sunnudagur, 6. nóvember 2011

Einvígið

Var að ljúka við að lesa Einvígið eftir Arnald. Eins og nafnið gefur til kynna er söguþráðurinn ofinn saman við einvígi Boris Spassky og Bobby Fischer um heimsmeistaratitilinn og allt það mikla umstang sem var í okkar pínulitla samfélagi kringum þennan mikla viðburð í miðju fáránleika kalda stríðsins.

Arnaldur kynnir hér nýja persónu Marion og sé litið til ummæla sem ég rakst einhversstaðar á, en man ekki hvar, þá hafði maður allan tímann það á tilfinningunni að hér færi undanfari Erlendar Sveinsonar góðkunningja okkar.

Arnaldur í hefur það fullkomlega á valdi sínu að setja upp glæpasögu og leiða okkur inn í einkalíf söguhetjanna um leið og unnið er að rannsókn málsins. Sagan er spennandi og heldur manni við efnið, en ég fæ stundum leið á þessum löngu innskotum um söguhetjuna, sem er svo áberandi í norrænu sakamálasögunni. En Arnaldur heldur sér þó rétt við 300 bls. þannig að þetta sleppur.

Ég er ef þeirri kynslóð að þekkja vel til á þessu tímabili, þá mikill áhugamaður um skák og var að átta mig á samfélaginu. Ég þekkti nákvæmlega hvaða umhverfi Arnaldur er lýsa. Hermannabraggann drungalega Hafnarbíó, amerískar kúrekamyndir, körfukjúkling í Naustinu og nokkur vinsæl lög frá þessum tíma. Meira þarf ekki til þess að allt sögusviðið renni ljóslifandi upp fyrir manni.

Bókin er mjög góð og vel skrifuð. Eins og það á að vera var þá er ekki fyrr en í lokaflanum sem plottið leysist, flott og vel út hugsað. Smellpassar við Einvígið og allan hasarinn í hinu litla samfélagi okkar í kringum sjéntilmannin Spassky og hinn óútreiknanlega Bobby. Óhætt að mæla með henni.

En Arnaldur er kominn á það stig að hann býr við óvægna kröfuhörku af hálfu okkar lesenda. Honum hefur tekist betur upp við persónulýsingar. Ég var ekki alveg að ná sumum persónunum, en myndi örugglega sætta mig við það í bókum eftir aðra og minni spámenn en meistara Arnald.

Engin ummæli: