miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Kiljan og íslenskir kommúnistar




Halldór - Fréttablaðið 23. nóvember 2011


Verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvers vegna ný bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar fær drottningarkynningu í Kastljósi og síðan er bætt um betur og allur bókakynningartími Kiljunnar tekinn í að kynna bókina.

Það kom greinilega fram að Kolbrún og Egill virtust eitthvað vandræðaleg vegna þessa. Fundu sig endurtekið í því að réttlæta það að fjallað væri um þessa bók. Töngluðust endurtekið á því að þetta væri nú svo góð bók.

Páll var hins vegar hreinskilinn og fjallaði heiðarlega um bókina. Það blasti við að hann var ekki ánægður með að þessi bók væri til umfjöllunar. Fyrirséð væri hvernig HHG myndi fjalla um kommúnista. HHG flokkaði alla sem ekki væru honum sammála í pólitískum skoðunum væru vinstri menn. Barnaleg nálgun.

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem átta mig ekki fullkomlega á notkun hugtakanna hægri eða vinstri maður. Tel mig vera hægra megin við miðju, studdi Sjálfstæðisflokkinn á meðan hann var þar, en sagði mig úr honum ásamt mörgum öðrum í lok síðustu aldar, þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók þá ákvörðun að setja fremst sjónarmið sem komu frá BNA Repúblikönum og víkja frá fyrri stefnu.

Því fer fjarri að ég ætli að verja þau voðaverk sem Stalín og þeirra þarna austur í Sovétinu framkvæmdu. En mér er ómögulegt að að ætla að íslenskir menn sem hrifust af sósíalisma hafi verið það á grundvelli þessara athafna sovétkommúnista, eins og HHG hefur ítrekað gefið í skyn þegar hann fjallar um íslenska sósíalista.

Þar bjó annað að baki, eins og allir vita sem hafa kynnt sér t.d. uppbyggingu norrænu samfélaganna. Þau voru reist á nákvæmlega sama upphafsgrunni og þeir sem lögðu af stað til þess að auka rétt almennings í Rússlandi á sínum tíma. Skildi ekki hvað varð til þess að Egill bætti verkalýðsforingjum á þennan sakabekk. Hvað er verið að gefa í skyn?

Það er ekkert leyndarmál að það fóru einhverjir verkalýðsforingjar þangað austur í einhverjar glansferðir, það var töluvert fyrir minn tíma. En ég veit að það var einnig allmörgum boðið vestur um haf af sendiráði og menningarstofnun BNA til þess að fá kynningu á hvernig fólkið í "The Free World" hefði það. Ættum við að nota hér sömu nálgun og HHG og ræða um athafnir Bandaríkjamanna gagnvart launamönnum og já heilu þjóðunum víða um heimsbyggðina. Eða Mc Carthyisman.

Ekki dettur mér í hug að saka þá sem þáðu boð um að fara vestur um að hafa verið þátttakendur í þeim voðaverkum sem sendimenn Washingtonstjórna framkvæmdu gagnvart þeim sem ekki voru því fylgjandi að meðtaka boðskap bandarískra stórfyrirtækja og gróðahyggju þeirra.

Fram hefur komið í skjölum alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar að þessir náungar hafi t.d. tekið að lífi að jafnaði um 200 trúnaðarmenn launamanna á ári í Suður-Ameríku. Minna má á mörg önnur voðaverk gagnvart launamönnum og fjölskyldum þeirra unnin af fulltrúum "The Free World" víðar um veröldina.

Mér fannst Kiljuna setja mikið niður við þessa yfirferð og er reyndar viss um að margt bókafólk hefði viljað fá umfjöllum ný íslensk skáldverk nóg er af þeim þessa dagana.

