laugardagur, 26. nóvember 2011

Staðreyndir til heimabrúks

Grein sem var birt í Fréttablaðinu í dag. Greinin er svar við kostulegri grein Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna sem birtist í Fréttablaðinu fimmtudag 24. nóvember.

Efnahagsstefna á Íslandi síðustu áratugina hefur miðað að því að viðhalda hagvexti með opinberum inngripum. Þetta var fyrst og fremst gert með aukinni skuldsetningu ríkissjóðs fram til ársins 1990. Þjóðfélagið var þá í fjötrum vítahrings gengis- og verðlagsbreytinga, sem kölluðu endurtekið á miklar launabreytingar.

Á árunum 1980 – 1990 voru gerðir kjarasamningar sem innifólu um 1.600% launahækkanir. Á þessum tíma var tíðni gengisfellinga mikil og verðbólgan hækkaði því enn meir, sem olli því að kaupmáttur laun féll á sama tíma um 10%. Svo einkennilegt sem það er nú tala margir um það í dag með söknuði að á þessum árum hafi verkalýðsforingjar gert alvörukjarasamninga.

Undir lok þessa áratugar voru allir aðilar sammála um að ekki væri lengra komist á þessari braut. Atvinnulífið, og reyndar þjóðfélagið allt, var komið að fótum fram. Þjóðarsátt var gerð og tekin var upp fastgengisstefna og samkomulag náðist um að setja launahækkanir í samhengi við samkeppnisstöðu Íslands. Sameiginlega átak varð til þess að það tókst að ná 30% verðbólgu á skömmum tíma niður í 2-3%.

Nokkru fyrir aldamót fór að gæta ójafnvægis í þjóðarbúskapnum, í stað þess að beita auknu aðhaldi lofuðu andstætt öllum hagfræðikenningum stjórnmálamenn miklum skattalækkunum í kosningabaráttunni 1999 og þenslan jókst vitanlega og ekki tókst að viðhalda fastgengisstefnunni lengur og ákveðið að láta gengið fljóta.

Svo kom næsta kosningaár 2003 og enn bættu stjórnmálamennirnir við í sínum óábyrga leik og yfirbuðu hver annan. Samið var um stærsta verkefni sem lagt hafði verið í hér á landi, álver og Kárahnjúkavirkjun. Margir bentu á að þetta væri það stór biti fyrir hagkerfið að hér yrði að fara varlega og stjórnvöld yrðu að beita sér gegn ofhitnum á hagkerfinu, en þrátt fyrir þetta lögðu ríkisstjórnar flokkarnir út í umfangsmestu framkvæmdir í vega- og jarðgangnakerfi landsins.

Samfara þessu lækka þeir að auki hátekju- og eignaskatta. Í kosningabaráttunni var lofað umtalsverðri hækkun íbúðarlána og það brast á keppni um hver gæti farið hæst og lánin ruku upp í 100%, allur fasteignamarkaðurinn fór á fullt og íbúðarverð rauk upp.

Tekjur hins opinbera jukust vitanlega og því fylgdi gríðarleg fjölgun á störfum hjá hinu opinbera og allar áætlanir stjórnmálamanna miðuðust við að hér myndi allt vaxa áfram til hins óendanlega.

Ítrekað var stjórnvöldum bent að það myndi koma niðursveifla, og þær forsendur sem stjórnmálamenn settu sér gætu ekki annað en endað með ósköpum bæði hjá ríkissjóði og ekki síður hjá sveitarfélögunum. Í stað þess að lækka skatta og auka eyðslu hins opinbera hefði átt að leggja fyrir til fyrirsjáanlegra magurra ára. Allt var þetta byggt á kolröngum ákvörðunum við efnahagsstjórnina.

Seðlabankinn hækkaði vexti til þess að slá á þensluna, en það leiddi til þess að erlent fjármagn streymdi til landsins vegna vaxtamunar. Krónan styrktist og afkoma útflutningsfyrirtækja versnaði, en innflutningur jókst umtalsvert. Einkaneysla fór upp úr þakinu og viðskiptahallinn fór yfir 20%.

