miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Upp úr hjólfari sérhyggjunnar

Ég hef komið víða á ráðstefnur þar sem saman eru komnir trúnaðarmenn launamanna nánast frá öllum löndum heimsins. Alltaf erum við fulltrúar norrænu stéttarfélaganna leitaðir uppi og þar fáum við staðfestingu á því að þau samfélög sem almenningur um víða veröld lítur helst til og vill búa í, eru norrænu velferðarþjóðfélögin. Við erum ákaft hvattir til þess að gefa í engu eftir í okkar samfélögum, með því bætum við ekki samkeppnismöguleika norrænu landanna, heldur verði þeir sem búa við lökustu kjörin einfaldlega færðir neðar í stiganum.

Á Norðurlöndunum ríki friður og fjölskylduvænt umhverfi. Mikill agi í viðskiptum og samskiptum á vinnumarkaði. Í norrænum hagkerfum ríkir stöðugleiki og jafn stígandi kaupmáttarauki (hér dettur reyndar Ísland reglulega úr lestinni). Þessi samfélög eiga það sammerkt að fara hvað mest í taugarnar á forsvarsmönnum sérhyggjunnar og ekki síst hér á Íslandi.

Hér á Íslandi taka fylgjendur sérhyggjunnar aftur á móti vart til orða án þess að lýsa yfir andúð sinni á þessum nágrönnum okkar, hér vísa ég t.d. til ummæla í síðustu viku, um að ef menn vilja búa í svona samfélögum taka þeir bara Norrænu og flytja þangað. Yfirburðaaulafyndni á borð við þetta fær langvinnt lófaklapp og húrrahróp á landsfundi sérhyggjusinna. Svona kappar eru kosnir ræðukóngar, seðlabankastjórar, forsætisráðherrar og borgarstjórar.

Þessir menn segjast í spjallþáttum og vikuna fyrir kosningar standa fyrir "Stétt með stétt", en þess á milli berjast þeir hvað harðast gegn umbótum á íslensku samfélagi, hafna breytingum á stjórnarskránni. Hér eigi keppni að ráða og markaðurinn ráði. Vilja loka Ríkisútvarpinu og breyta því í Útvarp Sögu og Skjá 1. Ísland eigi ekki að hafna því að selja sína orku til umhverfissóða og hér eigi að hafna kolefnissköttum. Þessu fylgja hótanir um að ekki verði um að ræða frekari fjárfestingar hér á landi. Á markaðurinn að ráða nauðsynlegum aðgerðum í umhverfismálum?

Samkvæmt þessari stefnu á að ríkja keppni á öllum sviðum. Almannahagsmunir víki fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir keppa í lækkun skatta til að ná til sín fyrirtækjum. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla og veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin um að þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki.

Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu. Óheft keppni alþjóðafyrirtækjanna getur ekki leitt til annars en að þau samfélög, sem almenningur barðist fyrir í blóðugum byltingum og stríðum síðustu öld munu hrynja, sé fórnað á altari samkeppninnar.

Gegn þessu verður að sporna, breyta viðhorfum og rýma fyrir sjónarmiðum norrænnar samtryggingar. Við eigum ekki að vera eina landið á Norðurlöndum sem sérhyggjumenn hafa náð tökum á. Það er sá lærdómur sem við ættum að hafa numið í Hruninu. Sjá í gegnum þokumistrið frá reyksprengjunum sem sérhyggjumenn kasta reglulega inn í umræðuna. Ísland gæti verið kennslubókardæmið sem nýtt væri til þess að koma á alþjóðlegum reglum sem taka mið af heildarhagsmunum.

Endurskilgreina þarf hver markmiðin eigi að vera. Kerfið eins og það er nú, tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Fyrirtækin stjórna ríkisstjórnunum og setja þeim stólinn fyrir dyrnar með sína hagsmuni í fyrirrúmi. Samspil þessara aðila velur þau kjör sem launamönnum er boðið upp á. Ef stéttarfélögin gera of góða kjarasamninga þá þykir sérhyggjumönnum gott að hafa gjaldmiðil sem hægt sé að fella til þess að tryggja að 30% af þjóðaframleiðslunnar renni áfram í vasa hinna útvöldu. Þetta sjónarmið fær langvinnt lófatak og klapp að bak ræðumanns.

Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga við jákvæðum viðhorfum til fjölskyldna eru að glatast og viðhorf auðhyggju og sérhyggju hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex og réttindalausum farandverkamönnum fjölgar. Hungrið í heiminum vex samfara því að þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni.

Hér er farið yfir þetta á skiljanlegan hátt af Hans Rosling.

Í Kína, því landi sem sumir af leiðtogum Íslands mæra í alþjóðlegum fjölmiðlum og segja jafnframt að Norðurlöndin séu okkar helstu óvinir, eru rúmlega 5 milljónir fanga í 1.000 fangelsum nýttir til þrældóms í verksmiðjum þar aðbúnaður er ólýsanlegur. Þar eru kjör launamanna um heim allan keyrð niður og búið til atvinnuleysi.

Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna nær sífellt sterkari tökum að alþjóðasamfélaginu. Í Evrópu starfa í dag fyrirtæki sem selja svarta lista til atvinnurekanda. Á þessa lista eru menn skráðir sem vilja vera í verkalýðsfélögum, hafa gefið sig út fyrir að krefjast hærri laun eða gert athugasemdir við öryggisbúnað. Gjaldþrot auðhyggjunnar blasir við hvert sem litið er.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þrátt fyrir lélega kaupmáttaraukningu á tíðum miðað hin N.löndin þá er Ísland efst á þessum lista yfir félagslegt réttlæti http://www.nytimes.com/imagepages/2011/10/29/opinion/29blow-ch.html?ref=opinion

Nafnlaus sagði...

Það er sem sagt aðallega fólk í útlöndum sem hvetur ykkur áfram til góðra verka, en ekki heimamenn? Klingir það virkilega engum bjöllum?

Hér á landi er verið að gjörsamlega stúta öllu sem heitir velferð. Þegar meira segja sjálfur Ayatollah Samfylkingarinnar innan verkalýðshreyfingarinnar, sjálfum Gylfir Arnbjörnssyni er farið að blöskra hvernig samningar eru sviknir áður en blekið er þornað, þá fara þeir heyrnarlausu að sperra eyrun.

Guðmundur sagði...

Ósköp er þetta nú ómerkileg frametning og mikil lágkúra hjá nafnlausum 22:32 og fjallar reyndar ekki um innihlad þessa pistils.

ASÍ og Gylfi Arnbjörnsson hafa allt frá því að Stöðugleikasamningar voru gerðir gagnrýnt ríkisstjórnina heiftarlega. Sá sem ekki hefur tekið eftir því er með öll skilningarvit lokuð