föstudagur, 30. nóvember 2007

Aftur til kreppuáranna


Stundum er maður fullkomlega orðlaus fyrir framan sjónvarpið. Er maðurinn svona illa aðsér eða er þetta aðferð til þess að ná til tryggra fylgismanna í prófkjörum? Yfirlýsingar Péturs Blöndal í Kastljósinu í gær eru í samræmi við yfirlýsingar tiltekins hóps innan Sjálfstæðisflokksins. Ég á erfitt með að trúa því að Pétur sé svona illa að sér í hagstjórn, hann er greinilega að höfða til frjálshyggjuarmsins sem hefur stutt hann án tillits til afleiðinganna, óábyrgur stjórnmálamaður.

Pétur sagði að verkalýðshreyfingin hafi samið um alltof lág laun og eigi gera mikið hærri kröfur. En hún á ekki að skipta sér af því þegar Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta á hæstu launum og minnkar bætur til þeirra sem minnst mega sín. Við þingmenn, segir Pétur, erum kjörnir til þess að stjórna og kjósendur (launamenn) eiga ekki að vera að trufla okkur á kjörtímabilinu.

Alla síðustu öld til ársins 1990 lamdi verkalýðshreyfingin í gegn launahækkanir sem skiptu nokkrum tugum prósenta í hvert sinn og oft með verkföllum. Þá voru alvörumenn við stjórn verkalýðshreyfingarinnar, má skilja á Pétri. Foringjar sem stóðu á bryggjusporðum og migu standandi í sjóinn. Hver var árangurinn? Menn náðu ekki heim til sín eftir undirritun kjarasamninga í Karphúsinu, þó þeir væru á kraftmiklum bílum, áður en búið var að fella gengið um sömu tölu og kauphækkunin var.

Samið var um 3000 prósenta launahækkun á þessum tíma, verðbólgan var ætíð í grend við umsamdar launahækkanir og kaupmáttaraukning varð sáralítill. Atvinnulífið var komið að fótum fram árið 1989 og við blasti algjört hrun. Þá tóku aðilar vinnumarkaðsins efnahagstjórnina í sínar hendur og þvinguðu stjórnmálamenn til þess að taka þátt í Þjóðarsátt og hafa þeir reglulega síðan þá orðið að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnmálamönnum til þess að koma þeim inn á rétt spor í efnahagstjórninni.

Síðan 1990 er búið að auka kaupmátt meir en alla síðustu öld. Menn höfnuðu algjörlega þeirri leið sem Pétur boðar. Það þarf ekki mikla þekkingu í hagfræði og efnahagsstjórn til þess að sjá að gífurleg hækkun lægstu launa skilar sér í hækkun verðlags á vörum. Atvinnulífið hefur valið þá leið að semja um launahækkanir af þeirri stærðargráðu að fyrirtækin geti staðið undir þeim með aukinni framleiðni og það fari ekki út verðlagið. Það skilar sér í auknum kaupmætti. Það er hægt að ná meiri árangri fyrir þá lægst launuðu með því að semja á þeim nótum sem nú er rætt um. Nýta þá svigrúm sem er til launakostnaðaraukningar til að hækka lægstu launin, og setja launatryggingu. Þeir sem hafa fengið meira en tryggingarmarkið er í launaskriði hafi náð sínu.

Það þarf heldur ekki mikla stærðfræðiþekkingu til þess að sjá að lækkun skatta á tekjum undir 200 þús. niður í 15% skapar mögleika til þess að auka kaupmátt launalægsta fólkisins enn meir. Ríkisstjórnin hefur boðað flatar skattalækkanir, sem skila sér augljóslega mest til þeirra sem hafa hæstu launin. Hagfræðingar hafa gagnrýnt það og bent á að það auki þennslu ennfrekar.

Pétur heldur því fram að niðurstaðan verði sú sama hvort skattar eru lækkaðir á lægstu laun eða hækka þau. Hvað þyrfti að hækka lægstu laun mikið umfram þær 20 þús. kr. á mán. sem um er rætt, til þess að ná sömu niðurstöðu og lækkun skatta undir 200 þús. í 15%? Það þyrfti að liðlega tvölfalda þá hækkun. Hvaða afleiðingar myndi það hafa í hækkun verðlags? Ofboðslega erum við heppin að Pétur skuli ekki starfa innan verkalýðshreyfingarinnar, við erum að ná auknum kaupmætti. Ef hann stjórnaði væri verðbólga 40% - 60% og minnkandi kaupmáttur hinna lægst launuðu.Pétur passar sína, þeir eru ekki meðal hinna lægst launuðu.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Blótgælur - Mátunarklefinn

Blótgælur
Undanfarna daga hafa Blótgælur ásamt nokkrum öðrum bókum legið á borðinu í þægilegri griplengd frá sjónvarpsstólnum og hafa oft leitt lesgleraugun á nefið. Hef áður minnst á Sjónvillur Óskars Árna. Blótgælur er fyrsta ljóðabók Kristínar Svövu Tómasdóttur hún hefur réttilega vakið sterk viðbrögð, og m.a. verið kölluð besta frumraun í langan tíma. Mæli hiklaust með henni.



Mátunarklefinn
Ég hef alltaf verið hrifinn af Braga Ólafssyni, fundist hann sífellt ná lengra. Íbyggin kímnin skín vel útspekúleruð úr hverri setningu. Mátunarklefinn fer vel í hendi og textin vel í huga. Myndir Einars Arnar fósturbróðurs Braga úr Sykurmolunum gera bókina enn skemmtilegri.

Ávinningur fyrir heimilin að ganga í ESB


Illugi Gunnarsson hefur tamið sér málefnanlega nálgun í umræðum. Þessvegna kom það manni í opna skjöldu þegar hann fór að rugla saman lífskjaravísitölu SÞ saman við umræðu um inngöngu í ESB, þetta eru tveir óskildir hlutir og ég hélt að Illugi færi ekki ekki nn á svona ómáefnanlegar brautir.

Það blasir við að Norðurlöndin standa þarna efst vegna þess þjóðskipulags sem við höfum búið okkur. Við nýtum stóran hluta af beinum og óbeinum skattekjum til þess að byggja upp það þjóðfélags sem við viljum búa í. Með ESB aðild hafa fjölmörg ríki komist inn í það eftisótta umhverfi sem norræna módelið veitir. ESB er viðskiptabandalag til þess að tryggja þá stöðu sem við höfum náð og verja hana í vaxandi samkeppni.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ og Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI hafa fjallað um þetta og segja m.a. ,,Ekkert eitt atriði getur haft jafn mikil áhrif á lífskjör almennings og starfsskilyrði fyrirtækja og upptaka evru. Það skiptir því miklu máli að hér fari fram upplýst og fordómalaus umræða um kosti og galla evru. Þeir sem hafna slíkri umræðu, hljóta að skulda okkur skýringar á afstöðu sinni í ljósi þess sem hve mikið er í húfi,” segja þeir kollegar og halda því fram að skýring á vaxtamunur við útlönd, sem er sérstaklega mikill, ,,megi rekja til áhættuálags í viðskiptum með krónuna vegna þess hversu lítil og óstöðug hún er.” Miðað við skuldir heimilanna um síðustu áramót, sé vaxtamunurinn við útlönd, sem heimilin greiða, um 37 milljarðar eða sem svarar 500 þúsund krónum á hverja fjölskyldu.

Inganga í Evrópusambandi mun leiða til þess vaxtastig lækkar og við fáun hagstæðari kjör á íbúðalánamarkaði. Í öðru lagi lækkar neysluverð því að evran mun lækka viðskiptakostnað fyrirtækjanna og samkeppni myndast. Í Evrópusambandinu verðum við hluti af sameiginlegri landbúnaðarstefnu og það hefði klárlega áhrif á matvælaverð hér á landi. Matvælaverð er hvergi hærra en í löndum sem liggja utan þessa markaðar það er Íslandi, Noregi og Sviss.

Spurningin um hvort sækja eigi um aðild er veigamesta úrlausnarefni stjórnmálamanna í dag. Við eigum rétt á að umræðan um slíka aðild sé upplýst. Hún á ekki eingöngu að snúast um verð á innfluttri skinku, stjórn fiskveiða og mögulegri greiðslubyrði húsnæðislána. Það er komið að því að taka ESB aðildina og evrumálin til málefnanlegrar umræðu í þjóðfélaginu. Alþingi verður að komast að niðurstöðu á þessu kjörtímabili. Það á að láta reyna á aðildarumsókn á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða. Atvinnulífið og verkalýðshreyfingin virðist vera því fylgjandi að láta til skarar skríða fyrr en seinna.

