þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Stjórnarskrárumræðan

Hér á Eyjunni hafa undanfarið birst pistlar þar sem Gísli Tryggvason félagi minn í stjórnlagaráði hefur farið yfir hverja einustu grein Stjórnlagafrumvarpsins með skýringum og ábendingum hvað liggi að baki hverri grein. Umræðan um frumvarpið hefur um of einkennst af fyrirfram gefinni andstöðu við störf Stjórnlagaráðs.

Nú er það svo að legið hefur fyrir að það þurfi að endurskoða núverandi Stjórnarskrá, og það kom reyndar fram áður en Stjórnarskráin var samþykkt á Þingvöllum 17. júní 1944 eins og fram kom í fróðlegu erindi Guðna T.h. Jóhannessonar á aðalfundi Stjórnarskrárfélagsins í vor.

Eftir Hrun kom upp á yfirborðið ákafur vilji meðal þjóðarinnar að uppganga samfélags okkar úr dalbotninum yrði nýtt til þess að skapa hér nýtt og heilbrigðara samfélag. Við vissum að það yrði erfitt, margir þeirra sem hefðu komið sér vel fyrir við kjötkatlana, myndu verjast kröftuglega ef einhver vildi hrekja þá á brott.

Erlendir sérfræðingar í þessum málum t.d. Eva Joly, sem var hér ráðgjafi til skamms tíma lýsti þessu prýðilega. Bankamenn og stjórnmálamenn sem ættu hagsmuna að gæta, myndu gera allt til þess að draga mál á langinn. Helsta baráttuaðferð þeirra yrði að gera alla þá ótrúverðuga, sem þeir teldu ógna stöðu sinni. Hér nægir að benda á þann málflutning sem hefur verið undanfarið um FME og svo hverjir það voru sem sátu á fremsta bekk á landsfundi þess stjórnmálaflokks sem hefur mótað og stjórnað efnahagsstefnu Íslands undanfarna áratugi.

Í þessu sambandi vill ég sérstaklega benda á kafla 8 í öðru bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Bendi á kafla 8.11 og töflur 23 og 24 bls. 200 og 201. Í framhaldi af því um útlán bankanna í kafla 8.12. Í framhaldi af því má kannski velta fyrir sér hvers vegna sumir vilja alls ekki ræða þessa skýrslu.

Allir spádómar í þá veru að hér myndi ganga erfiðlega við að ná fram breytingum á íslensku samfélagi hafa ræst. Reglulega hefur reyksprengjum verið varpað út í umræðuna til þess að leiða hana á villigötur og beina sjónum frá atriðum sem ekki þola dagsljósið. Alltaf eru þar á ferð sömu aðilar, sama hvert litið er. Alltaf tala þeir eins og Hrunið hafi hafist í október 2008 og ekki átt sér neinn undanfara. Það er jú afleiðingar undanfarans sem verið er að glíma við. Það er undanfarinn sem fjallað er um í Rannsóknarskýrslunni. Tilteknir stjórnmálamenn hafa reglulega tekið Alþingi í gíslingu og reynt allt til þess að mál fái málefnalega afgreiðslu.

Það er vitanlega eðlilegt að sett sé fram gagnrýni á framkomnar tillögur og fram fari gagnvirk umræða. Sú umræða nær ekki tilgangi ef inn í hana er endurtekið varpað innistæðulausum klisjum. Klisjum sem ítrekað er búið að sína fram á að standast ekki nánari skoðun. Skortir heilbrigð rök, eins og er t.d. bent á hér og hér.

Hér bendi ég á yfirlætisfullar ábendingar um hnökra sem einhver telur sig hafa fundið í frumvarpi Stjórnlagaráðs og svo maður tali nú ekki um baráttuna gegn Stjórnlagaþingi. Baráttuna gegn því að komið verði í veg fyrir reglulega eignaupptöku hjá launamönnum í gegnum gjaldmiðil sem íslensk valdastétt geti handstýrt, sama hvaða nafni hann á nú að heita nú heita. Þessi hópur vill allt annað en að þurfa að undirgangast öguð vinnubrögð ESB.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Allir spádómar hafa ræst.

Hér hefur ekkert breyst.

Sérhagsmunir og pólitík sjá til þess.

En með leyfi, bera núverandi ráðamenn enga ábyrgð á stöðu mála?

Hefur þessu fólki ekki algjörlega mistekist?

Eða getur verið að það sé líka að verja sérhagsmuni og valdaklíkur?

Hvers vegna fjalla fjölmiðlar og álitsgjafar ekki um þetta?

Er það vegna þess að þeir tilheyra líka, flokkum, hagsmunahópum og valdaklíkum?

Guðmundur sagði...

Alltaf tala þeir eins og Hrunið hafi hafist í október 2008 og ekki átt sér neinn undanfara. Það er jú undanfarinn sem verið er að glíma við afleiðingar hans. Það er undanfarinn sem fjallað er um í Rannsóknarskýrslunni.

kv GG