"Prófessorinn Hannes Hólmsteinn skrifar talsvert og les líka heilmikið. Það er fallegt. Að lesa og skrifa list er góð. En ákjósanleg er einnig sú list að hreinsa skólp pólitískrar áráttuhegðunar út úr hausnum á sér þegar farið er hug og höndum um verk eftir aðra, jafnvel þótt um sé að ræða hartnær hálfrar aldar gamlan leirburð eftir mig." Þorsteinn frá Hamri um HHG í Fréttablaðinu.

17 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammálu þér um þetta Guðmundur. Ég kíkti í þessa bók í Eymundsson og sé að HHG leggur lykkju á leið sína til þess að gera lítið úr og skrifa andstyggilega um þá sem störfuðu með kommúnistum á fyrri hluta síðasta aldar og börðust fyrir réttindum blásnauðs verkafólks og atvinnuleysingja sem þá höfðu lítil eða engin réttindi. ´
Ég er t.d. ekki mjög hrifin af því hvernig hann kynnir Þorstein Pjetursson afa minn til sögunnar. Þarf að skoða betur heimildir HHG fyrir því sem hann segir um hann í bókinni.

Ingibjörg Stefánsdóttir

bevarca sagði...

Kiljan tók niður fyrir sig þarna, það verður ekki annað sagt. Gæti verið að Hannes hafi rætt við Pál um góða kynningu? Hann vinnur jú þannig.

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki bara ágætisbók sem eðlilegt er að fái umfjöllun eins og hver önnur? Af hverju ætti að þagga hana niður og taka hana ekki til umfjöllunar i Kiljunni? Af þeim ritdómum sem ég hef séð er hún að fá mjög góða umsögn, full af nýjum upplýsingum og heimildagögnum um íslenska kommúnista allt fram á síðustu ár.

Auðvitað er fullt af fólki sem vill þagga hana niður, sérstaklega þeir sem um er fjallað. Sjálfsagt eru einvherjir forsvarsmenn verkalýðsfélaga nefndir til sögunnar, sem er eðlilegt ef þeir hafa komið við sögu.
En að líkja ferðum austur til Sovét saman við heimsóknir til BNA er nú kannaski ekki samanburðarhæft!

Ég mundi líka vilja sjá umfjöllun um bókina Afleikur aldarinnar um Icesaveklúðrið.

Guðmundur sagði...

Það er engin að fara fram á þöggun, því fer fjarri og er bara útúrsnúningur. Það kemur ájkaflega glögglega fram í pistlinum hvernig verið sé að reyna að búa til eitthvert Kalda stríðs ástand til þess að komast hjá því að ræða þær hamfarir sem sú efnahagstefna sem HHG hefur barist fyrir leiddi yfir fólk.

Ljóst er að Bandaríkjamenn hafa murrkað lífið úr hundruð þúsunda fólks, en það er bara ekki málið.

Það sem verið er að benda á er hvers vegna heldur RÚV þessu svona ákaft að fólki? Heilt Kastljós og svo allur inngangur Kiljunnar.

Þetta er í nákvæmlega sama og þegar RÚV reyndi að heilaþvo þjóðina með LÍÚ auglýsingum, en þegar farið var fram á að birta hina hliðan var því hafnað.

Nafnlaus sagði...

Það má benda á það að HHG er meðlimur í hryðjuverkasamtökum sem heita "The boys from Chicago" og hafa rústað þjóðfélugum og verkalýðshreyfingum um allan heim.
Jónas Hreinsson

Nafnlaus sagði...

Það er tvennt sem Hrunverjar og gamlir örlagakommar eiga sameiginlegt í samtímaumræðunni: Alger firring fyrir eigin syndum og standslausar alhæfingar um eigið sakleysi.

Enginn játar syndir sínar. Síðan þegar djarfir rithöfundar kafa í málefnið, grafa upp syndirnar og gera upp málin með beinum og heimildum, þá eru fyrirsjáanleg viðbrögð þeirra sem hafa beina aðild að málinu að bera af sér sakir. Það eru fyrirsjáanleg viðbrögð við því þegar staðreyndir eru bornar á borð. Þetta á við um hrunverja vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og svo núna örlagakomma vegna bóka Þórs Whitehead og HHG.

Það sorglega í þessu þó er að þessir aðilar eiga sér meðhlægendur. Gott og mætt fólk sem trúir því bara ekki að þessir aðilar hafi reynst hafa haft jafn dapra dómsgreind, sem hefur leitt mis-slæm verk, knúna af græðgi (pólitískri eða peningalegri). Meðhlægjendurnir eru blindaðir af barnalegri auðtrú.

Nú er Hannes Hólmsteinn Gissurarson kominn með bók um sögu kommúnisma á Íslandi. Kommúnisminn sem hann er að fjalla um er ekkert eitthvað léttvægt. Við erum að tala um pólitíska hreyfingu sem hefur tugi milljóna mannslíf á samviskunni og fylgispekt íslenskra aðila við þá stefnu. Er það eitthvað til að ypta öxlum yfir og taka léttlega? Tugi milljóna mannslífa? Ofsóknir gegn þjóðum? Eyðilegging hagkerfa þjóða? Áratuga valdnýðsla og pólitísk fangelsun milljóna? Er þetta eitthver "dægurfluga", eitthvað djók?

Já, það er mikill tvískinnungur og mikil hræsni sem felst í því að hunsa skrif Hannesar um kommúnista en á sama tíma öskra sig hásann yfir einhverjum peningum sem hurfu með einhverjum hrunverjum. Hrunverjarnir drápu ekki tugi milljóna manna!! Kommúnistar gerðu það og skildu eftir þjóðir í algerri hagkerfisrúst í þokkabót, sem knýr áfram fátækt og bág kjör í áratugi á eftir.

Hannes og Þór eiga lof skilið fyrir að draga þessar staðreyndir, skjalfestar, fram í dagsljósið. Og gamlir kommar ættu að nota tækifærið, gera upp fortíðina, iðrast, biðjast afsökunar á eigin blindni og halda áfram í lífinu, betra fólk. Að læra ekki af mistökum sínum, fylgispekt við hugmyndafræði sem kostaði tugi milljóna mannslífa, er þyngra en tárum taki.

Nafnlaus sagði...

Ég held að það sé best að meta þessa bók á efni hennar óháð einhverju öðru. Að leggja ferðir til lýðræðisþjóða og bandamanna til jafns við ferðir til Sovét er í raun verið að fegra hlut íslenskra kommúnista, þeir hafi bara verið eins og hverjir aðrir sem voru í alþjóðlegu samstarfi.

Ég hef ekki séð að þessi bók sé eitthvað að reyna að búa til kaldastíðsástand. Það er bara verið að segja áhugverða sögu íslenskra kommúnista sem er studd heimildum og miklum og nýjum gögnum. Söguna verður að segja.

Hvernig er hægt að draga þá ályktun að þessi bók sé gefin út til að komast hjá því að ræða bankahrunið?

Johann Hjartarson sagði...

Djarfir rithöfundar?

Hannes er dæmdur ritþjófur og virðist ekkert hafa lært, ef marka má viðbrögð.

Nafnlaus sagði...

Glæpasamtökinn hans Hannesar heita reyndar "The Chicaco Boys" en eru ekkert betri fyrir það nema síður sé.

http://en.wikipedia.org/wiki/Chicago_Boys

Nafnlaus sagði...

"Hannes er dæmdur ritþjófur og virðist ekkert hafa lært, ef marka má viðbrögð."

Dæmigerð viðbrögð þeirra sem vilja vísa umræðunni á bug án þess að þurfa of mikið að taka á málefninu. Um þetta snýst orðið gagnrýnin á Hannes og örvæntingavörn örlagakommúnista.

Fyrir dómstóli væri þetta kallað að "vísa máli frá vegna formgalla" alveg burtséð hvert kæruefni og sönnunargögn væru.

Endilega, gerum upp sögulega skuld við þjónkun við eina alverstu mannvonskustefnu mannkynssögunnar með slíkum meðölum. Og höldum áfram að læra ekkert af sögunni og reynslunni.