Lífeyrissjóðir eru sparifé sjóðsfélaga


Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg, einkennist af þekkingarskorti og skilningsleysi. Um sé að ræða fjármagn sem sé til ráðstöfunar af hálfu stjórnarmanna og starfsmanna sjóðanna. Í því sambandi má benda á tillögur um taka úr lífeyrissjóðunum fjármuni til þess að byggja upp og reka hjúkrunarheimili aldraðra.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram af hálfu stjórnarmanns lífeyrssjóðsins Gildis að 100 millj. kr. nægi ekki til þess að brúa kostnað lífeyrissjóðanna við að færa frá ellilífeyrisþegum yfir til öryrkja, það séu 500 millj. kr. eins og kemur fram í færslu minni “Félagsmálaráðherra leiðréttir kúrsinn“. Formaður Öryrkjabandalagsins segir að það taki lífeyrissjóðina ekki nema 2 -3 daga að vinna upp mismuninn!! Formaðurinn virðist ekki skilja hvað lífeyrissjóður er og um hvað málið snúist. Örorkubyrði sjóðanna hefur vaxið óskaplega á undanförnum árum og hefur orðið til þess að það er búið að skerða ellilífeyris nokkurra sjóða um 20% og stefnir í að það verði að skerða ellilífeyrinn enn frekar vegna þessa.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð og er eign sjóðsfélaga við komandi sjóðs. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í. Lífeyrissjóðir starfa undir mjög ströngum lögum og eftirliti opinberra stofnana. Landslög veita lífeyrissjóðum einungis heimild til þess að ráðstafa eignum sjóðsfélaga í formi þess að greiða þeim þá innistæðu sem þeir eiga, þegar þeir fara á ellilífeyri eða verða fyrir því óláni að fara á örorku. Hlutverk starfsfólks lífeyrissjóðs er að taka á móti innlögnum sjóðsfélaga í sjóðinn og ávaxta þær með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni.

Allir eru sammála um að bæta verði hörmulegan aðbúnað aldraðra hér á landi og stöðu öryrkja. Ástand þessarar málaflokka er svartasti blettur á stjórnmálamönnum þá sérstaklega Sjálfstæðisflokknum sem hefur farið með stjórn ríkisfjármála í allmörg undanfarin ár. Stéttarfélögin hafa bent á að fjármagna mætti öfluga uppbyggingu á þessum vettvangi með hagkvæmum langtímalánu hjá lífeyrissjóðum. En það vantar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum hvernig þeir ætli að reka megi þessi heimili. Það hefur ítrekað komið fram ma hjá forsvarsmönnum Hrafnistu og Eir, að þeir séu búnir að vera með á borðum ráðuneyta tillögur um mun meiri uppbyggingu og hefðu til þess fjármagn. Vandamálið sé að fá heimild til að taka upp það rekstrarform sem best hefur gefist á norðurlöndum.

Oft kemur fram í umræðu um lífeyrissjóði að einstaklingar fái svo lítinn lífeyri úr lífeyrissjóðum. Það sem sjóðsfélagi fær greitt úr lífeyrissjóð er í beinu sambandi við það sem hann borgaði þar inn á starfsævi sinni. Ef hann á að fá meira, þá er verið að greiða til hans sparifé annarra sjóðsfélaga. Ef það á að ráðstafa eignum sjóðsfélaga lífeyrissjóða í að reka hjúkrunarheimili, þá er það augljóslega ekki hægt nema að skerða eignir sjóðsfélaga viðkomandi lífeyrissjóðs. Ætti því ekki að vera augljóst hvað gerist ef hluti inneigna væri settur í rekstur hjúkrunarheimila.

Í lífeyriskerfinu eru að safnast upp fjármunir sem væntanlegir lífeyrisþegar munu taka út þegar þeir ná lífeyrisaldri. Samsetning þjóðfélagsins er sú að nú eru að alast upp aldursprengjuárgangarnir sem munu komast á lífeyrisaldur upp úr árinu 2015, auk þess er lífeyrisaldurinn er sífellt að lengjast. Á árunum 2015 – 2025 mun fjöldi lífeyrisþega margfaldast og útgjöld lífeyrissjóðanna aukast umtalsvert. Útgjöld þeirra verða þá hærri en innkoma.

Tillögur um að ráðstafa eigi fjármunum í rekstur hjúkrunarheimila eða til þess að standa undir vaxandi örorkubyrði jafnast á við að það setja fram tillögu um að þar sem það sé svo mikið sparifé í Landsbankanum, megi taka eitthvað af því til þess að létta byrði almenna tryggingarkerfisins, leggja Sundabraut eða byggja elliheimili. Þessi verkefni verða stjórnmálamenn að leysa en það gera þeir ekki með því að taka sparifé sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Fækkum þingmönnum - fjölgun aðstoðarmönnum

Við erum með flesta þingmenn í heimi, sé miðað við höfðatölu. Umboðsmaður Alþingis hefur ásamt fleirum bent á að þessir menn skili ekki vandaðri vinnu, því fer fjarri. Ástæða þess er hversu fáir eru á þingi sem koma úr atvinnulífinu. Það er nú svo að það er atvinnulífið sem stendur straum af rekstrarkostnaði þjóðfélagsins.

Nýliðun á Alþingi fer fram með þeim hætti að í gegnum prófkjör, sem stjórnað er af klíkum sem hafa aðgang umfram aðra að flokksskrifstofum, koma ungir háskólamenntaðir menn sem hafa aldrei stigið fæti út í atvinnulífið. Á meðan háskólanáminu stóð tóku viðkomandi þátt í Morfískeppnum og voru svo að því loknu settir í þjálfun í skjóli stjórnmálaflokkana oftast inn í ráðuneytum. Umræða stjórnmálamanna einkennist umfram annað af útúrsnúningakeppni „Morfísstæl“.

Störf alþingismanna umfram annað snýst um að setja lög og reglur um atvinnulífið, og æði oft er það svo að það er gert í andstöðu við atvinnulífið. Má þar benda nokkur nýleg dæmi eins og t.d. eftirlaunafrumvarpið sem setti allt almenna lífeyrsjóðakerfið í uppnám, bráðabirgðalög þar sem öllum reglugerðum um rafmagnsöryggi er kippt úr sambandi á tilteknu svæði til þess að þjóna hagsmunum að því virðist fámenns hóps og svo umræða um jöfnun launa undanfarna daga.

Það sem við þurfum að fá eru færri alþingismenn, en menn sem koma með reynslu úr atvinnulífinu og hafa sýnt af sér getu til stjórnunar. Þessum mönnum þarf vitanlega að búa gott umhverfi m.a. með góðu aðstoðarfólki. Þetta þarf ekki að þýða fjölgun um 35 manns í hópnum eins og nú er verið að leggja til. Það ætti frekar að fækka alþingismönnum í 30 og gefa þeim hverjum og einum kost á að ráða sér aðstoðarmann. Ráðherrar ættu ekki að teljast með þingmannaliði.

Annað, við höfum oft orðið vitni af því þegar alþingismenn eru að renna í gegnum þingið lögum sem snerta þá sjálfa, þá miða þeir við kostnað sem er hreint út sagt bjánalegur og endurspeglar í raun tengslaleysi þeirra við atvinnulífið og vanþekkingu á praktískum atriðum. Hér má t.d. minna á kostnað sem þeir héldu að okkur þegar Eftirlaunafrumvarpinu var rennt í gegn. Það átti að þeirra sögn að kosta 6 millj. kr. Hagfræðingar í atvinnulífinu bentu á að það myndi aldrei kosta minna en 500 millj. kr. Það kom síðar í ljós, eins og reyndar alltaf, að atvinnulífið hafði rétt fyrir sér.

Það vita það allir sem hafa verið um nokkurn tíma í atvinnulífinu að rekstrar kostnaður 35 sérfræðinga sem væru aðstoðarmenn alþingismanna kosta ekki 90 millj. kr. Við mat á kostnaði verðum við vitanlega að telja allt með, lífeyrisréttindi líka og svo skrifstofur, tölvur, sími, ferðir og fleira. 10 millj. kr. á aðstoðarmann er algjört lágmark þegar heildarkostnaður er metinn. 35 aðstoðarmenn alþingismanna kosta amk 350 - 400 millj. kr. á ári. Ég er tilbúinn að leggja kassa af góðu rauðvíni að veði um það, Össur og fleiri ráðherrar.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Sjónvillur - frábær bók

Smekkleysa hefur gefið nokkur smárit þar á meðal Sjónvillur eftir Óskar Árna Óskarsson. Flottar örsögur sem lýsa okkur svo vel.

Bíltúr

- Hvað segir þú um að koma í göngutúr?
- Já, ég er til í það ef við förum á bílnum.
- En við seldum bílinn. Og ég var að tala um göngutúr.
- Mér er sama.
- Þú ert þverhaus.
- Það þýðir ekkert annað, annars er bara valtað yfir mann. Þú veist hvernig þjóðfélagi þetta er sem við búum í. Maður verður að sýna festu.
- Allt í lagi, ég nenni ekki að rífast. Skellum okkur þá.

Offita - útivera




Sífellt fleiri sækja þau fáu svæði þar sem hægt er ráfa um ósnortna náttúru í hvíld frá hraða og firringu borgarsamfélagsins, þar sem hver spilda hefur verið skipulögð, umsnúin og byggð mannvirkjum. Ferðafélagið á nú stórafmæli og full ástæða til þess að fagna því og nýta tækifærið og kynna vel þá samleið sem við eigum með landinu okkar.