Árin 2006 – 2008 voru útflutningstekjur Ísland vegna vöru og þjónustu einungis um 5-7% af gjaldeyrisviðskiptum, hitt var vegna viðskipta þar sem fjárfestar voru að spila með krónuna og nýta sér vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa. Á þeim tíma frá því að tekinn var upp fastgengisstefna var krónan felld árið 2001 um 25%, árið um 2006 um 20% og svo í Hruninu um 50%. Fram að Hruni voru engar mótvægisaðgerðar kynntar.

Hagdeild ASÍ varaði ítrekað reglubundið á frá árinu 2005 hvert stefndi. Fram hefur komið að ráðherrar nágrannaþjóða okkar höfðu ítrekað samband við íslensk stjórnvöld, án nokkurs árangurs. Einu viðbrögðin voru að fara í umfangsmiklar kynnisferðir um heiminn og fræða fólk um hið mikla Íslenska efnahagsundur. Spárnar rættust því miður og eftir sitja þúsundir íslendinga í skuldasúpu.

Helstu ráð stjórnmálamanna þessa dagana er að það séu fólgin umtalsverð sóknarfæri í því að halda krónunni lágri, það veldur því að heimilin hafa lágar tekjur og skuldirnar vaxa frekar en minnka. Frá Hruni hafa gjaldeyrisskapandi greinar búið við gríðarlegan hagnað og Einungis hluti hans er fluttur heim. Segja má að þessi grein sé að greiða hálf laun hér á Íslandi og hinn helmingurinn er lagður inn á erlenda gjaldeyrisreikninga eigenda fyrirtækjanna. Þetta er gert á kostnað íslenskra heimila og þeirra fyrirtækja sem starfa á innanlandsmarkaði. Gríðarleg mismunum á sér stað. Verulegur hluti fyrirtækjanna getur ekki hækkað laun á meðan önnur búa við ofboðslegan hagnað.

Nú er spáð innan við 3% árlegum hagvexti næstu ár. Svo lítill hagvöxtur nægir ekki til þess minnka þann slaka sem myndaðist í hagkerfinu í kjölfar Hrunsins. Nýsköpun er mikilvæg til þess að stuðla að sjálfbærum og auknum hagvexti. Þar verður að líta til íslenskra tæknifyrirtækja sem eru að keppa á alþjóðamarkaði, en þau eru að flýja krónulandið hvert á fætur öðru. Þrátt fyrir það lýsir hluti stjórnmálaflokka yfir andstöðu við að breyta þessu ástandi til framtíðar.

1 ummæli:

halldor sagði...

Þorbjörg Helga hefur fengið sinn skammt af gagnrýni yfir greininni. Eitthvað af þeirri gagnrýni tengist reyndar "stóra símamálinu", en ekki efnisinnihaldi greinarinnar. Sem er miður, því greinina má gagnrýna á grunni þess sem þar er skrifað.

Tilfellið er að þar fer hún með réttar staðreyndir, en sleppir öðrum og kemst að niðurstöðu sem er ekki í rökréttu samhengi við meginmál greinarinnar.

Rök hennar eru í stuttu máli þau að ofvöxtur og hrun hafi átt sér stað í mörgum evrópulöndum, og þar hafi ýmisst hægri eða vinstri menn verið við völd á síðustu árum. Þess vegna sé ekki hægt að klína kreppunni á mistök hægri stefnu.

Það áhugaverða er samt að í niðurlagi greinarinnar "Ef ekki hægristefna, hvað þá?" telur hún upp nokkrar ólíkar skýringar fyrir mismunandi þjóðir. Fyrir Ísland eru það "Vitlausar viðskiptahugmyndir og hegðun banka". Hún bendir líka á ofvöxt ríkisgeirans sem sameigilegan þátt hjá þessum þjóðum.

Niðurstaða greinarinnar virðist því vera sú að hrun í hverju landi megi útskýra með sameiginlegum ofvexti ríkisins og svo sérstökum aðstæðum í hverju landi.

Þessar skýringar um sérstakar aðstæður í hverju landi eru einmitt "heimabrúkskenningar" um orsök kreppunnar. Og þær þurfa ekki að vera rangar, þó þær séu ólíkar milli landa.

Þorbjörg Helga kemst því í mótsögn við sjálfa sig í síðari hluta greinarinnar. Það að vinstri menn í Portúgal séu fullfærir um að sigla sinni þjóðarskútu á blindsker fríar ekki íslenska hægri menn ábyrgð á okkar hruni.

Heimabrúks kenning hennar um vitlausar viðskiptahugmyndir og hegðun banka á Íslandi, er í fullu samræmi við ágæta skýrslu rannsóknanefndar alþingis sem rekur vel það furðuverk sem rekstur útrásarbankanna var.

En í heimabrúkskenningu sinni minnist hún ekki á ábyrgð þeirra sem fóru með landsstjórnina þegar bankar voru einkavæddir, og heldur ekki máttleysi stjórnkerfisins gagnvart bönkunum, - sem þó einnig er rakið vel í skýrslunni.

Mistökin í landsstjórn sem voru gerð hér á landi voru að langmestu leyti mistök hægri manna. Þetta er viðurkennt í annarri skýrslu sem standa ætti Þorbjörgu nærri, endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins. Niðurstaða þeirrar skýrslu um að "einstaklingar hafi brugðist, ekki stefnan" fór illa í þá sem tóku ummælin til sín - eins og frægt er.

Nú er það auðvita hugsanlegt að þessi mistök hafi ekkert með stjórnmálaskoðanir að gera. Þetta hafi bara verið vanhæfir og í sumum tilvikum spilltir einstaklingar, - en er það ekki líklegra að lífsskoðunin hafi einmitt villt góðum mönnum sýn?

Ef menn eru þeirrar skoðunar að markaðurinn viti best, geta menn varla gert sér í hugarlund að einkavæðing bankanna geti leyst úr læðingi aðra eins vitleysu og raun bar vitni.

Varla þarf að deila um að þeir sem telja að markaðurinn viti best eru á móti aðgerðum til að hemja vöxt banka eða því að setja starfsemi þeirra strangari skorður.

Hvað varðar svo athugasemdina um að sameiginlegur þáttur í umræddum löndum sé sú að "þjónusta hins opinbera" hafi "vaxið úr hófi", þá skiptir máli að hér á landi var vöxtur ríkisins ekki tekinn að láni (eins og t.d. í suður- Evrópu).

Hvort sem vöxtur ríkisbáknsins hér á landi var æskilegur eða ekki er teygja menn sig langt með því að segja að hann örsök hrunsins. Það var bankakerfið sem hrundi, - ekki þjónustustofnanir ríkisins. Og það er ekkert í skýrslu rannsóknarnefndar sem bendir til þess að skattheimta á bankana hafi valdið hruni þeirra.

Hvað sameiginlegar skýringar varðar skautar Þorbjörg Helga þó nærri sennilegri sameiginlegum þætti: aðgengi að lánum á lágum vöxtum.

Í suður- Evrópu notuðu ríkisstjórnir þetta til þess að skuldsetja sig um of, á Íslandi voru það bankar og fyrirtæki sem fóru eins að.

Aðgengi að "ódýrum peningum" er líklega nauðsynlegt skilyrði ofurþennslu og hruns, - en það er ekki nægjanlegt skilyrði. Önnur atriði þurfa að koma til og meðal þeirra eru viðhorf valdhafa til þess hvaða mörk sé eðlilegt að setja einkageiranum. Sem leiðir okkur aftur að hægri stefnunni.