Sumir hafa reyndar kallað þetta Ad Hominem, að hjóla í manninn í stað málefnisins. Aðferðafræði hins rakalausa. Skrítið að fá slík viðbrögð frá "Meistara".

Kv.
Grétar Thor Ólafsson.

Nafnlaus sagði...

Algjörlega ótrúlegt hvað allt virðist snúast um hver er að segja eitthvað, en ekki hvað verið er að segja. Og sumar hliðstæðurnar sem hérna er reynt að stilla upp (við USA t.d.) eru fráleitari en orð fá lýst. Því ætla ég ekki einu sinni að reyna.

Eyjólfur

Nafnlaus sagði...

Tími kommúnismans mun koma aftur.
Dýrð sé CCCP.

Nafnlaus sagði...

Hann ótrúlegur flóttinn frá veruleikanum hjá sumum þeirra sem skrifa hér aths. við aths. Það er vitað að Bandaríkjamenn hafa ruplað og drepið í Suður-Ameríku, Afríku og síðast í Asíu undir húrrahrópum og fangaðarlátum últra hægri manna.

Guðmundur sagði...

Af hverju er verið að spinna upp þessa umræðu núna í beinni útsendingu á RÚV?

Af hverju er verið að gera að því skóna að þessi hópur manna sé eitthvað samábyrgur svona ódæðum?

Það má alveg með sama hætti færa fram rök fyrir því að HHG og skoðanabræður hafi verið meðvirkir í að myrða þúsundir verkalýðsleiðtoga um alla Suður-Ameríku og Afríku ásamt því að reka fjölda fólks á vergang, styðja gjörspillta einræðisherra og þannig mætti lengi telja.

Miðar okkur eitthvað með því að fara í svona ógeðskeppni.

Nafnlaus sagði...

Ég er nú hræddur um að stríðsmaskína kapítalismans og kaþólsku kirkjunnar hafi drepið langtum fleiri en kommúnisminn. Kapítalistar þurfa ekki að stofna Gúlög eða útrýmingarbúðir, þeim nægir að gegnsýra heiminn svo af peningagræðgi, gerviþörfum og hatri í nafni trúar og viðskipta að fólk sér sjálft um að farga sér.

Hvenær ætla kapítalistar að taka á og viðurkenna sína hryllilegu glæpi gegn mannkyni?

AEG

Guðmundur sagði...

Það er ekkert launungarmál að það fara ekki allar aths. hér í gegn.

Það er einfaldlega sakir þess að sumar eru þess eðlis, þær taka ekki á umfjöllunarefni viðkomandi pistils, eða eru með einhverjar dylgjur eða persónulegt skítkast sem kemur málinu vitanlega ekkert við.

Var einhver í sovétinu kommúnisti? Ekki held ég. Sovétríkin voru ekki Kommúnistaríki, ekki í neinum skilningi. Það má með sömu rökum og HHG notar spyrja; Voru ungliðar Sjálfstæðisflokksins 1935 - 1939 og jafnvel Gunnar Thoroddsen, ásamt Gunnari Gunnarssyni og fleirum sem aðhylltust þjóðernishyggju, sem er ekkert ámælisvert, en ef við notum sömu rök og HHG þá væru þeir Hitlers nasistar og þá samábyrgir blóði drifinni slóð nasista? Sama ætti þá við um forysta Sjálfstæðismanna hún væri ekki bara opinn fyrir frjálshyggju samábyrg fyrir blóði drifinni slóð Bandaríkjamanna um heim allan.

Umræða af þessu tagi skilar engu, kalda stríðs kjaftæði. Hvers vegna fær þessi bók sérstaka meðhöndlun hjá RÚV er sú spurning sem ég er að velta fyrir mér í pistlinum, ekki að mótmæla útkomu bóka og nálgun HHG?

Guðmundur sagði...

http://klaki.blog.is/blog/klaki/entry/1207015/

Annar pistlahöfundur sömu skoðunnar