Það skiptir miklu að venja börn við útiveru. Það eru of margir sem einhverra hluta geta ekki hugsað sér frí hér heima, eina leiðin sé að fara erlendis og liggja á sólarstörnd. Ekkert er jafn afstressandi og gönguferð eða útilega með börnum og góðum vinum. Ekkert hefur jafngóð áhrif á heilsuna og lengir getuna til þess að lifa lífinu lifandi. Börn sem alast upp við útivist halda því undantekningalítið áfram og kynna sínum börnum þau ævintýr sem þau kynntust í sínum uppvexti. Skiptir þá einu hvort rölt sé um skipulögð göngustígakerfi innan bæjarsamfélaganna eða gengið á fjöll. Það er engin ástæða til þess í dag að láta sér líða illa, því það er til svo mikið úrval af góðum útbúnaði fyrir hvers konar veður, nema kannski rok.

Um leið og komið er út fyrir bæjarmörkin er auðvelt að finna leiðir um götur sem markast hafa á þúsund ára veru forferðra okkar. Hvort sem við höldum okkur við grunnar víkur og götur milli þeirra um fjöruna, sjávarbakka eða upp í grasivaxnar hlíður yfir fjallaskörð, sem eru oftast um 200 - 400 metra há. Í umhverfinu má lesa við hvaða aðstæður fólk lifði, og þær hafa víða verið nánast óbreyttar frá því land byggðist. Það var svo í byrjun þessarar aldar að falla fór undan byggðinni í kjölfar breyttra þjóðfélagshátta, vélskipaútgerð og iðnvæðingar.

Hornstrandir, Fjörðu, Borgarfjörður Eystri, Lónsöræfin og Fjallabak hafa öðlast sérstakan sess í hugum útvistarfólks. Friðlýsing svæði leiða til þeirrar eftirsóttu sérstöðu að fólki stendur einungis til boða gönguferðir, sem oft hefjast eða lýkur með stuttri siglingu. Margir firðir eru tiltölulega lygnir og hafa náð nokkrum vinsældum meðal kajakmanna. Svæðið er því að vissu marki sjálfstæð veröld með skýrum skilum frá okkar daglegu veröld. Ferð um þessi svæði er auk þess hvíld frá hraða borgarlífsins áskorun, prófsteinn sem hver setur sjálfum þér.

Framtíð orkuvæðingar


Vinnubúðir starfsmanna við Kárahnjúka

Í Eyjabakkafárinu stöðvaði almenningur stjórnvöld sakir þess að þau höfðu ekki sótt um lögformlegar heimildir. 80% þjóðarinnar sagðist ekki sætta sig við að stjórnvöld teldu sig hafin yfir gildandi lög, með því væri verið að gefa stjórnvöldum ískyggilegt fordæmi. Sagan endurtók sig í fjölmiðlamálinu. Stjórnvöld pössuðu sig betur við Kárahnjúka. Þó svo gagnrýna megi sumt í ferlinu. Álverið fyrir austan er staðreynd og því verður ekkert breytt og það hefur haft mikil áhrif á mannlíf fyrir austan.

En það er framhaldið. Við breytum ekki fortíðinni en það er nútíðin sem við getum stjórnað og með því haft áhrif á framtíðina. Hvort og hvar eigi að fara fram með nýjar virkjanir. Staðan er sú að áframhaldandi lífskjarabæting og fjölgun mannkyns kallar á hratt vaxandi orkunotkun og það mun leiða til þess að verð raforkunnar mun hækka verulega á tiltölulega fáum árum. Allt í einu standa álfyrirtækin hér í röðum.

Það eru ekki mörg ár síðan að við stóðum með sultardropann í nefinu og biðum eftir því að eitthvert þeirra vildi koma hingað, sum komu en fóru svo án þess að kveðja. Finnur iðnaðarráðherra sendi þá út um veröldina litprentaða bæklinga þar sem hann lofaði raðfullnægingu álfursta á lægstu launum og orkuverði 1/15 úr centi. Allt í einu er slegist um orkuna hér.

Á meðan samdi Finnur um sölu á Búnaðarbankanum og fræðingar og spekingar drógu augað í pung í spjallþáttum, alltof seinir í greiningu á því sem var að gerast. Á meðan skruppu ráðherrar til Japan og opnuðu nýtt sendiráð sem kostaði jafnmikið og þeim hafði tekist að spara með lokun deilda á Landspítalanum.

Sumir skyldu ekki að fólk gat verið á móti hinum öfgakenndu áætlunum stjórnvalda þrátt fyrir að vera starfsmenn núverandi álvera og orkuvera. Allir hafa heimild til þess að gera tilraun að greina á milli með skynsemi og rökum. Í hinu nýja álveri á Reyðarfirði fá fyrirvinnur um 800 fjölskyldna störf og þau verða um 1300 á næsta ári. Fyrir utan þá sem starfa hjá fyrirtækjum sem þjónusta álverin.

Málið snýst um hvað viljum við láta virkja frá deginum í dag. Viljum við virkja allt sem hönd á festir? Í hvað viljum við nota orkuna? Þó svo við byggjum ekki fleiri álver, verðum við að virkja áfram, eða á kannski að skipa þeim sem stofna fjölskyldur frá deginum í dag að þeir verði að lifa með öðrum hætti en við hin sem eldri erum?

Reyndar er þetta ekki áhyggjuefni dagsins, það er hvort verðbólgan rjúki upp í 15 - 18% og vextir fylgi á eftir og eftir 1 - 2 ár verði ástand hér eins og það var 1990 - 1995. Þá mun fólk hrópa biðjandi í átt til álrisanna. Það yrði sannarlega niðurlægjandi eftir það sem á undan er gengið og endurspeglar í margræðni sinni þann tvískinnung sem við stöndum frammi fyrir. Of stór skammtur af raunveruleikafirringu, efnishyggju og gróðafíkn.

Surprising twistið er forræðishyggja manna sem með hlerunum og eftirliti með pólitískum andstæðingum sínum reynt að stjórna umræðunni. Ef einhver er ekki sammála þeim hlaut að liggja að baki því annarlegar hvatir eða óheiðarleg hagsmunavarsla.

Í síðustu kosningum áttu aldraðir allt í einu einhver réttindi og Hólmsteinar þessa lands boðuðu á götuhornum ókeypis máltíðir í skólum og niðurgreidda barnapössun og skömmuðust út í að ekki var fyrir löngu búið byggja séríbúðir með fullri þjónustu fyrir hina 800 hundruð öldruðu Reykvíkinga sem eru búnir að vera á biðlista hjá fjármálaráðherrum allmörg síðustu kjörtímabil. Skyndilega kostar Lunshin ekkert.

mánudagur, 26. nóvember 2007

Komum skúrkunum til fógeta


Það er æði oft sem okkur hættir til að bera sakir á ranga aðila, gera þeim upp skoðanir og dæma þá eftir hinum uppgerðu skoðunum. Steininn tekur þó úr þegar þeir sem valda misréttinu fara að bera sakir á saklaust starfsfólk sitt.

Reglulega sjáum við harkaleg ummæli um starfsfólk Tryggingarstofnuna og þar ekki síst forstjórann, þar sem bornar er fram sakir, ja ef maður tekur til orða eins og skammirnar eru, að starfsfólkið með forstjórann í broddi fylkingar ráðist viljandi og með ásetning að öldruðum og öryrkjum og hafa af þessu fátæka fólki peninga. Svo einkennilegt sem það nú er það heyrir maður suma alþingismenn taka þátt í þessu.

Ég er búinn að vera í þessum bransa í 17 ár, eins og segir ágætu kvæði alþýðuskáldsins Ladda, og veit að það eru alþingismenn með ráðherra í broddi fylkingar sem setja lög og starfsreglur Tryggingarstofnunar, ekki forstjórinn og þaðan af síður starfsfólkið. Einhverra hluta vegna finnst mér að fréttamenn ættu að vita þetta líka.

Það er skiljanlegt að bótaþegum sé misboðið þegar þeim er árlega gert að endurgreiða hluta þeirra bóta sem þeir fengu sendar næstliðið ár. Ekki síður vegna þess að ég veit að þessar bætur eru ekki miklar, oftast eitthvað liðlega 100 þús. kr. á mán. En svona eru reglurnar og það er Alþingi sem settur þær. Eins og glögglega hefur komið fram í ummælum umboðsmanns Alþingis, og í dómum Hæstaréttar og Evrópudómstólsins um kerfið, þá skortir Alþingismönnum greinilega yfirsýn yfir hvað þeir eru að gera. Þar hefur komið fram að um þriðjungur laga sem Alþingi setur stangast á við önnur lög.

Lög og reglugerðir alþingismanna um almenna tryggingarkerfið eru margendurbætt með árlegum inngripum þar sem alþingismenn hafa í hvert skipti tekist á eitthvert einstakt atriði án yfirsýnar eða tillits hvaða áhrif það hefði á aðrar reglur.

Almenna tryggingarkerfið er í dag algjörlega ónýtt, það orðið eins og bíl sem búið er að setja í tvo auka gírkassa, þrjú bremsusett, 4 stefnuljósa rofa. Alþingismenn eru svo undrandi að starfsfólk tryggingarkerfisins takist ekki að aka bílnum fyrirhafnarlaust þangað sem honum er ætlað að fara.

