu 3 - 5% af lánum.
Ef 30% af vinnutímanum fer í að standa undir gjaldmiðlinum, þá er það - 2,4 klst á dag, 1,5 dagar í viku, 1,2 vikur í mánuði, 3,6 mánuðir á ári (janúar til apríl, þá er hægt að halda 1. maí hátíðlegan til að fagna því að vera laus við króanuskattin það árið - þessu þarf að bæta við hátíðarhöldin 1. maí.)
Ef starfsævi manna er c.a. 18 ára til 67 ára sem gerir 49 ár, þá fara 30% af því í krónuskatt - sem gerir 15 ár af ævinni í að vinna fyrir krónunni.
Ef einhver vill vinna kauplaust í 15 ár - þá ætti sá hinn sami að gefa sig fram - og ef hann er tilbúinn í slíkan þrældóm - væri mun betra að gefa ávinning af slíkum botnlausum þrældóm - til hjálparstarfs - heldur en að henda slíku í fjármagnskostnað fyrir erlenda vogunarsjóði sem eiga bankana.
Hugsið ykkur hið gríðarlega framlag sem Ísland gæti gefið til hjálparstarfa - ef þessi þrældómur í þágu krónunnar væri gefinn til Rauða krossins!!
Hvað væri það mikið??
Laun og launatengd gjöld á árinu 2010 voru um 500 milljarðar - 30% af því er 150 milljarðar - sem krónan kostar á ári!
Þetta er skattur sem er miklu hærri en allir aðrir skattar samanlagt - og 5 sinnum kostnaður Landsspítalans.
Hinn ósýnilegi krónuskattur - sem sífellt er að hækka - og éta upp eignir fólks - er langsamlega mesti skattur á Íslandi.
Stærsta verkefni samtímans er að losa Ísland við þennan þrældóm - og gefa framtíðnni von um betri tíma.
Með slíkan krónuskatt er alfarið vonlaust verk að leysa skuldavanda heimilanna eða atvinnulífsins.
Lausn á þessum málun er jafnframt stærstu kaupmáttartækifæri samtímans - en kaupmáttur gæti aukist um tæp 50% ef hægt væri að afnema þenna óþarfa og aukalega krónuskatt - og losa miklar byrðar af atvinnulífinu í leiðnni.
Þetta er verkefnið.
Hvar eru leiðtogarnir?
Upptaka annars gjaldmiðils en evru er ekki möguleg, þar sem fjármálakerfið hefur þá ekkert bakland í seðlabanka á Íslandi eða lán til þrautavara. Bankar gætu þá fallið hvenær sem er þar sem þeir eru einir og óstuddir. Því væri verið að far úr öskunni (krónunni) í eldinn með upptöku annars gjaldmiðils, nema ef það er evra. Með upptöku evru hefur fjármálakerfið bakland seðlabanka Evrópu eins og Finnland, Danmörk og mörg önnur ríki þar sem allt gegnur vel.
Guðmundur og rosastuði, fantagóður eins og oft áður
Kristinn Þór
Hvernig fer ef spá Evruandstæðinga um hrun Evrunnar rætist og við verðum föst í sterkum og stöðugum Kanadadollar? Hættum við þá að selja fisk og lambakjöt til Evrópu? Annað eru víst ekki æskilegir atvinnuvegir, fyrirgefið ég gleymdi ...ferðamennskunni sem er víst svo yfirmáta vistvæn vegna þess hve hátt þoturnar fljúga þegar þær brenna jarðefnaeldsneytinu, sem reyndar fer að stærstum hluta að sjálfsögðu í flugtakið!
Ingimundur
Þú heldur áfram að berjast við Hagfræðinga um gjaldeyrismál. Í síðustu viku gerðir þú þig að fífli með því að segja að ritsjóri Financial Times væri ruglukollur..Er ekki kominn tími til að þú stöðvir flutning þinna minna til Noregs með því að berja á þessari aumu ríkisstjórn og skapa störf. Það er ekki krónan sem sendir þá til Noregs heldur dugleysi í ESB píkum eins þér, Villa Egils og Gylfa Arnbjörns sem halda að atvinnuleysi hér á landi minnki við inngöngu í ESB þar sem er að mælast 11% atvinnuleysi...
Kæri #23:44
Vanalega birti ég ekki svona aths. En ætla að gera undantekningu, því þetta er svo dæmigerð aths. frá einstakling sem hefur nákvæmlega engin rök fram að færa fyrir máli sínu annað en eitthvert persónulegt skítkast, og kemur vitanlega fram í skjóli nafnleysis.
Skrifa ummæli