Þingmönnum hefur hingað til ekki tekist að lagfæra kerfið, en eins og svo oft áður þá voru það aðilar vinnumarkaðsins sem sögðu að þetta gangi ekki lengur og settust að því verkefni að draga upp mynd nýs Áfallatryggingarsjóðs með stórbættu bótakerfi, sem því miður virðist ekki ætla að takast vegna andstöðu alþingismanna.

Á síðustu öld reyndi verkalýðshreyfingin ítrekað en árangurslaust, að fá Alþingi til þess að laga íslenska bótakerfið og koma því í nálægð við það norræna. Þegar það gekk ekki, þá var í gegnum kjarasamninga með miklum verkföllum tekið til við að byggja upp kjarasamningsbundinn veikindarétt, sem er hér á landi mun lengri en er í öðrum löndum, sjúkrasjóðskerfi sem er hér mun öflugra en þekkist í öðrum löndum, og svo lífeyriskerfi sem önnur lönd eru hvert á fætur öðru að taka upp.

Þarna er að finna þann mismum á sköttum á Íslandi og öðrum norðurlöndum. Það er atvinnulífið sem greiðir þessa skatta og launamenn í gegnum lægri laun. Veikinda- og sjúkrasjóðsrétturinn kostar um 8% og lífeyris- og örorkubótarétturinn 12%. Ef þetta kerfi yrði lagt niður og við tækjum upp sama kerfi og tíðakast á hinum norðurlöndunum myndu tekjuskattar hækka um vel á anna tug prósenta og dagvinnulaun líka, en við sætum í raun í sömu stöðunni réttindalega séð.

Allan þennan tíma sátu aðilar vinnumarkaðsins undir allskonar ávirðingum frá einstaklings-hyggjumönnum, sem núna hafa orðið að viðkenna að þessi kerfi eru feikilega góð og þeir eru að endurskrifa söguna með þeim hætti að það hafi verið þeir sem bjuggu til þessi kerfi.

En það þarf að stilla þau saman. Alþingismenn hafa unnið mikil skemmdarverk á tryggingar-kerfinu sérstaklega lífeyriskerfinu á undaförnum árum, eins og við öll vitum. Með því að stilla saman veikindarétt í kjarasamningum, bótakerfi sjúkra- og lífeyrissjóða og svo almenna tryggingarkerfinu, er hægt að búa til farartæki sem fer í þá átt sem við viljum, án þess að annað kerfi í sama bílnum vinni gegn þeirri stefnu sem við viljum ná. Þetta skilar bótaþegum mun hærri réttindum. Alþingismenn hafa aftur á móti komið því þannig fyrir að 40% bótanna renna niður um einn vasa bótaþega og upp þeim næsta þráðbeint í ríkissjóð.

Við sem í störfum í nálægð við þetta kerfi vitum hvernig það virkar. Það er ekki við starfsmenn kerfisins að sakast, svo ég vitni aftur í alþýðuskáldið Ladda, við ættum að takast á við skúrkanna og koma þeim til fógeta.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Blessaður stöðugleikinn


Nú nálgast óðum sá tími og gera þurfi kjarasamninga. Þá rifja menn gjarnan upp nokkur atriði sem rætt í tengslum við laun og kjör. T.d minnumst við þess þegar ríkistjórnin endurskipaði liðið í stjórn Seðlabankans. Halldór Blöndal var settur þar inn eftir að hann hætti á þingi. Ég minnist þess ekki að Halldór hafi tekið þátt í umræðu um efnahagsmál, en hann er aftur á móti þokkalegur hagyrðingur og flutti oft þungar ræður á þingi með stuttum kviðlingum til stuðnings valdhöfunum. Seðlabankaráð hækkaði í þessu sambandi laun seðlabankastjóra um 200 þús. kr. á mán. eða upp í 1.8 millj kr. á mán.

En er einn þeirra ekki líka á fullum eftirlaunum á grundvelli þeirra laga sem hann setti sjálfur skömmu áður hann hætti sem forsætisráðherra? Þeir hagfræðingar sem ég þekki eru sammála um að stjórn Seðlabankans hafi í sjálfu sér ekki mikið með efnahagsstjórnina að gera. Flest önnur lönd sem við viljum miða okkur við eru fyrir margt löngu búnar að afleggja flokkspólitíska stjórn Seðlabankanna. Þar er einn seðlabankastjóri og þeir eru með um milljón á mán. í laun.

Almennum launamönnum var í kjölfar þessarar 200 þús. kr. hækkunar mán. launa seðlabankastjóranna send þau skilaboð frá stjórnvöldum að stemma þyrfti stigu við launahækkunum almennings í komandi kjarasamningum svo blessaður stöðugleikinn færi ekki fjandans til og rekstrargrundvallarræfillinn með. Guttarnir í Seðlabankastjórninni fá tvöföld lágmarkslaun almennings á mán. fyrir að sitja 2 fundi á mán. Almúginn þarf reyndar að skila 174 vinnutímum til þess að ná upp fyrir 100 þús. kallinn og fær aukinn heldur ekki ókeypis GSM síma og fría áskrift að Mogganum. En þessu má alls ekki breyta því þá missa þeir félagar tök á efnahagsmálunum.

Seðlabankinn er orðið eitt af síðustu vígjum pólitíkusanna, reyndar má minna á að Davíð skipaði 9 af sínum bestu vinum sem sendiherra áður en hann hætti, Þeir hafa allir um 9 föld lágmarkslaun almúgans og öðlast sérstök réttindi samkvæmt sértækum eftirlætiseftirlaunalögum Davíðs.

Það eru launamenn sem sitja eftir í íslenska skattkerfinu á meðan peningamenn flytja sína peninga til annarra landa og greiða einungis fjármagnstekjuskatt af þeim litla hluta sem er á ferðinni hér. Þeir eru ekki þátttakendur í rekstri þjóðfélagsins, einungis neytendur. Almúginn greiðir þar af leiðandi fyrir þá skólaþjónustu, heilbrigðiskerfi og vegakerfi. Þeir þurfa heldur ekki að standa undir rekstri hinna mýmörgu sendiherra og stjórn Seðlabankans. Það gerir almúginn, en sá hópur er nú aldeilis upptekinn því hann verður líka að bera ábyrgð á stöðugleikanum og má ekki hafa há laun og helst ekki eftirlaun.

En þeir sem hreyfa einhverjum mótmælum við þessu ástandi eru taldir æsingamenn og koma úr vinstra liðinu, Thalibanar. Þetta eru fullgild rök í hugum þeirra sem hafa völdin og þessar fullyrðingar þarfnast engra skýringa. Fulltrúar þessara manna skrifa einnig söguna eins og þeir vilja hafa hana, t.d. var birt grein eftir einn af stjórnarmönnum Seðlabankans, þar sem hann segir að Þjóðarsáttin hafi engin áhrif haft, hún hafi bara verið verðstöðvun í nokkra mánuði og hugarórar einhverra verkalýðsforkólfa.

Það hafi tekið Davíð og hans lið og þeir bjargað málunum í harðri baráttu við aðila vinnumarkaðsins. Þessi hin sami skrifaði hverja greinina á fætur annarri í vor þar sem hann sýndi okkur snilli sína í efnahagsstjórn með því að snúa á haus öllum rannsóknum sem sýndu að aðgerðir stjórnvalda hefðu leitt til aukins ójafnræðis hér á landi. Hann hafnaði alfarið öllum rökum sem sett höfðu verið fram m.a. að persónuafsláttur hefði ekki hækkað í samræmi við verðbólgu, vaxtabætur minnkað, barnabætur lækkað, skerðingarmörk öryrkja og aldraðra aukist.

Umræddur Seðlabankastjórnarmaður er þekktur fyrir að skrifa og semja sagnfræðina, og Sjónvarp allra landsmanna keypti myndaseríurnar sem hann samdi um sögu síðustu aldar og sýndi á besta útsendingartíma. Sama gilti um alla grunnskóla landsins menntamálaráðuneytið sendi þeim alla seríuna. Í þessum söguskýringum eru það útvaldir hægri stjórnmálamenn sem gerðu allt sem gott var á síðustu öld.

Í vegi þeirra stóðu æsingamenn úr röðum verkalýðshreyfingar og aukins kvennfrelsis. Það voru útvaldir hægri menn sem komu á reglulegum vinnutíma, lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðum og bættum aðbúnaði verkafólks. Við búum í dag við það ástand að sagnfræðingum stendur ekki til boða fjármagn og vinnufrelsi nema frá sjóðum sem er stýrt af stjórnmálamönnum sem eru hlyntir ráðandi stjórnvöldum. Þetta leiðir sagnfræðingana bjarglausa að fótskör þeirra sem telja sig vera mikilmenni þessa lands. Gagnrýnishlutverk fræða og vísinda er múlbundið hagsmunabandalagi valdhafanna. Aðrir eru úr vinstra liðinu og eru æsingafólk.

En jólafastan rennur einnig í garð með hefðbundum skilaboðum til almúgans um hvað hann megi gera og hvaða skoðanir séu réttar. Sumir vilja banna MC Donalds á svona dögum og selja einungis hangikjöt og kjamma. Allir eiga að sitja og hlusta á boðskapinn og ungir karlar taka eina bröðgótta, meðan karlakórar syngja sléttubönd og konur prjóna axlabönd. En unga fólkinu finnst þetta svo leiðinlegt að það leitar sér skemmtunar við að setja allt á annan endan, hella úr ruslafötum, grýta bjórflöskum um allt, ráðast að fólk og sparka það niður. Ungir menn aka um á tæpum 200 km. hraða og við hin búum við öryggi sem samsvarar því að ökuníðingar gangi um með hlaðnar byssu og hleypi af öðru hvoru blindandi út í loftið. Svo kemur að því að einhver verður svo ósvífinn að ganga í veg fyrir kúluna, það er honum að kenna.

En hvernig eigum við að komast í gegnum kjarasamningana án þess að hækka laun láglaunastéttanna verulega og þá um leið að jafna launamun kvenna? En þá koma í hug manns orð sem höfð um baráttuna gegn þeim óþarfa að gefa konum aukið frelsi. „Góðir íslendingar ég higg að það sé þarft verk að halda konum frá því að taka þátt í pólitísku skítkasti. Þeirra hlutverk er að vera móðir og á að halda sér við heimilistörfin.“

laugardagur, 24. nóvember 2007

Félagsmálaráðherra leiðréttir kúrsinn


Í Fréttablaðinu í dag segir að Félagsmálaráðherra vilji greiða lífeyrisjóðunum 100 millj. kr. hætti þeir við að endurskoða örorkulífeyri. Fyrir nokkru sendi Félagsmálaráðherra lífeyrisjóðunum tónin vegna þessa máls og sakaði þá um að gera hinu opinbera ómögulegt að lagfæra kjör öryrkja með því að hrifsa það allt til sín, smá fljótfærni hjá Jóhönnu, sem hún er núna búinn að átta sig á. Að venju notar formaður Öryrkjabandalsins tækifærið og úthúðar forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna á sinn smekklega hátt fyrir að ráðast gegn fátæku fólki.

Hið rétta í þessu máli að er nokkrir lífeyrisjóðir eru að kikna undan hratt vaxandi greiðslubyrði til öryrkja og hafa sumir þeirra þurft að skerða ellilífeyri um allt að 20% vegna þess og það stefnir í að þeir þurfi að skerða hann enn meir. Núverandi útfærsla á örorkugreiðslunum er mismunum milli öryrkja og ellilífeyrisþega í sjóðunum og verið að færa frá ellilífeyrisþegum til öryrkja um 500 millj. kr. þetta vilja sjóðirnir lagfæra, telja reyndar að þeir verði að gera það þar sem landslög segi svo.

Lesendum mínum til upprifjunar, þá settu þingmenn með ráðherra í broddi fylkingar prýðileg lög þar sem meðal annars er kveðið á um að almennir lífeyrisjóðir verði ætíð að eiga fyrir skuldbindingum, ef þeir gera það ekki verða þeir að skerða lífeyri. En þegar búið var að rúlla þessu lögum í gegnum hæstvirt Alþingi, settust þeir að sérlagasetningu fyrir sína lífeyrissjóði á þann veg að þeir sjóðir þurfi ekki að eiga fyrir skuldbindingum. Fjármálaráðherra reiknar það út á gamlársdag hversu mkið vantar upp á og skrifar ávísun og sendir til lífeyrissjóðisns síns með leigubíl. Það má vitanlega ekki skerða í Kampavínslífeyrissjóðum þingmanna og ráðherra, um er ræða allnokkra milljaðra í hvert skipti.

Allt þetta veit formaður Öryrkjabandalagsins vel, en samt leggur hann þetta út með þessum hætti og er með því að vekja upp væntingar hjá öryrkjum á kostnað elliífeyrisþega, ljótur leikur. Öryrkjar eiga alla mína samúð og okkar allra, en ráðherrar og þingmenn ættu að beina sjónum sínum að því sem verkalýðshreyfingin er búinn að benda á allmörg undanfarin ár að leiðrétta verði skerðingar- og frítekjumörk almannatryggingarkerfisins. Með núverandi kerfi rennur um 40% af öllu sem lífeyrissjóðirnir greiða út til sinna skólstæðinga þráðbeint upp úr hinum vasanum til ríkissjóðs í fomri skerðinga og óbeinna skatta.

Það kerfi er allt er handónýtt og Alþingi til háborinnar skammar, eins og forstjóri Tryggingarstofnunar sagði réttilega fyrir nokkru. Með því að hafa ekki hækkað grunnlífeyri í áratugi, en látið hækkanir koma fram í tekjutryggingu, sem skerðist eins og allir vita og ráðherrar best allra, um leið og öryrki eða ellieyrisþegi vogar sér að sína einhverja sjálfsbjargarviðleitni. Lesendum til frekari upprifjunar þá er í eftirlaunalögunum alræmdu sem alþingismenn settu fyrir nokkru sérákvæði um að þetta gildi ekki fyrir núverandi og fyrrverandi ráðherra og æðstu embættismenn. Þeir mega hafa aðrar tekjur, einhverra hluta var sérstaklega tekið fram að tekjur vegna ritstarfa skuli vera algjörlega utan sviga.

Hæstiréttur í lið með starfsmannaleigunum


Á fimmtudaginn féll dómur í máli lífeyrissjóðssins Gildis gegn Íslenskri erfðagreiningu. Þar er ekki fallist á kröfu lífeyrissjóðsins að fyrirtækið greiði þá hækkun sem samið var um í síðustu kjarasamningum um að mótframlag vinnuveitanda hækkaði úr 6% í 8%.

Hæstaréttardómarar féllst á sjónarmið fyrirtækisins að það greiði hærri laun en þau lágmarkslaun sem kveðið er um í kjarasamning. Það sé yfirborgun og með því sé fyrirtækið í búið að greiða þetta til starfsmannsins. Þetta tekur reyndar til stutts tíma því þetta ákvæði var síðar sett í lög og frá þeim tíma verður fyrirtækið að greiða 8% mótframlag.
En það er ekki þetta sem ég ætla að fjalla um heldur þann þekkingarskort sem markar niðurstöðu hæstaréttardómaranna.

Það eru til tvenns konar kjarasamningar hér á landi, svokallaðir launakerfissamningar og markaðslaunasamningar. Í launakerfissamningum er röð ákveðinna launaflokka þar sem starfsheitum er raðið inn og síðan eru þrep með föstum starfsaldurshækkunum. Þetta er síðan túlkað á þann veg af stofnunum og fyrirtækjum, sem nota svona launakerfi, að það sé búið að ákveða fyrir fullt og fast að hvað viðkomandi starfsmaður eigi að hafa í laun.
Stofnanir segja síðan gjarnan; „Við vildum svo gjarnan greiða hærri laun, en því miður bannar verkalýðsfélagið okkur það!!“, eins og t.d. útvarpsstjóri sagði nýverið þegar hann hækkaði eigin laun réttilega til samræmis við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, en neitaði síðan að lagfæra laun almennra starfsmanna þar sem hann væri bundin kjarasamning. Vitanlega er það nú svo að í öllum kjarasamningum er samið um lágmörk og ekkert sem bannar fyrirtækjum eða stofnunum að greiða hærri laun.

Á almennum markaði gilda aftur á móti markaðslaunasamningar, þar er einungis samið um lægstu gólf, sem gilda fyrir reynslulausa unglingar sem eru að koma út á vinnumarkað, en fyrirtækin semja síðan við starfsmenn sína um raunlaun í samræmi við hæfni og getu viðkomandi. Þetta hefur verið lofað af mörgum og kallað m.a. grunnur sveigjanleika á vinnumarkaði.
En það er hér sem hæstaréttardómarar falla á prófinu, þeir kalla allt sem er umfram lágmarkið yfirborgun í stað þess að líta til starfssviðs og menntunar viðkomandi og svo til gildandi raunlauna þess starfs, eins t.d. útvarpsstjóri gerði með réttu þegar hann fann út hver eigin laun ættu að vera, í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði.

Þetta er reyndar vandamál víðar, fyrirtæki sem flytja inn starfsmenn setja þá ætíð á lágmarkstaxta opinna markaðslaunasamninga, sem er hvað íslendinga varðar er byrjunataxti reynslulausra unglinga. Hæstiréttur ásamt starfsmannaleigunum er í raun að krefjast þess opnum markaðslaunasamningum verði hent og í stað þess tekin upp niðurnegldir launakerfis samningar.

föstudagur, 23. nóvember 2007

Hverjir eiga orkuna?


Tveir af eigendum Landsvirkjunar og Orkuveitunnar skoða eignir sínar

Einhvern veginn virkar það þannig á mig að forsvarsmenn orkuveitufyrirtækjanna hafi gleymt sér í einhverri gróðafíkn og séu að spila á alþjóðamarkaði með peninga, réttara sagt eignir sem við almenningurinn í þessu landi teljum að við eigum, en ekki endilega orkuveitufyrirtækin. Allavega hefur aldrei farið fram opinber eignayfirfærsla á þessum eignum einfaldlega vegna þess að við teljum að við eigum hvort tvegggja og ekki hafi verið þörf á því að ganga frá afsali, „all in the family".

Þeir eru margir íslendingarnir sem ekki hafa velt því fyri sér hvort orkuframleiðendur eigi að greiða eitthvert gjald fyrir vatnið eða gufuna sem renna í gegnum virkjanirnar, vegna þess að þetta hafa verið fyrirtæki í eigi almennings. Undanfarið hefur borið á hugmyndum um að einkavæða orkufyrirtækin, þá staldrar maður við og situr íhugull örlítið lengur með kaffibollan við morgunverðarborðið og spyr sjálfan sig;
Er það möguleiki að skyndilega sitjum við íslendingar uppi með það að einhver einstaklingur hafi eignast öll vatnsréttindi í Þjórsá, gufuaflsréttindin á Reykjanesi, Langasjóinn eða öll orkuréttindi á Torfajökulssvæðinu?

Er aðferðafræðin við kostnaðarútreikninga við framkvæmd virkjana rétt? Eru stjórnmálamenn að leiða okkur í samskonar vegferð með orkuréttindin og fiskinn í sjónum? Er skilið nægjanlega vel á milli verðmats á réttindum og kostnaðar við virkjanir?

Ein af ástæðunum fyrir mikilli raforkueftirspurn til álframleiðslu hér á landi síðustu ár er, sé litið til þess sem fram kom fyrir nokkru um orkuverð til ALCOA í Suður-Ameríku, að virkjanaréttindin hafi ekki verið réttilega metin til fjár. Vatnsréttindin eru ekki í raforkuverðinu hér á landi. Ríkið á mikil vatnsréttindi t.d. í Þjórsár, sem eru auk þess mun verðmætari vegna þess að íslenska þjóðin er búinn að byggja vatnsmiðlanir ofar í ánni fyrir milljarða og setja undir það umtalsvert land. Þetta er veigamikill þáttur í að koma umræðu um nýtingu og náttúruvernd inn á málefnanlegar brautir.

Víða erlendis er búið að einkavæða og selja almenningsveitur. Þeir sem eignuðust fyrirtækin lokuðu viðhaldsdeildum, sögðu upp starfsfólki og stoppuðu viðhald og uppbyggingu. Með því náðu þeir að sýna glæsilega afkomu á ársfundum og hlutabréfin ruku upp. Nú er að koma upp að viðhald og endurnýjun hefur verið trössuð í mörg ár og fyrir liggur að fjárfesta þurfi fyrir umtalsverðar upphæðir til að tryggja vatn og frárennslislangir og rafmagn. Það er ekki hægt nema hækka afnotagjöld umtalsvert segja núverandi eigendur. Annað hvort verður almenningur að kaupa þessi fyrirtæki tilbaka eða sætta sig við verulega aukna skattlagningu í formi hækkaðar afnotagjalda.

Það verður virkjað meira á Íslandi en þegar hefur verið gert. Þegar við lendum í niðursveiflunni og fáum yfir okkur atvinnuleysi, eins og ætíð hefur gerst eftir nokkurra ára uppsveiflu, þá verður þess krafist að það verði virkjað. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár voru flokkaðar í vandaðri forvinnu þeirra sem unnu að Rammaáætlun sem fyrstu valkostir. Þá voru ekki gerðar neinar athugasemdir. Ef þessar virkjanir verða ekki reistar þá þarf að reisar einhverjar aðrar, það liggur í hlutarins eðli.

Að lokum væri það bara ekki eðlilegast að orkuveitufyrirtækin okkar snúi sér alfarið að því að framleiða og afhenda okkur eigendunum ódýra og hreina orku á góðu verði.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Lista yfir 100 fátækustu íslendingana


Bláfátækir erlendir fjölskyldufeður við uppbyggingu á velferðarríkinu Ísland

Í blöðunum sem flæða inn um póstlúguna eru áberandi upplýsingar um hvernig ríka fólkinu líður og myndir af því sem sína hversu flott sundföt það á og hvernig það situr upp á húddinu á Ferrarinum. Textinn með myndunum fjallar um samanburð á því hvort viðkomandi hafi færst upp eða niður í röðinni.

Ég verð að segja eins og er mér finnst einhvern veginn engin ástæða til þess að segja okkur þessar fréttir og mér er slétt sama hvernig bíl þetta fólk á og hvernig baðfötum það klæðist. Ég meina það, eins og unglingarnir segja, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu liði, það hefur það bara aldeilis ágætt og vill örugglega fá að vera í friði.

Það væri mikið meira fréttaefni að fá að sjá hvernig listinn yfir hina 100 fátækustu liti út. Það væri mikill fróðleikur fólgin í því að fá sundurgreiningu á því af hverju lenti viðkomandi á þessum lista. Hvernig gengur honum að vinna sig út af listanum, er hann að hækka eða lækka frá síðasta lista? Á hann Lada sport eða kannski bara strætókort, eða bara gamalt Möve hjól. Skyldi hann fara á kaffihús og svo í sund á eftir?

Er þetta ung fjölskylda með börn, sem keypti íbúð og reiknaði með að barnabætur og vaxtabætur myndu ekki lækka eða jafnvel hverfa? Er þetta einstaklingur sem lenti í því að verða fyrir vinnuslysi og lenti í fátækragildrunni sem stjórnvöld hafa búið til. Er þetta einstaklingur sem lenti í því óláni að verða aldraður? Hvernig hefur bæjarfélagið tekið á vandamálum hans? Er Baldur í fjármálaráðuneytinu að skoða ástæður þess að viðkomandi lenti á þessum lista, er ríkisstjórnin með áætlun um hvað hún ætli að gera í málinu?

Einnig má spyrja hvort ríkistjórnin og Samtök atvinnulífsins ætli að beita sér í því að koma til móts við verkalýðshreyfinguna og samþykkja kröfur um sérstaka hækkun lægstu launa og afnema skerðingarnar í bótakerfinu. Eða byggja 1.000 íbúðir fyrir öryrkja og aldrað fólk. Þetta væri verðugt verkefni fyrir blaðamennina og þá væri ég tilbúinn að lesa blöðin spjaldanna á milli, núna fletti ég þeim bara á 5 mínútum og set þau svo í ruslagáminn og kveiki á tölvunni og skoða netheimana.

Upphlaup á félagsfundi málmiðnaðarmanna

Forstöðumaður fyrirtækis mætti á fund stéttarfélags málmiðnaðarmanna í vikunni og krafðist þess að starfsmenn hans vikju af fundinum. Starfsmenn hans höfðu sjálfir tekið þá ákvörðun að mæta á opinn fund í stéttarfélaginu, sem var haldin utan vinnutíma.

Forstöðumaðurinn fór mikinn á fundinum og upplýsti meðal annars að hann hefði tekið þá ákvörðun að starfsmenn sínir þeir ættu ekki að vera í stéttarfélagi, það væri félagafrelsi í landinu. Hvers vegna jú vegna þess að þá þyrfti hannað greiða óþarflega há laun að sínu mati og eins að fara eftir umsömdum frítíma og yfirvinnugreiðslum. Frágangi á launaseðlum og tryggingum.

Forsvarsmenn frelsis hér á hafa ætíð túlkað félagafrelsi með þeim hætti að það sé fólgið í því að fyrirtækin geti ákveðið hvort starfsmenn þeirra séu í stéttarfélagi eða ekki. Ég hefði einhverra hluta vegna ætíð túlkað félagafrelsi þannig að það væri starfsmannsins að ákveða hvort hann væri í stéttarfélagi eða ekki.

Okkur er það minniststætt hvernig forgöngumenn frelsisins hér á landi brugðist við þegar stéttarfélögin fóru að skipta sér að ömurlegum aðbúnaði erlendra launamanna á Kárahnjúkum og slökum launum. Þeir fóru hamförum í fjölmiðlum og úthrópuðu starfssmenn stéttarfélaganna sem rasista!! Hverjir voru hinir raunverulegu rasistar og eru það enn????

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Ísland í dag

Félag vélstjóra og málmtæknimanna hélt í gærkvöld kynningarfund á Grand Hótel í Reykjavík með 80 Pólverjum sem hér starfa. Eigandi fyrirtækisins Stál í stál kom á fundinn og krafðist þess að pólskir starfsmenn sínir yfirgæfu fundinn, þeir ættu ekkert með að mæta á svona fundi.

Stéttarfélagið hefur að undanförnu gert athugasemdir við kjör þessara manna en atvinnurekandinn segir að þeir séu ekki lengur í félaginu. Starfsmennirnir svöruðu þessu hins vegar engu og sátu sem fastast. Starfsmen stéttarfélagsins voru að spjalla við þá ásamt öðrum fundargestum og svara spurningum sem þeir voru með. Þessu lauk með því að atvinnurekandum var vísað á dyr. Hver maður hefur frelsi til þess að sækja þá fundi sem að þeir vilja og það á á engan hátt að reyna að hafa áhrif á aðild starfsmanna að stéttarfélagi

Maður líttu þér nær








Kaffiskúr á íslenskum vinnustað fyrir erlenda starfsmenn.




Mér fannst margt af því sem sagt var í síðasta Silfri harla einkennilegt, ekki síst það sem sagt var þar um erlenda launamenn. Það hefur farið fram ítarleg opinber umræða um stöðuna á vinnumarkaði meðal þeirra sem þar starfa, en einhverra hluta vegna virðist hún ekki ná til ákveðinna manna.

Eftir sameiningu vinnumarkaðar í Evrópska efnahagsbandalaginu hefur óttinn við flæði fólks frá fyrri Austur-Evrópuríkjum verið mikill hjá Vesturríkjunum. Fyrirtækjaeigendur hafa haldið því fram að þau verði að fá ódýrt vinnuafl til þess að standast samkeppnina og það hafa stjórnvöld fallist á og lítið gert lítið til þess að koma skipulagi yfir innflutning á erlendum farandverkamönnum. Þessi rök standast ekki til langframa. Samkeppnisstaða byggist á góðu framboði á velmenntuðu og hæfu starfsfólki.

Til langs tíma litið munu góð laun og vinnuaðstaða laða til sín góða starfskrafta og fyrirtæki sem búa við þá stöðu verða sterkari og geta gert langtíma áætlanir. Noregur er gott dæmi um þetta, þar hefur verið unnið ötullega í því að jafna stöðu innflutts vinnuafls, næg vinna er í landinu og laun góð. Það er áberandi hvernig norðmenn hafa tekið á móti erlendum launamönnum og fylgst vel með því að aðbúnaður standist allar kröfur og laun séu rétt. Þetta hefur leitt til þess að þangað hefur besta fólkið leitað og norsk fyrirtæki hafa getað valið úr, reyndar ekki bara austur-evrópubúum. Í Noregi eru í dag liðlega 200 þús. erlendir launamenn. Svíar eru áberandi í heilbrigðisþjónustunni þar og í Noregi eru að störfum 2.000 sænskir rafvirkjar og 600 danskir.

Ef við lítum á hvernig íslensk stjórnvöld brugðust við, þegar í ljós kom að laun og aðbúnaður verkafólks í Kárahnjúkum var langt fyrir neðan sett mörk. Vinnubúðirnar voru þær lökustu sem reistar hafa verið á Íslandi og þó víðar væri leitað, héldu hvorki vatni né vindi og verkafólkið átti þar ömurlegan fyrsta vetur. Portúgalarnir reyndu eins og ítrekað kom fram í fréttum, að lagfæra búðirnar með því að líma húsin saman með frauðplasti og skýla sér með dagblöðum. Þáverandi ráðherrar börðust opinberlega gegn öllum athugasemdum byggingareftirlits og trúnaðarmanna, sem leiddi til þess að það tók allt að einu ári að ná fram úrbótum, enda flúðu Portúgalarnir frá Kárahnjúkum.

Það er fyrst nú sem stjórnvöld eru farin að taka á þessum málum af markvissri stefnufestu. Fyrir ári voru sett hér framsækin lög um úrbætur í skráningu á erlendu launamönnum og eftirliti með fyrirtækjum og starfsmannaleigum. Verkalýðshreyfingin átti drjúgan þátt í mótum þessara laga og fagnaði staðfestingu þeirra, reyndar með örfáum undantekningum sem blönduðust í kosningabaráttu eins flokks. Íslensk fyrirtæki hafa kvartað undan því að hingað leiti ekki nægilega mikið af hæfu fólki. Ef við ætlum að byggja upp samkeppnishæft atvinnulíf verðum við að ná hingað besta fólkinu.

Það þarf ekki að skrifa langan texta til þess að upplýsa fólk um hvers vegna svona vont orð fer af íslenskum vinnumarkaði meðal launamanna í sunnanverðri og austanverðri Evrópu. Það mun taka tíma að lagfæra þann skaða sem aðgerðaleysi stjórnvalda hefur valdið. Lág laun erlendra byggingarmanna og lakur aðbúnaður hefur ekki skilað sér í lækkandi verði fasteigna, þvert á móti. Það eru einungis fjárfestar og eigendur starfsmannaleiganna sem hafa hagnast á þessu ástandi. Eftir sitja hlunfarnir erlendir launamenn og íslenskum byggingarmenn með lakari launaþróun og kaupendur íbúða, sem í vaxandi mæli virðast vera gallaðar.

Hvað er það sem veldur því að starfsmenn sína vinnuveitanda sínum tryggð og skila góðum vinnudegi? Hvað er það sem leiðir til þess að fólk sínir umhverfi sínu virðingu? Eru erlendir launamenn öðru vísi en við?

Hvernig myndir þú lesandi góður, ég reikna með að þú sért íslenskur, bregðast við ef þínir vinnuveitendur kæmu fram við þig eins og rakið er hér að ofan og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum? Ef þú ert með góða menntun og ráðinn til starfa á því sviði, en þegar þú sérð launin þá kemur í ljós að þú ert á unglingataxta ófaglærðs verkafólks. Ef þú bæðir um launaseðil þá værir þér svarað með skæting og hótunum. Ef þú værir vegna vinnu þinnar staðsettur t.d. í Póllandi í eitt ár og umhverfi þitt væri með þeim hætti sem íslensk fyrirtæki búa gestum okkar? Ef umfjöllum um allt sem miður færi í samfélaginu væri beint að þér?

Er nú ekki kominn tími til að við skoðum þann vanda sem við kvörtum undan í eigin ranni og tökum upp betri háttsemi við það fólk, sem er komið hingað vegna þess að okkur vantar vinnuafl. Vel menntað fólk sem er tilbúið til þess að ganga í mörg störf sem við viljum ekki vinna sjálf. Fólk sem kemur frá elstu menningarþjóðum Evrópu. Fólk sem kemur frá samfélögum sem ekki eru þjökuð af fyrringu og græðgi.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Kynslóð ÉG




Öll höfum við farið í gegnum það skeið að vera unglingar. Sú þjóðfélagsgerð sem við ölumst upp í mótar okkur, við erum því öll börn okkar tíma eins og það er kallað. Ungt fólk í dag býr við allt annað umhverfi en foreldrar þeirra ólust upp við. Fyrir 50 árum fór ungt fólk út að vinna til þess að afla tekna fyrir heimilið, það hafði ekkert val. 14 ára unglingur var þá orðinn ungur maður með ábyrgð. Í dag er 20 ára unglingur barn án ábyrgðar. Ungt fólk í dag er upplýst, sjálfstætt, alþjóðlegt og það hefur farið erlendis minnst einu sinni á ári frá því að það man eftir sér. Til að skilja það og hvað hefur áhrif á unga fólksins verðum við að skoða veröld þeirra.

Ungt fólk í dag er ég, mig, mitt = ég er miðpunturinn. Það er kynslóð ÉG, sem er dæmd til valfrelsis og tekur því sem sjálfsögðum hlut. Áhugasviðið er vinir, músik, ferðalög, bíó, fara út að borða, skemmtanir, líkamsrækt og fjölskyldan. Það hefur ekki hugmynd um hvernig lífið væri án þess að hafa fjarstýringu eða gsm síma. Það hefur alltaf verið hægt að leigja vídeómyndir og panta pizzu. Það hefur ekki hugmynd um hver Kennedy var og það skiptir engu hver skaut hann. MTV hefur alltaf verið til og Mikael Jackson alltaf verið hvítur. Björk hefur alltaf sungið á ensku. Sjónvarpið hefur alltaf verið til og ætíð í lit. Það hefur alltaf verið hægt að velja um margar sjónvarpsrásir. Unga fólkið í dag hefur aldrei hlustað á vínilskífu. Víetnamstríðið er eitthvað sem gerðist fyrir löngu eins og seinni heimstyrjöldin. Heimurinn verður sífellt hnattrænni, sama fatatíska er alls staðar, það er hlustað á sömu hljómsveitirnar og horft á sömu kvikmyndirnar.

Valfrelsi á öllum sviðum er sjálfgefið í augum unga fólksins. Það hefur ætíð staðið frammi fyrir mörgum valkostum á öllum sviðum. Í búðinni blasa við margir hillumetrar af hárþvottaefnum. Það er hægt að velja um 40 gerðir af áleggi á brauðið, 80 gerðir af hálftilbúnum mat. Ef unga fólkinu líkar ekki framborinn matur á heimilinu, er annar valinn, tekinn upp síminn og pizza pöntuð eða farið í ísskápinn. Það velur á milli margra námsbrauta. Velur um hvernig og ekki síður hvort námið sé stundað. Hvort það vinnur og hvaða vinnu það velur. Áður voru tækni og fjármagn lykillinn að velgengni fyrirtækjanna. Í dag snýst allt um fólk. Velgegni og langlífi fyrirtækja snýst um hæfileikann til þess að laða til sín og halda bestu einstaklingunum. Þetta mótar afstöðu unga fólksins til náms og starfa. Mótaðar námsbrautir eru ekki endilega trygging að góðu starfi, það er val á námsáföngum og námskeiðum. Val á starfi mótast af þátttöku í mótun starfsins, sjónarmið þeirra heyrist, sjáist og hafi áhrif. Það geti viðhaldið þekkingu sinni með þátttöku í símenntun.

Það er ekki hægt að skoða ungu kynslóðina sem einsleitan hóp. Við verðum að skoða það sem hópa með ólíkt mat og áhugasvið. Lík börn falla best hvert að öðru. Ef baksvið unga fólksins er skoðað, sjáum við ólíka hópa mótaða af lífsstíl og viðhorfum þess heimilis sem það kemur frá. Ef þú vilt ná athygli unga fólksins þarf það að vera með þátttöku, ekki bara einn dag, heldur alla daga. Með því að skilja áhugamál unga fólksins skapast möguleiki til þess að verða hluti af áhugasviði þess.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Eftirlaunaósóminn














Ég hef af því nokkrar áhyggjur hvernig Valgerði komi til með að reiða af í þinginu með frumvarp sitt um eftirlaunaósómann. Mörg okkar héldu á sínum tíma að það hefði verið Davíð og Halldór sem ruddu þessu í gegnum þingið á sínum tíma og vorum undrandi þegar þeir héldu því fram að þetta kostaði ekki nema 6 millj. kr. Þekktir hagfræðingar sögðu að kosntaðurinn myndi nema nokkrum hundruðum milljónum kr. Síðar kom í ljós að það var rétt, kostnaðurinn við eftirlaunaósómann var nálægt 600 millj. kr. En því var m.a. haldið fram af sjálfstæðismönnum í kosningabaráttuni í vor að fleiri hefðu komið að þessu máli, m.a. að Össur hefði átt drjúgan þátt í málinu. Enda var frumvarpið samþykkt og þingmenn almennt virtust alls ekki vilja ræða málið. Af þessum sökum hlýtur maður að óttast að Valgerður verði alein.

Samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar. Þegar samið er um laun á almennum markaði er ætið tekið mið að heildarlaunakostnaði fyrirtækjanna. Þegar þingmenn fjalla aftur á móti um sín launakjör fjalla þeir ætíð einungis um lágmarkslaunataxta, þ.e.a.s. þingfararkaup um hálfa milljón kr. Í raun eru laun þingmanna helmingi hærri eða um 1 millj. kr. á mán. að jafnaði og laun ráðherra liðlega 2 millj. kr.

Það er gífurlegt ósamræmi á milli þeirra lífeyriskjara sem lögfest hafa verið hér fyrir almenning í landinu og fyrir opinbera starfsmenn í A-deild lífeyrissjóða og hins vegar þess sem Alþingi hefur lögfest fyrir sína þingmenn og ráðherra. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða stærstu og dýrustu starfslokasamninga sem um getur hér á landi. Þetta er gríðarlega dýrt fyrir skattborgara landsins. Í fjárlögum hvers árs er veitt háum fjárhæðum til að greiða niður þessar skuldbindingar sem þar hafa hrannast upp, en það dugar það hvergi nærri til að halda í horfinu.

Þessar skuldbindingar eru á annað hundrað milljarðar króna þrátt fyrir að B-deildinni hafi verið lokað 1997, en þetta er svo enn í gangi í svokölluðum lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra. Það myndast engin ró og sátt um laun sem falla undir kjaradóm og kjaranefnd á meðan við lýði eru sérkjör af þessu tagi. Þingmenn í öðrum löndum hafa verið að breyta þessu má þar t.d. benda á Noreg. Nokkrir í verkalýðsforystunni hafa bent að mikið eðlilegra væri að fella þetta inn í laun þingmanna og setja lífeyrisréttindi þeirra í sama ferli og er hjá almennum borgurum. Enda eiga þingmenn vitanlega að fara fyrir öðrum frekar en að setja sjálfum sér einhver forréttindi.

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Óbein skattbyrði aukin

Í Morgunblaðinu í dag (18.11.) er athyglisverð grein um hvernig heilbrigðiskostnaði er miskipt milli þjóðfélagshópa. Rúnar Vilhjálmsson prófessor í heilsufélagsfræði hefur staðið að tveimur heilbrigðisrannsóknum. Í þeim kemur fram veruleg útgjaldaaukning einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustunnar. Þessi útgjöld námu 1% af vergri landsframleiðslu árið 1987 en höfðu aukist verulega og voru 1.7% árið 2004.

Þó við séum með félagslegt heilbrigðiskerfi til að jafna út kostnaðinn hefur ekki tekist að jafna kostnaðarbyrðar milli þjóðfélagshópa. Það hallar á hópa sem síst skyldi eins og öryrkja og aldraða og þá sem lægstar tekjur hafa. Hér er um að ræða þá sem ekki hafa vinnu og lágtekjufólk sem hefur misst maka.

Til þess að styrkja félagslega heilbrigðiskerfið þarf að efla almannatryggingarkerfið með það fyrir augum að lækka lyfjakostnað og komugjöld sjúklinga. Einnig þarf að styrkja heimilislæknakerfið og heilsugæslustöðvarnar. Efla nýtingu afsláttarkorta og lyfjaskýrteina og auka nálægð þjónustunnar.

Við undirbúning kjarasamninga undanfarið hefur borið á þeirri umræðu að stjórnvöld hafi ekki staðið að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við fjölgun aldraðra, deildum hafi verið lokað á spítölum vegna hagræðingar og þannig mætti lengi telja. Umönnun sjúkra og aldraðra minnkar ekki þó stjórnvöld standi fyrir umfangsmikilli hagræðingu til þess að spara útgjöld ríkisins. Þau hafa í reynd staðið fyrir stórfelldum flutning á þessum kostnaði yfir á heimilin. Fólk þarf að taka sér frí frá vinnu eða jafnvel hætta þátttöku í atvinnulífinu til þess að hlúa að sjúkum og/eða öldruðum ættingjum.

Heimilin eiga rétt á hlut af þessari hagræðingu, það væri ekki réttlátt að hún renni óskipt í ríkissjóð. Heimilin eigi rétt á að sækja launatap vegna umönnunar í ríkissjóð og auka þurfi verulega heimilisþjónustu.Við erum með félagslegt heilbrigðiskerfi en þessi þróun samræmist ekki réttlætiskennd okkar og stangast reyndar einnig á við lög um heilbrigðisþjónustu, sem segja að óheimilt sé að mismuna sjúklingum. Í þessu sambandi má benda á þau markmið sem stjórnmálamenn hafa sett í heilbrigðisáætlun til 2010 að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé auðvelt og sem jafnast fyrir alla landsmenn

laugardagur, 17. nóvember 2007

Blekkingar við undirbúning kjarasamninga



Stjórnvöld og atvinnurekendur búa sig undir kjarasamninga og hafa í því tilefni boðað til ráðstefnu þar sem sjálfur "Houdini hagfræðinnar" Arthur Laffer mætir. Hann er heimsþekktur fyrir "Voodoo Economics", sem fjalla um hvernig við græðum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir. Laffer heldur því fram að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður engar tekjur. Ef skattprósentan væri 100% af tekjum, þ.e. ef launþeginn fengi ekkert fyrir vinnu sína, hverfa tekjur ríkissjóðs.

Það veit enginn hvar við erum stödd á Laffer-kúrfunni. Hvað gerist þegar skattprósentan er hækkuð og fer yfir það gildi sem gefur ríkissjóði hæstar tekjur þannig að tekjur lækka við frekari hækkun prósentunnar? Viss störf munu leggjast af, sum flytjast til annarra landa og önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta. Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á kúrfunni og það er háð efnahagsástandi og skattlagningu í öðrum löndum.

Þessari stefnu var beitt í Bandaríkjunum eftir 1980 og leiddi til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta. Verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni. Nýlega var sýnd kraftmikil kvikmynd um hvernig kerfið virkar í draumalandinu, varla vilja íslendingar komast þangað með sitt heilbrigðiskerfi.

En frjálshyggjan er klók og fljót að sjá út leiðir til þess að nappa góðum bitum og sérréttindum og leggur töluvert á sig að verja sína stöðu. Á undanförnum áratug höfum við íslendingar nálgast þá stöðu sem tókst að skapa í Bandaríkjunum með Houdini hagfræðinni. Fámennur hópur hefur undanfarin ár hrifsað til sín stærri hluta af þjóðarkökunni á meðan fátækum hér á landi fjölgar. Þetta er falið í meðaltölum stjórnvaldsins. Skattalækkanir hafa ekki náð til þeirra sem fátækastir eru en skilað sér ríkulega til þeirra sem mest hafa.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Eru Hafnarfirðingar að afþakka orkuna frá Búrfelli?



Ég átta mig ekki alveg á yfirlýsingum forsvarsmanna bæjarafélaganna á Suðurnesjum um að þeir ætli að tryggja það að orka sem framleidd sé á þeirra svæði sé einvörðungu nýtt til atvinnureksturs á Suðurnesjum. Þessi afstaða hefur áður komið fram, t.d. frá Skagfirðingum og Þingeyingum.

En það er vart er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að Hafnfirðingar séu með því að setja sjálfum sér skilyrði um að þeir ætli að framleiða sjálfir orkuna sem fer til Ísal frá Búrfellsvirkjun sem er í Árnessýslu. Þá liggur fyrir að næg orka er til t.d. álvers í Þorlákshöfn.